Áhugamálin, tómstundir


Áhugamálin    

Áhugamál mín í gegnum tíðina hafa verið mjög fjölbreytt, svo vægt sé til orða tekið. Stundum svo að nálgast hefur öfgar. það var oft svo margt undir í einu að ekki myndaðist tími til að sinna þeim öllum samhliða þó svo í nokkrum tilfellum hafi það tekist.

þar ber að nefna ljósmyndun, sem fyrir alvöru hófst í janúar 1959, auk efnafræði. En eins og annarsstaðar hefur komið fram var áhuginn mikill á sviði kvikmynda og vart sluppu neinar kvikmyndir framhjá mér sem sýndar voru á Sigló í gamla daga og eða þegar skroppið var til Reykjavíkur eða til annarra staða.

Ég byrjaði snemma að spá í rafmagnsfræðina sem og það sem tengist útvarpsvirkjun.
Meðal annars á því sviði bjó ég 10-11 ára til "aflmikinn" magnara undir leiðsögn pabba. 

Mynd fundin á netinu: Forvitnin ótakmörkuð

Magnar sem var 20wött sem þótti mikið afl á þeim tíma á því sviði. Ég vann allt verkið einn samkvæmt hans tilsögn og hugmyndum.

Magnarinn var raunar öflugasti magnarinn á Siglufirði á þeim tíma, en magnarann leigði ég með "manni" (mér sjálfum) á mörgum skemmtunum. Einnig á mörgum útisamkomum og hafði góðar tekjur af. 

Áður hafði pabbi verið gæslumaður tækja sem Karlakórinn Vísir átti, en þau tæki voru aðeins um 10wött og þóttu ekki nógu kröftug á útisamkomum. 

Í dag þættu 20watta tæki og búnaður ekki henta unglingum í heimahúsum þar sem magnarar og hátalarar nútímans eru vart framleiddir undir 100wöttum til heimilisnota. Hvað þá fyrir útisamkomur þar sem wöttin fara yfir 1000 og sumum þykir ekki nóg.  Tímar og tækni þróast. 

Smá gamansama sögu, þessum magnara mínum tengt. Þegar magnarinn var í smíðum var ekki auðvelt að nálgast ýmsa hluti sem til þessarar smíði þurfti. Sjálft stellið var úr galvanhúðaðri þykkri blikkplötu, beygð og lóðuð. 

Kassi (stellið) sem var um 20x40x10 sm. Opinu snúið niður, þar sem þéttum viðnámum og fleiru var komið fyrir, en "ofaná" voru lampasökklar spennir ofl. Framan á var styrkstilli, bassastillir og diskant takkar, en aftan til tenglar fyrir hljóðnema, hátalara og snúra út fyrir 220 volta straum.  

Engir alvöru tenglar fyrir hátalara voru fáanlegir. En ég hafði tekið úr ónýtu útvarpstæki sem knúið hafði verið rafhlöðu "hún" straum tengla, grænan og rauðan sem táknað höfðu + og - inn á tækið. 

Enga karltengla átti ég á móti. En venjulegar 220 volta klær voru með sama pinna þvermáli og passaði í áðurnefnda +/- tengla. Til að gera málið einfalt, þá boraði ég götin í kassann svo bilið passaði þannig að ég gat stungið venjulegri 220volta kló frá hátalara, í tenglana. Ég gerði mér grein fyrir því að svona gat verið hættulegt hvað varðar að hafa hátalaratengilinn eins og venjuleg 220 volta passaði í, sem og sjálfa hátalarasnúruna. 

En ég huggaði mig við, þrátt fyrir viðvörun pabba, ég einn myndi koma nálægt þessum búnaði. Hann vildi hafa pinnana aðskilda, vafða einangrunarbandi. Svona gekk þetta í nokkra mánuði án áfalla. En óhöppin gera ekki boð á undan sér.  

Ég hafði komið heim með græjurnar, magnara, hátalara og hljóðnemastand í hjólbörum. En tækin höfðu verið notuð á kabarett í Sjómannaheimilinu kvöldið áður. 

Tækjunum gekk ég frá inni í herbergi mínu heima. Þar með var hátalarakassinn sem var stærsti hlutinn. 12" hátalari í kassa að stærð um 60-40-20 sm. Hátalarasúrunni um 10 metra langri hafði ég vafið vandlega saman og lagt ofan á kassann. 

Ég var inni í eldhúsi að borða morgunverð. Móðir mín hafði verið að ryksuga ganginn. Ég heyrði til hennar en skeytti því engu. En allt í einu kom ógurlegur hvellur líkt og hefði verið hleypt af fallbyssu inni í húsinu. 

Ég hljóp fram. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað hefði skeð. Mér datt einnig í hug að einhver sprenging hefði orði sunnan við húsið. En þegar ég fór að huga að mömmu þá sá ég hana með hendur fyrir eyrum liggja á gólfinu inni í herberginu mínu. 

Ég fór að stumra yfir mömmu og sá þá út undan mér reyk sem kom frá hátalaranum og fann jafnframt smá brunalykt.

Mamma hafði verið að ryksuga í kringum hátalarann og fært hann aðeins til. Við það hafði snúran við hann dottið á gólfið. Hún sá stunguna sem hún hélt að tilheyrði lampa sem þarna var. Hélt að hún hefði óvart tekið hann úr sambandi og setti hátalarann í samband við 220 voltin með fyrrgreindum afleiðingum. Auðvitað fékk ég skammir eftir á en var fljótt fyrirgefið eins og svo oft áður þegar ég hafði gert eitthvað af mér.

Áhugi minn á rafeindatækninni breyttist. Ósamkomulag varð á milli okkar feðga, hann gat ekki borgað mér þau laun á verkstæðinu sem ég gat aflað mér á öðrum stöðum svo viðvera mín á verkstæði hans fór hverfandi. 

Svo þegar áhugi minn á stelpum að magnaðast, það er maður varð skotinn í þessari stelpu í nokkrar vikur eða þar til þær urðu leiðar á manni osfv. 

Þess vegna var minni tími til annarra áhugamála, utan lestur bóka sem ég þurrjós hverja á eftir annarri. Námsbækurnar voru þó ekki þar á meðal, bókaforði sem mér þóttu lítt spennandi..

Fyrir skólanum hafði ég lítinn áhuga enda ærslafullur og kjaftfor og var ófeiminn að tjá mig ef mér mislíkaði kennslan eða athugasemdir kennaranna m.a. í 1. bekk Gagnfræðaskólans.  En þar voru tveir kennaranna sem töldu mér trú um í áheyrn skólafélaga minna í tíma, að ég væri svo vitlaus að ég gæti ekki lært. 

En þegar ég hafði viljað fá nánari skýringu á einhverju atriði kennslunnar sem ég hafði ekki náð að skilja (seinþroska líklega um að kenna, ?- þá oftar en ekki, í staðin fyrir svar kennarans (sumra kennara) bentu þeir á einhverja snillingana í bekknum sem voru nokkrir, og spurðu þá hvort þeir hefðu ekki skilið svona einfalt mál. 

Það töldu kennararnir að mér mundi nægja. Ég átti til að gagnrýna þessa kennara fyrir svona svör því ég var kjaftfor og ófeiminn að tjá mig eins og fyrr segir og var því stundum rekinn úr tíma fyrir vikið.
Og ekki bætti úr skák er ég var eitt sinn kallaður á teppið hjá skólastjóra vegna gruns um hrekk, sem ég aldrei þessu vant var saklaus af. Ég svaraði þessum ásökunum með orðum sem skólastjóranum þótti ekki við hæfi, sennilega rétt eftir á að hyggja.

Skólastjórinn missti þá út úr sér, að sennilega hefðu fyrrnefndir kennarar rétt fyrir sér: Að ég væri svo vitlaus að ég gæti ekki lært. Þar var ekki um að villast, að mál mín höfðu verið rædd rækilega í kennarastofunni.  Enda kolféll ég á lokaprófinu um vorið, raunar ásamt 13 öðrum villingum, stelpum og strákum.

Árið 1959 hafði ljósmyndadella mín sem þekkt er orðin, gripið mig og ekki óalgegnt seinnihluta síðustu aldar að sjá mig með tvær myndavélar á maganum með ól frá þeim um hálsinn. Aðra myndavélina með litfilmu í og hina með svart hvítri filmu.

Svo skaut efnafræðiþorsta aftur upp í huga mér, atriði sem átti góða samleið með ljósmyndaáhuganum. Einnig var ég á sama tímabili kominn aftur á kaf í rafeindafræðina eins og fyrr er getið og hafði búið til marga nytsama og ónytsama hluti til prufu eftir teikningum úr tímaritum og bókum.  

Ég flutti meðal annars sjálfur inn mikið af rafeindadóti, þétta, transistora, fjölliða og annað sem til þurfti, bæði frá Danmörk og Englandi. 

Ég  átti meðal annars, stóran lager af slíku efni. Verðmunurinn á því sem ég keypti erlendis frá og hér heima í sérverslunum í Reykjavík var geigvænlegur, hreint okur í Reykjavík, mismun sem nam á sumum hlutum mörg hundruðum prósenta. 

Sem dæmi, þá hafði bilað útvarpstæki sem keypt hafði verið hjá Einar Farestveit, (umboð hjá Gesti Fanndal) komið inn á borð hjá Birni Hannessyni útvarpsvirkja, með ónýtan fjölliða. 

Varahluturinn var ekki til hjá umboðinu né sagt að hann fengist á landinu og að það þyrfti að panta hann erlendis frá. 

Björn vissi um mína áráttu og spurði  af rælni hvort ég ætti þennan hlut.  Jú ég átti nokkur stykki og hafði meira að segja, nýlega smíðað lítið útvarp sem þessi fjölliði byggðist á.

Björn fékk fjölliðann hjá mér gegn því að ég fengi í staðinn þann sem var í pöntun.  Allt gekk upp. Til mín frá Englandi með aðflutningsgjöldum, hafði fjölliðinn kostað um 20-30 krónur minnir mig. Sá sem pantaður hafði verið, kom með nákvæmlega sama vörumerki frá íslenskum umboðsaðila ásamt reikningi upp á rúmar kr.1400- Vel smurt á gripinn hjá umboðinu.  

Ég var lengi hvattur til eftir að ég þroskaðist og fullornaðist að fara í nám. Fyrst af Páli G Jónssyni byggingameistara í trésmíði, síðan af Baldri frænda Steingrímssyni sem var rafvirkjameistari hjá S.R., til að læra rafvirkjun og einnig af félögum mínum á vélaverkstæðinu að læra vélsmíði.

En minnugur þess "að ég væri svo vitlaus að ég gæti ekki lært" að dómi tveggja fyrrverandi "kennara" minna og skólastjóra þá hefti sú minning mig, svo að ekkert varð úr á þeim tíma.

Ein bakterían enn sem greip mig á árunum 1960 var stærðfræði og formúlur henni tengt. Ég var afleitur í stærðfræði á skólaárunum, sennilega með einhvern vanþroska ? Nú gekk ég með reiknistokk í vasanum, ég átti marga slíka bæði stóra og litla til að hafa í vasa. 

(þá voru vasatölvu reiknivélar vart þekkjanlegar og þá ekki eins fjölhæfar og reiknistokkarnir)  

Ég reiknaði út allt mögulegt, bæði til nytja og "óþarfa," notfærði mér það meðal annars í vinnunni og kunni ótaldar reikniformúlur utan að. 

það var svo eftir að ég hafði verið nokkur ár á SR-Vélaverkstæði að félagar mínir með frænda minn Steingrím Garðarsson í broddi fylkingar komu mér á samning í vélsmíði.  

Ég fór í Iðnskólann, og útskrifaðist þaðan 45 ára með góðar einkunnir ásamt bókagjöfum frá Rótarý hreyfingunni og fleirum vegna góðra einkunna.             Skólasystkyni mín >>>>>>>>

Mjög skemmtilegt tímabil í skólanum með ungu fólki, sumum nærri þrem áratugum yngi en ég. 

Ég hefi oft verið fljótur að framkvæma hugmyndir sem dottið hafa inn í kollinn á mér varðandi það "að einfalda málin."

Eitt af því fyrsta sem ég "fann upp" var í sambandi við fyrsta barnið okkar hjóna,

Ég og nokkur af Skólasystkynum mínum mín ákváðu að far út að borða í tilefni útskriftar dagsins árið  1981
Margrét Einarsdóttir, Gunnar Gottskálksson, Gunnar Björn Rögnvaldsson, Steingrímur Kristinsson (yngstur, aðeins 47 ár) Brynja hauksdóttir og Óttar Möller.

Valbjörn sem var oft órólegur um nætur eins og gengur með ungabörn. það þurfti því oft að róa drenginn með því að rugga körfunni hans í nokkra stund þar til hann sofnaði. 

Það lenti oft á mér og er eins og flesti þekkja þreytandi á handlegginn til lengdar. Þá útbjó ég lítinn hreifi arm með mótor sem tók þetta ómak af mér með góðum árangri sem var einnig notaður til að róa næsta barn.

Á þeim tímum var hvorki hitaveitan komin né olíukynding orðin algeng og flestir notuðu kol og timbur til upphitunar. Svo var einnig fyrstu mánuðina sem ég bjó í bragganum í Bakka. En kol voru dýr og atvinna lítil svo ég var duglegur að safna eldiviði, á tímabili brenndi ég eingöngu fræsi og afskurði frá Tunnuverksmiðjunni til upphitunar (vann þar einnig um tíma við afleysingar)  

Á kvöldin fyllti ég miðstöðvarofninn alveg eins og hægt var af þessum eldivið. Ofninn var niðri í kjallara hússins. Ég stillti neðra trekkspjaldið mátulega og kveikti síðan á áður en ég fór til vinnu á morgnanna, ofan frá íbúðinni á eldþolnum rafmagnsglóðvír sem komið var fyrir neðst í ofninum sem kveikti eld í ofninum.

Ég hafði gert nokkrar tilraunir án þeirrar fjarstýringar og fylgst með hraða eldsins, svo ég treysti á ferlið. Þessi fræshleðsla kom hita miðstöðvarkerfisins fljótt vel af stað og hélst hitinn á kerfinu nokkurn vegin fram undir hádegið, er ég kom heim úr vinnu í mat, (þegar vinnu var að fá) og hlóð þá ofninn aftur. Þetta sparaði kolamolana dýrmætu.

Þegar ég vann hjá Páli á tréverkstæðinu, Þá unnum við meðal annars við ýmiskonar byggingavinnu. Við steypuuppslátt vegna húsgrunna og heilu byggingarnar. Þá var venjan við vírabindingu að nota tangir til að snúa saman járnabindinguna.  Ég tel mig hafa verið fyrstan til notað verkfæri eins og ég bjó til við þessháttar verk. Í það minnsta hafði enginn á Siglufirði séð slíkt verkfæri áður og voru mörg slík búin til á SR-verkstæðinu fyrir smiði utan lóðar.  Einnig annað verkfæri sem notað var til að strekkja saman steypumót.

Þegar ég vann á SR-bryggjunum við eftirlit á færiböndum og tórum sem fluttu síldina frá bryggju upp í þró. Þá útbjó ég einfalda þvottavél úr gamalli eikar lýsistunu, tunnu sem var nokkuð stærri og efnismeiri en venjuleg síldartunna.   

Nóg var af gufu hjá verksmiðjunum, sem meðal annars var notuð til vatnshitunar á böðunum í Síberíu. (nú 2018, húsnæðið sem hýsir Primex verksmiðjuna)  

Ég boraði 10mm gat skáhalt niður við botn tunnunnar og setti þar í eirrör með stefnuna meðfram innri hlið tunnunnar og tengdi við gufulögn utan við. 

Hálf fyllti tunnuna af köldu vatni, bætti við slatta af þvottaefni og setti í tunnuna  3-4 koldrulluga samfestinga.  

Skrúfaði síðan frá gufunni sem kom miklu hringsóli á innihaldið með miklum núningi og viðkomu við gufuna sem smátt og smátt hitaði vatn og innihaldiðið og þrýsti samhliða vatni upp úr tunnunni í hlutfalli við vatnsmagn gufunnar.

Þegar vatnið var komið að suðu var það orðið nánast gegnsætt. Öll óhreinindi þar með farin úr vinnugöllunum. Þá var skrúfað fyrir gufuna og gallarnir hengdir upp til þerris. Tunnan var utandyra og engin vandmál með skolvatnið. Þessi búnaður var notaður mörg sumur með góðum árangri og vinsældum.  

Rafeindabúnaður

Verksmiðjuframleiddur og heimasmíðaður.

Meðal rafeindatækja, útvarps og mælitækja sem ég bjó til samkvæmt teikningum, lauslega nefnt hér ofar, þá bjó ég til lítið FM-senditæki sem ég kom fyrir í venjulegum öryggishjálmi og notaður var í tengslum við kranavinnu. Það er sá sem sagði kranamanni til, við skipslúgu, við steypuvinnu og fleira þar sem kranamaður sá ekki aðstæður. Þessi sendir var notaður í um áratug án þess að klikka, bæði hvað Bantam krananum og LinkBelt krananum sem ég stjórnaði.  

Þá bjó ég til annað FM-senditæki nokkuð öflugra, enda knúið 220 volta spennu. Þann sendi gerði ég tilraunir með og útvarpaði stanslausri tónlist frá segulbandi. Sú sending náði um allan Siglufjörð raunar langt fram í fjörð og út á sjó. Mun betri hljómgæði tónlistar en frá „tunnustöðinni“ sem Siglfirðingar „nutu“ og staðsett var uppi á Hvanneyrarskálarbrún á vegum Ríkisútvarpsins og sendi út á A.M. bylgjulengd. Útvarpstæki á þeim tíma með FM bylgjusviði voru ekki algeng á Sigló, svo fáir náðu sendingunum frá mér eða öllu heldur fáir vissu af þeim.    

Til að geta sinnt áhugmálinu af alvöru þá þurfti til þess allskonar mælitæki, sum slíkra tækja keypti ég tilbúin, önnur í svokölluðum kittum þar sem allir hlutar búnaðar kom ósamansettur og var síðan settur saman, lóðað og skrúfað eftir atvikum. 

Slíkur búnaður reyndist ágætlega og var einnig talsvert ódýrari í innkaupum en verksmiðjuframleitt. Aðra smíðaði ég og hannaði eftir eigin hugviti og teikningum sem og blandað til að þóknast samhliða sérvisku minni og notagildi.

Innflutningur bæði frá Danmörku og Englandi var eingöngu ætlaður til einkanota og lærdóms. En á þessum tímum þá voru talstöðvar í hundraða tali í notkun á Siglufirði, bæði hand (WalkieTalkie) og fastar CB talstöðvar í bílum og vinnuvélum og í heimahúsum  

Ég hafði breytt tugum þeirra, úr 0,5watta sendiorku yfir í 4-5watta sendiorku.

Þetta var auðvitað kolólöglegt, en fáránlegar reglur fjarskiptaþjónustu Íslands á þeim tíma bönnuðu meiri styrkleika þessara tækja en 0,5wött. Björgunarsveitir fengu ekki einu sinni að fá sterkari talstöðvar. Enda skilningsleysi embættismanna á svæði 101 í Reykjavík ekki mikill um þessi mál, um nauðsyn á langdrægari búnaði.  

Flestar voru þessar talstöðvar framleiddar og fluttar inn sem 5wött. En Landsíminn gerði körfu um að þeim yrði breytt niður til 0,5wött með auknum kostnaði sem hækkaði verð búnaðarins sem svo þurftu prófun og staðfestingu Landsímans áður en þær voru settar í sölu. 

Breytingar mínar fólust í því að ég skipti um einn power transistor og viðkomandi spólur stilltar í samræmi við það. 

Það var í raun einfalt að skipta um transistorinn, en öllu verra með stillinguna nema að hafa svokallað Oscilloscope eða tíðnimæli (Hz) sem mælt gátu nákvæmt tíðnisvið og gert auðvelt að stilla tækin inn á fyrirviðkomandi tíðni, því annars gat viðkomandi talstöð truflað bæði útvarp, sjónvarp og fleira. Auk þess sem orkan náði ekki þeim styrk sem  til var ætlast. Þá gerði ég við nokkur útvarpstæki fyrir kunningja eftir að faðir minn lést árið 1980. 

Þegar ég fann ekki lengur tíma til að sinna bæði ljósmyndaáhuga mínum og electronikinni samtímis þá valdi ég ljósmyndirnar og hætti öllu fikti við það síðarnefnda. 

Vini mínum Sveini Filippussyni heitnum, sem var með electronik bakteríuna síðustu ár æfi sinnar, lánaði ég honum eitt mælitækið mitt sem hann hældi mikið fyrir fjölbreytnina.  Raunar gaf ég honum eitthvað fleira. 

En tækið sem ég lánaði tækinu Sveini er nú varðveitt hjá Saga Fotografica (frá 2014).

Myndir tengdar  breytingum á stjórnbúnaði Link Belt krananns .

Myndir sem tengjast rafeinda og tækni dellu minni






Hér fyrir neðan mælibúnaður og fleira, ýmist verksmiðjuframleitt eða heimasmíðað

Þarna inni í kassanum var sökkull með fjórum nemum, sem kveikti á rauðum Led ljósum í stjórnborði ef kraninn var ekki láréttur. Ef kólfurinn snerti engan þeirra, þá kviknaði á grænu Led ljósi á stjórnborði kranans, á fleti sem líkja má við 5 depla á spilateningi. og þá var kraninn tilbúinn til vinnu. Þessi búnaður varaði einnig kranamann við ef einn at lyfti fótum kranans væri farinn að síga.

Margnota mælitæki sem ég bjó til frá A-Ö eftir í bland eftir þrem teikningum frá erlendum tímaritum. Notað vegna ljósmynda stækkunar. Tækið valdi sjálfvirkt hvaða píppir, harðan, normal eða mjúkan. Og hve lengi ættir að  stilla tækið á tímann sem lýsingin ætti að standa yfir. Rautt ljós kom þegar skífu takkarnir komu að sjálfvirkt valinni lýsingu stækkarans ofl.

Frá vinstri: Gamall ósellotorscop er sem pabbi átti. -Straumbreytir Volt og Ampere , smíðað frá grunni - Tíðnimælir, notaður vegna stillinga á talstöðvum og heimsmíðuðu dóti, td. litlum útvörpum. - Og myndrænn  stillir-mælir, var í eigu pabba. Sá grái  litli; Volt og margt fleira mæanlegt. Keyptur frá Englandi

Straumbreytir Volt og Ampere , smíðað frá grunni

Sá efri: Mjög nákvæmur tíðnimælir, settur sama frá "kitti" keypt frá Englandi - Sá rauði:  Stillanlegur straumbreytir smíðaði ég eftir nokkrum teikninu og setti í einn kassa, Mjög nákvæmur og kom að gagni við smíði og prófun marskonar elektrónu fikti til gagn og gaman

Tíðnimælir, notaður vegna stillinga á talstöðvum og heimsmíðuðu dóti, td. litlum útvörpum. - Myndrænn  stillir-mælir, var í eigu pabba og sama og á mynd til vinstri.

Öll þessi tæki komu við sögu áhugmálsins, sem og vinagreiða vegna ýmislegra rafeindatækja og rafmagns, útvörp, talstöðvar og fleira.