Árið 1939 - Rauðka-12

Rauðku málið.

Siglfirðingur 3. október 1939

Rauðka, eða gamla Goos-verksmiðjan, er nú elsta síldarbræðslustöð landsins, enda orðin úrelt og af sér gengin fyrir aldurssakir og vélaslits. 

Þetta var þó eitt sinn afkastamesta síldarbræðslustöð hérlendis og óbrigðulasta og gjöfulasta tekjulind Siglufjarðar, svo að stundum bar hún alt að þriðjungi niðurjafnaðra útsvara bæjarins, enda var hún þá einkafyrirtæki. 

Eigi síst fyrir óviturlega skattaníðslu, rak að því, að fyrirtækið komst í greiðsluþrot. Aðallánardrottinn fyrirtækisins tók þá rekstur þess í sínar hendur og rak það um stund, en þar kom loks að það var selt. 

Ítrekaðar tilraunir voru gerðar af einstaklingum til að festa kaup á eigninni með það fyrir augum, að byggja upp síldarbræðslustöðina og breyta í samkeppnisfæra nýtísku verksmiðju, en stjórnin kom í veg fyrir, að þau kaup yrðu að ráði, með því að neita um verksmiðjuleyfið, þrátt fyrir stuðning Sjálfstæðisflokksins, sem taldi sér skylt að styrkja einstaklingsfyrirtækin samkvæmt stefnuskrá sinni og lífsskoðun. 

Fulltrúar Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Siglufjarðar töldu nauðsyn bera til að reka áfram verksmiðjuna og endurbæta hana til meiri afkasta, en þó því aðeins, að um einkafyrirtæki yrði að ræða. Litu þeir svo á, sem og rétt var, að bænum yrði það of mikill tekjusviptir, ef verksmiðjan yrði lögð niður, eða þjóðnýtt. 

Hinsvegar börðust andslæðingar Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn, undir forystu bæjarfulltrúans Þormóðs Eyjólfssonar, fyrir því, að bærinn keypti eignir þessa þrotabús af hinum danska lánardrottni og yki með því skuldir bæjarins um 130 þúsundir. Og þessi kaup gengu fram, Goos-eignir voru miklar að vöxtum, en hinsvegar flestar þannig, að arður af þeim var nauðalítill nema stórfelldar og kostnaðarsamar umbætur tæru fram. 

Eigi er ósennilegt, að þeir, er fyrir Goos-eigna kaupunum börðust, hafi litið svo á að bærinn ætti að koma sér þarna upp nýtísku verksmiðju til síldarvinnslu, ellegar þá að selja aðaleignina með góðum hagnaði. 

Rauðku máliðog nú er svo hart að borgurum gengið með útsvör og ríkisskatta að þar verður víst ekki lengra komist. 

Fyrirtæki á borð við Rauðku endurbyggða með 5.000 mála afköstum gæfi bænum í meðalári 50 þúsund krónur í útsvar árlega ef það væri í einkaeign. Fyrir því hafa Sjálistæðismenn hér, barist, en enga áheyrn fengið hjá stjórnarvöldunum. 

Samskonar fyrirtæki í ríkiseign gæfi bænum sárlitlar tekjur til skattaléttis og lélegri atvinnumöguleika fyrir bæjarbúa. Þess vegna voru Sjálfæðismenn hér mótfallnir því, að ríkið sölsi undir sig dýrmætustu tekjulind bæjarfélagsins án þess að nokkuð komi á móti nema blábert kaupverðið, sem sennilega yrði ekki hærra en bærinn gaf fyrir eignina í upphafi. 

Bæjarbúar stóðu jafnréttir eftir með jafnþungar og síhækkandi skattabyrðar og glataða fjáraflamöguleika af eigninni um aldur og æfi. 

Hefði bæjarrekstur verið upp tekinn og leyfi fengist til að byggja og starfrækja nýtísku 5.000 mála verksmiðju á þeim grundvelli, voru að vísu engar vonir um útsvar af fyrirtækinu til bæjarins, en hinsvegar rann þá til hans allur gróði þess, hvort sem hann yrði mikill eða lítill. 

Síldarbræðslustöðvarnar eru að allra dómi arðvænlegustu fyrirtækin sem rekin eru hérlendis, og þegar þar við bætist, að bæjarverksmiðjunni var tryggður framkvæmdastjóri sem að dugnaði og reglusemi á fáa sína líka og hefir auk þess mesta reynslu allra hérlendra manna í þessari framleiðslugrein, var góðs árangurs og hagfeldar afkomu að vænta af fyrirtækinu. 

Og þegar fyrsti möguleikinn (um einkarekstur) var úr sögunni, þótti Sjálfstæðismönnum sjálfsagt að styðja að því að bærinn fengi fjáröflunarmöguleika með því að reka verksmiðjuna sjálfur, og það því fremur, sem lán var fengið til byggingarinnar með sæmilegum kjörum. 

Sjálfstæðismenn hér urðu fyrir sárum vonbrigðum, og þeim mestum, er fremst höfðu staðið í baráttunni, er þeir sáu, að jafnvel þeirra traustustu menn brugðust þeim hrapalegast, þegar mest á reyndi í þessu máli. Þess vegna hafa tveir þessara manna lagt niður umboð sitt sem fulltrúar flokksins í bæjarstjórn, og þess vegna hafa allir formenn sjálfstæðisfélaganna hér sagt af sér. Það eru mótmæli frá þeirra hálfu gegn því, að þeim fannst sem verið hafi vegið að baki þeim, og sá veitt þeim mestan áverkann er stærstan gat fyrir þá borið skjöldinn.

En þrátt fyrir það þótt þeim öllum hafi fundist þeir grátt leiknir og fundið sig knúða til mótmæla, getur blaðið fullyrt að stjórnmálaviðhorf þeirra og lífsskoðun hefir engan hnekki borið. 

Þeir eru allir jafntryggir hugsjónum Sjálfstæðisstefnunnar og áður. 

Hér fer nú á eflir greinargerð Jóns Gíslasonar fyrrverandi bæjarfulltrúa. Segir hans þar sögu þessa máls frá sínu sjónarmiði.   

-------------------------------------------------------

 Grein Jóns Gíslasonar, er ekki síður athygliverð vegna stórra orða. S.K