Austurþýskaland
Vinnan um borð + Vistaverur um borð+ Áhugamálin um borð + Fyrsta siglingin + Síldarmiðin og + Saltað um borð + Hafísinn 1968 + Haförninn;upplýsingar + Í Austur þýskalandi + Formalin slys + Splæsing og anker + Ofsaveður + Hrævareldar í Belgíu + Óvænt kokkur + Skoðunarmenn + Kerosene-farmur + Skrítinn heimur + Vélarbilun á á leið til London + Vitavörðurinn heimsóttur + Ýmis minnisbrot + Var síldin ofveidd ? + Glefsur úr dagbók + Sigurður Þorsteinsson skipstjóri + Guðmundur Arason, stýrimaður, skipstjóri + Pálmi Pálsson, 2. stýrimaður + Jón Garðarsson 3. Stýrimaður + Bergsteinn Gíslason, loftskeytamaður + Ægir Björnsson, bátsmaður + Sigurður Jónsson háseti / bátsmaður + Sigurjón Kjartansson, háseti, dælumaður + Valdimar Kristjánsson + Sverrir Torfason, bryti + Snorri Jónsson, rafvirki
„LEITAÐ Í STÓRU FELUSTÖÐUNUM"
UM BORÐ Í HAFERNINUM JÓLADAG 1968 og ....
VIÐ LÖGÐUM af stað frá Siglufirði 21. nóvember s.l. (1968)
Við vorum allir ánægðir með brottförina, ekki síst þeir skipverjar sem fengið, (undirmenn) höfðu uppsagnarbréf og höfðu verið atvinnulausir frá 5. nóvember vegna verkefnaskorts fyrir skipið okkar sem við höfðum verið ráðnir á, Haförninn.
Þar var aðallega um að kenna verðfalli á lýsi, sem rekstur "Hafarnarins" raunar byggðist á yfir vetrarmánuðina.
Svipað ástand hafði verið á lýsismarkaðinum á s.l. vetri svo Haförninn flutti þann vetur aðeins einn farm af lýsi út, en hafði í þess stað verið leigður íslensku olíufélögunum til olíuflutninga, sem og voru gifturíkir, og komu þeir flutningar ma. í veg fyrir að olíu og bensínskortur yrði á Norður og Vesturlandi af völdum hafíss, en Haförninn braust skipa oftast gegn þeim ógnum.
Enda ber hann þess enn glögg merki, sem vekja athygli hvar sem skipið nú kemur.
Eins og fyrr segir lögðum við frá Siglufirði 21. nóvember s.l., og að þessu sinni í langa ferð, lengri en við höfðum áður farið á þessu skipi.
Liðið gátu mánuðir, enginn vissi nákvæmlega hve margir, þangað til við kæmum heim aftur. En þrátt fyrir vissu um langa fjarveru frá fjölskyldum okkar, vorum við ánægðir því betra er að hafa brauð en ekki.
Haförninn var nú að fara í einskonar leigu, en reiðarinn, A.P. Möller í Danmörku stjórnaði rekstri skipsins. En þar sem rekstrarreikningar verða ekki til umræðu hér þá ekki meira um það.
Við höfum flutt tvo farma af steinolíu og eina fimm farma af díselolíu. - Það er margt skrítið í þessum olíubransa erlendis, ekki síður en heima á Íslandi. t.d. fluttum við steinolíu (litlausa) frá Rotterdam til Eastham í Englandi, í sömu viku tókum við jafnmikið magn af samskonar olíu í Southampton í Englandi. Þá fórum við með farm til Noregs, sá farmur var litaður ljósblár, og var það gert um borð á meðan á lestun stóð.
Englendingur, sem vann við litunina, sagði mér að mjög algengt væri að mismunandi litur væri á olíum, sem þeir seldu, t.d. vildu kaupendur olíunnar hinum megin við fljótið, um 5 mílur frá olíustöðinni ekki sjá annan lit en sepia, en það er dökkbrúnt, með rauðum blæ
Enn einu undarlegu atviki, um litun á olíu vorum við vitni að í A-Þýskalandi og síðar í Belgíu. Við tókum fullfermi af díselolíu í Wismar í Austurþýskalandi, en tveir litir voru á farminum, eða ljósbrúnn og nánast litlaus, eða hvítur, og var það magn, um helmingur farmsins. Lögðu Þjóðverjar ríka áherslu á, að farmurinn blandaðist ekki innbyrðis og tafði það meðal annars lestun, vegna allskonar umstangs af Þjóðverjanna hálfu þess vegna.
En þegar til Belgíu kom, vildu Belgirnir fá allan farminn í einni bunu og sögðu sig engu skipta um litinn.
Einnig þótti okkur skrítið að Belgarnir væru að kaupa olíu af A-Þýskalandi, en sjálfsagt eru einhverjar skýringar á því. Ég hefi oft heyrt margar "skrítnar" sögur hafðar eftir farmönnum varðandi A-Þýskaland
Enga sögu hef ég heyrt jafn ótrúlega og þá, sem mig langar til að segja frá nú, um ástandið eins og það kom fyrir mín augu þann stutta tíma sem ég dvaldi þar, og þeim litla bletti sem ég hafði tækifæri til að skoða í Wismar og síðar í Rostock
Ég hefi engan heyrt sverja að sögur þeirra væru sannar, en í von um að þeir sem þetta lesa, trúi mér þó ég hafi ekki trúað öllu sem hinir sögðu, þá ætla ég að sverja við drengskap minn, að það sem ég segi frá hér á eftir, er satt eins og ég sá það gerast, (samkvæmt dagbók og minni). Það byrjaði með, er við komum í höfn, á því að gerð var þessi venjulega tollskýrsla, svona eins og ætíð í siglingum. Gefið er upp áfengi, tóbak og stundum annar varningur, eftir því til hvaða landa er komið.
Við höfðum lagst við anker, en við gátum ekki fengið pláss í höfninni strax. - Hvort upplýsingar hafa komið frá "lóðsinum" eða frá öðrum veit ég ekki, en komið hafði í ljós að venjuleg tollskýrslueyðublöð reyndust ófullnægjandi.
Og urðum við því að skrifa nýja skýrslu og fylla hana svo rækilega út, að furðu sætti.
Auk áfengis og tóbaks, útvarpa og þess háttar og myndavéla þurftum við að tilgreina nákvæmlega alla gjaldeyriseign okkar og okkur bent á að við mættum búast við að leitað yrði í fötum okkar, sem og var gert, t.d. hjá einum úr eldhúsinu, en hann hafði gleymt 5 eða 10 gyllina seðli í brjóstvasa sínum.
Svo var okkur sagt að við mættum alls enga smápeninga hafa, þá yrðum við að tína saman og láta innsigla. Við urðum að fara að leita í skúffum og vösum að smá mynt, sem öll var tekin til innsiglingar.
Passarnir okkar voru skoðaðir rækilega, og strax var fjórum eða fimm tilkynnt að passar þeirra væru ógildir, en það vantaði hjá þeim embættisstimpil yfir ljósmyndina í pössunum. (sama hafði áður komð í ljós í Rússlandi)
Bryggjuræfillinn, sem við lágum við hefur auðsjáanlega ekki verið ætlaður til þess að setja upp á hann landgang, hvað þá það væri þar landgöngubrú, sem er algeng í mörgum löndum.
Hægt var þó að koma á land stiga sem var nær flatur á milli skips og bryggju og ekki hættulaust að fara á milli, þrátt fyrir spotta sem við strengdum sem handrið.
Við fengum fljótt fréttir af því að mjög glæsileg tollverslun (sögðu þjóverjarnir) væri skammt undan og fengist þar allt á milli himins og jarðar. Sótt var um landgönguleyfi.
Það tók langan tíma að fá það og gilti það aðeins leiðina til tollbúðarinnar og að því er okkur var sagt, 5 tíma í einu.
Ég var einn þeirra "lánsömu", sem komst fyrstur í land. Það var um 15-20 mínútna gangur í tollbúðina, og á þessari leið sá ég sóðalegasta og fátæklegasta umhverfi sem ég hefi augum litið.
Síldin og ruslið ásamt öllum þeim óhreinindum, sem sagt hefur verið frá og sumir hneykslast af, á Raufarhöfn, Siglufirði og víðar, var hreinasti aldingarður í samanburði við það rusl, drullu og lykt, sem við fórum í framhjá.
Og tollbúðin, þessari "glæsilega" verslun, sem okkur hafði verið sagt frá, - þar var að vísu hátt til lofts, en mér fannst þröngt til veggja og þröngt í búi, ef undan er skilið, áfengi og tóbak, af því var nóg úrval og verð ekki sem verst.
Erindi mitt var aðallega að kaupa mér sængurföt sem mig vantaði, en þau sá ég ekki, né annan vefnað, slíkt var ekki til sagði afgreiðslan, nema eitthvað var þarna af vefnaði og fatnaði á sjómenn, en ég held að enginn Íslendingur myndi ganga í þeim fötum.
Margir Íslendingar og raunar útlendingar, bölva yfir því að geta ekki verslað fyrir íslenskar krónur í tollversluninni á Keflavíkurflugvelli heima, en þarna var ekki hægt að versla fyrir austurþýsk mörk.
Já, vel á minnst, ég talaði um ógilda passa áðan. Í því sambandi buðust Þjóðverjar til að útbúa sérstaka passa fyrir viðkomandi, ef þeir vildu borga fyrir þá DM 10.00 pr. stk. En mörkin yrðu að vera vesturþýsk, ekki austurþýsk.
Þessu "vingjarnlega" boði var að sjálfsögðu hafnað. Innkaup okkar þarna í tollversluninni voru frekar lítil, og lét ég mér nægja að kaupa sælgæti fyrir 40 norskar krónur.
Við höfðum fengið sérstaka landgöngupassa þegar við fórum í land eins og fyrr segir, en urðum nú að skila þeim til varðanna á bryggjunni, við landganginn, áður en um borð var komið. Einu verðirnir, sem við sáum, voru þeir, sem skiptust á um varðstöðuna í varðskýlinu á bryggjunni, en það var ömurlegt starf, því úti var frost, -7-10 stig.
Skýlin voru óupphituð. Þetta voru vingjarnlegir ungir menn, en enginn þeirra skildi ensku né aðra tungu en þeirra eigin og var svo með alla starfsmenn þarna á bryggjunni, bæði yfir og undirmenn, en slíkt er óvenjulegt í Vestur-Evrópu.
Að lokum kom að brottförinni og þá fyrst fundum við fyrir alvöru, hversu sælan undir stjórn kommúnisma, sem svo margir heima á Íslandi boða er "sæt". Það byrjaði með því að öllum var skipað upp úr koju (kl. 1 eftir miðnætti) allir skyldu mæta í hásetaborðsal (nema skipstjórinn) og þar urðum við að vera eins og rollur í rétt, þar til tollurunum, lögreglunni, eða hvað svo sem þessi einkennisklæddi vopnaði her sem um borð var kominn, kallaði sig.
Ég hafði sofið, er ég var ræstur og brá mér aðeins í slopp og var varla vaknaður, þegar fram var komið.
En þegar ég áttaði mig á því að hefja átti leit í herbergjum okkar að okkur fjarverandi, og seðlaveski mitt lá opið á skrifborði mínu (er einn í herbergi) þá hélt ég til bak áleiðis til herbergis míns til að nálgast veskið.
Gengið var i veg fyrir mig af tveim dátum til að hindra mig, en ég ýtti þeim rólega en ákveðið úr vegi og fór mína leið og var búinn að ná veskinu áður en þeir náðu mér aftur, sennilega vegna undrunar á því, að nokkrum skyldi dirfast að ýta við vopnuðum mönnum í svona fallegum einkennisbúningi.
Mér var fylgt síðan til matsalarins. Mér varð orðið kalt á fótunum meðan beðið var, og ætlaði aftur til klefa míns til að klæða mig, en komst ekki í gegnum "víglínuna".
Annars voru þessir menn allir kurteisir og rólegir nema ef nefna mætti einn skratta í svörtum einkennisbúningi.
Hann minnti mig á hrokafullan nasista úr bíómyndum, enda vissi hann að hann var hátt settur.
Leitað var gaumgæfilega í öllu skipinu, og ef marka má aðferðina við leitina, því leitað var mest í stórum "felustöðum" eins og skápum o.s.frv. þá giska ég á að þeir hafi, verið að leita að fólki, svona eins og þeir héldu að einhverjum dytti í hug að yfirgefa "sæluna" þarna í austrinu.
Andlit okkar voru rækilega skoðuð og borin saman við myndirnar í pössum okkar og sumir, m.a. ég varð að sýna þeim og telja (svo þeir sæju, þessir þjónar) í seðlaveskinu. Það var svo borið saman við það, sem ég hafði gefið upp á "toll" listanum.
Og að lokum, Íslendingar sem ekki þegar þekkja sannleikann um ástandið fyrir austan, kynnist honum af eigin raun, trúið að minnsta kosti ekki fagurgalanum í rauðu hönunum heima, hvorki þeim, sem sýna sitt rétta andlit né þeim, sem fela sig bak við nafnabreytingar.
Sumir bölva öllu heima, segja allt ómögulegt, dýrt og ekki hægt að lifa af tekjum. Satt er það, sumar þjóðir geta veitt sér meira fyrir daglaunin en Íslendingar, en það er líka margt sem við eigum, en þeir ekki, margt sem þeir óttast, en við þurfum ekki að óttast heima á Fróni.
Og það vita þeir best, sem ekki eru heima, að heima er best þrátt fyrir allt.
En svo mikið er víst að A-Þjóðverjar geta ekki haft sjálfstæðar skoðanir í dag (1967-8) og látið þær uppi. Það er varla hægt að snúa sér hálfhring án þess að sækja þurfi um sérstakt leyfi til þess.
Trillur og mótorbátar frá A-Þýskalandi, sem stunda daglega róðra til fiskjar og lífsviðurværis þurfa að sækja um leyfi daglega, og sýna það varðbáti, sem er fyrir utan viðkomandi höfn.
Þá er leitað í bátnum áður en honum er sleppt lengra. Einnig þarf sami bátur að koma við hjá varðbátnum, þegar hann kemur úr róðri, til að sýna aflann.
Ekki held ég að íslenskir fiskimenn, ekki einu sinni kommúnistar, gerðu sig ánægða með slíkar aðgerðir. Margt fleira mætti telja upp, t.d, þurfa farmenn í höfn í Rússlandi að vera komnir um borð í skip sín fyrir miðnætti, annars eiga þeir á hættu að fá ekki landgönguleyfi næst, þegar skip þeirra kemur þangað til hafnar. Þetta kom fyrir fjóra skipverja hér um borð, en vegna ókunnugleika komu þeir dálítið "seint" samkvæmt rússneskum reglum.
Það höfðu tveir skroppið yfir í skip, sem lá við sömu bryggju og Haförninn, en þar sem þeir komu um borð eftir miðnætti samkvæmt rússneskri klukku (22,00 samkvæmt skipsklukku) þá var þeim tilkynnt að í næsta skipti, sem við kæmum þangað, fengju þeir ekki að fara í land.
Fólkið austan járntjalds er ósköp svipað að eðlisfari og annað fólk vestan við, en reglurnar, höftin og þvinganirnar, sem rauðu hanarnir í Moskvu setja og krefjast að farið sé eftir, vona ég að komi ekki á Íslandi.
Stranglega er bannað að tak ljósmyndir í austantjaldshöfnum, svo engar ljósmyndir þaðan, fylgja hér með –
Steingrímur
"Ofanritaða" grein má einnig lesa hjá: http://timarit.is/files/16322199.pdf#navpanes=1&view=FitH Framanrituð frásögn, sem send var Morgunblaðinu, er ekki að öllu leiti samhljóma, annarri frásögn um nánast sömu atburði, annars staðar í þessum skrifum mínum.
Ástæðan fyrir því er einföld, til viðbótar skýringu annarrstaðar hér framar.
Fyrri frásögnin er skrifuð eftir Segulbandsupptöku, sem ég hafði sent heim, og sá hluti skrifaður upp frá henni.
En greinin í Morgunblaðinu aðeins breytt, er skrifuð eftir minni nokkrum vikum seinna. Og send síðan til Morgunblaðsins.
Lýsingarnar í aðalatriðum eru réttar, þó tímasetningar geti hafa ruglast.
Til viðbótar þeim frásögnum, ætla ég að nefna atriði sem var nokkuð „broslegur“
Daginn áður og daginn sem við komum inn hafnarsvæðið í Wismar, höfðum við þrír skipverjanna verið að vinna inn
undir bakka frammi í stefni. Ég var þar, eins og venjulega með myndavél mína nálægt.
Ég var búinn að fá aðvörun frá skipstjóra, að láta ekki sjá mig með myndavél mína. Þar sem myndatökur væru stranglega bannaðar í austurþýskum höfnum.
Ég hafði þó stolist til að taka tvær myndir með 400mm aðdráttarlinsu, en geymt svo vélina innan í kaðalrúlluhönk. Ég hafði steingleymt vélinni þegar kallað var í enda. (landfestar)
Þar á eftir farið til vinnu við annað.
Myndatökur voru bannaðar, svo ég var "ekkert" að hugsa um myndavélar. - Það var svo ekki fyrr en eftir að hafa verið ræstur, nokkru áður en kom að brottför, fyrir þann tíma sem ég ella hefði verið ræstur í enda.
Við höfðum verið í andlitstékkun og fleiru inni í matsal nokkra stund. Þegar sá svartklæddi sem áður er nefndur, kom froðufellandi inn í borðsal, veifandi myndavél minni með stóru linsunni.
Hann argaði á ensku: „Hver á þetta?“
Ég var fljótur til og sagði hvössum rómi á hreinni íslensku. „Þetta er mín eign“ Samtímis hrifsaði ég myndavélina úr höndum hans.
Hann var á báðum áttum hvernig hann ætti að bregðast við svona heimsku, að hrifsa úr hendi borðalags embættismanns, sem að auki var með skammbyssu í beltishulstri.
Ekki skildi nóg AF orðaskiptin sem fóru á milli þess borðalagða og Guðmundar stýrimanns, sem strax tók viðbragð mér til varnar.
En myndavélinni hélt ég sem fastast. Guðmundur spurði mig meðal annars hvort vélin hefð verið frammi í bakka, en þar fannst hún við leit, sagði foringinn. (Í einum af „stóru felustöðun)
Ég játaði því og bætti við að vélin væri búin að vera þar síðustu 3-4 daga. Ég hefði tilgreint myndavélabúnað minn á tollskýrslunni.
Ég hefði ekkert að fela. Meira að segja númer myndavélar og linsu hefði verið skráð.
Hinn borðalagði sætti sig fúll á svip, við skýringa Guðmundar. En yfirmaðurinn gaf mér illt auga, þegar hann fór fram aftur.