Þó svo að móðir mín hafi kennt mér að ekki mætti herma eftir því sem við sæjum í bíómyndum þá var litið á það sem saklaust að setja upp leiki, eða leikrit á rauntíma sem lýstu hátterni Tarsans, villimanna og Cowboy myndanna.
Slíkt var algengt í Villimannahverfinu á Eyrinni á milli Hvanneyrarár og Þormóðsgötu.
Það var svæði sem krakkarnir sem þar bjuggu tileinkuðu sér, og voru lítt hrifnir af að utan svæðis krakkar kæmu á okkar svæði.
Síðar stækkaði svæðið alveg út til Bakka > Mynd fengin frá netinu + >>>>>>
Eitt sinn er leikur stóð sem hæðst í Tarzan leik, átti sér stað óhapp sem hefði geta orðið alvarlegra en raun varð á.
Það var á haustdögum. Ég hafði fengið það hlutverk að leika Tarzan og þegar bardaginn sem settur var á svið stóð sem hæst.
Tarzan var nýbúinn að leysa Jane sem Anna Kalla lék, úr klóm villimannanna þegar villimennirnir komu með tilheyrandi látum, spjótkasti og örvadrífu á eftir þeim skötuhjúum Tarzan og Jane.
Örvarnar og spjót voru, eða áttu að vera meinlaus með ullarhnoðra bundna á enda vopnanna svo ekki skaðaði liðin.
En í hita leiksins hafði ullarhnoðri á spjóti eins villimanna höfðingjans sem leikinn var af Sveini Björnssyni, losnað og spjótið lenti þannig í augnakrók Tarzans.
Mikil skelfing gaus upp á meðal leikendanna, mikið blóð fossaði frá augntóftinni og allur Tarzans og villimanna kraftur horfinn fyrir bí og sumstaðar á meðal stelpnanna heyrðist grátur og snökt.
Þetta átti sér stað á túninu norðan við Pálshús. (Mjóstræti 2) Tarzan varð blindur, blóðið fossaði og þakti andlit hans en hópurinn leiddi fórnarlambið beinustu leið heim til sín. Þar var enginn heima svo hópurinn hljóp við fót í átt til Sjúkrahússins, Svenni og Einar Björns héldu við sinn hvorn arminn á mér og leiðbeindu á leiðinni.
Sumir krakkar höfðu hlaupið á undan og gert viðvart á Sjúkrahúsinu. Á móti hópnum kom Elísabet hjúkrunarkona sem hrópaði „Guð hjálpi mér, hvað kom fyrir?“
Næst man ég eftir mér á skurðarborðinu. Ég sá þá greinilega með báðum augum þar sem Ólafur læknir og Elísabet voru að stumra yfir mér.
Búið var að stöðva blóðrennslið og Ólafur bað mig að vera kyrran, hann þyrfti að sauma tvö til þrjú spor í augnkrókinn. Það tók fljótt af og ég var raunar hissa á því að ég skildi ekki finna til þegar hann saumaði, frekar en þegar spjótið frá Sveini hæfði Tarzan.
Það var plástraður leppur fyrir annað augað og Elísabet fylgdi mér fram þar sem mamma mín beið ásamt Svenna í öngum sínum yfir atburðum sem höfðu leitt af sér áðurnefnt „blóðbað.“
En þegar móðir mín hafði komið heim eftir bæjarferð kom krakkahópur á móti henni sem sögðu að ég hefði fengið spjót í augað, og væri uppi á spítala.
Hún hafði farið inn í forstofu og lagt frá sér mjólkurbrúsa og fleira sem hún hafði verið með. Hún sá þar allt útatað í blóði meðal annars alblóðuga vettlinga sem ég hafði verið með. Hún hljóp síðan upp á sjúkrahús. Þar sem einu fréttirnar voru frá gangastúlku sem bað hana að bíða, þar sem ég væri í aðgerð inni á skurðstofu, svo og Svinn sem var þarna og beið hálf snöktandi yfir þessu öllu.
Elísabetu tókst fljótlega að róa mömmu og gaf henni til hressingar sherrystaup og Svenni var fljótur að jafna sig þegar ég sagði honum að augað hefði ekki skemmst og allt væri í fínu lagi.
Síðar var sett sú regla í Tarzan leikjum framtíðar að ekki mætti skjóta örvum og spjótum í hita leiksins, í átt að „andstæðingunum“
Ekki skaðaði þetta atvik vináttu okkar Svenna á þessum unglingsárum frekar en annarra úr hópnum.
Oftast í leikjum voru bæði strákar og stelpur saman.
Í Slá-bolta sem oftast fór fram á götunum. Boltinn sleginn eins langt og hægt var og hlaupið í mark og til baka. Þá einnig leikur sem kallaður var Yfir, sem fólst í því skipt var liði sem komu sér fyrir sitt hvorumegin við eitthvert húsið, annað liðið kallaði hátt, "yfir" og kastaði bolta yfir húsþakið.
Hitt liðið reyndi að grípa boltann og ef það tókst var hlaupið yfir til hins liðsins og reynt að kasta þar boltanum í einhvern og eigna sér þann sem varð fyrir boltanum. Sá sem varð fyrir boltanum, færðist þá sem liðsmaður sigurliðsins, þannig gekk leikurinn þangað til enginn varð eftir í öðru liðinu.
Oft var þetta mikið fjör því ekki var auðvelt að sjá hver í hópnum var með boltann hverju sinni.
Ávalt var viðhafður heiðarleiki, því ekki sá hitt liðið ef gripið var, eða vissi hver greip. En allir í viðkomandi hópi, hljóp yfir til andstæða liðsins.
Strákaleikir
Svo kom fyrir að strákarnir vildu ekki hafa stelpurnar með í leik, þá helst þegar skotið var í mark með boga og ör.
Þá áttu stelpurnar það til að trufla með ýmsu móti keppnirnar sem þar fóru fram og hitnaði stundum ofurlítið í kolunum.
Eitt skipti var vinkona okkar Anna Kalla of aðgangshörð að okkur fannst, við tókum hana herskildi í bókstaflegri merkingu. Við tróðum henni upp í efri hluta reykingakofa sem Páll Ásgríms átti og lokuðum hana þar inni.
Reykingaskúrinn var rétt innan við metir á kant og rúmlega tveggja metra hár með risi.
Í efri hluta skúrsins sem þarna var tómur, þar var venjan að hengja upp kjöt og fisk til reykingar og kveikt í mó og öðru brennsluefni í neðri hlutanum.
Anna lét aldeilis í sér heyra og vandaði okkur ekki kveðjurnar og við hlógum eins og bjánar.
Hinar stelpurnar voru þöglar og vissu að ekki þíddi að gera atlögu að okkur.
En skyndilega hætti Anna að láta heyra í sér og okkur var örlítið brugðið. Við fórum að huga að henni með því að opna neðri hlutann og kíkja upp í gegn um rimlar sem var gólf efri hlutans.
Farið var að rökkva svo ekki sást nein hreyfing þar uppi, ég og annar strákur (man ekki hver) fórum inn í neðri hlutann og ég pikkaði með ör upp á milli rimlanna til að fá Önnu til að hreyfa sig eða öskra á okkur.
Vissulega kom öskur, en það var ekki öskur frá Önnu, heldur frá okkur og það nokkuð óvænt.
Nokkuð sem hrakti okkur rennblauta út úr kofanum bölvandi í fyrstu en svo með hlátursköllum.
Sem við öll tókum þátt í þegar við áttuðum okkur á hvað olli bleytunni sem yfir okkur steyptist.
Það þarf ekki að taka það fram að Önnu var hleypt úr prísundinni sem hetju og sigurvegara dagsins brosmildri að venju.
Anna hafði náð fram hefndum, hún meig á okkur. Nokkuð sem gerði okkur að athlægi, ekki aðeins þeirra sem með fylgdust, heldur mörgum dögum síðar í umræðunni á milli okkar krakkanna.
Við tveir aftur á móti fórum stuttu síðar heim, hálf sneyptir í bað. En við mættum svo aftur til leiks í mesta bróðerni.
Oft höfum við Anna á fullorðinsárum rifjað þennan atburð upp með brosi á vör.
Sá leikur féllst í því að smápeningum var kastað upp að vegg og reynt að staðsetja hann eins nálægt veggnum og kostur var.
Margir tóku þátt og sá sem í hverri umferð átti pening næst veggnum eignaðist restina. 5 aura peningarnir voru vinsælustu kast peningarnir, en þeir sem ekki áttu þá notuðu annað hvort einseyringa, túeyringa, tíeyringar. Slíkir peningar voru þó þó ekki sigurvænlegir vegna þess hve litlir og léttir þeir voru, en náðu þó stundum árangri sem sigurvegarar.
Vegalengdin sem kastað var misjöfn, oftast þó 3-5 metrar hjá þeim yngri (sem kepptu þá saman, án eldri krakkanna)
En þeir eldri var algengast 5 metrar og lengra. Svo mátti nota erlenda peninga til að kasta (kallaðir lukkupeningar) sem margir áttu, en þeir gátu ef þeir vildu eftir tap, skipt þeim út fyrir fimmeyring. Hann þurftu þeir að eiga tiltækan á staðnum, annars var hann glataður til sigurvegarans.
Til gamans má geta, að megnið af þessum smápeningum, innlendum sem erlendum, fundum við framan við Öskubryggjuna og í sandinum þar í kring. Öskubryggjan var við sjóinn við norðurenda Túngötu, og þangað var sorpi bæjarins sturtað fram af. Meðal annars sorpi frá hernámsmönnum á stríðsárunum frá árinu 1941 +/- þar til þeir yfirgáfu Siglufjörð.
Í nefndu rusli fundum við krakkarnir of hina furðulegustu hluti, allt frá einseyringum til verðmætra hringa og kvenmensskrauts og fleira, þegar fjaraði og sjórinn hafði skolað óhreinundum burt.
Leikur sem og aðallega var leikinn á haustin, vetur og vor. Það er þegar öldur höfðu minnkað við Hvanneyrarkrók. Ávalt eftir brim við fjöruna, safnaðist þar mikið af þaragróðri, meðala annars þarastönglum. Þessa stöngla kepptust strákarnir við að finna sem sverasta og skora síðan á einhvern í hópnum til einvígis sem féllst í því að áskorandinn lagði sinn þarastöngul á stein og bauð mótherja að berja einu höggi á sinn.
Síðan barði áskorandinn af öllu afli á stöngul hins og reyndi að höggva/merja stöngul hans í sundur. Þannig gengu höggin til skiptis þar til annar hvor haus stönglanna brotnaði af og sá er þann stöngul átti, tapaði einvíginu. Þarastönglana tálguðum við með vasahnífum okkar, sem nánast allir áttu, allt frá 10 ára aldri.
Þessi leikur var kallaðr Þarabardagi. Stundum tóku stelpur þátt í þessum leik, stelpur sem áttu það til að skora og sigra strákana.
Skotið af boga
Einn var sá leikur sem nokkrir guttar í Villimannahferfinu stunduðu. Það var bogfimi.
Oftast var efnið sem notað var sviga gjarðir, gjarðir sem notaðar voru hér áður fyrr sem gjarðir utan um síldartunnur, og mátti finna í sumum síldar bröggunum þó svo að fyrir löngu hefði verið hætt að nota þær og málm gjarðir komnar í staðinn. Við losuðum um festingarnar, þannig að við gátum teygt úr þeim.
Efnið virtist vera unnið úr trjágreinum. Ég hafði séð í bíó að "villimenn" réttu úr trjágreinum með því að hita yfir eldi, og það tókst nokkuð vel og síðan fundið sterkt seglgarn sem strengir.
Ég eignaðist síðan "alvöru" boga úr eyk sem Sveinn Ásmundsson (Sveinn og Gísli) sagaði fyrir mig og hannaði gróft og ég síðan tálgaði, hann til og pússaði, og bar á viðarolíu. Flottur bogi og guttarnir voru í röðum til að fá að prófa.
Hann gaf mér einnig og sagaði efnivið í flottar pílur. Allir guttar á aldrinum frá 10 ára áttu á þessum tíma, vasahnífa og þeir sem gerðust skátar frá 12 ára aldri, voru nánast skyldaðir til að eiga skeiðarhníf í hulstri, við belti samhlið skáta búninginum.
Sveinn var einstaklega barngóður.
Þarna er ég (sk) að munda sviga boga mínum
Shell bryggjan í bakgrunni
Ljósmyndarinn er einhver af guttunum, með kassamyndavél móður minnar, en ég fékk nokkuð oft vél henna lánaða ásamt sex mynda filmu (6x9) sem hún svo framkallaði sjálf, ásamt myndunum.
Sjósund, busl og byssuleikir.
Hvanneyrarkrókur var vinsæll og komu krakkar víða að, þó lítið frá Suðurbænum, þar sem Eyrarnarnar voru aðal bursl staður þeirra og leiksvæði, þangað fórum við einnig oft til að busla í nánast heitum sandinum og sjó þegar sól og hiti var.
Fáir krakkar voru syntir, þar á meðal ég sem ekki kunni að synda. Ekki man ég hvenær eða hvers vegna að hópur barnaskóla krakka var sendur á sundnámskeið til Ólafjarðar 1948-1949 ekki viss um ártalið, en (12-14 ára minnir mig) Sundlaug Siglufjarðar mun hafa verið lokuð vegna undirbúnings framkvæmd, eða Framkvæmdir við laugina. Ekki man ég hverju sætti að ég var ekki sendur, til Ólafsfjarðar, em minn bekkur, þar á meðal skólabróðir minn Valbjörn Þorláksson. Þetta hefur væntanlega verið um vorið, því þegar hópurinn kom til baka þá fór Valbjörn að kenna mér sundtökin við Hvanneyrarkrók. Ég var mjög fljótur að ná tökum á sund tökunum. Síðar þetta vor, fórum við stökkva fram af Shellbryggjunni.
En bryggju planið var um 6 metrar yfir sjávarmáli, og enn síðar sama vor fórum við að kafa til botns. Og þar á meðal að sækja stein, eða eitthvað til að sanna að náð hafi verið til botns. Einu sinni kom Valbjörn með marhnút upp á yfirborði, "sem þótti saga til næst bæjar" en margir krakkar fylgdust oft með okkur, þegar stokkið var, synt til lands og hlaupið aftur fram á bryggjuenda og stokkið aftur (enginn stigi var til að klifra upp á bryggjuna)
Síðan fórum við að synda frá skerjunu út með Strönd og þar innan um þara og fiska, þorska, rauðmaga og steinbíta sem voru grimmir og gaman að ergja þá með þarastönglum. Það skal tekið fram að við fórum aldrei í þessi sund, nema þegar var hlýtt í veðri og sólskin til að ylja okkur og þurrka. Þetta eru horfin ævintýri.
Eitt leikja ævintýrið, hjá okkur Valbyrni skapaðist eftir að frændi minn Hannes Garðarsson (Hannes boy) gaf mér eindkota riffil, en ég hafði oft farið með honum á Svaninum SI á fuglaveiðar í minni Siglufjarðar og stunu vestur með ströndinni.
Við Valbjörn vorum báðir orðnir nokkuð góðar skyttur, raunar mjög góðar skyttur. Æfingasvæðið var yfirleitt á einu af skerjunum út með Ströndinni og fór fram þannig að svamp boltum var kastað eins langt og hver gat, ég skaut á boltann sem Valbjörn kastaði og öfugt.
En þessir boltar fengust hjá Gesti Fanndal, voru á stærð við tennisbolta, nokkuð þungur og flutu á sjónum með um 2 þriðju undir yfirborði. Svo var skotið til skiptis á boltana ég á bolta Valbjörns og öfugt. Stundum hittum við ekki, eins og við mátti búast, eftir hverja kúlu sem sem hitti, þá sökk boltinn aðeins, eða þar til annar boltinn sökk eftir mismargar kúlur sem til þurfti, en stundum, gerðum við ráð fyrir að kúla hefði aðeins strokist við boltann. Og sá sigraði sem fyrr náði að sökkva fyrst, og síðan var haldið áfram þar til boltinn var sokkinn. Það tókst ekki alltaf, þar sem að í hver sinn sem kúla festist í boltunum, þá færðust boltarnir fjæa landi.
Skíðastökk.
Ég hafði mikinn áhuga á skíðastökki og var í hópi Bakka guttanna og fleiri, sem í einhver ár hlóðu skíðastökkpall á svæðinu þar sem Skálarhlíð er núna. Ég held að aldrei hafi farið fram mælingar á stökkgetunni, hvað þá keppni. Þetta var áhugasamur leikur og ekkert annað. En þessi hluti ævintýra hjá mér, var bæði óvæntur og skyndilegur. Við nokkrir yngri guttunum höfðu unnið við að hlaða "stökkpallinn" enginn af eldri krökkunum 15-16 ár, ég ef ég man rét, ekki nema 11 ára, næst yngstur í hópnum. Ég var hvattur til að fara fyrstu ferðina, sem hófst um svæðið neðan við Hólaveg. Ég var í splunku nýrri úlpu með hettu, sem mamma hafði saumað, en það var hríðarhraglandi og smá gola svo hettan var uppi.
Ég lagði af stað, sennilega hugsað til Helga Sveins skíðastökkvara á leiðinni niður á mikilli ferð, spinnti að öllum krafti og flaug.............. Meira mundi ég ekki, í bili. Ég mun hafa lent á réttum kili runnið á skíðunum nánast alveg niður að Hvanneyrarbrautinni sunnan við Sjújrhúsið (gamla) þar lognaðist ég út af og vaknað eftir eina eða tvær mínútur sögðu krakkarnir sem voru stumra yfir mér.
Ég var furðu fljótur að átta átta mig á að eitthvað skrítið hefði skeð, ekki síst vegna þess að það fór að renna blóð niður á enni mitt. Og í sömu andráa kom hjúkrunarkona að okkur, en einhver krakkanna hafði sótt hana og svo kom læknir.
Það sem skeði í raun, var að stökkpallurinn vísaði of mikið upp á við og ég flaug því hátt upp í loftið, og svo hagaði til að auki að rafmagnslínur sem tengdar voru við húsið sem Ásgeir Bjarnason bjó í og í beinni línu til Sjúkrahússins, varð á flugi mínu augnabliks viðkomustaður og hettan á úlpu minni festist á samskeitum á einni línunni og rifnaði af úlpunni og straukst um leið við kollinn á mér. Ekki alvarlegt né mikið sár, en læknirinn hreinsaði sárið rakaði í hring og skellti á plástri. Engin eftirköst urðu eftir þetta stökk, önnur en þau að ég fór ekki á skíði aftur, fyrr en mörgum áratugum seinna, þá til að keppa eins og allir Siglfirðingar í skíðagöngu í Norrænu skíðagöngunni, sem við Siglfirðinga unnum glæsilega á Íslandi. En flest öll sveitarfélög og norrænu þjóðirnar tóku þátt.
Einnig voru fjallgöngur algengar hjá bæði stelpum og strákum og ekki má gleyma ferðum okkar frá Öldubrjót alla leið til syðstu bryggju, eingöngu með því að koma við á snurpunótabátum síldarbátana sjálfa .
Við notuðum bambus stöng með krók á, til að draga að okkur nótabátana og og stjaka í þann næsta. Stundum tókum við áhættu og töldum okkur geta stokkið á milli en lentum í sjónum, sumir voru syntir og sumir ekki, ég þar á meðal.
En bambus stöngin var ávalt tilbúin að redda öllum sem í sjóinn duttu, en ávalt vorum við í hóp ekki færri en fimm og vorum sem ein heild.
Þessir leikir fóru aðeins fram þegar landlegur voru og höfnin full ag síldveiðibátum. Ekki tókst okkur alltaf að komast á leiðarenda, stundu athuguðum við leiðin frá landi, áður en lagt var í hann eða lentum í stoppi. Það skeði þegar stór flutningaskip voru við Hafnarbryggjuna, en ekki mátti far upp á bryggjurnar.
Minnisbrot - Æskuárin - Handskrifaðar minningar frá dagbók (stílabók, fyrir löngu, löngu síðar. rakst á þetta niðri í geymslu)
Ég er sonur hjónanna Valborgar Steingrímsdóttur og Kristins Guðmundssonar útvarpsvirkja og sýningarstjóra. Móðir mín Valborg var dóttir Steingríms Stefássonar bónda frá Þverá í Öxnadal og konu hans Guðný Jóhannsdóttur og faðir minn var sonur Guðmundar frá Helgustöðum sem um nokkurra ára skeið var lögregluþjónn á Siglufirði, og Friðbjörgu Hannesdóttur frá Siglufirði.
Ég fæddist árið 1934 í húsi nr. 52b við Hvanneyrarbraut (nú Mjóstræti 1) á Siglufirði en hús þetta er tvílyft steinhús sem faðir minn byggði árið 1933, þá tæplega tvítugur.
Ekki man ég sjálfur eftir mörgum atvikum fram að 8-10 ára aldri en af frásögnum bæði móður minnar og fleiri þá mun ég hafa verið frekar baldinn unglingur, það er mikill prakkari og hrekkjalómur allt frá því að hafa haft þroska til að hugsa sjálfstætt.
Sem betur fer mun ég ekki hafa verið það sem kallað hefur verið illgjarn, það er ég vildi engan meiða og eða skemma fyrir náunganum en færði þó ýmislegt úr skorðum, fór með hjólbörur Sumarliða yfir á lóð Guðmundar og þá gjarnan í felur og fylgdist með þegar Sumarliði saknaði hjólbörurnar og fór að leita og fann þær svo hjá nágrannanum sem og var skammaður fyrir að hafa tekið börurnar í leyfisleysi og endaði með hávaða rifrildi, en þessum nágrönnum var ekkert of gott til vina fyrir, og bætti þessi hrekkur ekki ástandið.
Fleira álíka stundaði ég oft einn en einnig líka með félögum.
Ég var annálaður og þekktur sem hrekkjalómur, því stundum þegar vel tókst til, þá átti ég sjálfur erfitt með að segja ekki vinum frá og þeir síðan öðrum vinum og jafnvel foreldrum, enda var mér nánast kennt um allt sem aflaga fór í nágrenninu. (í villimannahverfinu)
Sumir nágrannar urðu oftar fyrir barðinu á mér og félögum en aðrir, en þó voru tvö heimili sem aldrei urðu fyrir hrekkjum, það er það var ekkert gaman að hrekkja þetta fólk, einfaldlega vegna þess að það brást ekki reitt við, eða elti okkur út í myrkrið eins og sumir reyndu og jafnvel börðu okkur ef þeir náðu okkur, það var gaman þegar við sluppum, en fyrir kom að við fórum grenjandi heim eftir hafa verið skammaðir og jafnvel slegnir og sparkað í okkur.
Þessir tveir nágrannar okkar sem við hættum fljótlega við að hrekkja, notuðu tækifærið, kannski einum eða tveim dögum seinna og kölluðu okkur til sín með góðvild gáfu okkur kleinu eða smáköku og báðu okkur einfaldlega um að hrekkja sig ekki, það nægði.
Þetta fólk var Ingibjörg Pálsdóttir og maður hennar Páll Ásgrímsson og Árni Kristinsson og Guðbjörg Kristinsdóttir ljósmóðir.
Þegar stórir hrekkir voru framkvæmdir voru þeir vandlega undirbúnir, eins og einn af þeim minnisstæðustu, en það var hefnd eftir að ég hafði verið barinn með kústskafti af fullorðnum karlmanni sem taldi mig hafa brotið fyrir syni hans leikfangabíl, ég var þá ekki nema 9 ára og var með þrjá áberandi marbletti eða för eftir kústskaftið sem hann beitti á mig þegar ég var að reyna að komast undan honum þegar hann hljóp að mér skammt frá húsi hans en hann kom froðufellandi og öskrandi í átt til mín og ég rauk á flótta.
Ég fór auðvitað heim grenjandi en vildi þó ekki segja mömmu strax hvað hefði skeð, gerði það 2 dögum seinna en bað hana að gera ekkert í málinu sem og hún tók tillit til.
Það var um viku eftir atburðinn að tækifærið kom, ég og leikfélagi minn og tveimur árum eldri, Indriði Helgason Einarsson vorum að leik niður í fjörunni við Hvanneyrarkrók rétt fyrir kvöldmat, þetta var um haust og komið myrkur. Félaga mínum varð brátt í brók og gerði þarfir sínar í fjörusandinn, við það tækifæri framkallaðist þvílík ligt að við lá að ég hlypi burt, en fékk þá skyndilega hugmynd sem var framkvæmd þá um kvöldið.
En fyrst var “niðurgangi” félaga míns komið fyrir í dós sem var í fjörunni, hrært aðeins og þynnt með sjó, við stóðum auðvitað hlés í golunni til að forðast lyktina, þá fundum við lítinn bakka sem við gerðum 2 göt í hornin öðrum megin, settum í þau spotta og settum síðan allt til hliðar og fórum heim í mat.
Báðir sögðum við mæðrum okkar að við værum hálf slappir og ætluðum ekkert út eftir kvöldmat, en á þeim árum var það talin hefð áður en skólar byrjuðu að fá að vera úti svona til klukkan 9-10 á kvöldin. Ég var kominn í rúmið rétt fyrir 9 og sagði mömmu að ég væri farinn að sofa, hún kyssti mig góða nótt og breiddi yfir mig sængina og lokaði herberginu mínu. En strax á eftir var ég kominn á fætur aftur, út um gluggann og fór huldu höfði sem leið lá niður í fjöru, stuttu síðar kom félagi minn.
Við læddumst yfir götuna og að húsi sem hét Ásgeirsbraggi (við Túngötu) og þar bjuggu 8 fjölskyldur, þar á meðal “kústskaft” maðurinn fyrrnefndi í einni af fjórum íbúðum neðri hæðar.
Ég hélt á sósunni vellyktandi hafði verið komið fyrir í bakkanum en Gói (svo var vinur minn kallaður) hélt á litlum kassa og varlega var bakkanum annars vegar komið fyrir á handfangi hurðarinnar og hins vegar látinn hanga í spottunum sem flestir voru í krók ofarlega á hurðinni sem notaður hafði verið til að halda hurðinni opinni að hluta.
Ég stóð á kassanum við þetta verk og tókst að koma þessu fyrir eins og til var ætlast án þess að nokkur sæi til og eða að húseigandi yrði þess var, en taugarnar voru spenntar upp á það ýtrasta, ég vissi að gólfið innandyra var um 15-20 sentimetrum fyrir neðan dyraþröskuldinn og vonaðist ég til að sósan slettist yfir þann sem opnaði.
Gói sem stóð hjá mér allan tímann og átti að taka kassann og bera hann burt en það klikkaði og setti hann kassann frá sér um 2 metra frá hurðinni og við hlupum eins og fætur toguðu burt og niður í fjöru aftur og biðum og tókum ekki augun af dyrunum.
Ekki veit ég hve lengi var beðið en ég gafst upp á biðinni og ákvað að fara og banka og hlaupa svo sem og ég gerði.
Litlu munaði að illa færi því ég var ekki kominn nema hálfa leið af um 60-70 metum þegar ég heyrði skaðræðis angistarvein síðan ógurlegt bölv og hróp “Nú drep ég þig helvítis ormurinn” ég áttaði mig á að karlinn hafði séð mig og gæti náð mér svo ég breytti um stefnu í áttina í suður og niður fyrir húsin út í myrkrið enn heyrði ég öskur en nú sársauka öskur.
Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að líta við til að athuga hvað olli eða til að gá hvort karlinn væri að nálgast mig, nema ég stoppaði ekki fyrr en heima við glugga, klifraði inn, háttaði mig og fór undir sæng. Það hafa ekki liðið margar mínútur þegar bankað var á útidyrnar með miklum látum. Mamma sem sat inni í eldhúsi og var að lesa fór í flýti til dyra þá var þar kominn karlinn alblóðugur í andliti og á höndum froðufellandi og angaði af sósunni góðu, lýsingar mömmu síðar voru alveg stórkostlegar en hún hafði í fyrstu orðið hrædd við karlinn og vissi ekki hvað gengi á.
Karlinn öskraði “Hvar er strákkvikindið ? Ég skal sko kenna honum mannasiði þegar ég næ í hann. Og svo fer að segja mömmu hvað ég hafi gert, ég heyrði auðvitað greinilega hvað fór á milli og breiddi upp fyrir höfuð af hræðslu. Ætli karlinn hafi þekkt mig í myrkrinu? Mamma opnaði herbergisdyrnar og sagði við karlinn sem elti hana, að ég hefði ekki farið út eftir kvöldmat og hefði háttað snemma, ég róaðist og gægðist undan sænginni og spurði í sakleysi. Er eitthvað að? Og bætti svo við. Hvaða lykt er þetta ? það varð fátt um svör en karlinn rauk á dyr án þess að segja meir eða kveðja.
Það leið rúm vika þar til ég þorði að segja mömmu frá hvað raunverulega hefði gerst.
En Gói sagði mér að þegar karlinn hefði opnað dyrnar heima hjá sér með látum þá hefði gusast út af bakkanum ekki aðeins á bringu hans og maga heldur einnig framan í hann, öskrin hefðu verið ægileg og hann hefði hlaupið á eftir mér hann hefði ætlað að taka til fótanna líka en hætti við þegar ég breytti um stefnu, karlinn rak lappirnar í kassann og datt kylliflatur og meiddi hann sig greinilega því eftirförin hætti á meðan hann var að jafna sig. Síðan læddist Gói heim til sín og kom sér upp í rúm og breiddi upp fyrir haus.
Fyrst skammaði mamma mig, en eftir smá stund gat hún ekki gert af því hún skellti upp úr, og þegar hún sagði pabba sem hafði verið að sýna bíó eins öll kvöld, þá sagði hann að þetta hefði verið mátulegt á karlinn fyrir að berja mig með kústskaftinu forðum, en bætti við að svona óþverra mætti ég aldrei oftar gera.
Aldrei komst upp um okkur því við þögðum þunnu hljóði af ótta við að karlinn tæki til örþrifa ráða gagnvart okkur síða, Gói sagði td. ekki einu sinni foreldrum sínum frá þessu frekar en við vinum okkar. En sagan spurðist þó út, því heimsókn karlsins til mömmu komst fljót á allra varir og að sjálfsögðu var ekki þagað yfir þeim þætti sem karlinn sagði mömmu og eins og gengur jókst alltaf við söguna í meðförum “kjafta" kerlinganna, OG karla” en alltaf karlinum með prikið, til ama.
Það var með mig eins og aðra krakka á þessum tímum, ekkert sjónvarp né vídeó, að allskonar leikir voru allsráðandi þar voru boltaleikirnir vinsælastir og voru oft bæði krakkar unglingar og fullorðnir saman í “Slábolta” sem er skyldur hafnarbolta og þá var “Yfir” vinsæll boltaleikur, þe. skipt var í tvö lið, bolta var kastað yfir hús og ef tókst að grípa boltann mátti hlaupa yfir að hinni hliðinni og reyna að hitta einhvern andstæðinginn með boltanum og fjölga þar með í sínu liði osfv.
Þá var líka apað eftir ævintýrunum í bíómyndunum eins og til dæmis Tarzan stundum fengum við smá skrámur í hita leiksins sem alltaf endaði þó í góðu og var oft endurtekin við jafn mikla ánægju.
Í einu slíku ævintýrinu þá lék ég Tarzan og einhver stelpnanna Jane, mig minnir Anna Kalla, Sveinn Björnsson lék villimanna höfðingja sem rændi Jane og Tarzan var á leið til að bjarga henni úr klóm villimannana, það hafði ýmislegt komið upp á fyrr í leiknum sem var fjörugur og skemmtilegur. Við vorum auðvitað útbúin með spjót, boga og örvar og tréhnífum sem þó var aldrei beitt í alvöru, heldur með látbragði og stundum var þó spjóti kastað í jörðina rétt hjá “andstæðingi” og átti viðkomandi þá annað hvort að sýnast særður eða dauður, allt eftir hvort viðkomandi var þreyttur af látunum eða ekki og stuttu síðar lifnaði viðkomandi við og tók þátt í leiknum aftur.
Í einum leiknum þar sem ég lék Tarzan vildi svo slysalega til að villimanna höfðinginn kastaði spjóti of hátt og lenti í andliti mínu sem á augnabliki varð alblóðugt af sári sem skapaðist í augnakrók mínum, ég var með ullarvettlinga á höndum (þetta var um haust, kalt úti og myrkur) ég hætti að sjá fyrir blóði sem rann úr mér og því sem vettlingur minn dreifði um andlit mitt.
Allt datt í dúnalogn og svo fóru stelpurnar að gráta, ég hélt þó ró minni og bað strákana að hjálpa mér heim því ég sæi ekkert.
Ég fann og heyrði að Sveinn tók þar forustuna þó hann væri hálf skælandi (við vorum um 8-10 ára þegar þetta skeði) Þegar heim í forstofu var komið þreifaði ég fyrir mér (og málaði dyr og veggi með blóðugum vettlingunum) og kallaði á mömmu sem var ekki heima, hún hafði skroppið í næsta hús.
Sveinn sagði einhverjum að leita að mömmu en sagði að við skyldum hlaupa upp á spítala sem var í 300-400 metra fjarlægð og það gerðum við. Sveinn og einhver annar sem ég veit ekki hver var hlupu með mig á milli sín og með hrópum og köllum þegar inn á spítalann kom fengum við fljóta afgreiðslu fyrst hjá Elísabetu hjúkrunarkonu og síðar hjá lækninum sem saumaði nokkur spor í augnkrókinn. Mikið hafði blætt úr mér en aldrei fann ég neitt til, ekki heldur á meðan læknirinn saumaði mig.
Þegar hann var að ljúka við saumaskapinn kom mamma alveg í öngum sínum, því lýsing krakkanna á atvikinu svo og alblóðug forstofan gáfu henni ekki miklar vonir um að allt væri í lagi. Ég reyndi að hughreysta mömmu síða, þó svo ég væri að verða þreklítill vegna blóðmissis, en læknirinn var búinn að segja mér að allt væri í lagi með augað, þó svo að á því augnabliki sæi ég ekkert með hægra auga og allt í móðu með hinu.
Allt fór þetta vel og ekki liðu margir dagar þangað til sami hópurinn var farinn að leika Tarzan og villimennina af sama fjöri en örlítið meiri varkárni.
Einn þáttur í leik og prakkara gangi var að hrekkja og stríða stelpunum, eitt sinn plötuðum við Önnu Kalla inn í reykhús eða skúr, hún var stödd í efri hluta skúrsins sem var um meter á kant en tvær hæðir með grind á milli til að reykurinn ætti greiða leið til kjötsins sem bæði var hengt upp og lagt á grindina í efri hlutanum, en torf og tað glóðin var staðsett í neðri hlutanum.
Reykhúsið var ekki í notkun þegar þetta átti sér stað, en Anna var frekar róleg að eðlisfari og létt innilokunina ekki angra sig hún vissi sem var að við myndum aldrei skilja hana lengi eftir.
Þessi þolinmæði hennar pirraði okkur strákana nokkuð og ég tók mig til, fór inn í neðri hlutann og pikkaði með priki upp í myrkrið fyrir ofan (það var kvöld) og ekki bærði hún á sér, en allt í einu rak ég upp öskur og flýtti mér út og hinir krakkarnir skellihlógu. Hún hafði migið yfir mig og hún hitti vel því ég fékk gusuna beint í andlitið.
Ég opnaði dyrnar fyrir Önnu og sagði henni að hún hefði unnið þessa lotu og fór ég síðan heim til að þvo mér.
Ég varð lengi skotinn í Önnu eftir þessa meðferð á mér, mér fannst hún hafa sýnt klókindi. Við Anna erum enn mjög góðir vinir þó svo við höfum lítið samband haft á fullorðins árunum, en hún flutti snemma suður á land.
Eitt er mér minnisstætt, það sem mér hafði verið sagt, og mundi sumt nánast eins og það hefði skeð í gær. Það var mikið, mjög mikið einelti sem ég fékk að þola. Alls ekki frá þeim krökkum í "Villimannahverfinu" sem þessi hópur og stærri eining á svæðinu.
Heldur hófst er ég byrjaði í Barnaskólanum, þá 7 ára. Ég var mjög blæstur í máli og krakkar áttu oft erfitt með að skilja hvað ég sagði, en lærðu þó flest að skilja mig, en þegar í skólann var komið fékk ég allskonar ónot, heimskur, og kynni ekki að tala og fleira.
Ég var fluglæs er ég kom í skólann, en að lesa upphátt gat ég ekki með þeim hraða sem virtist á þeim tíma vera áherslan við íslenskukennslu, það er að prófin byggðu á því hve mörg atkvæði krakkarnir gætu lesið á mínútu, jafnvel þó framburður og skilningur væri ekki settur í forgang. Þar var ég ekki metinn mikils og við það hófst eineltið. Þeir voru í fyrstu nokkrir í mínum B-bekk en ég var færður fljótlega yfir frá krökkunum í A-bekk. "Tossarnir" voru settir í B-bekk og þótti niðurlægjandi. Eineltið jókst frá eldri krakkahópnum, nánast eingöngu strákar, en stelpur fylgdust með, sem og fleiri krakkar, en sem betur var, voru fáir. Fyrst sneri ég mér undan og reyndi að forða mér.
Stundu tókst það, en svo fóru krakkar að hnippa í mig og hrinda. Sem endað með að fór að berjast á móti og fyrir kom að sumir fengu slæma blóðnasir og hlupu grenjandi til kennara eða skólastjóra og klöguðu mig. Ég tekinn í gegn, hundskammaður, ég ekki einu sinni spurður um hvort ég væru sekur, þar sem "vitnin" voru svo mörg. Þá fóru eineltingarnir að vera tveir jafnvel þrír sama, en ég lét það ekki á mig fá og sló frá mér á báða bóga, fyrir kom að ég hafði betur og einhver með blóðnasir og skæl og ég hengdur af skólastjóra, látinn dúsa úti í horni í skammarkrók, eða rekinn heim og klagaður þangað.
En oftar en ekki, þá ég blár, marinn og blóðugur á Skólabalanum.
Í þau skipti fór ég heim og faldi mig, ekki grenjandi en hugsaði margt. Mamma fékk að vita um slagsmálin, þar sem ég var ávalt sá seki, eftir að skólastjórinn hafði hringt í hana og sagt henni að hún yrði gera eitthvað í þessum vandræðum með mig, annars yrði að reka mig úr skólanum. Mín huggun, var sú að mamma trúði mér, en ekki hinir meintu vitnum sem höfðu sagt skólastjóra frá, ég var aldrei spurður af kennara eða skólastjóranum Friðrik Hjartar.
Ekki man ég nákvæmlega, hvenær þessi eineltismál hvað mig varða lauk, en það var þegar Hlöðver Sigurðsson gerðist skólastjóri.
Hann hafði hlustað á frásagnir kennara og "vitnanna" sem komu að málunum. Þegar því hvar lokið, var ég kallaður til hans og ég spurður. Sennilega hefur hann í fyrstu, vart trúað mér, en svo fór hann að spyrja um fyrri atvik, sem honum hafð verið sagt frá um hina neikvæðu hegðun mína, þá sá ég að hann var farinn að trúa mér.
Ég heyrði utan að mér að hann hefði kallað einhverja kennara á sinn fund, hvað þar fór fram, þá fór fram umræða af hálfu allra kennara í skólanum í bekkjunum hvað einelti gæti orðið alvarlegt.
Hvort Hlöðver hafði gefið einhver fyrirmæli í þessa fyrirlestri, veit ég ekki með vissu, en ég gruna sterklega. --
Enginn á skólatíma lagði mig í einelti eftir þetta, en hvarf þó ekki alveg með aðra krakka, sem stundum leituðu skjóls hjá mér ef ég var nærri.
Sumir, sérstaklega þeir eldri sem sem áður höfðu haft sig í frammi og ég fengið tækifæri til að lumbra á, náð á þá góðu höggi, gátu ekki stillt sig um að "láta ljós sitt skína" er þeir mættu mér utan skólatíma, tveir eða þrír saman.
Og oft fékk ég glóðarauga og mar, og sumir þeirra einnig. Ég man vel eftir nöfnum þeirra, en læt vera að vera að nefna þau.