Í dag líkur formlegu jólahaldi þrettán dögum eftir aðfangadag.
Þetta tímabil er mér oft erfitt vegna þess að ég er ekki heima.
Þá er ég að meina heima á Sigló, milli hárra hvítra fjalla sem eru böðuð í tunglskyni, norðurljósum og jólaljósum bæjarbúa og ártalið og ljósin í Hvanneyrarskál bíða þolinmóð eftir að fá að tilkynna öllum að komið sé nýtt ár.
Björt vetrarnótt á Siglufirði
Við brennuna á tólfslaginu stendur tíminn kjurr smástund þegar maður snýr sér við og horfir upp í skál og heyrir kirkjuklukkurnar hringa inn nýtt ár. Þá stendur maður eitt augnablik með annan fótinn í því gamla og hinn í hinu nýja.
Nýtt ár, nýir möguleikar, ný framtíð.
Þetta er sá tími sem heimþráinn þjáir mig sem mest, hugurinn reikar til baka, til horfina jóla, horfina vina og ættingja, allskyns minnar heimsækja hug minn. Taka yfir sál og líkama og bera mig til yndislegra æskuára á Sigló og ég stend mig oft að því að segja hátt við sjálfan mig:
“Guð hvað ég var heppin að fæðast í þessu fallega firði. Já......á Hverfisgötu 27 á neðri hæðin hjá ömmu Nunnu og afa Nonna, í sama herbergi sem ég var búinn til í, tuttugasta janúar 1962 í brjáluðu veðri og engin von um að komast út á sjúkrahús, þetta gat bara ekki verið betra.”
Æskuárin eru náttúrulega full af sakleysi og góðum minningum, en líka af allskonar prakkara- strikum og vitleysu sem hinn fullorðni maður sem býr í mér núna harðneitar að kannast við, það er eins og einhver annar hafi gert þetta og ég sjálfur beri enga ábyrgð á þessu.
En ég var bara barn og vissi ekki betur.
Eins og ein af mínu fyrstu jólaminningum frá Hverfisgötu 27 þar sem ég fjögurra eða fimm ára “lánaði” rosalega fínan gylltan Ronsson kveikjara sem afi Nonni fékk í jólagjöf, læddist út og fór niður í geymsluna undir tröppunum og kveikti í stórum haug af pappakössum og jólapappír sem fylltu hálfa geymsluna.
Stóð svo þarna í eldhafi og reyk, stjarfur af hræðslu og gáttaður á því hvað maður gat gert með þessum flotta Ronson kveikjara þegar faðir minn og afi hentu sér í sparifötunum inn í reyk og sót og mér var kastað út og ég lenti mjúkt í snjóskafli fyrir utan hurðina. Lá ekki lengi þar því amma Nunna kom og tók blessaðann drenginn sinn í fangið og við fylgdust með þegar feðgarnir slökktu eldinn og komu svo út öskureiðir í ónýtum sparifötum.
Afi ætlaði eitthvað að fara að skamma drenginn sem hélt ennþá á kveikjaranum flotta, en hún Unnur Möller hélt nú annað og hvessti augun á afa og sagði: “Jón Ólafur, hverskonar fíflagangur er þetta eiginlega að lána barninu kveikjara” , svo strunsaði hún bara framhjá þessum sótugu feðgum og fór með mig inn, þreif mig allan hátt og lágt og gaf mér heitt súkkulaði með rjóma.
Ég þurfti sko enga áfallahjálp, ég hafði ömmu Nunnu.
Síðan varð þetta bara verra, með allskonar slysum og óheppni sem eltu mig stanslaust í mínu brölti um brakka og bryggjur. Úr kajaka og brennusöfnunar stríðum kom maður oft særður heim en klippi kort hjá Sigurði Lækni á Suðurgötunni reddaði málunum og gerði það að verkum að manni blæddi sjaldan út.
Þar fyrir utan var maður ekki bara alin upp af sínum nánustu ættingjum, allur bærinn tók einhvernveginn þátt í þessu og reyndi sitt besta.
En ég var bara ungur og vitlaus og vissi ekki betur.
Síðan tók við 10 ára tímabil með vaxtarverkjum og ógurlegum hormóna truflunum og ekki bætti úr skák þegar Bakkus bauð upp í dans á flöskuböllum á hótel Höfn og talandi um dans þá á ég Dansskóla Heiðars Ástvalds mikið að þakka.
Þarna varð maður að dansa skottís við ömmu sína og tjútta við mömmu og dansa diskó við stelpur á öllum aldri. Það var svo gaman að dansa að ég fór oftast edrú heim, takk fyrir það Heiðar Ástvaldsson.
Þetta voru skrítnir tímar þar sem 16 ára börn máttu fara á böll og kaupa límonaði í könnu á barnum til að blanda í áfengið sem var í flösku undir borði.
En einhvernveginn komst maður heill út úr þessu eilífa gelgjuskeiði, þökk sé góðu fólki í þessum fallega firði sem tók í eyrað á manni þegar maður gekk of langt.
En ég var bara unglingur og vissi ekki betur.
Á menntaskóla árunum kom maður bara heim um jól, páska og í sumarvinnu, eftir það hefur þetta verið ein allsherjar HEIMÞRÁ í 35 ár, einhverskonar rótleysi og löngun í það góða og trygga uppeldi sem maður fékk þarna undir bröttum fjöllum í þröngum einangruðum firði á norðurhjara veraldar.
Í dag getur maður farið á inniskónum til Ólafsfjarðar til að heimsækja góða vini með viðkomu í Héðinsfirði og ég er aldrei beinlínis á leiðinn til Íslands eða Reykjavíkur, ég er alltaf á leiðinn heim, HEIM á Sigló.
Get ekki vanist því að búa í stórborg, sé ekkert sérstakt við það, vill ekki vera umkringdur háhýsum í mínum sjóndeildarhring.
Ég vill sjá fjöll og haf þegar ég vakna á morgnana og sömu sýn þegar ég fer að sofa.
Og núna þegar ég er kem mér í vandræði kominn vel yfir fimmtugt hef ég enga afsökun og enginn hleypur út úr háhýsunum hér til að bjarga mér.
En ég er bara seinþroska karlmaður sem ætti að vita betur.
Lifið Heil, Jón Ólafur Björgvinsson
Texti og ljósmyndir:
Nonni Björgvins