sksiglo.is | 24.07.2013 | Jón Hrólfur Baldursson |
Jón Björgvins eða Nonni Björgvins eins og flestir Siglfirðingar þekkja þennan öðlings pilt er ekki bara krúnurakaður töffari með flott Siglufjarðar-húðflúr.
Hann er líka alveg hörku ljósmyndari drengurinn. Ég kíkti við hjá honum niður í Gallerý Rauðku eða Bláa húsinu nánar tiltekið.
Nonni er að setja upp ljósmyndasýningu sem verður opin alla daga frá 12:00 - 17:00 fram til 2. ágúst.
Jón Hrólfur Baldursson
Megnið af myndunum sem hann er að sýna hafa einhverja tengingu við vatn og eins og Nonni segir sjálfur "er þemað í mörgum myndanna vatn í ýmsu formi sem brýtur ljósið og skapar skugga og merkilega liti".
Nonni segir að hann hafi fyrst fengið áhuga á ljósmyndun á Sigló fyrir mörgum árum og var Róbert Guðfinnsson hans aðal kennari og lærifaðir í ljósmynduninni.
Nonni segir að hans lífsmottó sé að lifa í núinu og hugsar um myndatökuna sjálfa út frá því.
Myndirnar eru allar alveg meiriháttar og það er greinilegt að hann hefur gott auga fyrir myndefni.
Nonni Björgvins
Það sem ég tók eftir voru hlutir sem eru til dæmis oft eða alltaf til staðar hérna á Sigló en maður hreinlega tekur ekki eftir sökum þess að þetta er einfaldlega of nálægt manni. En eins og er býr Nonni í Svíþjóð og margar myndirnar eru teknar þar.
Ég get hiklaust mælt með þessari sýningu og hver veit, hugsanlega gætirðu keypt þér flotta mynd hjá honum af "núinu" sem einu sinni var. -- JHB