Leó R Ólason skrifar
ÞEGAR ÉG SKAUT BELJUNA
Einn ágætur félagi minn og vinur sem starfar núna úti í Noregi sem pípari, tók stundum eina og eina vakt á videóleigunni með mér hér í denn meðan ég var í þeim bransanum. Einu sinni datt mér í hug að láta reyna á hversu sannfærandi ég væri, hann trúgjarn, við bara sitt lítið af hverju eða kannski báðir talsvert af hvoru.
Við sátum við eldhúsborðið, drukkum kaffi og spjölluðum um daginn og veginn. Hann sagði mér þá gamla prakkarasögu af sér frá því hann var yngri og var svolítið hreykinn af skammarstrikunum sem voru að sjálfsögðu löngu fyrnd.
“Gott hjá þér, en þegar ég var lítill strákur heima á Sigló“ byrjaði ég.
“Segðu mér” sagði hann og ég hélt áfram.
“Við strákarnir byrjuðum strax á barnaskólaaldri að vinna og bjarga okkur eins og við gátum.”
“’Á barnaskólaaldri?” Hann horfði hissa á mig.
“Já, og ef við höfðum ekkert betra að gera þá gátum við alltaf farið niður á bryggju og veitt fisk sem við fórum síðan með upp í frystihús og seldum. Frystihússtjórinn borgaði okkur svart fyrir svona bryggjufisk en hann vildi ekki Marhnútana.”
“Hvað er Marhnútur?”
“Það er Skötuselsungi” svaraði ég og mér tókst nokkurn veginn að halda andlitinu.
“Ég hef bara heyrt að Skötuselur bragðist vel” sagði hann og gerði ekki frekari athugasemdir.
“Hótelið keypti hins vegar Marsana og þar voru þeir eldaðir og gestirnir héldu að þeir væru að borða humarsalat.” Hann sat hljóður og ég hélt áfram.
“Frystihúsinu var aldrei læst eftir vinnu og við fórum þess vegna oft á kvöldin og stálum bryggju fiskinum sem við og fleiri strákar höfðum selt um daginn.
Svo komum við bara aftur daginn eftir og seldum hann aftur.”
“Þið hafið verið rosalegir” sagði hann og það gætti hneykslunar í röddinni.
“Svona gekk þetta dag eftir dag en fattaðist þegar fiskurinn var farinn að lykta.
Þá var því ekki trúað lengur að við hefðum veitt hann um daginn.”
“Já, þið hafið verið alveg rosalegir” endurtók hann og fannst þetta samt svolítið skondið.
“Einn vinur minn gat líkt alveg ótrúlega vel eftir hljóðinu í síld og einu sinni gekk hann niður í fjöruborðið, stakk hausnum ofan í sjóinn og líkti eftir síldarhljóði.”
“Ne, hei, hvað gerðist?” Honum fannst þetta greinilega alveg með ólíkindum.
“Það synti þorskur sem ætlaði greinilega að hafa síld í matinn upp í fjöruna og strandaði þar. Hann tók þá þorskinn upp á sporðinum og seldi hann í frystihúsinu daginn eftir.”
“Þetta er alveg ótrúlegt” sagði hann.
Ég var líka alveg sammála honum að þetta væri alveg ótrúlegt, en svo hélt ég áfram.
“Einu sinni kom varðskip og lagðist að bryggju og bæjarbúum var boðið um borð að skoða dallinn. Ég fór að skoða með nokkrum strákum og var eitthvað að fikta við fallbyssuna þegar allt í einu heyrðist mikill hvellur. Hún hafði þá verið hlaðin og ég hafði þarna skotið af henni alvöru skoti.”
Hann horfði opinmynntur á mig og átti greinilega ekki orð.
“Léleg gæsla hjá Gæslunni maður.
“Já, en þetta var ekki allt” sagði ég.
“Nú, hvað gerðist fleira?”
“Á þessum árum var rekið kúabú inni í firðinum og þegar þetta gerðist voru kýrnar einmitt úti á túni.
Ég hitti óvart eina kúna og hún hreinlega tættist í sundur og það fannst aldrei neitt nema hausinn af henni.”
“Ha, belja sem sprakk?” Hann leit nú á mig, hnyklaði brýrnar og var allt í einu orðinn mjög alvarlegur í bragði.
Hann næstum því hvíslaði þegar hann hallaði sér yfir eldhúsborðið í áttina til mín og spurði eins og í trúnaði.
“Ertu nú alveg örugglega að segja mér satt?”