Leó R Ólason skrifar
Reiturinn
Þarna fyrir miðri mynd ofan við kirkjuna og skíðastökkpallinn fræga, var miðsvæði "Reitarinnar"
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson
Reiturinn
Hvar byrjar og hvar endar Reiturinn. Þetta er spurning sem eflaust eru til fjölmörg svör við, og líklega er upplifun bæði íbúa Reitsins og annarra Siglfirðinga misjöfn hvað það varðar og það má svo auðveldlega deila heilmikið um það þó að það sé auðvitað engin þörf á slíku. Líklegast er að mörkin séu bæði loðin og teygjanleg eins og fleira sem frægt er, en það hefur eflaust líka farið eftir því hverjir bjuggu í það og það skiptið á mörkum hverfisins og sóttu í félagsskap annarra ungmenna sem bjuggu ýmist fyrir norðan eða sunnan þá. Var til eitthvað hverfi sem kennt var við Óla Gosa fyrir sunnan Gryfjurnar, eða náði Reiturinn suður að kirkjugarðsvegg? Sitt sýnist hverjum um þau landamerki og eru sumir verulega harðir á sinni skoðun um það mál og fylgja henni jafnvel fast eftir.
Ekki er að heyra á þeim sem voru upp á sitt besta fyrir hálfri öld eða svo að það hafi verið mikill samgangur milli ungmenna við Hólaveginn og Hlíðarveginn norðan Brekkugötu, við þá sem bjuggu sunnan við Gryfjuna. Einn viðmælenda minna var Hálon Ólafsson og nefndi hann að stundum hafi samskiptin farið fram í formi grjótkasts yfir Gryfjuna. Alla vega hafi hann einu sinni fengið grjót í hausinn sem kom frá bakkanum sunnan við hana en vildi ekki nefna kastarann. Annars fór auðvitað lang oftast vel á með þessum grönnum. Eitt skemmtilegt dæmi um Það er að eitt sinn voru Ólafur læknir og Óli Gosa sem var sjálflærður dýralæknir, staddir á leiksýningu í bænum. Þá er Ólafur sóttur inn í salinn, því úti í bæ er einhver læknisþurfi. Stóð þá Ólafur upp og gekk til dyra, en þegar hann gekk fram hjá Óla Gosa laut hann niður að honum og hvíslaði „það er aldrei nokkur friður hjá okkur læknunum“.
Náði Reiturinn norður að Þormóðsbrekkunni eða alla leið að húsi Hjörleifs Magnússonar, eða jafnvel enn norðar? Eða niður að Bretatúninu eða kannski niður fyrir það? Vorum við þar kannski farin að nálgast villimannasamfélgið sem fáir vildu villast inn á þegar kvölda tók? Og hvers vegna var Reiturinn nefndur Reiturinn? Var það komið til út af því að séra Bjarni reitaði niður lóðirnar úr Hvanneyrarlandinu? Það hefur svo sem engin betri skýring fengist á nafngiftinni svo að við skulum láta frekari vangaveltur um það kyrrar liggja.
Stóri Brandur átti heima í Reitnum. Eitt sinn kom hann í lúguna hjá Schiöth og bað um „bóra“, en það var ekkert annað en spritt sem var vinsæl „drykkjarvara“ þegar ekki var hægt að versla í ríkinu því það lokaði yfirleitt í landlegum og svo vantaði stundum upp á um helgar.
„Og hvað ætlar þú að gera við það“ spurði afgreiðslumaðurinn.
„Hvað ætla ég að gera við það“ hváði Brandur. „Ég ætla auðvitað að bera það á brjóstin á konunni“ svaraði hann.
Afgreiðslumanninum varð svarafátt við þetta hvatvíslega innlegg í umræðuna og afgreiddi hann með „áfengið“ orðalaust.
Tveir ungir menn sem við skulum ekkert vera að nefna frekar til sögunnar, fundu stærðarinnar fallbyssu frá stríðsárunum um það bil 50 cm langa, sennilega í fjörunni utarlega í bænum.
Stóri Brandur (Guðbrandur Sigfússon) átti heima í þessu húsi, sunnan við Þormóðsgötu, nánast á Eyrinni rétt við Hvanneyrarbraut. Lj.m. SK
Hvort þetta var af herskipi sem strandaði einhvern tíma í firðinum eða var eitthvað stríðsára góss frá bretunum liggur ekki ljóst fyrir, en þetta var alla vega mikill og góður fundur að mati drengjanna og þeir vildu að sjálfsögðu vita hvernig svona apparat virkaði. Það var burðast með hólkinn út á strönd og troðið í hann blautum dagblöðum og pappa og með hjálp púðurs sem ættað var úr skarðs vegagerðinni var dúndrað út á fjörð með gífurlegum látum. En það varð auðvitað að gera betur því þeir félagar drösluðu fallstykkinu í strigapoka upp á Gimbrakletta.
Þar var aftur hleypt af við ekki minni drunur sem voru svo miklar að það bergmálaði lengi á eftir í fjöllunum í kring og sagt var að myndir dyttu af veggjum hjá Sæma Jóns og Jónínu Braun hvað sem satt er í því.
Löggan komst þá í spilið en prakkararnir úr Reitnum höfðu komið byssunni undan til skólafélaga síns Guðjóns Aðalsteinssonar sem bjó beint á móti Gagganum hjá Valda Raf. En einhver kjaftaði frá og fallstylkkið var því gert upptækt. Lengi vel var það geymt á lögreglustöðinni á Siglufirði, en þegar sú starfsemi var flutt niður í nýja húsið neðst við Gránugötuna hvarf það og getgátur eru uppi um að það sé núna hugsanlega geymt inn á Akureyri.
Þegar Ólafur læknir flytur til Siglufjarðar árið 1941 og settist að á Hólaveginum, en lengi vel þurfti hann að ganga um allan bæinn til að fara í vitjanir. Þetta var oft mikið labb og hann sótti því um að fá að kaupa bíl. Þetta var á skömmtunarárunum því úti í heimi geisaði stríð og innflutningur verulega takmarkaður. Mörg ár liðu áður en hann fékk innflutningsleyfið og þá byggði hann bílskúrinn niður við Hlíðargötuna. En tímarnir breyttust og nokkru síðar var hugsað fyrir því að ef það snjóaði var þess gætt að Hlíðarvegurinn væri ávalt vel ruddur svo að Ólafur kæmist greiðlega að heiman og út á sjúkrahús.
Hákon Ólafsson segir frá: Það var mikið leikið sér í snjónum og ekki bara farið á skíði. Ég plataði einu sinni mömmu upp á þak á húsinu heima og þegar þangað var komið ýtti ég henni fram af, en það var stór snjóskafl þar fyrir neðan og hún fór á bólakaf. Hún lét sig hafa það og varð ekkert reið og það urðu því engin eftirmál af þessu uppátæki mínu. En það var ekki alltaf hættulaust að stökkva svona, því einu sinni fór næstum því mjög illa fyrir mér. Halli Þór vélsmiður á Rauðkuverkstæðinu bjó neðar í Reitnum, rétt fyrir ofan fótboltavöllinn og þar var stærðarinnar skafl við hliðina á húsinu. Ég ákvað að nota mér hann, komst upp á þakið hjá honum og stökk niður í skaflinn. Sennilega hafa einhverjar verulegar og nýlegar hitabreitingar orðið í snjónum frá því að hann féll sem ég hef ekki áttað mig á, því skaflinn var orðinn að glerhörðum ís, lendingin var hörð og ég var heppinn að brjóta mig ekki.
Ég man líka vel eftir því þegar við kveiktum í fjallinu fyrir ofan Reitinn, en maður var nú líka stundum svolítill prakkari á þessum árum eins og gengur. Ég var lengi í felum á eftir því Stebbi lögga og einhverjir fleiri komu upp í fjall að leita að okkur. Við kveiktum í sinu fyrir neðan Gimbraklettana, eldurinn fór ansi mikið úr böndunum og logaði norður eftir fjallinu og við réðum ekkert við hann.
Björn Ingólfsson var sonur Ingólfs Níelssonar og Haflínu Björnsdóttur sem bjuggu fyrir norðan Lauga póst og við vorum ágætir leikfélagar. Einhverju sinni henti ég snjókúlu ofan í logandi bensín sem skvettist upp á Bjössa og kveikti í buxunum hans. Þetta var uppi á þakinu á hænsnahúsi Thorarensen og Bjössi stökk logandi út af því – alveg eins og í bíómynd! Hann lenti í snjóskafli fyrir neðan og þá slokknaði í honum. En hvað við vorum að gera við logandi bensín þarna uppi á þakinu á hænsnahúsi Tóra skal ósagt látið.
Ég átti það til að tuskast svolítið og átti þá jafnframt erfitt með að hætta þegar ég var byrjaður að slást við einhvern, sérstaklega ef ég hafði ekki yfirhöndina. Einu sinni var ég að slást við Björn og þá þurfti pabbi að koma alla leið inn í eldhús til Haflínu til að skakka leikinn og taka mig með sér því þau réðu ekkert við mig.
Ein af örfáum, ekki hefur fundist og eða sést opinberlega, nærmynd af Stökkpallinum við Gryfjurnar.
Þessi mynd er kroppuð og frá myndinni hér efst á síðunni og er því ekki með skarpar línu, en sýnir þó raunveruleikann Kroppað, unnið af Steingrími með AI
Það var fínn stökkpallur í Gryfjunum og Óli Níls var nú einna bestur í stökkinu. Hann og hinir skíðamennirnir stukku mikið þarna og stoppuðu sig á þakinu á sláturhúsinu sem síðar varð smurstöð og bílaverkstæði. Eldhúsglugginn hjá okkur var að ofanverðu í húsinu og einhverju sinni þegar ég var að borða þar sá ég að það voru einhverjir strákar á leiðinni upp í fjallið. Mig minnir að það hafi verið Óli Níls, Hjálmar Stefáns og einhverjir tveir aðrir. Ég flýtti mér að borða og dreif mig að stað með skíðagræjurnar, en þegar ég er aðeins lagður af stað sé ég að þeir hafa farið upp á Stráka. Ég fer upp eftir sunnan við Skálina þar sem Gimbraklettarnir eru. Það er gríðarlega bratt þarna og ég var orðinn svolítið smeykur við þetta. Ég vissi að ef maður dytti, þá væri voðinn vís og ég myndi enda í grjóturðinni fyrir neðan. En það var gott færi og ég náði strákunum þar sem þeir voru að stela harðfiski í einhverjum hjalli.
Holli Dýrfjörð keyrði olíubíl um tíma og ég hékk einhvern tíma aftan í bílnum hjá honum þegar það var gott skautafæri. Konan hans skammaði mig og sagði; „og þú líka, sonur læknisins“. Henni þótti greinilega ástæða til að gera meiri kröfur til mín en annarra vegna þess hverra manna ég var. Þá var líka stígur milli hússins okkar og hússins hans Níls sem var hægt að keyra eftir. Við renndum okkur þarna niður eftir bæði á skautum og á skíðum, fórum yfir Hlíðarveginn og niður allt Bretatúnið, en þetta var ekki alltaf hættulaust því það gat komið bíll eftir þessum þrönga stíg sem var seinna lokað og girt fyrir, svo og auðvitað líka eftir Hlíðarveginum.
Mikið af góðum skíðamönnum komu úr Reitnum á sínum tíma. Þar verður auðvitað fyrstan að nefna Hákon Ólafsson sem veitti goðsögninni Jonna Vilbergs oft harða samkeppni. Þaðan komu líka bræðurnir Gústi, Óli og Bogi Nílssynir, en þeir ólust upp á Hlíðarvegi 6 sem er í hjarta hverfisins. Það var kjallari undir húsinu hjá þeim og hann var yfirleitt fullur af skíðum. Og það sem meira var, að þar var líka talsvert um skíðaáburð sem var fáséður og mjög erfitt að komast yfir. Þeir bræður könnuðust við að það hafi hugsanlega orðið svolítil rýrnun á honum sem varð ekki endilega rakin til eigandans, en bræðurnir og skíðamennirnir efnilegu Haraldur og Sverrir Pálssynir bjuggu þá á neðri hæðinni. Svo var það Geiri Sigurjóns, hann var ólseigur skíðamaður og hann gekk líka svo vel um skíðin sín að það var með miklum ólíkindum. Geiri var nefnilega mikið snyrtimenni, en hann var bara í stökkinu. Jónas Ásgeirs kemur að vísu neðan úr bæ, en hann settist að í Hlíð sem er beint fyrir neðan þá bræður og Hlíðarvegurinn dregur nafn sitt af. Eiki Ólafs var líka úr hverfinu og stundaði skíðin af kappi, en hann hætti því miður allt of snemma að iðka þá göfugu íþrótt.
Þegar veðrið bauð upp á það, var gengið upp á fjallatoppana fyrir ofan bæinn og rennt sér alla leið niður í byggð. Oftast upp á Hvanneyrarhnjúk, en þangað var gengið með skíðin á bakinu. Ferðin var að sjálfsögðu ekkert auðveld, en Siglfirskir skíðakappar náðu að fara þangað upp tvisvar á dag, það var skammturinn. Einu sinni var Hákon næstum búinn að drepa sig að eigin sögn, en þá renndi hann sér einmitt niður af hnjúknum og niður hlíðina fyrir neðan Hvanneyrarskálina, en meðfram gilinu þar sem Hvanneyraráin rennur. Þá vildi ekki betur til en svo að eitthvað fipaðist honum ferðin þegar neðar dró og hann sveif niður í klettótt gljúfrið. En heppnin var með honum þá sem oftar því hann lenti á eina skaflinum sem finnanlegur var þar niðri og hann slapp því við beinbrot og kannski eitthvað þaðan af verra. Eina tjónið sem varð vegna þessarar flugferðar var að það rifnuðu buxurnar hans.
Það var einhvern tíma í kring um 1960 að siglfirskir skíðamenn lögðu á sig mikla vinnu við að koma upp Ljósabrautinni svokölluðu fyrir ofan hverfið og voru þeir Reitarmenn þar auðvitað framarlega í flokki. Rafveitan studdi þessa framkvæmd og lagði heilmikið til verksins, en tilkoma þessarar upplýstu brautar varð mikil lyftistöng fyrir skíðaiðkunina í bænum.
Bogi Nílsson segir frá: Þegar Óli fótbrotnaði í fyrsta skiptið vorum við þrír strákar á skíðum uppi í Hvanneyrarskál, ég, Ólafur og Hilmir Guðmunds og við höldum að það hafi verið 1957. Það var ekki mikill snjór, en talsvert svell þarna uppi og við vissum ekki almennilega hvað við áttum að gera. Ég var þá sendur af stað í bæinn eftir hjálp og fór niður eftir hlíðinni og hitti Arthúr Sumarliða við Seljaland. Hann fór fyrstur manna upp eftir, en svo hitti ég Eirík Guðmundsson bæjarverkstjóra og það var sent lið upp eftir til að koma honum niður eftir. Þetta voru eiginlega eintómir bæjarstarfsmenn sem báru hann niður úr Skálinni.
Strákarnir í Reitnum voru mestu friðsemdarmenn að upplagi, að minnsta kosti að eigin sögn og voru því ekkert endilega að atast í þeim sem bjuggu í öðrum hverfum á þessum tíma, ólíkt því sem stundum varð. Það var einna mest hugsað um að vera á skíðum um veturna og stunda svo auðvitað hefðbundna leiki sem allir krakkar stunduðu þegar enginn var snjórinn. Það var því lítið um skærur sem tíðkuðust milli annarra hverfa á ýmsum tímum, en þeir sögðust einu sinni hafa orðið vitni af gríðarlegum bardaga á Bæjarfógetatúninu. Þar var barist af miklum vígamóð með sverðum og af mikilli hörku. Þetta voru strákar neðan af eyrinni að slást við aðra stráka úr Villimannahverfinu eða einhvers staðar norðan að, en Reitarguttarnir héldu sig til hlés og fylgdust með að eigin sögn og við tökum þá auðvitað trúanlega.
Svo var líka æft box á Hólaveginum og þar kom Boddi (Bjarni Bjarnason) sem bjó í götunni stundum við sögu, en hann kunni þetta og var með sýningar uppi á Velli eftir að hann flutti suður. Einu sinni var reynt að efna til slagsmála og einn stór og mikill Siglfirðingur reyndi að fá hann til að slást við sig, en Boddi ýtti honum alltaf frá sér og ekkert varð úr slagsmálunum. Mótherji Bodda var enginn annar en Svenni Moli úr Skarðdalnum sem fáir vildu lenda í, en hann kunni ekkert að boxa svo að líklega var það bara mjög skynsamlegt af Bodda að fara ekki í hann því það er ekkert víst að það hefði endað vel fyrir Svenna.
Strákarnir þarna á Hlíðarveginum áttu það til að stríða Jóni Guddagudd sem svo var nefndur. Þetta varð eiginlega háfgert einelti á tímabili því þeir náðu að espa hann upp í að elta sig sem varð auðvitað til þess að þeir forhertust bara enn meira. Einu sinni settu þeir spýtu við húninn á hurðinni hjá honum og bönkuðu svo á dyrnar, en hann komst ekki út vegna spýtunnar og þetta þótti þeim auðvitað hin mesta skemmtun. En allt í einu kom hann hlaupandi fyrir húshornið og þá fór gamanið að kárna. Þeir höfðu ekki tekið það með í reikninginn að hann komst út um kjallaradyr hinum megin á húsinu og brast því flótti í liðið. En það urðu þó allir vinir á endanum og drengirnir gáfu Jóni meira að segja jólagjöf eitt árið.
Það var gríðarlegur rottugangur í Reitnum á miðri síðustu öld og ekki síst í hænsnabúinu hjá Torarinsen sem stóð ofan við Hólaveginn svolítið norðan við kartöflugeymsluna. Georg sonur Lauga pósts vann talsvert fyrir Tóra og hann var fenginn í það verkefni að drepa rottur í hænsnahúsinu. Hann fékk einn strákanna úr nágrenninu til að aðstoða sig við rottuveiðarnar og lýsa sér með vasaljósi á kvöldin þegar hann fór á veiðar. Hann skaut á þær með alvöru byssu og það með mjög góðum árangri því þær steinlágu þarna hver um aðra þvera. En svo kom líka að því að það þurfti að slátra hænunum. Þá var eins konar höggstokkur fyrir utan hænsnahúsið þar sem hausinn var höggvinn af þeim og þær flugu síðan hauslausar um næsta nágrenni og voru þá hverfisguttarnir fengnir í það verkefni að tína þær saman.
En samheldni íbúanna við Hólaveginn var mikil og þrátt fyrir að það væru nú ekki allir sammála í pólitíkinni nema síður væri, var það svo að þeggar Óli Níls fór suður í Verslunarskólann, fékk hann leigt hjá Gunnari Jóhannssyni sem þá var kominn á þing fyrir kommúnistana, en hann var einn þeirra sem bjó við Hólaveginn á Siglufirði þegar hann var þar. Þá fór Óli með honum í heimsókn í Rússneska sendiráðið þegar haldið var upp á byltingarafmæli Bolsanna.
-
Samantekt: Leó R. Ólason
Sérstakar þakkir: Hákon Ólafsson, Óli Nílsson, Bogi Nílsson, Ragnar Páll Einarsson, Gunnar Trausti Guðbjörnsson, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, Guðrún Ólafsdóttir, Ólafur Haukur Árnason.