mbl.is 22. janúar 1966 Minnig
Einar Eyjólfsson f. 18. okt. 1877. - D. 11. des. 1965.
LOKSINS hefur minn gamli og góði vinur Einar Eyjólfsson feng ið hvíldina góðu og líklega margþráðu.
Hann hafði háð harða og oft tvísýna baráttu við veikindi meginn hluta ævi sinnar eins og síðar mun að vikið, uns hann var kallaður til hins mikla háttatíma 88 ára að aldri.
Einar fæddist að Hvaleyri við Hafnarfjörð.
Voru foreldrar hans Eyjólfur Eyjólfsson og
Helga Einarsdóttir, ábúendur þar.
Þegar hann var á fimmta aldursári missti hann móður sína, og fór þá í fóstur til ömmu sinnar, Sigríðar, að Bakka í Garðahreppi.
Eftir fimm ára dvöl þar andaðist gamla konan, og þá fór hann til móðurbróður síns Guðmundar Einarssonar í Hafnarfirði, og ólst þar upp til 16 ára aldurs.
Í þá daga var sú venja á höfð, að láta börnin sem fyrst taka þátt í ýmsum störfum innan og utanhúss. Snemma fór Einar að gutla við sjóinn með frænda sínum, oft votur og kaldur, því verjur voru lélegar eða engar. Þegar hann var 13 ára var hann ráðinn kokkur á skútu. Í þann tíð var það háttur margra Sunnlendinga að fara á sumrin norður í land, eins og það var orðað, og ráðast í kaupavinnu hjá betri bændum þar.
Einar Eyjólfsson smiður
Ljósmyndari ókunnur
Guðmundur var einn þeirra, sem hafði þann sið.
Þegar Einar var kominn á fermingaraldur hafði Guðmundur hann með sér og réði hann sem smala á ýmsum bæjum. Síðasta ferð hans til Norðurlands var, þegar hann varð 16 ára gamall. Var hann þá ráðinn sem smali að Tindum á ásum í Húnaþingi hjá Jónasi bónda Erlendssyni.
Einar var orðið illa við smalamennskuna, enda var ævi smalanna oft ill, er þeir sátu yfir ánum votir og kaldir, og stundum hungraðir ef smalabitinn var af skornum skammti. Nú fór að votta fyrir dálítilli sjálfstæðiskennd hjá Einari og uppreisnaranda gegn frænda sínum.
Þegar að Tindum kom, tók hann til sinna ráða Og samdi við Jónas bónda um að hann losnaði við smalamennskuna og gengi að heyvinnu um sumarið. Var það auðsótt. Einnig samdi hann við Jónas, að flytja sig til Sauðárkróks að kaupavinnu lokinni, áður en frændi hans færi suður um. Því lofaði Jónas bóndi og efndi það.
Á Sauðárkróki átti Einar annan móðurbróður sem búsettur var þar, Þorvald Einarsson, er giftur var norðlenskri konu, Láru Sigfúsdóttur. Þau hjón reyndust honum sem bestu foreldrar. Þar dafnaði hann vel og náði fullum þroska.
Vorið 1896 réðst Einar vinnumaður til Guðmundar Einarssonar verzlunarstjóra L. Poppverzlunar í Hofsósi, en var um sumarið háseti á kútter Gretti, sem gerður var út á þorsk veiðar frá Sauðárkróki á vegum L. Poppverzlunar þar. Um haustið fór hann til húsbónda síns í Hofsósi. Meðan hann var þar, reri hann margar vor vertíðir til Drangeyjar, og á sumrin var hann formaður á sex rónum árabáti fyrir húsbónda sinn, er haldið var út á fiskveiðar. Þótti hann fengsæll og farsæll í öllum sínum störfum.
Um þetta leyti fór Einar að kenna til veilu fyrir brjósti, sótti að honum mæði og oft mikill hósti. Hann synti þessu lítið og leitaði ekki læknis, hefur sjálfsagt haldið, að þetta batnaði. Vorið 1905 flutti Guðmundur verslunarstjóri frá Hofsósi til Siglufjarðar og tók við Gránufélagsverslun þar. Þá fór Einar til Grafaróss, til föður míns Erlendar Pálssonar verzlunarstjóra Gránufélagsverslunar þar. Þá bjuggu meðal annars tvær mæðgur, ekkjan Rannveig Guðmundsdóttir og Eggertína Ásgerður, dóttir hennar, Guðmundsdóttir. Kynni tókust brátt með þeim mæðgum og Einari, sem enduðu þann veg, að þau heit bundust hvort öðru Einar og Eggertína, fluttu til Siglufjarðar haustið 1906, ásamt Rannveigu, og dvöldu þar næstum alla sína búskapartíð. Á Siglufirði gengu þau í hjónaband haustið 1906
Eggertína var sérlega myndarleg kona, fríð og svipmikil ásýndum, þétt á velli og þétt í lund, Hjónaband þeirra hjóna var alla tíð einkar farsælt og öðrum til fyrirmyndar. Hún var reglusöm og dugleg húsmóðir, bjó manni sínum ávallt aðlaðandi og hlýlegt heimili, og var honum traustur förunautur alla tíð. Skjótt eftir að þau komu til Siglufjarðar byggðu þau sér lítið einbýlishús sem þau síðar seldu og keyptu sér annað hús, sem reyndist hentugra til íbúðar. Á þessum árum var lítið eða ekkert um vetrarvinnu að ræða. Einari leiddist iðjuleysið.
Honum hugkvæmdist þá að læra skósmíði, en varð að hætta við það, vegna þess hve setið var lengi, og svo fylgdi skóviðgerðum í þá daga mikið ryk. Þá tók hann að sér netabætingar. Fór sú vinna fram í óupphituðu úthýsi. Þar svarf kuldinn að honum og rykmökkinn lagði upp af netunum, þegar við þeim var hreyft. Þetta hvorttveggja þoldi hann ekki, vegna brjóstveilunnar, og varð að segja þessu starfi upp. Sá hann sér ei annað fært en leita læknishjálpar, og fór suður á Vífilsstaðahæli og dvaldi þar um eitt ár.
Einhverja bót mun hann hafa fengið þar og lífsreglur eftir að fara, og með því, að veikin var ekki' talin smitandi, varð dvöl hans ekki lengri þar syðra. Alltaf mun hann hafa notað meðul til að halda veikinni í skefjum. Hann gekk því meginn hluta ævi sinnar aldrei heill til vinnu. Einar var mjög handhagur og verklaginn, og þegar hann kom heim af hælinu fór hann að stunda trésmíðar. Mun það hafa verið draumur hans í æsku að læra þá iðn, en fátæktin brugðið fæti fyrir þá ósk hans.
Hann vann í mörg ár við trésmíði hjá Goos síldarkaupmanni, sem dvaldi hér um alllangt skeið Einnig vann hann lengi hjá Siglufjarðarbæ, Slippfélaginu og víðar. Á þessum árum fékk hann trésmiða réttindi. Þegar honum fannst starfsþróttur sinn fara dvínandi, og hann ekki geta fylgst með sínum samstarfsmönnum eins og hann löngum hafði gert, dró hann sig til baka. Kom hann sér þá upp smáverkstæði í húsi sínu, og vann þar að ýmsum smíðum.
Ekki dugði að leggja árar í bát, vinnuviljinn og vinnugleðin voru enn fyrir hendi. Hann gerði við og dyttaði að ýmsu fyrir granna sína, smíðaði hjólbörur og sleða handa börnum og netanálar fyrir togarana. Sjálfum fannst honum þetta hálfger. dundurs verk, en undi þó glaður við það. Einar var ákaflega hreinn maður, drengur góður í þess orðs besta skilningi, glöggur og vandaður í fjármálum, laus við alla ágengni og hreinn og réttlátur í viðskiptum við alla, góðviljaður öllum og greiðvikinn. Hann naut lítillar fræðslu á æskuskeiði, en þegar hann fór að eiga með sig sjálfur las harm bæði bækur og blöð og aflaði sér fróðleiks á þann hátt.
Hann var glaðlyndur í vinahóp, glettinn og spaugsamur, og fróður um margt frá eldri tíð. Hann átti í fórum sínum dálitla kímnigáfu, og brá henni fyrir sig í góðu tómi. 1 vöggugjöf mun Einari hafa hlotnast vottur sjálfstæðiskenndar, sem lá fyrst í leyni með honum, en vaknaði og óx með fullorðinsárunum. Lífsskoðun Einars var í raun og veru sú, að hvert heimili ætti að vera ávallt sjálfstætt, frjálst og fullveðja, engum bundið nema löglegum þjóðfélagslegum skyldum.
Um þessa lífsskoðun hans varð aldrei neitt glamur eða orðaprjál. Hún bjó hljóðlát með honum, og var hann trúr henni til æviloka. Þessi heilbrigða stefna Einars varð til þess, að þau hjónin gátu fulinægt sinni einlægu þrá með íþví að hlynna að og styðja viðleitni brautryðjanda til að koma líknarmálum kaupstaðarins í við unandi horf. Verður þeirra hjóna því löngum minnzt.
Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en þau tóku til fósturs tveggja ára gamalt stúlkubarn, Jónínu Steinþórsdóttur, og ólu hana upp til fullorðinsára. Reyndust þau henni sem bestu foreldrar. Fósturdóttirin giftist síðar Eiríki Sigurðssyni skólastjóra á Akureyri, og hefur verið búsett þar. Frú Jónína hafði ávallt samband við fósturforeldra sína, og var þeim væn og nærgætin. Í fyrravetur fór Elli gamla að verða all aðgangshörð og starfs kraftar að dvína. Þá fluttu þau til fósturdótturinnar og nutu þar góðrar aðhlynningar og hvíldar, unz kveðjustundin kom. Þau voru bæði jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju að viðstöddu fjölmenni.
Þau hjónin frú Jónína og Eiríkur sáu alfarið um jarðarfarirnar með miklum sóma og myndarbrag. Ég var drenghnokki þegar ég kynntist Einar fyrst. Hann hafði eitthvað það við sig, sem laðaði mig að honum og ég ekki gerði mér grein fyrir. Upp frá því tókst með okkur fölskvalaus vinátta. sem aldrei sló skugga á. Við áttum saman fjölmargar ánægjulegar samverustundir. Hann jós þá oft úr fróðleiksbrunni sínum og fræddi mig um margt gamalt og nýtt.
Ég minnist þessa góðvinar míns, og hef um hann ljúfar endurminningar. Við, sem eftir stöndum á ströndinni hér, og sjáum vinina hverfa frá okkur, vitum ekki hvað við tekur fyrir þá, en fallegur er sá siður, að láta fylgja vinum vorum, sem horfnir eru, hlýjan hug og þakklæti, bænir og óskir um velgengni og fegurra Blessuð sé minning þessara líf í nýju heimkynnunum. góðu hjóna.
Engin undirskrift
Neisti 3 desember 1957
EINAR EYJÓLFSSON. Þann 18. okt. 1957 varð Einar Eyjólfsson, trésmiður, Grundargötu 7, áttatíu ára. Einar er öllum Siglfirðingum kunnur, sem hljóðlátur og dagfarsprúður maður, enda gott til vina. Hann er einn af þeim alþýðumönnum, sem unnið hafa sín störf í friði og án hávaða, en ávallt sýnt trúmennsku í starfi. Störf slíkra manna fyrir þjóðfélags heildina verða seint metin til fjár. Einar hefur alla tíð verið mikill drengskaparmaður, sem ekki hefur mátt vamm sitt vita í neinu. Alla tíð hefur Einar verið traustur fylgismaður jafnaðarstefnunnar.
Neisti - 25. október 1947
Sjötugsafmæli Laugardaginn 18. okt. 1947. átti Einar Eyjólfsson, Grundargötu 7, sjötugsafmæli. Einar hefur dvalið hér í Siglufirði um margra ára skeið og miðaldra Siglfirðingar kannast vel við Einar, hægan, hljóðlátan og dagfarsgóðan enda er honum gott til vina. Einar ber aldur sinn ver, er kvikur og léttur í lund. Fjölda gjafa barst honum frá vinum fjár og nær og stór hópur vina heimsótti hann. Einar er ötull fylgjandi Alþýðuflokksins, og færir „Neisti" afmælisbarninu bestu þakkir fyrir unnið starf í þágu Alþýðuflokksins, með bestu óskum um gæfuríka framtíð.
JÓLABLAÐ NEISTA 1965
MINNINGAROR UM HJÓNIN Eggertínu Guðmundsdóttur FÆDD 19. JANÚAR 1885. — DÁIN 13. SEPT. 1965. OG Einar Eyjólfsson FÆDDUR 18. OKT. 1877. — DÁINN 11. DES. 1965.
Eggertína Guðmundsdóttir var fædd að Minni-Ökrum í Blönduhlíð, 19. janúar 1885.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Sigurðsson og Rannveig Guðmundsdóttir, bæði fædd og uppalin í Skagafirði. Faðir hennar lést nokkrum vikum eftir að hún fæddist, aðeins 45 ára að aldri. Eftir það ólst hún upp með móður sinni og fluttist tveggja ára að aldri með henni út á Höfðaströnd. Árið 1895 byggði Rannveig sér lítinn torfbæ í Grafarósi, og bjó þar í ellefu ár, en þá fluttust þær mæðgur hingað til Siglufjarðar.
Einar Eyjólfsson var fæddur á Hvaleyri við Hafnarfjörð, 18. okt. 1877, og var því fullra 88 ára að aldri, er hann lést. Foreldrar hans voru Helga Einarsdóttir og Eyjólfur Eyjólfsson. Alsystkini hans voru: Jens, byggingameistari í Reykjavík, og Sigríður, en auk þess átti hann mörg hálfsystkini frá síðara hjónabandi föður hans. Af hálfsystkinum hans eru á lífi: Ólafía og Valgeir, á Hausastöðum á Álftanesi, og Þórey á elliheimilinu Grund. Einar missti móður sína er hann var á fimmta ári, og var honum þá komið i fóstur. Var hann í fyrstu hjá móðurömmu sinni, Sigríði, að Bakka í Garðahverfi, en síðar ólst hann upp hjá móðurbróður sínum, Guðmundi Einarssyni í Hafnarfirði.
Hjónin Einar Eyjólfsson Eggertína Guðmundsdóttir
Ókunnur Ljósmyndari
Einar varð mikið að vinna í uppvexti sínum, eins og þá var títt; fór að róa á handfæri 12 ára, og um 13 ára aldur varð hann kokkur á skútum. Í barnaskólanum í Flensborg var hann tvo vetrarparta. Það var öll hans skólaganga. Þegar hann var á sautjánda ári fór hann nauðugur með Guðmundi norður, og hélt þá Einar því, að fara ekki með frænda sínum suður aftur. Þetta sumar var hann hjá Jónasi Illugasyni að Tindum í Ásum. Réði hann sig með því skilyrði, að Jónas flytti sig til Sauðárkróks um haustið, áður en Guðmundur færi suður. Þetta efndi Jónas. Frá þeim tíma átti Einar heima á Norðurlandi.
Fyrstu tvö árin var hann hjá Þorvaldi Einarssyni á Sauðárkróki, móðurbróður sínum. Stundaði hann þar bæði landvinnu og sjósókn. Langaði hann til að læra tré smiðaiðn, en gat það eigi, sökum fátæktar. Um tvítugs aldur gerðist Einar vinnumaður hjá Guðmundi Einars syni, frá Hraunum, verslunarstjóra í Hofsós. Þar var hann um nokkurra ára skeið. Þar kynntist hann Eggertínu Guðmundsdóttur, og gengu þau í hjónaband, 5. október 1906. En fyrr á því sama ári hafði Einar farið út til Siglufjarðar í erindum húsbónda síns, en héðan frá Siglufirði sneri hann ekki aftur, og stofnuðu þau Eggertína heimili sitt hér.
í Siglufirði voru þau hjónin því búsett um nærfellt sex áratuga skeið. Einar var hinn mesti dugnaðarmaður. og féll naumast verk úr hendi. Fyrsta árið hér í Siglufirði byggði hann sér hús við Vetrarbraut. Leigði hann það Sölva Jónssyni, skósmið, en af honum lærði Einar skósmíði, sem hann stundaði nokkurra ára skeið. Hann þoldi starfið illa og starflaði hér nokkur ár að iðn sinni og þótti frábær verkmaður, skemmtilegur og háttvís. fékk um það leyti slæma brjóstveiki og varð að fara á Vífilstaðahæli einn vetur. Upp frá því var hann alltaf heilsuveill. Eftir þetta stundaði hann hér ýmsa vinnu. Var oft við síldarmat á sumrum og bátasmíði á vetrum. Síðar fékk hann trésmíðaréttindi og vann við smíðar hjá Siglufjarðarbæ í mörg ár, meðan heilsa og starfskraftar entust.
Eftir að aldur færðist yfir hann og hann þoldi ekki lengur almenna vinnu, hafði hann lítið tré & smíðaverkstæði heima hjá sér, og smíðaði þar netanálar fyrir togara, og annað smávegis. Einar Eyjólfsson var hæglátur og prúður maður. Það var ætíð bjart yfir ásjónu hans, og handbak hans þétt og hlýtt. Hann var ráðdeildarmaður hinn mesti og mátti ekki vamm sitt vita i neinu. Hjálpsamur var hann og góðgjarn. Slíkur maður hlaut að vinna hugi allra, sem kynntust honum. Hann var um áraraðir einn af bestu liðsmönnum Siglfirskra jafnaðarmanna og hugsjónum jafnaðarmanna um frelsi, jafnrétti og bræðralag var hann trúr til hinstu stundar. Fáir menn hafa verið þeim hugsjónum trúrri með sínu daglega starfi en Einar Eyjólfsson. Siglfirskir jafnaðarmenn munu ætíð minnast hans með hlýhug og söknuði, og þakka samstarfið, sem aldrei féll skuggi á.
Þeim Einari og Eggertínu varð ekki barna auðið, en ólu upp eina fósturdóttur, Jónínu Steinþórsdóttur, og naut hún ástríkis sem þeirra eigin dóttir, og reyndist hún fósturforeldrum sínum góð og hjálpsöm dóttir, er reyndist þeim vel í ellinni, svo og maður hennar, Eiríkur Sigurðsson, skólastjóri á Akureyri. Störf Eggertínu voru að sjálfsögðu fyrst og fremst unnin innan veggja heimilisins. Hann annaðist heimili sitt af nærgætni og trúmennsku, og var í senn góð eiginkona og móðir. Hún var kona stórbrotin, trygglynd og hjálpsöm. Um hana hefur verið sagt, að aldrei væri of mikið gott um hana sagt. Eins og fyrr segir var
Einar haldinn um margra ára skeið af slæmri brjóstveiki, og var það því hlutskipti Eggertínu að hlúa sem best að honum og annaðist hann. Þegar hún fann til sjúkleika þess, sem varð henni að bana, olli það henni áhyggjum, ekki sín vegna, heldur hans vegna, því að þá fann hún, að þeir tímar kæmu, að hún stæði eigi lengur við hlið hans, til þess að annast hann og hlúa að honum. Þetta lýsir best hinu ástríka hjónabandi þeirra um hartnær sex áratugi. Þessi sterku og máttugu kærleiksbönd megnaði dauðinn einn að slíta. Nú eru þau bæði komin til ljóssins lands, þar sem kærleikur, jöfnuður og bræðralag ríkir. Enn á ný hafa þau bundist kærleiksböndum, er munu vara um alla eilífð.
Blessuð sé minning sæmdarhjónanna Eggertínu Guðmundsdóttur og Einars Eyjólfssonar.
Engin undirskrift