Leó R Ólason skrifar
Leó Jónsson og
kona hans Sóley Gunnlaugsdóttir
og ættir.
Afi minn er Leó Jónsson oft kenndur við Slippinn, en hann kom til Siglufjarðar upp úr 1930 og var sjómaður meðal annars á bátunum Villa og Snarfara fyrstu árin áður en hann kom í land.
Hann var fæddur að Höfða á Höfðaströnd í Jökulfjörðum 9. september 1909, sonur Jóns Arnórssonar (1852-1931) bónda og hreppstjóra í Grunnavíkurhreppi og Kristínar Jensdóttur (1869-1946) húsfreyju.
Jón Arnórsson hafði áður verið kvæntur Kristínu Kristjánsdóttur (1855-1895) og átt með henni 8 börn; Elísabetu Sigríði (1878-1878), Árna Friðrik (1880-1958), Elísabetu Rósinkrönsu (1881-1930), Móses (1882-1882) Valgerði (1885-1895), Kristján (1888-1915), Ólafíu (1890-1890) og Arnór (1892-1919).
Eins og sjá má þá hefur barnalánið ekki elt þau hjón því aðeins Árni Friðrik nær því að verða sæmilega fullorðinn.
Geta má þess að Elísabet Rósinkransa er móðir Bjarna sem kenndur var við Visnes og bræðra hans sem allir bjuggu í einhvern tíma á Siglufirði.
Afi: Leó Jónsson á sínum yngri árum.
Ljósmyndari ókunnur.
Sóley Gunnlaugsdóttir og maður hennar
Leó Jónsson smiður.
Amma: Sóley Gunnlaugsdóttir á sínum yngri árum
Ljósmyndarari ókunnur.
Jón missir síðan konu sína þegar hún stendur á fertugu og hefur einhverjum árum síðar hug á annarri konu en fær ekki. Hann tekur þá upp sambúð með vinnukonu sem hafði verið hjá honum.
Með henni átti hann 6 börn sem voru: Valgeir (1899-1981), Kristín (1901-1969), Karl (1903-1992), Indriði (1905-1975), Leó (1909-1996) og Sigríður (1911-1998).
Jón Arnórsson var af þriðja lið frá sr. Arnóri í Vatnsfirði (27.12.1772 - 05.11.1853). Eftir að fyrri kona hans lést vildi kvænast aftur konu úr fjölskyldu hennar, en frétti að hún var föstnuð oddvitanum og þá orti hann um það vísu;
Eins er hann í öllu séður,
oddviti vor kær.
Kristjönu Mópeys meður,
mamma Unnur fær.
Nokkuð augljóst að þarna er flest ansi mikið "lókal" svo að það skilst tæpast án frekari skýringa, en Jón var sagður vel hagmæltur maður þó svo að þessi kveðskapur virki svolítið undarlegur þeim sem ekki þekkja til aðstæðna. Í Vestfirskum þjóðsögum segir frá því að draugurinn Mópeys hafi gert vart við sig á Höfðaströnd. Mópeys er lýst svo að hann hafi verið unglingspiltur á mórauðri peysu með skinnskó á öðrum fæti og stígvél á hinni. Hann hafi orðið úti og gangi síðan aftur og fylgi fólki af tilteknum bæjum á Hornströndum og Jökulfjörðum með skráveifum og spellvirkjum. Mér hefur ekki tekist að átta mig á hver Unnur er, en kannski á hún að skrifast með litlum staf og þá gæti merkingin verið allt önnur.
Kristín Jensdóttir, móðir Leós afa
ljósmyndari ókunnur
Jón Arnórsson, faðir Leós afa
ljósmyndari ókunnur
Leó bjó fyrstu ár æfi sinnar á Höfðaströnd, en fluttist til Hnífsdals með foreldrum sínum árið 1915. Hann fór nokkuð snemma að stunda sjóinn og fór í því skyni til Siglufjarðar upp úr 1930 eða um svipað leyti og faðir hans lést.
Þar kynnist hann eiginkonu sinni Sóleyju Gunnlaugsdóttur og þau hefja sambúð. Þau gifta sig þó ekki fyrr en árið 1966.
Þau eignast eina dóttur sem var Minný Gunnlaug (1934-2002), en fyrir átti hann soninn Gunnar Guðfinn Jón (1933-1994) pípulagningameistara í Bolungarvík með Soffíu Júlíönu Bæringsdóttur (1911-1973).
Mikil húsnæðisekla var á Siglufirði í ört vaxandi bæ og bjuggu þau fyrst að Hávegi 12 og svo Lindargötu 20b þar sem þau leigðu herbergi með aðgangi að eldhúsi en síðar um tíma að Túngötu 10. áður en þau náðu að festa kaup á neðri hæð Hverfisgötu 11 árið 1939.
Eftir fáein ár eða 1944 seldu þau neðri hæð Hverfisgötunnar Jóhanni Georg Christiansson Möller (1918-1997) og Tryggvu Helenu Sigtryggsdóttur (1923-2024).
En þau fluttu ekki langt að þessu sinni því þau keyptu þá efri hæðina af Baldvin Þorkel Kristjánssyni (1910-1991) og Gróu Ásmundsdóttur (1910-1993) þar sem þau bjuggu allt til að þau fluttust á elliheimili.
Eftir að Leó hætti á sjónum hóf hann störf í Slippnum og var alla tíð við hann kenndur.
Eftir það í nokkur ár hjá Trésmiðunum Sigurði Hirti Ármannssyni (1918-1992) og Guðmundi Óla Þorlákssyni (1928-1977), en að lokum í Húsaeiningum þar sem hann endaði sína starfsævi.
Systkinin Minný og Gunnar.
Ljósmyndari óþekktur.
Hann var einn þeirra sem fengu svokallað ráðherrabréf sem veitti honum smiðsréttindi. Fljótlega eftir að hann kom til Siglufjarðar tók hann skipstjóraprófið hið minna sem oft var kallað „pungaprófið“. Hann var félagi í Skipstjóra og stýrimannafélaginu á Siglufirði og áhugasamur meðlimur Vestfirðingafélagsins sem var nokkuð öflugt átthagafélag sem starfaði þar um árabil. Hann var einn þeirra sem tóku virkan þátt í undirbúningi Sjómannadagsins og hugði þá gjarnan tímanlega að kappróðrabátunum.
Amma mín Sóley Gunnlaugsdóttir var fædd að Klaufabrekkum í Svarfaðardal, hún ólst upp með foreldrum sínum sem bjuggu á nokkrum stöðum í dalnum og síðast að kirkjustaðnum Upsum, þar til móðir hennar lést árið 1923. Eftir það leystist fjölskyldan að mestu upp og systkini hennar fóru flest til skyldmenna sinna. Hún var dóttir hjónanna Gunnlaugs Daníelssonar (1868-1952) og Steinunnar Sigtryggsdóttur (1881-1923) sem nánar verður vikið að hér að neðan.
14 ára gömul missir Sóley móður sína og eftir það vinnur hún meðal annars í fiskvinnslu á Dalvík og úti í Hrísey með föður sínum. 17 ára gömul flyst hún til Akureyrar og dvelur þar hjá Guðrúnu saumakonu og hálfsystur sinni. Síðar fer hún til Siglufjarðar í síldarvinnu og það var einmitt í hinu rómantíska andrúmslofti sem einkenndi síldarævintýri þessara ára að hún kynntist mannsefni sínu Leó Jónssyni en þau hófu búskap og fluttust fyrst til Ísafjarðar en bjuggu stutt þar. Þau komu aftur til Siglufjarðar því þar kunnu þau bæði vel við sig og vildu setjast að til frambúðar sem þau og gerðu.
Dóttir þeirra Minný Gunnlaug var ekki mjög gömul þegar hún var farin að aðstoða móður sína í síldinni, enda var það algengt og þótti sjálfsagt í þá daga. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar 1951. Hún vann um tíma í Kaupfélagi Siglufjarðar en fór fljótlega til náms í Hjúkrunarkvennaskóla Íslands eins og hann hét þá. En hún varð að hætta námi 1958 þegar hún varð barnshafandi í annað sinn. Í mars árið eftir var hún þó sest aftur á skólabekk og lauk námi í maí 1962.
Hún hefur starfað á ýmsum sjúkra og umönnunarstofnunum svo sem Dvalarheimilinu Grund, Landspítalanum, Sjúkrahúsi Akraness, Kleppi og Vífílsstöðum, lengst af þó á Sjúkrahúsi Sauðárkróks, en síðast á Hrafnistu við Norðurbrún. Á námsárum sínum kynntist hún Óla Jakobi Hjálmarssyni frá Ásfelli við Akranes, og áttu þau saman tvö börn Leó (1955) og Sæunni (1958). Þau slitu samvistum um það leyti sem seinna barnið Sæunn, fæddist. Þau voru þá enn bæði við nám og til þess að þau gætu haldið því áfram var Leó komið í fóstur hjá móðurafa og ömmu á Siglufirði, en Sæunni hjá föðurafa og ömmu á Ásfelli við Akranes.
En þau ílentust síðan bæði á þessum stöðum. Eftir nám réð Minný sig til starfa á Sauðárkróki. Þar kynntist hún Hauki Stefánssyni sem varð hennar lífsförunautur. Hann lést síðan 1992 langt fyrir aldur fram þá aðeins 58 ára að aldri. Banamein hans var krabbamein. Hann hefur starfað á Sauðárkróki sem málarameistari, staðið að verslunarrekstri, sem kennari og síðustu árin sem hann lifði rak hann saumastofuna Vöku ásamt Sigurði Frostasyni.
Árið 1972 fæddist þeim andvana dóttir og vegna þess hve tilhlökkunin og eftirvæntingin hafði verið mikil, varð sorgin þeim mun meiri og stærri. Það var bæði erfitt og sorglegt að koma á heimili þeirra að Víðigrund 13 og sjá vögguna sem aldrei var notuð og snyrtilega samanbrotin barnaföt sem nú var fundinn nýr notandi að. Eftir þetta hóf hún að starfa að nýju á Sjúkrahúsi Sauðárkróks, en fljótlega þó við umönnun á öldrunardeild þar sem hún starfaði síðan meðan hún bjó á Sauðárkróki. Þeim sem þekktu hana var vel kunnugt um að hún tók starf sitt fram yfir flest annað og það var hennar köllun í lífinu.
Eftir að hún varð ekkja fór hún að tala um að hún vildi skipta um umhverfi. Flytja til Siglufjarðar, Akureyrar eða Reykjavíkur, en á þessum stöðum lágu ýmist rætur hennar eða hún átti nákomna ættingja. Hún gaf sér góðan tíma til að hugsa málið en að endingu festi hún kaup á fallegri íbúð á sjöundu hæð við Skúlagötu 44 í Reykjavík sem þáverandi tengdasonur hennar Viðar Daníelsson hafði verið að byggja. Hún gaf sér líka góðan tíma til að skipuleggja íbúðina og velja sér húsgögn og innréttingar. Að endingu voru allir hlutir eins og hún vildi hafa þá og hún var ánægð með útkomuna. Þá var hún tilbúin til að fara að vinna aftur og réðist til starfa á Hrafnistu við Norðurbrún. Þar hafði hún unnið í hlutastarfi í um það bil mánuð þegar hún lést.
Sóley var bæði verkakona og húsmóðir og fórst hvort tveggja vel úr hendi. Hún saltaði síld á sumrin í síldarbænum en á vetrurna var oft ekki mikla vinnu að hafa. Þegar síldin hvarf af miðunum á miðjum sjöunda áratugnum hélt hún samt áfram að vinna við síld en nú hjá niðurlagningaverksmiðjunni Sigló-síld og starfaði þar það sem eftir var af stafsævi hennar. Þau Sóley og Leó tóku dótturson sinn Leó Reynir í fóstur strax við fæðingu og ólu hann síðan upp af mikilli alúð sem hann væri þeirra eigin sonur. Sóley var virkur félagi í Slysavarnarfélaginu Vörn og vann mikið fyrir félagið að þeim mikilvægu hugsjónastörfum sem þar eru unnin. Mikil og góð vinátta tókst með þeim og mörgum af nágrönnunum á brekkunni sem entist ævilangt, en margir þeirra settust þar að á blómaskeiðinu fyrir miðja síðustu öld eða um svipað leiti og Sóley og Leó. Hún dvaldi þrjú síðustu árin á dvalarheimili sjúkrahúss Siglufjarðar.
Gunnlaugur Daníelsson fæddist á bænum Tjarnargarðshorni í Tjarnarsókn, en sá staður nefnist í dag Laugarsteinn og þekktur fyrir einn af íbúunum sem þar bjó, en það var Ragnar jarðskjálftafræðingur.
Foreldrar hans voru hjónin Daníel Jónsson (1832-1875) bóndi frá Miðkoti á Ufsaströnd og Guðrún Jónsdóttir (1834-1897) frá Koti í Svarfaðardal. Daníel fórst með hákarlaskipinu Hreggviði vorið 1875 en þegar það gerðist bjuggu þau Daníel og Guðrún í Tjarnargarðshorni.
Við fráfall Daníels horfði ekki vel fyrir Guðrúnu því börnin voru orðin 6 að tölu og það 7. fæddist nokkrum vikum eftir fráfall Daníels. Sagt var að prestur og hreppstjóri hafi komið til Guðrúnar skömmu eftir sjóslysið ásamt fleiri bændum úr sveitinni í því skyni að bjóða upp heimilið og koma börnunum fyrir hjá lægstbjóðendum, en Guðrún hafi rekið þá út með harðri hendi og sagt þeim að hún ætlaði sér ekki að þiggja neitt af sveitinni.
Þeir hafi þá hrökklast út og aldrei haft ástæðu til að koma aftur. Elsta barn þeirra Júlíus var þá lítið yfir fermingu en með miklum dugnaði og aðstoð elstu barnanna tókst Guðrúnu að halda búi á jörðinni og koma þeim yngri á legg án aðstoðar sveitarsjóðs. Um Guðrúnu var það sagt að hún var gædd fádæma miklu þreki bæði andlega og líkamlega. Hún var hjálpsöm og hjartagóð og var ætíð tilbúin að veita bágstöddum af litlum efnum sínum. Guðrún var virt og mikils metin af öllum í Svarfaðardal fyrir heiðarlega viðleitni í sjálfsbjargarátt.
Gunnlaugur Daníelsson 75 ára.
Ljósmyndari ókunnur.
Engin mynd er til af Steinunni konunni hans svo vitað sé og sagt var að hún hafi alla tíð neitað að láta taka mynd af sér.
Gunnlaugur Daníelsson ólst að mestu leyti upp í foreldra og síðan móðurgarði. Um hann hefur verið sagt eftirfarandi: “Hann var í hærra meðallagi á vöxt, þrekinn og vöðvamikill, vöxturinn hraustlegur svo og allt yfirbragðið. Þrekmaður mikill að burðum og varð honum einhlít karlmennskan við erfið störf, bæði á sjó og í landi. Hann var hagvirkur og búhagur á smíði, þrifnaðarmaður og smekkvís, hagfróður að náttúru, ráðdeildarsamur og féskyggn. Hann var mesti sparsemdarmaður og trygglyndur svo af bar.”
Þann 27. dag janúarmánaðar árið 1892 gekk Gunnlaugur að eiga fyrri konu sína Önnu Sigfúsínu Zóphoníasdóttur (1871-1895) frá Bakka í Svarfaðardal. Foreldrar hennar voru Zóphanías Jónsson (1831-1875) bóndi og skipstjóri á hákarlaskipi og Soffía Björnsdóttir (1840-1910). Zóphanías faðir Önnu var formaður á hákarlaskipinu Hreggviði sem fórst með allri áhöfn og þar á meðal Daníel faðir Gunnlaugs. Gunnlaugur og Anna bjuggu örfá ár á Bakka og þar fæddist þeim dóttirin Guðrún Danielína (1893-1973). Tveimur árum síðan eða árið 1895 lést Anna svo úr taugaveiki og var það mikið áfall fyrir hinn unga bónda. Liðu nú allmörg ár og Gunnlaugur dvaldi á ýmsum stöðum og stundaði ýmist sjómennsku eða landbúnaðarstörf.
Á þessum árum kynntist hann barnsmóður sinni Valgerði Sigurðardóttur (1877-1952) frá Þórustöðum í Kaupangssveit. Eignuðust þau soninn Þorgrím Gunnar (1902-1980). Valgerður giftist síðan manni frá Siglufirði sem var Guðmundur Bílddal (1857-1946) kennari og síldarmatsmaður, en Gunnar ólst upp í þeim bæ hjá móður sinni og fósturföður og tók upp Bílddalsnafnið. Hann var síðar kaupmaður og síldarmatsmaður á Siglufirði, en fluttist til Reykjavíkur þar sem hann starfaði sem verslunarmaður.
Þann 28. dag októbermánaðar 1907 fór fram þrefalt brúðkaup í Urðakirkju. Brúðhjónin voru Gunnlaugur Daníelsson, ekkjumaður á Klaufabrekkum og Steinunn Sigtryggsdóttir af sama bæ. Björn Runólfur Árnason (1885-1972) á Atlastöðum og Stefanía Stefánsdóttir (1879-1956) frá Sandá. Jóhannes Stefánsson (1881-1964) á Sandá bróðir Stefaníu og Kristín Sigtryggsdóttir (1877-1964) systir Steinunnar en þær voru dætur hjónanna Sigtryggs Jónssonar (1852-1940) bónda að Klaufabrekkum og konu hans Steinunnar Þorkelsdóttur (1853-1938). Brúðkaupsveislan var haldin á Atlastöðum, og stóð í þrjá daga að sögn. Þegar brúðkaupið var haldið, var Gunnlaugur 39 ára en Steinunn 26 ára.
Fyrsta barn þeirra Gunnlaugs og Steinunnar, Sóley fæddist að Klaufabrekkum. Þau hjónin settu bú á Ytri-Mástöðum í Skíðadal og bjuggu þar frá 1909 til ársins1912 og þar fæddist einnig annað barn þeirra Anna Laufey (1910-2010). Eftir þriggja ára búskap misstu þau jörðina vegna misferlis sem kom upp í Íslandsbanka á Akureyri og í kjölfar þess tapaði Gunnlaugur öllu sínu sparifé sem nota átti til greiðslu fyrir jörðina. Þau urðu því að sætta sig við húsmennsku næstu árin og fluttu að Þorsteinsstöðum en þar fæddist Guðmar (1913-2002) pípulagningamaður á Akureyri. Þar fæddist einnig Jóhanna Kristín (1915-1995)
Um nokkurt skeið dvöldu þau á Sandá hjá Kristínu systur Steinunnar og Jóhannesi Stefánssyni. Árið 1916 fluttu þau að Hamarkoti sem var bæði lítil og rýr jörð og þar bjuggu þau til 1921 og þar fæddist yngri sonur þeirra Guðjón (1917-1994) húsasmiður á Akureyri. Þau Steinunn og Gunnlaugur voru síðustu ábúendur á Hamarkoti. Árið 1921 flytja þau að Upsum og bjuggu á fjórðungi þeirrar jarðar til ársins 1927 og þar fæddist yngsta dóttir þeirra Lilja Emilía (1921-2015).
Steinunn Sigtryggsdóttir lést úr berklum þ. 30. jan. 1923 aðeins 41 árs að aldri og er jarðsett í Upsakirkjugarði. Upp frá því leysist heimilið upp og yngri börnin voru tekin í fóstur af frændfólki sínu en Gunnlaugur bjó þar nokkru lengur með þeim eldri. Eftir þetta vann hann fyrir sér við ýmis störf í Hrísey, Siglufirði og e.t.v. víðar en flutti til Akureyrar 1932 og bjó þar í allmörg ár en síðustu æviár sín dvaldi hann til skiptis hjá börnum sínum fyrir norðan, en að mestu hjá Sóley dóttir sinni á Siglufirði.
Búskapur Gunnlaugs var ekki til langframa því á unga aldri vandist hann sjósókn og þótti góður liðsmaður í skipsrúmi. Á Akureyri vann hann síðan daglaunavinnu meðan heilsan leyfði eða allt fram á áttræðisaldur. Af því lífshlaupi Gunnlaugs Daníelssonar sem hér hefur lítillega verið tæpt á má glöggt sjá að hann hefur þurft að þola mikið mótlæti í lífinu og ekki komist manna best frá kapphlaupinu mikla um þau lífsins gæði sem flest okkar keppa í sífellu að. Hann andaðist að Hverfisgötu 11 Siglufirði þann 12. júlí 1952 og er jarðsettur að Tjörn í Svarfaðardal við hlið Önnu Sigfúsínu fyrri konu sinnar sem hann jafnaði sig aldrei á að hafa misst svo snemma.
(Samantekt: Leó R. Ólason)