Krökkunum í Villimannahverfinu á Siglufirði þóttu mikið ævintýri, þegar bretarnir komu til Siglufjarðar. (hernámið á stríðsárunum) Þeir komu sér fyrir úti á Siglunesi, uppi á Brekku neðan Hlíðarvegar á svæðinu sem nú 2011, tilheyrir Leikskálum.
Svo var bækistöð yfirmanna, sem var staðsett í bragga, sem ýmist hefur verið kallaður Rauði bragginn eða Pólstjörnu bragginn, en húsið stóð við Ránargötu á svæði sunnan við húsið þar sem Bás ehf. og fleiri er nú til húsa. (2011) Þennan stað og íbúana heimsótti ég reglulega á hernámsárunum þegar bretarnir voru á Sigló. (fyrsti hópurinn)
Tungumálið var ekki upp á marga fiska, en með handapati komst margt ótrúlega „vel til skila.“
Ég og Indriði Helgi Einarsson, fórum oft með sumum þeirra, tveim til þremur í göngutúra upp í Hvanneyrarskál og stundum hærra. Þeir laumuðu oft til okkar súkkulaði og fleiru góðgæti og stundum borðuðum við hjá þeim í hádeginu, þegar þeir vissu af mæðrum okkar í síld á Pólstjörnuplaninu. (Henning Bjarnason félagi okkar, kom ekki á þessar slóðir en móðir hans, sem var þýsk hafði orðið fyrir áreitni Bretanna)
Einu sinni gerðu þeir mér skiljanlegt að þeir hefðu áhuga á að vita hver væri uppáhalds maturinn minn. Ég gat gert þeim skiljanlegt að það væri skyr með rjóma. Nokkuð viss er ég um, að þeir hafi ekki vitað hvað skyr var í raun og veru. Þeir létu mig fá pening og báðu mig að kaupa það sem mundi nægja fyrir fimm þeirra, en það voru viðkomandi yfirmenn sem þarna bjuggu.
Þetta var að morgni til, ég hjólaði í mjólkurbúðina og keypti 1 kg af skyri og flösku með ½ lítir af rjóma. Þeir gáfu mér afganginn af peningunum, sem var drjúgt í vasa gutta eins og mín. Síðan hélt ég á braut í mat heim til mömmu.
Eftir hádegið þennan sama dag kom ég við hjá þeim til að kanna hvernig þeim hefði líkað skyrið. Á móti mér kom ókennilegur þefur, sambland af bruna og einhverju sem ég ekki áttaði mig á.
Svipurinn á vinum mínum var enn torkennilegri. Ástæðan var nokkuð brosleg þegar ég fékk staðfestingu á því af hverju þessi torkennilegu lykt og svipir þeirra stafaði.
Þeir höfðu búið til bollur úr skyrinu, velt þeim upp úr rjómablönduðu hveiti og sett á pönnu. Ég var nokkra stund að koma þeim í skilning um matreiðsluhættina, sem endaði með því að ég hjólaði aftur í mjólkurbúðina keypti skyr og rjóma fyrir mína peninga. Fékk síðan hjá þeim skál og hræði skyrið eins og mamma gerði, ásamt sykri og mjólk sem þeir áttu nóg af.
Þeir fylgdust með mér á meðan, og voru frekar tregir til að bragða á kræsingunum. En það breyttist fljótt. Eftir þetta var ávalt skyr á borðum hjá þeim einu sinni til tvisvar í viku, sem desert.
Mér var launað ríkulega fyrir tilvikið. Ég saknaði þessa hóps sem dvaldi þarna í bragganum. En hópurinn var fluttur til vígstöðvanna og aðrir komu í staðinn. Þar á meðal skapvondur yfirmaður sem harðbannaði komu okkar þangað inn fyrir dyr og sleit á öll sambönd okkar við herinn á svæðinu.
Skoða má mynd sem nefndur brakki er á: (hús nr.11) hér fyrir neðan
Steingrímur
Sá skapvondi hrekktur !
Ekki man ég nákvæmlega á hvaða ári (eða hafði skrifað í dagbók) sem mér og Valbirni Þorlákssyni datt í hug að hrekkja þennan yfirmann, sem nefndur var hér ofar.
Það var um haust, sennilega í októberlok. Við höfðum uppgötvað að ef bretapatróna, tómt skothylki sem allstaðar var nóg til af þar sem Bretarnir voru við skotæfingar.
Ef hylkin voru hálffyllt af vatni og klemmt fyrir með töng, sett síðan yfir kertaloga, þá sprakk patrónan með miklum hvelli.
Patrónurnar tómar, voru um 65mm langar og um 11,5mm í þvermál. (mynd hér neðar, með byssukúlu)
Við keyptum hjá Gesti Fanndal, einn pakka með 50 litlum kertum sem kölluð voru jólatréskerti. Gestur spurði af forvitni hvað við ætluðum að gera við svona mörg kerti, langt væri til jóla. Okkur varð fátt um svör en fengum þó kertin.
Það tók okkur langan tíma að setja sjó í skothylkin og klemma fyrir með töng, og enn lengri tíma í hálfgerðu rökkri í sandfjörunni norðan við flóðgarðinn við Hvanneyrarkrók að festa skothylkin með vír yfir kertunum 50 og koma þeim fyrir með stuttu millibili í skjól á milli steina í fjörunni.
Þegar því var loks lokið, fórum við heim til okkar í kvöldmat og mættumst svo eftir matinn. Um klukkan 9 um kvöldið vorum við tilbúnir með eldspýturnar og kveiktum á öllum kertunum 50, við hlupum síðan sem fætur toguðu upp á túnið hjá Kalla Dúa (Hvanneyrarbraut 40) og lögðumst þar í grasið á bakkanum og biðum átekta. Okkur fannst biðin löng en svo byrjaði ballið. Margir hvellir tóku að heyrast ásamt bergmáli fjallanna í kyrrð kvöldsins. Varla hafa verið komnir nema um 30 hvellir af okkar völdum, þegar margir hvellir, enn örari bárust frá Öldubrjótnum.
Ekki var okkur ljóst hvar kúlurnar lentu en skothríðin og blossar frá vélbyssum þeirra, hélt áfram talsvert eftir að okkar 50 patrónusprengjur höfðu sprungið.
Hávær köll bárust frá Pólstjörnubragga, bílar voru ræstir og ljós frá ljóskastara á Öldubrjótnum beindist í allar áttir. Einnig kom heil „herdeild“ ofan frá Bretatúni á vettvang, það er við flóðgarðinn við Hvanneyrarkrók.
Þá tókum við til fótanna skelfingu lostnir og hlupum hvor heim til sín. Ekki var farið meira út það kvöldið. Sannfærðir vorum við um það þó svo að hafa ekki fengið neinar fréttir af því hvað hefði skeð innan sjálfra herbúðunna þá hafi okkur tekist vel að gera skapylla foringjanum enn gramar í geði en hann var venjulega.
Heimamenn, íbúarnir á svæðinu giskuðu á að þarna hefði farið fram einskonar heræfing.
Við töldum okkur hafa sloppið vel fyrir utan skrekkinn, eftir að við gerðum okkur grein fyrir því að þetta uppátæki hefði getað haft alverlegar afleiðingar þar sem eðlilega má telja að þeir sem stóðu vörðinn í skýlinu á Öldubrjót, sennileg óvanir stríðslátum hafi vaknað við vondan draum og talið að um landgönguárás þjóðverja að ræða og skotið því eitthvað út í loftið í von um að hitta óvinina.
Einu atriði er vert að bæta við varðandi hernámsárin.
Nokkuð sem við tveir, ég og vinur minn Indriði Helgi Einarsson urðum óvart vitni að.Við höfðum farið í fjallgöngu sem oftar. Við gengum upp á Strákahyrnu og skoðuðum útsýnið þar sem var óvenju gott og sást vel til Grímseyjar.
Eftir góða stund var lagt af stað niður aftur. Við fórum frekar rólega, en glampandi sólskin var, logn og góður hiti. Við stoppuðum skammt fyrir ofan og norðan við Hvanneyrarána um 50-60 metrum ofan við vatnsþróna. Þar týndum við nokkur ber ofan í okkur, lögðust svo út af og létum fara vel um okkur kyrrðinni og blíðunni.
Við heyrðum að einhverjir voru að tala saman ekki fjarri en skeyttum því engu fyrr en við fórum að heyra ókennileg hljóð, hljóð sem við gátum ekki gert okkur í hugarlund af hverju stöfuðu. Það var varla von, því hvorugur okkar hafði áður heyrt konu stynja af ánægu meðan á fullnægingu stóð. Það voru einmitt síðustu augnablik samfara sem vakti athygli okkar.
Lok samfara á milli siglfirskrar stúlku um tvítugt sem við báðir könnuðumst við og einkennisklædds hermanns með buxurnar á hælunum, sunnan við ána rétt fyrir neðan okkur.
Við létum ekki á okkur bera og biðum þess að þau færu til baka niður Hvanneyrarhlíðina. Ekki töluðum við um það sem við sáum og heyrðum þarna en eitthvað var pískrað um viðburðinn í strákahóp einhverjum dögum síðar en gleymdist svo !
(en fært til dagbókar, nokkuð nákvæmara en hér, ha, ha.)