Morgunblaðið - 11. janúar 1949 Þriðjudagur 11. janúar 1949.
Óli Hertervig fv. bæjarstjóri fimmtugur
„JÓLUNUM er ekki lokið fyrr en á afmælinu hans Hertervigs", var löngum máltæki hinna mörgu vina, fyrrverandi bæjarstjóra á Siglufirði, Óli J. Hertervig, sem er 50 ára í dag.
Að fara að skrifa um Hertervig allt það lof, sem. hann verðskuldar, væri að móðga hann, því vanalega þegar einhver af hinum fjölmörgu gestum, sem heimsótt hafa hann á afmælisdögum hans, hafa ætlað að fara að halda ræðu honum til heiðurs, hefir hann beðið sína ágætu konu að kalla á viðkomandi „fram á kontór og gefa honum eitthvað hressandi, svo hann fari ekki að flytja um sig lofgerðarrollu!"
Þrátt fyrir þetta verður þó ekki komist hjá því að geta þess helsta sem hann hefir unnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Siglufjarðarkaupstað.
Strax og Hertervig hafði sest að á Siglufirði ávann hann sér almennar vinsældir og vináttu fjölda manna og kvenna úr öllum flokkum og stéttum. Hann vildi hvers manns bón gera og gerði það á þann hátt að biðjandanum fannst hann haf a gert Hertervig greiða með því að leita til hans með vandræði sín.
Enda þótt hinar pólitísku öldur hafi stundum risið hátt á Siglufirði og Hertervig verið fremstur í flokki Sjálfstæðismanna um 16 ára skeið man ég ekki til þess að hann hafi misst við það vináttu eða kunningsskap nokkurs manns úr hópi andstæðinganna, hvað þá hinna. Og er þá mikið sagt.
Fyrir Sjálfstæðisflðkkinn hefir Hertervig fórnað miklu fje og tíma. Segja má að hann gæti ekki sint nema að litlu leyti lífsstarfi sínu eftir að hann tók við forystu Sjálfstæðisflokksins á Siglufirði og sat sem fulltrúi flokksins fjögur kjörtímabil í bæjarstjórn.
Síðasta kjörtímabil Hertervigs sat hann sem bæjarstjóri og mun Siglufjörður um langan aldur gjalda þar hans dugnaðar og forsjá. Á jeg þar einkum við er hann fjekk því til leiðar komið að bærinn eignaðist alt það land er kaupstaðurinn er og verður bygður á.
Óli J Hertervig, bakarameistari.
f.1899, d. 1977
Ókunnur ljósmyndari, t. frá lítilli pappír ljósmyndmynd
Það var í hinni stuttu en fyrir Siglfirðinga minnisstæðu, ráðherratíð Magnúsar Jónssonar prófessors, að hann gaf Siglufirði og Siglfirðingum tvær góðar og ómetanlegar gjafir. Önnur var við unandi leyfi til endurbyggingar Rauðku, en hin var salan á jörðinni Hvanneyri, sem mestur hluti kaupstaðarins stendur á. Jeg kalla söluna gjöf, því það er hún, enda munu Siglfirðingar seint fá goldið Magnúsi þessarar framsýnu og drenglyndu framkomu.
Hinu má heldur ekki gleyma, að í bæjarstjórnartíð Hertervigs var keypt jörðin Höfn í Siglufirði, sem var ómetanlegt happ fyrir bæinn að eignast og flestar nýbyggingar eru nú reistar á. Enn stærsta og erfiðasta átakið, sem Hertervig glímdi við öll hin bæjarstjórarár sín, var rafveitumálið eða virkjun Skeiðsfoss.
Ég þekki engan mann, hvorki utan eða á Siglufirði, sem hefði getað unnið eins óþreytandi að þessu máli, hvað þá betur, en hann gjörði. Mér er persónulega kunnugt um það, að oft var það ekkert annað en hin ódrepandi dugnaður Hertervigs, sem fleytti málinu yfir hina ýmsu örðugleika, svo og hin prúða og drengilega framkoma hans. Bæði lánstofnanir og verktaki höfðu hinar mestu mætur á Hertervig og dáðust mjög að dugnaði hans. Og segja má að Rauðku-byggingin væri eðlilegt og nauðsynlegt áframhald af Skeiðfossvirkjuninni.
En það er önnur saga, þar sem mesta og besta samstarfsmanni Hertervigs og um leið mesta pólitíkusar sem Sjálfstæðisflokkurinn nokkurntíma hefur átt á Siglufirði — Aage Schiöth lyfsala — mun verða þakkað að verðleikum.
Fjölda mörg önnur stórmál komust í framkvæmd í bæjarstjórnartíð Hertervigs, svo sem endurbygging kúabúsins á Hóli, malbikun Aðalgötunnar, ýms íþróttamál ofl. Síðan Hertervig lét af störfum, hefir hann verið verksmiðju stjóri á Raufarhöfn og farist það starf svo vel að Raufarhafnar verksmiðjan er eina verksmiðjan sem „gengið hefir vel", eins og segir í skýrslu S. R. 1947. Hertervig hefir verið mikill gæfumaður um dagana.
Hann á ágætis konu, listfeng og fluggáfuð börn, ágætis heimili, sem landfrægt er fyrir rausn og myndarskap. Sjálfur er maðurinn hinn besti drengur, duglegur, kappsamur, þekkir enga örðuleika sem ekki má yfirstíga og á að jeg held engan óvildarmann. Vinir Hertervigs munu eflaust fjölmenna að vanda til hans í dag. Og við sem höfum verið hans „föstu gestir" þennan dag, svo oft og mörgum sinnum — verðum nú að láta okkur nægja að rifja upp gamlar gleðistundir með þakklæti og óska afmælisbarninu langra og góðra lífdaga.
J. G
=================================
Siglfirðingur 13. Janúar 1949
ÓLI HERTERVIG, fimmtugur
Þriðjudaginn 11. desember s.l. varð einn merkasti borgari þessa bæjar, Óli Hertervig, fimmtugur. Á þessum tímamótum í æfi þessa dugnaðar- og atorkumanns, hafa bæjarbúar eflaust hugsað til hans hlýjum huga og mörg voru árnaðar orðin, er hann hlaut daginn þann. Það er óþarfi að rifja æviferil Óla Hertervig upp fyrir bæjarbúum. Maðurinn var nefnilega svo samgróinn bæjarfélaginu og borgurum iþess, svo nálægt hverjum og einum í þessum bæ, að saga hans geymist í hugum Siglfirðinga allra. Það er hamingja hvers bæjarfélags, já og hvers þjóðfélags, að eiga slíka einstaklinga, sem Öli Hertervig var og er.
Dugnaðarmanna, sem hafa kjark og þor og þekkingu á hlutum, manna, sem með starfi sínu, lífsstarfi sínu og starfi í þágu samfélagsins, reisa sér minnisvarða, sem hvorki mölur né ryð fá grandað. Minnisvarða um ágæti þeirra verka, sem dugmikill athafnamaður vann í fórnfúsu og samviskusömu starfi. Á sinni afkastasömu starfsæfi átti það fyrir Óla Hertervig að liggja að verða bæjarstjóri á Siglu firði. í því starfi varð hann fyrir nokkurri gagnrýni, og því er sérstaklega á það minnst hér.
Í því starfi sýndi þó Óli Hertervig slíkan dugnað og trúfestu við þetta bæjarfélag, að honum verður aldrei að fullu þakkað. Og margt hefði farið öðruvisi og betur í þessu bæjarfélagi, ef hans hefði áfram notið við. Slíkir voru yfirburðir hans yfir alla þá, er þessu starfi hafa gengt og skulu þeir þó ólastaðir. En það er ekki einungis sem bæjarstjóri, sem Hertervig hefur unnið þessu bæjarfélagi. Afskipti hans af bæjarmálum eiga sér lengri sögu. Og sú afstaða sem hann hefur markað til hinna ýmsu viðfangsefna bæjarins hefur reynst heillarík. Jafnvel pólitískir andstæðingar hans hafa viðurkennt dugnað hans og skarpskyggni og persóna hans meðan hann var -bæjarstjóri fleytti þessu bæjarfélagi yfir margan þann hallann, sem án hans hefðu ef til vill orsakað strand í framkvæmdum kaupstaðarins. Þakkarskuld okkar Siglfirðinga við þetta fimmtuga afmælisbarn er því stór.
Óli Hertervig hefur unnið mikið í þágu Sjálfstæðisflokksins hér á Siglufirði og hann hefur alla tíð verið ákveðinn fylgjandi þeirrar stjórnmálastefnu, sem flokkurinn hefur byggt starfsemi sína á. — Meðan hann var búsettur hér að öllu leyti (en nú að sumrum hefir hann veitt verksmiðjunni á Raufarhöfn forystu), og krafta hans gætti meir innan flokksstarfseminnar, var blómaskeið í sögu flokksins hér. Því hvar sem hann lagði hönd að verki, urðu ávextir starfsins í sam ræmi við þann hug og þor, sem bak við það lá. Og illu heilli höfum við Siglfirðingar allir misst þennan mann að nokkru leyti burt frá Siglufirði. Hvaða verk, sem Óli Hertervig hefur tekið sér fyrir hendur, hvort sem hann veitti forstöðu sjálfstæðum fyrirmyndar atvinnurekstri eða sem bæjarstjóri Siglufjarðar og nú síðast sem forstjóri S.R. á Raufarhöfn, hafa störf hans sýnt ágæti mannsins og hæfileika.
Og hver sá, sem eins og Óli Hertervig, getur litið yfir farinn veg og minnzt starfs og aftur starfs, árangursríkra starfa, hlýtur að vera sæll og þakklátur. Við yngri meðlimir Sjálfstæðisflokksins höfum flestir frá fyrstu tíð dáð þennan ástsæla leiðtoga okkar um mörg ár og við finnum í dag til þakklætis fyrir allt, sem Hertervig hefur fyrir flokk okkar og bæjarfélag gert. Og það er einlæg ósk okkar til flokksins og bæjarfélagið að margir honum líkir eigi eftir að koma fram á sjónarsviðið, flokknum og Siglufirði til heilla.
Við færum Óla Hertervig á þessum tímamótum hugheilustu hamingjuóskir um bjarta og gæfuríka framtíð og þökkum honum í einlægni allt það, sem hann hefur gert og vonumst eftir að mega sem lengst njóta samstarfs hans og leiðbeiningar. Heill þér fimmtugum! Heill þér á ókomnum árum!
Siglufirði, 11. janúar 1949. Stefán Friðbjarnarson.