Hvert af öðru hverfur það nú fyrir ætternisstapann fólkið sem fæddist um og upp úr aldamótunum. Fólkið sem upplifði á æfi sinni meiri breytingar á íslensku þjófélagi en orðið höfðu í þúsund ár þar á undan. Fólkið sem skóp þessar breytingar, oftast með hörðum höndum.
Í þeirra hópi var Steinunn Antonsdóttir. Hún fæddist að Deplum í Fljótum þar sem norðlensku fjöllin rísa himinhá og tignarleg en Stífluvatn endurkastar himinblámanum eins og alsjáandi auga guðdómsins. En ógnþrungin verða hin norðlensku fjöll þegar vetrarstormarnir skekja bæði burst og súð og væla við hvers manns dyr. Þá þarf bæði þrek og þor til að takast á við þau öfl sem engu eira. En það voru einmitt þessir eiginleikar Steinunnar, þrek og þor, sem skópu henni þá reisn sem hún bar til síðustu stundar. Þessir eðlisþættir fengu þá sem henni kynntust til að bera djúpa virðingu fyrir henni.
Steinunn ólst upp hjá foreldrum sínum á Nefsstöðum í Fljótum í Skagafirði. Þau voru Anton Grímur Bjarnason bóndi þar og kona hans Jónína Stefanía Jónasdóttir. Sjö voru þau systkinin og ein fóstursystir. Jónas, Helga og Guðrún sem eru látin, en Jóhanna, Guðmundur, Sigríður og fóstursystirin Stefanía búa ýmist á Siglufirði eða í Reykjavík. Öll reyndust þau mikið dugnaðar- og sómafólk sem og afkomendur þeirra.
Fáar sveitir á Íslandi eru jafn snjóþungar og Fljótin. Dag eftir dag getur kyngt niður snjónum. Hvít hulan leggst yfir allt. Löng vetrarnóttin bregður fölva sínum yfir sveitina á milli þess sem kafaldsbylurinn byrgir alla sýn. Þá er löng biðin eftir vorinu, ekki síst ungri stúlku sem á ást sína í meinum og finnur nýtt líf vaxa í skauti sér, frumburð sinn. En öll él birtir upp um síðir og eitt sinn á miðju sumri þegar sól vermdi jörð sat hún við túnfótinn á Nefsstöðum. Burðurinn var orðinn mun þyngri. Heyskapurinn hafði staðið allan daginn. Fólkið var að hverfa inn í bæinn til kvöldverðar. Ilmurinn af gróðri jarðar fyllti vitin. Þá var gott að vera ein nokkra stund. Glitrandi vatn árinnar sem hríslaðist fyrir framan túnið hvarf að lokum í bláma vatnsins. Hinum megin dalsins reis Lambahnjúkur snarbrattur nær þúsund metra hár. Tign fjallsins er mikil. Í efstu hjöllunum var ær með lambið sitt. Hægt en ákveðið fikraði hún sig syllu af syllu þar sem safaríkan nýgræðinginn var að finna. Hún leitaði þess besta fyrir lambið sitt þó á brattann væri að sækja. Hægt reis stúlkan á fætur og gekk heim túnið.
Þetta augnablik lifði lengur með henni en önnur. Hversu mikill sem brattinn varð í lífi hennar og hversu sem leiðin virtist stundum vera grýtt tókst henni ávallt að bjarga sér og börnunum. Hún ól Steini Jónssyni sem síðar varð sambýlismaður hennar fjögur börn. Þrjú þeirra, þau Hreinn, Jóhann og Sigrún, ólust upp hjá móður sinni en Regina í föðurgarði. Öll eru þau harðdugleg og eftirsótt til vinnu.
Steinunn fluttist til Siglufjarðar 1947. Þar gekk hún í alla þá vinnu sem gafst. Á sumrin var það auðvitað síldarvinnan sem mest gaf í aðra hönd. Það var engin tilviljun að eitt sumarið hlaut hún virðingarheitið "síldardrottning". En þann titil hlaut sú kona sem saltaði flestar tunnur í sömu törninni án þess að taka sér hvíld. Í þessari törn saltaði Steinunn 47 tunnu. Vinna í frystihúsinu, við ræstingar og aðstoð í heimahúsum og síðustu árin starf á sjúkrahúsinu voru þættir í starfsferli hennar eftir að hún kom til Siglufjarðar. Aldrei féll henni verk úr hendi því ef sest var niður voru prjónarnir óðara teknir upp.
Að hafa öruggt húsnæði var erfiðast að leysa fyrir einstæða móður, þá eins og reyndar í dag. Þurfa ekki stöðugt að flytja með börnin. Þetta tókst Steinunni, fyrst með lítilli kjallaraíbúð og síðar með kaupum á litlu húsi að Hvanneyrarbraut 30. Þar bjó Steinunn sér og börnum sínum og síðar sambýlismanni sínum Steini sérstaklega hlýlegt heimili. Honum sýndi hún sérstaka umhyggju síðustu æviár hans en hann var nokkru eldri en hún.
Kynni okkar Steinunnar hófust fyrir nokkrum árum. Svo háttar til að núverandi eiginkona mín Sigrún Davíðsdóttir er fyrrverandi tengdadóttir Steinunnar. Leiðir okkar lágu oft til Siglufjarðar og þá kom ekki til mála af Steinunnar hálfu annað en við byggjum hjá henni. Þannig urðu kynni okkar náin, þökk sé henni. Mér varð flótt ljóst að þar fór kona mikilla sanda og mikilla sæva.
Samband hennar og Hönnu systur hennar var sérstaklega náið og hlýtt. Ekki leið svo dagur að þær hittust ekki. Var þá gjarnan gripið í spil eða skellt sér í bingó ef færi gafst. Steinunn var vel hress til síðustu stundar. Hún sá alfarið um sig sjálf. Eitt af hennar síðustu verkum var að taka slátur. Hvern dag þegar veður leyfði gekk hún út í Strákagöng. Nú þegar hún er horfin yfir móðuna miklu til fundar við Guð sinn sem hún lagði allt sitt traust á í lífinu, viljum við Sigrún þakka það sem hún gaf og senda ættingjum og vinum hennar innilegar samúðarkveðjur.
Haukur Helgason.