Skrifað 2002 + endurskrifað 2024 af sk - Blandaðar heimildir, skriflegar, munnlegar og eigin þekking.
Sýningar í kvikmyndahúsinu Nýja Bíó á Siglufirði hófust  föstudaginn 25. júlí árið 1924, þá í nýbyggðu húsi sérstaklega ætluðu til kvikmyndasýninga. Húsfylli var þetta kvöld (355 manns) og var þar auk þess í tilefni frumsýningar, tvísöngur í höndum 2ja konsúla á staðnum þeim Þormóði Eyjólfs og S.A.Blöndal. Kvikmyndin hét “Madsalune”. 
Húsið byggði Hinrik Thorarensen og rak hann Nýja Bíó í tugi ára (af fyrirtækinu  Valur hf), eða þar til synir hans tveir, Oddur og Ólafur tóku við rekstri þess. Oddur var lengur við reksturinn, eftir að Ólafur hætti og snéri sér að verslunar rekstri við Aðalgötu 34 á Siglufirði, en Ólafur flutti siðar erlendis þar sem hann er nú. (2002)
Árið 1982 seldi Oddur allar eignir "Valur hf." undirrituðum sem stofnaði fyrirtækið "Nýja Bíó hf." sem nú er eign undirritaðs og elsta sonarins Valbirni, ásamt eiginkonum, undirritaður rak fyrirtækið til ársins 1992 en þá tók sonur minn við rekstrinum og jók umfang og rekstur.
Kvikmyndasýningum í Nýja Bíó urðu fyrir verulegum áföllum vegna tilkomu video væðingar, og sætum hafði fækkað niður í 120 ca. og “Bíó” er nú aðeins smá brot af rekstrinum, þar sem Siglfirðingar eru orðnir of værukærir og nenna ekki í bíó og sem dæmi má nefna að á síðustu 3 sýningar komu aðeins um 200 manns samtals en það var á íslensku myndina “DJÖFLAEYJAN” en svo margir hafa þó ekki komið á venjulegar erlendar kvikmyndir að undanförnu, af örfáum undantekningum þó.
Árið 1999 var  Nýja Bíó á Siglufirði elsta starfandi kvikmyndahús landsins, en þá “lauk” samfelldum ferli hússins, sem kvikmyndahús, þegar hlutafélagið Nýja Bíó hf. seldi húseignina og rekstur til Sparisjóðs Siglufjarðar, sem samhliða seldi Íslandsbanka, sem og seldi Tómasi Pétri Óskarssyni veitingamanni, sem áður rak Billann við Lækjargötu. 
Tómas gerði umfangsmiklar breytingar á húsnæðinu sem hentaði veitingarekstri, til dans og samkomustaðar, en ekki þó til kvikmyndasýninga að sinni, en sá möguleiki væri þó opinn, ef síðar þykir ástæða til. (sagði hinn nýi eigandi aðspurður)
Ég þekki lítið til þeirra sem komu að kvikmyndahús rekstri, annarra en til þeirra sem komu að rekstri og vinnu við Nýja Bíó en eins og að framan segir þá byggði Hinrik Thorarensen húseignina Nýja Bíó árið 1924. 
Hinrik var menntaður barnalæknir, sá fyrsti á Íslandi og stundaði barnalækningar hér á Siglufirði frá 1921, en snemma fór hann að sinna öðrum málum, hann var aðaleigandi og ritstjóri staðarblaðs að nafni “FRAM” sem kom út vikulega. 
Hann rak auk læknastofunnar (sem ekki aðeins börn nutu), Apótek, hótel (Hótel Siglunes) og 2 -3 veitingahús, stórt hænsnabú, skóverslun, umboð Tóbaksverslunar ríkisins, síldarsöltun ofl., ofl. 
Hann átti fjóra syni, Ragnar sem er kjarneðlis prófessor við háskóla úti í Bandaríkjunum, einn rak verslun við Laugarveginn í Rvk. Þ.e. Hinrik, Ólafur var í félagi við Odd um rekstur bíósins og síðar einn vefnaðar og skóverslun, en eftir að Thorarensen eldri skipti upp eignum sínum og deildi þeim til sona sinna þá skildu leiðir þeirra Odds og Óla í rekstrinum. Síðar fluttist Óli erlendis og hóf þar umboðverslun og er hann nú hættur störfum eins og Oddur, en er enn erlendis, Oddur er á elliheimili fyrir “sunnan”.
Frá árinu 1926 starfaði faðir minn Kristinn Guðmundsson, þá 12 ára við Nýja Bíó og stundaði hann þar ýmis störf, allt frá sendilstörfum, dyravörslu, aðgöngumiðasölu og afgreiðslu jafnhliða í Skóbúð Thorarensen, síðar í tóbakseinkasölunni og frá árinu 1928 starfaði hann einnig sem sýningarmaður í hjáverkum. Þá fór faðir minn til náms í útvarpsvirkjun í bréfaskóla í Noregi og útskrifaðist síðar í Rvk hjá Landssíma Íslands sem fullgildur útvarpsvirki, en eftir heimkomuna tók hann alfarið við sýningunum og stundaði þær ásamt útvarps vinnustofu sinni til dauðadags árið 1980.
Undirritaður hóf snemma afskipti af bíó, samkvæmt frásögn móður minnar fór ég fyrst 2ja ára á “bíó” þá sitjandi á armi móður minnar uppi í sýningarklefa hjá föður mínum, en eftir að ég fór að geta bjargað mér sá ég nær allar myndir sem hægt var að komast yfir, án tillits til hvort þær væru bannaðar börnum eða ekki, en þegar myndir voru bannaðar þá sá ég þær uppi hjá föður mínum í sýningarklefanum, (eftir 11,12 ára aldur. Móðir mín hafði þá trú, að ef hún og eða foreldrar kenndu börnum sínum að horfa á kvikmyndir, segði þeim að “bíó” væri afþreying en ekki skóli, og ekki ætti að herma eftir því sem á tjaldinu birtist, því það væri aðeins leikur (sem ég hefi nú sannað á mér sjálfum ásamt börnum og barnabörnum, en ekkert okkar hefur leiðst út í neitt sem telja mætti óæskilegt og enn síður komist í kast við lögin, en öll börn og barnabörn mín hafa fengið samskonar uppeldi gagnvart kvikmyndum.
Og það fór ekki hjá því að ég færi einnig að læra að sýna og árið 1947 þegar nýjar sýningarvélar voru keyptar þá fylgdist ég grannt með uppsetningu þeirra og fékk alltaf greið svör frá föður mínum sem sá um uppsetningu vélanna, og árið 1948 þá 14 ára sýndi ég mína fyrstu kvikmynd án þess að faðir minn væri nálægt, myndina “Non-Stop New York (UK (1937)" sem var spennumynd bönnuð yngri en 16 ára og var þetta frumsýning myndarinnar á Íslandi, en Thorarensen hafði allt frá upphafi sýninga í Nýja Bíó gert mikið af því að flytja myndirnar sjálfur inn og leigði þær síðan gjarnan bæði til Reykjavíkur og annarra staða úti á landi.
Sýningin tókst vel þó svo ég hafi ekki veitt myndinni sjálfri mikla athygli það kvöldið, númer 1, 2 og 3 var að sinna mínu verki. Ekki man ég hvaða ár ég gekk í Félag Sýningarmanna við Kvikmyndahús, eða hvenær ég fékk “staðbundin réttindi” og eða hvenær ég gekkst undir próf í greininni og fékk fullkomin réttindi auk kennsluréttinda, enda skiptir það varla máli.
Synir mínir báðir, Valbjörn viðskiptafræðingur, og Kristinn sem er verkfræðingur hjá Marel, lærðu ungir að sýna og hófu sýningarstörf hjá mér eftir að ég keypti bíóið, og síðar tveir dóttursynir mínir Steingrímur Örn og Steindór Örvar, allir voru þeir um 12-14 ára að aldri þegar þeim var trúað fyrir vélunum.
Ég hefi ekki enn nefnt dyraverði sem hófu starf sitt hjá Thorarensen, einn þeirra sem lengst hefur starfað við slíka iðju er sennilega Grímur Sigurðsson sem var dyravörður frá 1924 til dauðadags (í tíð Thorarensen). 
Þá má ekki gleyma konu sem hét Steinþóra Einarsdóttir og var eiginkona Gunnars Jóhannssonar alþingismanns, hún var vinsæl á meðal barna og unglinga fyrir hvað hún lokaði oft augunum fyrir aldri krakkanna þegar myndirnar voru bannaðar, 
“Það er eftir að hún sjálf hafði metið þær eftir fyrstu sýningu” og ef henni fannst ekki ástæða til að hafa þær bannaðar. Hún leysti stundum af, annan dyravörð sem hét Frans Jónatansson, en þetta var eldri maður. 
það var nokkuð eftirlit á þessum árum hvað barnagæslu í bíó varðaði og höfðu tveir menn þann starfa að fylgjast með því og báru merki Barnaverndar í barminum, en höfðu þó oft meiri áhuga á myndunum sjálfum en starfinu að mér fannst, þó gerðu barnaverndar “frömuðir” nokkrar tilraunir til að stöðva mig við sýningar á bönnuðum myndum sem "hæfðu ekki" mínum aldurshópi, en ég hleypti þeim að sjálfsögðu ekki inn til mín, og fór stundum út um glugga að lokinni sýningu, ef ég hafði grun um að nefndarmenn biðu eftir mér (ég vissi af tilfellum) til á geta kært Thorarensen og útilokað mig frá sýningum þegar myndir væru bannaðar. 
Þetta var á þeim tíma sem ég hafði ekki náð 16 ára aldri, en faðir minn var útvarpsvirki eins og áður segir og vann mikið við iðn sína, sérstaklega á sumrin þegar síldin var, og þá aðalega í landlegum, þegar mest var að gera bæði við viðgerðir á talstöðvum dýptarmælum oþh. hjá flotanum.
Þegar landlegur voru, þá var sýnt bíó klukkan 3,5,7,9 og 11 eða 5 sýningar á dag og alltaf uppselt (alla daga sem landlegur voru), og sýndi ég oft fyrstu 4 sýningarnar og faðir minn leysti mig svo af klukkan 11. 
Þetta voru dásemdar dagar, oftast 2-3 nýjar myndir á dag, og faðir minn endursýndi þær svo dagana eftir landlegur.
Nýja Bíó á Siglufirði var eina húsið hér sem reist hefur verið sérstaklega í þeim tilgangi að sýna kvikmyndir, en ég man vel eftir öðru kvikmyndahúsi sem var starfrækt í Alþýðuhúsinu um 5-6 ára skeið (ónákvæmt) á Siglufirði og hét Siglufjarðarbíó, og heyrt hefi ég og lesið um bíó sem voru hér fyrir 1918 í Leikfimisal Barnaskólans, og annað í húsi sem hét (síðar) Gamla Bíó. Þá sýndi MÍR rússneskar kvikmyndir um 1-2 ár með millibilum, bæði í Sjómannaheimilinu, Nýja Bíó og “Kommahöllinni” við Suðurgötu 10. Og ýmsar sögur fara af farandsýningum fyrir árið 1918.
Ég man ekki eftir undirleik við þöglu myndirnar, en foreldrar mínir sögðu mér frá að svo hafi verið nær undantekningarlaust fyrstu árin, en þó  man ég eftir þöglu myndunum sem krakki, og einnig þegar farið var að spila grammafónplötur með talinu og hljóminum sem fylgdi myndunum, en þó óljóst þar sem ég var aðeins barn, og þá vegna þess að ég var öllum stundum með föður mínum þegar hann var að sýna.  
Jónatan Ólafsson tónskáld með fleiru starfaði á sínum yngri árum hjá Thorarensen, og ekki ólíklegt að hann viti eitthvað um málið og jafnvel að hann hafi leikið við slík tækifæri en hann lék “dinner músík” og á böllum á Bíó Café. 
Ég hitti Jónatan, sl. sumar (1999) en hann kom hingað á “Síldarævintýrið” þá vel ern þrátt fyrir háan aldur, 80 ára held ég.
Ég minnist frásagnar af  atburðar sem urðu um 1935, þá var verið að sýna kvikmyndina NERO, sem var ein af þöglu myndunum, fyrir fullu húsi, þar á meðal voru 2-3 áhafnir Færeyskra skúta. 
Faðir minn var að sýna og hjá honum var Ragnar elsti sonur Thorarensen, þegar filman sem verið var að sýna slitnaði (fyrir ofan ramma) og svo illa vildi til að filmuræman rúllaði inn í kolbogahúsið (ljósgjafann). Þá voru filmurnar úr efni sem kallað var nitrit, sama efni og var notað í skotfæri í stríðinu, og ekki af sökum að spyrja það kviknaði í og áður en varði, varð eitt eldhaf, faðir minn rauk að Ragnari og kom honum út hið snarasta og fór síðan inn slökkti á vélinni og í fátinu opnaði hann spólukassann og ætlaði að freista þess að koma logandi filmunni út. 
Hann greip um spóluna, bar hana út að glugga, en um leið og aukið súrefni umlukti spóluna varð allt alelda og faðir minn brann inn að beini á höndum og brenndist illa á andliti.
Það er að segja af áhorfendum, að það gleymdist í látunum að kveikja ljósin í salnum, en áhorfendur komust ekki hjá því að sjá hvað var að ske fyrst þegar slitnaði og síðan af eldbjarmanum, og allir þutu hver um annan til dyra. Engin alvarleg meiðsl urðu á fólki ef undan er skilin, á sýningar manninum .
Síðar var sagt frá því að tréklossar sem Færeyingarnir áttu hefðu verið á floti um allan salinn, en þeir höfðu flestir skilið þá við sig í látunum við að komast út og sagnir herma að það hafi verið spaugilegt að fylgjast með daginn eftir, er þeir reyndu að þekkja og endurheimta skótau sitt, sumir kröfðu “bíóið” um nýja, eða bætur sem þeir fengu.
Það urðu ekki mjög miklar skemmdir á húsinu og hófust sýningar aftur nokkrum mánuðum síðar.
Faðir minn stjórnaði uppsetningunni á tækjabúnaði aftur en gat lítið annað gert þar sem hann var með reifaðar hendur,
en hann hóf þó sýningar að nýju þegar húsið var tekið í notkun aftur.
þegar ég var kominn til vits og ára þá var þessi atburður rifjaður upp fyrir mér og faðir minn brýndi fyrir mér að það eina rétta sem hann gerði þetta örlagaríka kvöld var að koma Ragnari út en þó ekki alveg í réttri röð, hann hefði átt að byrja á að slökkva á vélinni, koma Ragnari út og ná í slökkvitækið, hann hefði aldrei átt að opna spólukassann, alls ekki er víst að eldurinn hefði komist þangað upp á milli “rúllana”, hann hefði átt, eftir að hafa tæmt slökkvitækið forða sér út og loka á eftir sér, því klefinn átti að vera “eldtraustur” en þar sem hann tók spóluna þá missti hann hana og eldur komst í aðrar spólur og þá var andskotinn laus og ekki tími til annars en að forða sér, og án þess að geta lokað dyrunum
Ég á minjar um þennan atburð, en það er filmubútur sem eftir var í myndrammanum,  ein heil mynd, rammi lítilháttar sviðinn og á svörtum fleti standa þessi orð: 
Myndin hér til hliðar >>>>> “Død over Nero, Død over Brandstifteren” en einmitt á þeirri stundu í bíómyndinni sjálfri, stóð yfir bruni Rómarborgar á dögum Neros, eins og sagan segir og á tjaldinu í salnum var einmitt eldsvoðin sýndur og textinn er tilkominn þar sem fólkið “hrópaði” formælingar yfir Nero, en þetta var ein af “þöglu myndunum” sem verið var að sýna.  --- Nánar um brunann má lesa HÉR
Ekki man ég hvaða ár fyrstu talmyndirnar komu hér, en faðir minn sagði að tækin sem hingað komu hafi verið með þeim fyrstu. Og ekki man ég heldur um fyrstu litmyndina.
En einu atviki verð ég að segja frá sem var nokkuð táknrænt fyrir fallandi menningarbrag gagnvart kvikmyndasýningum á Siglufirði nú seinni árin, en sagt var frá þessu í einhverju dagblaðanna á sínum tíma. Ég var búinn að reyna mikið við filmu-leigusala í Rvk. að fá nú einu sinni amk. að frumsýna kvikmynd og óskaði eftir því um jólin 1986 
Einn leigusalinn Friðbert Pálsson í Háskólabíó, lét þetta eftir mér og bauð mér myndina  “OTHELLO” með Pavarotty og það sem meira var það var ekki enn farið að sýna myndina annarsstaðar í Evrópu, og þar sem Siglfirðingar höfðu til langs tíma verið þekktir músík unnendur taldi ég þetta tilvalinn kost. Auk þess hafði ég orðið fyrir ámælingum í tali fólks og ma. fengið sneið í einu bæjarblaðanna að ekki væri hægt að far í bíó á Siglufirði vegna þess að þar væru eingöngu sýndar menningarsnauðar kvikmyndir, eins og glæpamyndir og jafnvel klámfengnar myndir. Þetta var rétt hvað valið snertir en það voru einu myndirnar sem gáfu arð og hann þurfti til að hægt væri að sýna bíó.
Vegna “OTHELLO”, gerði það sem ég var ekki vanur að gera aukalega, ég auglýsti myndina óvenju vel, dreifði upplýsingum víða, um myndina og “Evrópu frumsýningu á 2.dag jóla” og átti von á húsfylli sem oft áður (nema jólin þar áður). Ég hóf að sjálfsögðu sýninguna umrætt kvöld á réttum tíma sem endranær kl. 21:00 og lauk sýningunni eins og vera bar. Það hafði verið milt og gott veður fyrir sýninguna þetta kvöld en þegar henni lauk var komin smá snjókoma svo ég bauð mæðgunum og dyraverðinum að keyra þau heim. Já allir sem sáu þessa mynd umrætt kvöld komust fyrir í fólksbifreið minni, 2 gestir mæðgur, dyravörður og sýningarmaðurinn (ég) og kona mín sem hafði verið í sælgætis sölunni, hitt starfsfólkið hafði fengið að fara heim fyrr um kvöldið. Nánar um þann atburð og eftirmáli
Ekki veit ég um venjur sem skapast hafa annarsstaðar, en ég man eftir á árunum 1950 - 1960 þá voru “fastir áskrifendur” ætið á öllum frumsýningum yfir vetrartímann, fólk sem ætíð sat í sínum föstu númeruðu sætum og áttu sætin sjálfkrafa frátekin fyrir sig og konu sína án tillits til hvaða, eða hverskonar mynd var í boði og tvö sæti oft til vara sitt hvoru megin, ef á þurfti að halda fyrir vini og eða kunningja sem þeir stundum buðu með sér. Þetta var fólk af öllum stéttum og á öllum aldri. En á þessum tímum voru sætin ætíð númeruð, og miðar einnig á frumsýningum og þegar von var á húsfylli.
Spennumyndir hafa alla tíð verið mest sóttar, svo gamanmyndir, músík myndir hafa einnig verið vinsælar.
Lítið er um “minjar” í mínum fórum ef frá er taldar gömlu góðu sýningavélarnar frá 1947 sem notaðar voru allt til síðustu daga, með þó breyttum ljósabúnaði og nýju magnarakerfi, og filmubúturinn “góði” frá “NERO”, gamla bíómiða sem ég átti, gaf ég safnara hér í bæ: Þór Jóhannsson sem varðveitir þá eins og gull væri, filmur sem til voru eru vonandi í Kvikmyndasafninu til varðveislu, en þangað sendi ég þær á sínum tíma, einhver hundruð prófgrömm eru til, sum að vísu voru límt sem veggfóður í bíósal (sem skraut). Nokkrar dagbækur föður míns og mínar, vegna sýninga og kvikmynda sem sýndar hafa verið hjá Nýja Bíó.
Oddur Thorarensen, 1920-2015 sem var fróður um sögu kvikmyndasýninga á Siglufirði, ég man ekki eftir öðrum.
Eins og komið hefur fram þá voru sýningar frekar strjálar, það er “bíó” annað slagið þá þegar okkur bauðst myndir sem búast mátti við að stæðu undir fyrirhöfn og kostnaði, og þá kemur naumast annað til en góður og þekktur spennu trillir.
Nokkur minnisatriði vegna sögu kvikmyndasýninga á Siglufirði svo langt sem ég sjálfur man og af þeim frásögnum föður míns og annarra um það efni.
Til eru gögn í filmusafni mínu sem ég ljósmyndaði úr gömlum heimablöðum gefnum út frá 1917 ? til ?, ég man ekki nákvæm ártöl þar sem upplýsingarnar eru ekki nú við höndina. (blöðin eru til á Bókasafni Siglufjarðar og á timarit.is) en þetta eru greinar, fréttir og auglýsingar.
Ljósmyndirnar eftir þessum filmum sendi ég umbeðinn, til forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands. Um svipað leiti sendi ég safninu talsvert magn af kvikmyndafilmum “nitritfilmum”, til varðveislu, en það voru að mestu gamlar erlendar fréttamyndir, og þar á meðal frönsk (minnir mig) fræðslumynd um landbúnað, sem mun vera með þeim fyrstu ef ekki í fyrsta sinn þar sem var talað var íslensk tunga með erlendri fræðslumynd.
Fjöldi sýninga árið 1984 í Nýja Bíó á Siglufirði, hefur farið niður fyrir þann fjölda sem æskilegt væri, til að hagnaður yrði að, og var sýningum haldið áfram frekar af þrjósku en getu, til ársins 1999, síðustu kvikmyndirnar í alvöru kvikmyndahúsi á Siglufirði.
Steingrímur Kristinsson,
SIGLUFIRÐI