MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 5. JÚLÍ 1070 -Bjarni Jóhannsson Minning.
Bjarni Jóhannsson f. 10 október 1910 - d. 28. júní 1970
Þegar ég í fjarlægð frétti hið sviplega fráfall Bjarna Jóhannssonar útsölustjóra, komu mér fyrst í hug orðin: Óhamingju Íslands verður allt að vopni.
Það var Siglufjörður er fyrst kom í huga minn og þeir miklu erfiðleikar, sem Siglfirðingar hafa orðið að glíma við á síðustu árum. Mér fannst, eins og þeim, er um hafði tilvitnuð orð um Ísland, að „óhamingja" Siglufjarðar hefði þegar fengið næg vopn, þótt ekki bættist við, að burtu væri svipt, fyrir aldur fram, þeim úr framvarðarsveit í vörn og sókn Siglufjarðar, sem enn stóðu þar báðum fótum; ódeigur, bjartsýnn og úrræðagóður á hverju sem gekk.
En því skyldi svo mælt á tungu tilfinninganna. Hafði ekki Bjarni Jóhannsson með störfum sínum hér í Siglufirði, um 35 ára skeið, lagt það mikið af mörkum fyrir samborgara og bæjarfélag, að aðrir höfðu ekki betur að unnið, og meira var en mátti krefjast.
Jú, rótt er það, en þörfin er svo mikil og mannvalið svo fátt, af mönnum eins og Bjarna, að erfitt er að sætta sig við mannskaðann á skjótan hátt.
En sízt myndi það að skapi Bjarna vinar míns að sýta og kvarta, heldur safna liði og starfa, því merkið stendur þótt maðurinn falli, og lífið heldur sinn gang.
Bjarni Jóhannsson
Ljósmynd: Steingrímur
Og svo mundi Bjarna bezt þakkað, að þeir, sem nú taka við störfum hans, á hvaða vettvangi sem er, störfuðu að þeim með réttsýni, bjartsýni og dugnaði Bjarna, sem öllu vildi til vegs koma, er mátti verða samborgurunum og Siglufirði til framdráttar. Ég mun ekki hér rekja ætt Bjarna, æviferil eða einstök störf. Það mun gert á öðrum vettvangi, sem verðugt er. Þessi fáu orð eru aðeins kveðja mín og annarra samherja Bjarna hér í Siglufirði.
Konu Bjarna, Guðlaug Þorgilsdóttir, þakka ég hennar góða hlut í störfum manns hennar og stuðning við hin mörgu góðu málefni, er hún lagði mikið að. Eg bið henni, fjölskyldu þeirra Bjarna, svo og öllu ættfólki, Guðs blessunar. Jóhann Þorvaldsson
BJARNI JÓHANNSSON ÚTSÖLUSTJÓRI, SIGLUFIRÐI
Þegar við Bjarni Jóhannsson lögðum af stað frá Akureyri laugardaginn 27. júní s.l. áleiðis til Siglufjarðar, vorum við sammála um, að nú loks væri sumarið komið. Við vorum léttir í lundu, rifjuðum upp gamalt og nýtt Sólin vermdi allt og alla, og svo virtist, sem við sæjum grös gróa, er við ókum um sveitir. Starfandi hendur, börn að leik, tvö í túni eða fleiri saman.
Fyrr en varði vorum við í Öxnadal. Við ræddum um Jónas, ljóð hans og líf, fráfall hans d Kaupmannahöfn og hið sviplega fráfall föður hans og áhrif þess atburðar á æsku Jónasar. Oft á ferðalögum, sem þessum, tókum við Bjarni lagið, höfðum yfir ferskeytlur, sögðum gamansögur, létum hugann reika til liðinna atburða og ræddum framtíðina.
Þessi ferð var ekki frábrugðin okkar fyrri ferðum og samfundum og fyrr en varð blasti við Skagafjöður. Haldið var til Sauðárkróks og síðla sama dags til Fljóta, þar sem Bjarni Jóhannsson hafði byggt sér og fjölskyldu sinni fagran sumarbústað við Miklavatn. Sjaldan höfðum við keyrt þessa leið í fegurra aftanskini og höfðum orð á því, og ég hugsaði sem svo: Það hefur verið á slíku norðlensku kvöldi, sem Hannes Pétursson orti sitt gullfallega kvæði „Sumarnótt í Skagafirði“.:
· Gullbúinn himinvagn kvöldsins er horfinn við eyjar í þögul grunn.
Fjörðurinn lognblár og landið lögst til værðar með munn við munn.
Hestar að nasla á votum völlum.
Vinnulúnir menn sofa í ró, fá heilnæma hvíld, undir herðabreiðum fjöllum.
Í sumarbústaðnum beið eiginkona Bjarna, frú Guðlaug Þorgils dóttir og dóttir þeirra Jóhanna, sem stundar nám í Kennaraskóla íslands, en sonurinn, Hlöður Freyr, er starfandi læknir í Svíþjóð. Það urðu fagnaðarfundir, því Bjarni Jóhannsson hafði verið starfandi á Akureyri um nokkurn tíma Hann skrapp aðeins heim til að njóta hvíldar og fylgjast með hag fjölskyldunnar. Leiðir skildu upp úr miðnætti. Miðnætursólin litaði hafflötinn og umhverfið allt. Ég hélt til Siglufjarðar og hlakkaði til að sjá sólaruppkomuna þar næsta morgun.
Bjarni Jóhannsson gekk til hvíldar í sumarhúsi sinu. Það duldist engum, er til þekktu, að einmitt þessi staður — þetta hús — var hans „jörð“ — hans helgidómur. Hann reis árla úr rekkju sunnudaginn 28. júní — átti veiðidag í Fljótá — og naut sín þar fram að hádegi. Hann var náttúrubarn og veiðikló og hafði unun af að tala um lax og laxveiðar — eldisstöðvar — göngur og seiði — flugur — og ferðalög.
Um nón var hann kominn út í Siglufjörð. Allmargir vinir hans og samherjar voru samankomnir á fundi, er hann stjórnaði. Þar var skipst á skoðunum Meðal ræðumanna var fundarstjórinn, en hann var ræðumaður góður. Hvorki ég né aðrir viðstaddir gleyma þessari síðustu ræðu hans. Hún var eins konar skilnaðar- og þakkarræða, en Bjarni Jóhannsson hafði nýlega hætt störfum í bæjarstjórn Siglufjarðar samkvæmt eigin ósk, en á þeim vettvangi hafði hann unnið giftudrjúg störf fyrir Siglufjörð í meir en ára tug.
Hann þakkaði ekki einvörðungu samherjum sínum stuðning og vinsemd, heldur einnig öllum þeim, sem með honum höfðu unnið að bæjar- og félagsmálum innan bæjarstjórnar og utan. Hann hvatti til einingar og dáðríkra starfa — til hagsbóta fyrir Siglufjarðarkaupstað og íbúa hans — en þeim stað unni hann ekki síður en Vestfjörðum, bernskuheimkynnunum. Nokkru eftir að hafa flutt ræðu sína var Bjarni Jóhannsson allur. Hann hné niður mitt í önn dagsins — meðal vina — síðustu orð hans voru þakkar- og hvatningarorð til samferðamannanna.
Allir viðstaddir drjúptu höfði sorgþrungnir, er þessi herðabreiði höfðingi og einstaki drengur var borinn úr sal. Lífsbók hans hafði skyndilega verið lokað. Á slíkri skilnaðarstund lauguðu tár hvarma og í hug minn flaug þessi gamalkunna hending: „en lofaðu engan dag fyrir sólarlags stund“.
Bjarni Jóhann Jóhannsson, en svo hét hann fullu nafni, fæddist 10. október 1910, að Lónseyri í Auðkúluhreppi, Vestur-Ísafjarðarsýslu.
Foreldrar hans voru Jóhann Jónsson, skipstjóri og bóndi á Auðkúlu í Arnarfirði og kona hans Bjarney Jónína Friðriksdóttir Jóhann skipstjóri fórst árið 1919 — frá 9 börnum, því yngsta 1 árs, þá var Bjarni á 10. ári. Óbilandi kjarkur og dugnaður húsfreyjunnar á Auðkúlu, samvinna og samfitarf elstu barnanna undir leiðsögn elsta bróðurins Jóns, nú skattstjóra á Ísafirði, leiddi til þess, að þessi stóri barnahópur, sem misst hafði svo snögglega föðurforsjá og fyrirvinnu, komst allir til manns og það svo að eftirtektarvert var og er.
Þegar þetta er ritað eru 6 systkini frá Auðkúlu á lífi, en öll áttu þau það sameiginlegt að vera dugmikið fólk og traustvekjandi, sem hefur lagt sig fram við að gera land okkar byggilegra og betra. Bjarni Jóhannsson naut ekki mikillar menntunar í æsku frekar en margir þeir, sem misstu föður sinn ungir. En hann notaði sína æskudaga vel. Stundaði sjósókn og hvers konar vinnu allt frá 10 ára aldri og notaði hverja stund til sjálfsnáms. Hann var vel heima í íslenskri sögu og las mikið kvæði og önnur verk íslenskra höfunda. Bjarni Jóhannsson fluttist til Siglufjarðar 28. júní 1934.
Ég man vel þegar þessi glæsilegi ungi maður kom fyrst heim til mín — þá nýráðinn yfirlögregluþjónn í Siglufirði — „það sópaði að honum“ eins og kallað er og ungu stúlkurnar sneru sér við og litu á eftir honum — en það var þýðingarlaust.
Hann kom heitbundinn til Siglufjarðar. Unnusta hans Guðlaug Þorgilsdóttir frá Innri-Bugð, Fróðárhreppi, Snæfellsnesi, kom nokkru síðar til Siglufjarðar og þau gengu í hjónaband 22. desember 1934.
Þeirra heimili hefur allt frá fyrsta degi verið fyrirmyndar heimili. Þar hefur verið opið hús vinum og vandamönnum og þá ekki síst Vestfirðingum. Bjarni Jóhannsson tók við vandasömu starfi 1934. Hann gegndi því með prýði til ársins 1947. Þá stofnsettu hann og frú Guðlaug sín eigin fyrirtæki, Eyrarbúðina og Köku og sælgætisgerð Siglufjarðar. ráku þau þessi fyrirtæki til ársins 1955, en þá tók Bjarni við forstöðu útibús Áfengisverslunar ríkisins á Siglufirði og gegndi hann útsölustjórastarfi til dauðadags. Hann reyndist í því, sem öðru, hinn trúi og dyggi starfsmaður, sem ekki mátti vamm sitt vita i neinu.
Á Siglufjarðarárum Bjarna Jóhannssonar hlóðust á hann margvísleg trúnaðar- og félagsmálastörf. Hann vann ötullega að félagsmálum í Starfsmannafélagi Siglufjarðar, er hann var yfirlögregluþjónn og kjörinn heiðursfélagi þess árið 1956. Hann var í fjölda ára formaður Framsóknarfélags Siglufjarðar — og formaður fulltrúaráðs þess —. Bæjarfulltrúi Framsóknarmanna í Siglufirði var hann árin 1954— 1958 og frá 1962—1970, er hann lét af bæjarfulltrúastörfum samkvæmt eigin ósk, eins og áður er getið.
Bjarni Jóhannsson átti sæti í stjórn Síldarverksmiðjunnar Rauðku og ýmsum nefndum á vegum bæjarstjórnarinnar. Hann hafði fastmótaðar skoðanir í stjórn málum og ræddi oft þessi mál — hafði unun af því, var fylginn sér í kosningum og ekki síður á milli kosninga og var laginn við að útbreiða skoðanir sínar og fá fólk til stuðnings þeim. Jafnframt því að vera ákveðinn flokksmaður var Bjarni mikill manna-sættir og kom það sér oft vel við myndun meirihluta bæjarstjórnar, því það reyndist oft erfitt verk á Siglufirði. Bjarni Jóhannsson var manna hjálpsamastur og munu fjölmargir minnast þess nú við ferðalok. Hann var bjartsýnn og hafði yfir að ráða einstöku jafnaðargeði. Glaðvær var hann jafnan. Glettinn gat hann verið og skemmti oft viðmælendum sínum með hvorutveggja, glaðværðinni og getinni. Þessi fátæklegu minningarorð hófust á frásögn af síðasta laugardeginum I júní, þau enda á að lýsa fyrsta laugardeginum i júlí.
Hann var líkur þeim næsta á undan, bjartur og fagur, en yfir Siglufirði hvíldi nú ský sorgar og saknaðar þrátt fyrir sól og sumar. Fallinn var fyrir aldur fram einn af traustustu borgurum þessa bæjar, sem fyrir viku var hress og kátur, en nú dáinn — horfinn. Bjarni Jóhannsson var kvaddur á Siglufirði síðla dags þennan laugardag. — Hvert sæti í hinni stóru kirkju var setið. Sóknarprestur flutti kveðjuorð og jarðsöng — Karlakórinn Vísir annaðist allan söng. Lögreglumenn og Frímúrara bræður stóðu heiðursvörð við kistuna og Frímúrarar báru hana úr kirkju. Þaðan og til grafar báru kistuna fulltrúar bæjarstjórnar og ýmissa félagssamtaka. Hundruð Siglfirðinga stöldruðu við kirkjugarðinum og kvöddu mætan mann. Sólin sendi geisla sína þessi augnablik yfir hauður og haf. Einstök kyrrð ríkti og Vísir kvaddi að lokum með söng. Þessir tveir laugardagar munu mér seint úr minni líða. Þeir verða í mínum huga dagar andstæðanna, hinn fyrri dagur sólaruppkomu og lífs og hinn síðari sólarlags og dauða.
Með þessum línum kveðjum við hjónin og börn okkar — fjölskylduvin. —Við sendum frú Guðlaugu — dótturinni Jóhönnu og syninum Hleði Frey, konu hans, frú Önnu Jónasdóttur, og börnum þeirra svo og öllu skylduliði Bjarna Jóhannssonar okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Jón Kjartansson