Árið 1943 - Dómur fallinn

ÞRÓTTUR SIGRAÐI
í deilunni við Ríkisverksmiðjurnar um eftirvinnukaupið.

Mjölnir, 4. nóvember 1943      

Félagsdómur hefur nú kveðið upp dóm í máli Ríkisverksmiðjanna gegn Þrótti út af eftirvinnukaupi á vöktum í verksmiðjunum. Fer dómurinn hér á eftir. Ragnar Ólafsson, lögfræðingur flutti málið fyrir Þrótt. 

"Mál þetta er höfðað hér fyrir dómi með stefnu, dagsettri 8. júlí þ.á. af Síldarverksmiðjum ríkisins gegn Alþýðusambandi Íslands f.h. Verkamannafélagsins Þróttur, Siglufirði. 

Málavextir eru þessir: 

Í Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði er tilhögun vinnu sú, að unnið er á vöktun, meðan síldarvinnsla stendur yfir. 

Vinna vaktamenn tvær 6 stunda vaktir eða 12 tíma samtals á sólarhring. Verkamenn þessir munu vera ráðnir með mánaðarkaupi og bar þeim samkvæmt samningum þeim, er í gildi voru 1941 og 1942 að skila 54 klukkustundum á viku, upp í   mánaðarkaupið, en fengu 6 stundir á viku greiddar með eftirvinnukaupi, en almennur vinnutími var þá 10 stundir á dag. 

Þann 7. september 1942 sömdu aðiljar máls þessa um kaup og kjör verkamanna við síldarverksmiðjurnar. Voru þá miklar breytingar gerðar á eldri samningum. Vinnudagur styttur í 8 stundir og margskonar breytingar gerðar á kaupi. 

Meðal annars voru sett nýmæli um kaffi- og matartíma og greiðslur fyrir vinnu í þeim. Eru ákvæðin um þetta í 3. grein samningsins, er hljóðar svo:

"Kaffitími í dagvinnu er frá kl. 9 til 9.30. Sé unnin eftirvinna þá frá klukkan. 4 til 4,15 e.h. Sé unnin næturvinna, skulu kaffitímar vera sem hér segir: kl. 11.45 til  12 og kl. 3,30 til kl. 4.  

Matartími skal vera frá kl. 12 til kl. 1 eftir hádegi og kl. 7 til kl. 8 e.h. Kaffitímar og matartímar frá kl. 7 til kl. 8 e.h. sem falla inn í vinnutímabil,  reiknast sem vinnutímar, og og sé unnið í þeim, reiknast tilsvarandi lengri tími, kaffitími kl. 9 f.h. og matartími kl. 12 á hádegi sem yfirvinna, reiknast sem yfirvinna ef unnið er.  Í matar- og kaffitímum skal því aðeins unnið að verkamenn séu fúsir til þess." 

Um vaktavinnu eru ákvæði í 10 gr. samningsins, en hún er svohljóðandi: 

"Á meðan síldarvinnsla sendur yfir í verksmiðjunum, skulu allir fastráðnir verkamenn, sem við þær vinna, vinna á vökum, og ber þeim að skila 45 klukkustundum á viku fyrir mánaðarkaup. Þó er það að vali verksmiðjanna, hvort útimenn eru látnir ganga á vaktir eða ekki. Skylt skal verkamönnum að ganga á víxl á nætur og dagvaktir". 

Áður en síldarvinnsla skyldi hefjast í sumar, kom upp ágreiningur milli aðila máls þessa um það, hvernig skilja bæri nefnd samningsákvæði. 

Hélt stefnandi því fram að ákvæði 3. gr. samningsins ætti ekki við vaktamennina, heldur skyldi aðeins farið eftir 10. gr. samningsins og þeir þannig fá 4½ klukkustund eftirvinnukaup fyrir tvær sex stunda vaktir. 

Stefndi taldi hinsvegar að vaktmönnum bæri sérstök greiðsla fyrir unna kaffi- og matartíma samkvæmt ákvæði  3. gr. samningsins og ættu þeir því eftirvinnukaup  fyrir 5½ klukkustund, sólarhring hvern.

Út af þessum ágreiningi hefur stefnandi höfðað mál þetta og eru dómkröfur hans þær, að viðurkennt verði að 10. grein fyrrgreinds samnings frá 7. september 1942 beri að skýra sjálfstætt og án tillits til 3. greinar sama samnings þannig, að hverjum verkamanni, sem samkvæmt framansögðu vinnur á vöktum, beri að greiða umsamið mánaðarkaup að viðbættu 4½ klukkustund eftirvinnukaup á sólarhring hverjum. 

Þá krefst hann og málskostnaðar úr hendi stefnda eftir mati dómsins. 

Stefnandi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málkostnaðar úr hendi hans eftir mati dómsins. 

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að ákvæði 3. greinarnefnds samnings eigi aðeins við um venjulega dagvinnu. Vaktavinna samkvæmt 10. grein samningsins, sé hins vegar allt annars eðlis, -og því óeðlilegt að fyrirmæli 3. greinar nái til hennar, en ákvæði þeirrar greinar, sem sé að miklu leiti nýmæli, mun vera tekin upp  eftir samningum annarra félaga, Þar sem ekki sé um neina vaktavinnu að ræða. 

Telur stefnandi nauðsynlegt hefði verið að taka það skýrt fram í samningunum, ef tilætlunin hefði verið að eftirvinnukaup vaktamanna skyldi reikna  eftir ákvæðum ofannefndrar 3. greinar.

Þetta hefði ekki verið gert en hins vegar taki 3. grein samningsins sjálf af öll tvímæli um þetta, því ljóst sé af niðurlagsákvæði hennar, sem stangast á við ákvæði 10. greinar, að hún geti ekki í heild átt við vaktamenn. 

Stefnandi hefur mótmælt þessum skilningi stefnanda. Telur hann að 3. grein eigi tvímælalaust við vaktavinnu og hafi ekki verið þörf á því að taka slíkt sérstaklega fram. 

Mótmælir hann því, að niðurlagsákvæði 3. greinar útiloki, að sú grein geti átt við um vaktavinnuna. 

Telur hann nýmælin í 3. grein, sem tekin voru upp í samninga 1942 hafi að sjálfsögðu átt að vera jafnt  til hagsbóta fyrir alla þá, er kaup áttu að taka samkvæmt samningnum, enda hafi tilætlunin verið sú að sömu hlutföll og áður höfðu verið á milli daglaunamanna og vaktavinnu skyldu haldast áfram samkvæmt samningnum með það fyrir augum að . Væri nú að því ráði horfið að reikna eftirvinnukaupið á þann hátt sem stefnandi vildi gera, væri með því raskað eldri hlutföllum milli tímavinnumanna og vaktamanna, hinum síðarnefndu í óhag, og eðlilegt samhengi milli einstakra ákvæða samningsins rofið. 

Framangreindur samningur frá 7. september 1942 fjallar um kaup og kjör verkamanna almennt á við Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði. Er í honum gert ráð fyrir tvennskonar tilhögun á kaupgreiðslum, tímakaupi og mánaðarkaupi og verður ekki annað séð en að ákvæði hans um dagvinnu og eftirvinnu, í matar og kaffitíma eigi almennt við um hvortveggja kaupgreiðslurnar.

Þá er ákvæði áðurnefndrar 10. greinar um skyldu fastra starfsmanna, til þess að vinna á vöktum, en þeir ráðnir með mánaðarkaupi. 

Í þessari grein segir aðeins að þeir skuli skila 45 klukkustundum á viku fyrir mánaðarkaupið, en að öðru leyti eru þar engin ákvæði um greiðslur fyrir eftirvinnu, né matar og kaffitíma. 

Telja verður að tilhögun vaktavinnunnar sé að vísu með þeim hætti að, ekki hefði verið óeðlilegt að um hana giltu aðrir kaffi og matartímareglur en um venjulega daglaunavinnu. 

En með því að nefnd grein hefur engin sérákvæði um þetta og þannig frá samningum gengið að sama máli getur yfirleitt gegnt, að þessu leiti um daglaunamenn og mánaðarkaupsmenn, þá hefði álit dómsins þurft að taka sérstaklega fram, ef ákvæði 3. greinar um matar og kaffitímanna, áttu ekki að gilda um vaktavinnuna. 

Með því að þetta hefur ekki verið gert er ekki hægt að fallast á kröfu stefnanda í málinu og ber því að taka til greina sýknukröfu stefnda. 

Eftir atvikum þykir rétt að láta málskostnað  falla niður.

Því dæmist rétt vera:

Stefndi, Alþýðusamband Íslands f.h. Verkalýðsfélagsins Þróttar á Siglufirði, á að vera sýkn af kröfu stefnanda, Síldarverksmiðja Ríkisins í máli þessu.