Bíósýningavél

Sendibréf frá apríl 2002   (sendibréf frá Sighvati)

Örlygur,

Sæll vertu, mér skilst á Sighvati Elefsen, að neðanrituð saga sé fyrir allra augum við hlið þeirrar meintu sýningarvélar sem hún er sögð fjalla um. Ég sjálfur hefi ekki séð þessa uppstillingu sem Sighvatur sagði mér frá, jafnframt sem hann sendi mér “söguna” sem hann sagðist hafa látið fylgja vélinni þegar safninu var gefin hún.

 Bíósýningarvél

Saga:

Kristinn  Guðmundsson  sem  rak  "Nýja bíó" átti vélina.  Eftir honum er haft að vélin  sé  fyrsta  sýningarvélin sem kom til Siglufjarðar, og mun hún fyrst hafa verið notuð til sýninga í Norðurgötu 5 sem Hinrik Thorarensen byggði 1924 

Hinrik Andrésson og Eberg Elefsen keyptu vélina af Kristni einhverntíma á árunum 1936 - 1938 fyrir 2 krónur. Þeir keyptu vélina eftir fyrri bruna í Nýja bíó.  Þá vantaði á vélina kolbogalampa og linsur. 

Þeir gerðu við vélina, máluðu hana græna með málningu frá Olíuverslun Íslands og komu  fyrir  í henni linsum úr kíki og ljósaperu.  Filmubúta, sem þeir fengu frá Kristni, límdu þeir saman og höfðu síðan bíósýningar á háaloftinu á Aðalgötu 19. Fyrir  tjald  var  notað  lak.   Filmubútarnir voru ekki alltaf af sömu myndunum þannig að samanlímdir mynduðu þeir hálf sundurleita heild. 

FÁUM. Vélin  barst Félagi áhugamanna um minjasafn, FÁUM, að gjöf frá Hinrik Andréssyni 
(f. 3.6.1926) og afkomendum Ebergs Elefsen (f. 20.5.1926), árið 1999.

 ----------------------------------

Ég undirritaður, Steingrímur veit að stór hluti þessarar sögu í kringum sýningarvélina er rangur mjög villandi og vil því koma neðanrituðu á framfæri.

Hinrik Thorarensen rak aldrei bíóhús við Norðurgötu 5 (svo þekktar heimildir vísi til), hvað þá að hann hafi byggt viðkomandi hús sem Gamla Bíó (síðar nefnt)  var rekið í.

Fyrri hluta ársins 1921 keypti Friðrik Halldórsson úr Reykjavík Norðurgötu 5 og rak þar um  einhvern tíma kvikmyndahús, ég veit ekki hve lengi.

Hinrik Thorarensen flutti til Siglufjarðar árið 1920, og það var árið 1924  sem hann byggði Nýja Bíó við Aðalgötu 30.

Áður en Bíó var rekið í Norðurgötu var Siglufjarðar-bio, “bio” rekið í leikfimisal Barnaskólans 1918 – 1919 ca, af Matthíasi Hallgrímssyni og konu hans, síðan hluta ársins 1920 í Gamla Bíó Norðurgötu 5 en seinnihluta þess árs fór reksturinn (sennilega) á hausinn því rekstur hússins með eða án sýningarvéla var auglýstur til sölu eða leigu af lögfræðingi að nafni Valdimar Thorarensen frá Akureyri. 

Mig vantar að vísu frekari heimildir um Gamla Bíó en eftir því sem ég best veit flutti Hinrik Th. Hingað 1920 sem fyrr segir, sem læknir, þá nýmenntaður sem barnalæknir að sérgrein.  Nánar má fræðast um þessi bíó-mál á síði minni “Bíó-Saga Siglufjarðar” https://sites.google.com/site/skolsig/biosaga-siglufjardhar 

Ég hefi óljósan grun um, að margnefnd sýningarvél hafi komið frá "Gamla Bíó" en ekki frá Nýja Bíó, og frekar ólíklegt að faðir minn hafi haft möguleika á að  selja nefnda sýningarvél. 
Hinsvegar er mögulegt að faðir minn hafi miðlað einhverjum filmubútum til þeirra félga Hinriks og Ebergs

Eth.: Neðri hluti bréfsins, er endurskrifaður hér með tilliti til nýfundinna gagna, ( 2016)  sem og kom ekki fram í bréfinu til Örlygs. 

Afrit af "þessu bréfi" var einnig sent Sighvati.

Bestu kveðjur,  Steingrímur


Við þetta má bæta vegna fullyrðingar í upphafi „gjafabréfsins“  að faðir minn Kristinn, rak aldrei „Nýja Bíó“ á Siglufirði, hann  raunar vann þar allt frá 14 ára aldri og síðar sýningamaður til dauðadags.  Bréf mitt er hér aðeins lagfært. sk

VIÐBÓT:

Grein af gamla vef Félags sýningarmanna við kvikmyndahús, ókunnur höfundur.  Sá nýi: http://www.rafis.is/fsk/default.htm 

Fyrst var getið um kvikmyndasýningar á Siglufirði árið 1913 í svonefndu Biograf-húsi, en fyrri heimsstyrjöldin varð til þess að tefja fyrir að sýningar hæfust með reglubundnum hætti. Þeir Anton Jónsson, Valdimar Thorarensen og Matthías Hallgrímsson höfðu byggt hús og gert klárt til kvikmyndasýninga, en tæknin var eitthvað að stríða þeim og ekki reyndist unnt að koma ljósatækjum sýningarvélarinnar í samt lag fyrr en eftir stríð.

Bíó þeirra félaga hét Siglufjarðarbíó, en gekk jafnan undir nafninu Gamla bíó. Þar var sömu sögu að segja og annars staðar á landinu, að nýtt kvikmyndahús hafði risið og því greip almenningur til þess ráðs að aðgreina bíóin með þessum einfalda hætti.

Bræðurnir Oddur (frá Akureyri) og Hinrik Thorarensen stóðu fyrir byggingu hins nýja kvikmyndahúss, sem formlega hóf starfsemi 17. júlí 1924. Tók salur þess um 400 manns í sæti. Eftir nokkur ár hóf Nýja bíó að sýna talmyndir og um svipað leyti lögðust sýningar í Siglufjarðarbíói af.

Eggert Theódórsson sýndi fyrst í stað í Nýja bíó, en Kristinn Guðmundsson tók við er talvélar voru teknar í notkun.
Gegndi hann því starfi allt til dauðadags, árið 1980.

Nýja Bíó var endurbyggt stórum eftir bruna 1936, en það starfar enn þótt sýningar nú séu stopular. (allt til 1999)
Þar ræður nú ríkjum Steingrímur Kristinsson, sonur Kristins  sem eignaðist NÝJA BÍÓ, en þeir feðgar voru báðir meðal tryggustu félögum F.S.K.