Leó R ólason skrifar
Steinar og Vilborg
á Hótel Höfn sótt heim
Hann heitir Steinar Þór Jónasson, hún heitir Elísabet Vilborg Jónsdóttir og þau hafa komið sér vel fyrir að Boðaþingi 22 í Kópavogi eftir viðburðaríkt æfistarf. Undirritaður fór þangað í heimsókn um mitt nýliðið sumar ásamt Gunnari Trausta Guðbjörnssyni í því skyni að rifja upp Siglufjarðarár þeirra hjóna og kannski líka að fræðast svolítið um árin þar á undan. Af nægu reyndist af að taka og sátu menn nokkuð lengi á spjalli, auk þess sem Vilborg bar fram glæsilegt kaffiborð sem allir viðstaddir gerðu auðvitað góð skil.
Steinar er fæddur í Hrísey í húsi sem heitir Brekka þar sem lengi var rekið veitingahús, en eftir að til Siglufjarðar kom var hann lengi sendill hjá Gesti Fanndal á sínum unglingsárum. Hann sagði að það hafi oft verið mikið að gera, en erfiðast var að fara með kost út í skipin sem lágu stundum utan á mörgum öðrum skipum. Það var eiginlega nánast ógerlegt fyrir hann stráklinginn á þessum árum, en hann tók þá upp á því að hafa samband við skipstjóra eða stýrimann á fyrsta skipinu sem komið var að og óska eftir aðstoð áhafnarmeðlima. Það var yfirleitt brugðist vel við þeirri beiðni og sendingin komst þannig út í réttan bát með góðra manna hjálp.
Steinar Jónasson
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson
Elísabet Vilborg Jónsdóttir
Ljósmyndari ókunnur
Vilborg er ekki frá Siglufirði eins og spyrillinn hélt í fyrstu, þrátt fyrir að geta ekki ættfært hana á þeim stað. Það varð því ein af fyrstu spurningunum hvaðan hún kæmi. Hún sagðist koma úr Þykkvabænum og vera dóttir Jóns Óskars Guðmundssonar og Sigurbjargar Ingvarsdóttur. Jón var einn af frumkvöðlunum þar í kartöfluræktinni, en hann hafi eitt sinn farið til Reykjavíkur og tilgangur þeirrar ferðar var að kaupa svín, en hann kom með kartöflupoka til baka. Upp frá því hafi hann hafið kartöflurækt í Þykkvabænum og verið einn af þeim allra fyrstu sem það gerði.
Sigurbjörg var klæðskeralærð og jafnvíg á föt fyrir konur sem karla, en hjá móður sinni fékk Vilborg góða skólun sem reyndist henni vel þegar hún skipulagði og stjórnaði vinnunni á Saumastofunni Salínu síðar meir. Þá vitum við að Vilborg kom úr kartöflubænum.
Steinar var um tíma á sjó, meðal annars á siglfirska síðutogaranum Hafliða og á Súlunni hjá Birni frænda sínum á síldveiðum á reknetum á Rauða torginu og sagði það erfiðustu vinnu sen hann hefði stundað. Bátsverjar hefðu sjaldnar náð meira en fjögurra tíma svefni á sólarhring. Þegar búið var að draga netin og hrista úr þeim, þurfti að fara að salta. Síðan þurfti auðvitað að leggja netin aftur og það var í þessari þrælavinnu sem bakið gaf sig.
Í kolanámu í Þýskalandi
Ferð Steinars til Þýskalands bar upp á föstudaginn 13. í desembermánuði árið 1955, en sú dagsetning þótti ekki sérlega gott veganesti þá frekar en nú. Á þessum tíma þurfti að fá vinnu til að fá dvalarleyfi og þjóðverjarnir völdu þá atvinnugrein sem helst vantaði starfskrafta til að sinna, en á þessum árum var mikil þörf á vinnuafli til að rétta þjóðfélagið við, því ekki voru liðin nema 10 ár frá stríðslokum.
Steinar sótti um og fékk vinnu í kolanámu, fyrst í Palmberg sem er nálægt landamærum Hollands, síðan fór hann yfir til Belgíu og að lokum vann hann í Baesweiler Grube í þýskalandi og fékk þar íbúð sem námafyrirtækið átti.
En fyrst þurfti hann að læra eitthvað í þýsku og það gerði hann mest með því að stauta sig fram úr BILD-Zeitung sem varð til þess að hann varð sífellt betur og betur að sér í tungumálinu eftir því sem á leið. Eftir að hann ásamt nokkrum nýliðum höfðu fengið nauðsynlega tilsögn, var haldið niður í námuna. Það var þó ekki fyrr en snemma á árinu 1956 sem námuvinnan hófst, því það fór talsverður tími í að klára heilmikla pappírsvinnu og komu málum svo fyrir að öll tilskilin leyfi væru til staðar. Honum fannst það mjög skrýtin tilfinning að vera kominn niður á 800-1200 metra dýpi, ganga u.þ.b. einn kílómeter svona langt niðri í jörðinni að vinnusvæðinu þar sem kolin voru unnin og menn þurftu að vera mest allan tímann á hnjánum.
Þeir voru 8 saman í hverjum hóp og vegna þess að talsvert hætta var á hruni þarna niðri þurfti að ganga meðfram gangnaveggjunum. Áhöldin voru sérstakur meitill og lofthamar til að brjóta kolin, höfuðhjálmur með ljósi ásamt stóru batteríi sem borið var á bakinu, hnéhlífar úr gúmmí og skór með stáltá. Yfirmaðurinn hét Steiger og hann deildi niður hópunum á vinnusvæðin og þar var unnið í akkorði á 6 tíma vöktum. Steiger leit vel eftir mannskapnum þarna niðri og sá til þess að alltaf væri steinolíulampi á vinnusvæðunum í öryggisskyni, því ef það slokknaði á lampanum væri það vegna gasmengunar og þá skyldu menn koma sér í hvelli út í aðalgöngin.
Svo var vatnið sem kom undan kolunum önnur hætta, því það var baneitrað og ef það komst í sár fengu menn umsvifalaust blóðeitrun. Þrátt fyrir að gæta vel að sér fékk Steinar eitt sinn þess konar blóðeitrun í annan fótinn sem bólgnaði gríðarlega mikið og á honum mynduðust fjölmörg kýli. Það þýddi sjúkrahúsvist og þar sagði læknirinn honum að ekki væri hægt að deyfa fótinn vegna bólgunnar og hann yrði bara að þola sársaukann sem fylgdi þessu, en hann var ansi mikill. Það var því ekki um annað að ræða en að bíta á jaxlinn og bera sig vel. Læknirinn kom einu sinni til Steinars, leit á hann og sagði „Þú ert íslendingur.
Eru allir íslendingar svona andskoti hraustir“? Steinar jánkaði því og benti á að íslendingar væru nú einu sinni afkomendur víkinga. Það líkaði lækninum vel að heyra því þjóðverjar hafa löngum litið á afkomendur víkinga og norræn gildi á afar jákvæðan hátt eins og þekkt er. Á þessu sjúkrahúsi gekk Steinar um og skoðaði húsakynnin. Hann sá einu sinni hjúkrunarkonu fara inn í sjúkraherbergi þar sem allur umgangur var stranglega bannaður. Hann spurði hjúkkuna af hverju það væri og fékk þau svör að þarna inni væru sjúklingar sem væru með steinlunga eða ryklunga.
Þeir væru með sérstaklega útbúna súrefniskúta sem væru vandmeðfarnir en þyrftu auðvitað að fá sinn lágmarksskammt, en ekki of mikið því þá gætu lungu þeirra sprungið. Þarna var félagsskapur sem nefndist Knapchaft, en hann rak hressingarhæli fyrir þessa menn sem voru svo óheppnir að fá steinlunga sem var ólæknandi í þá daga og var ekkert annað en dauðadómur. Sjúkrahúsvistin varði í eina viku og þar var gott að vera. Morgunmaturinn var stórt glas af rauðvíni með þeyttu eggi sem verður að teljast mjög óhefðbundin byrjun á deginum heima á Fróni, en batinn gekk fljótt fyrir sig og eftir vikuna var aftur haldið niður í námuna.
Saltað te og tóbakstöflur
Það var ekki alltaf einfalt eða auðvelt að losa kolin. Það þurfti að vera meðvitaður um hvernig kolalögin lágu í jörðinni og það þurfti að beita talsverðri lægni við þessa vinnu. Kolamolarnir sem settir voru á færibandið máttu heldur ekki vera of stórir, en þaðan fór afraksturinn í vagna sem flutti kolin upp á yfirborðið tveir og tveir saman og þegar þeir fóru upp, komu aðrir tveir niður. En það þurfti auðvitað líka að hugsa um öryggið. Menn settu staura úr járni sem hægt var að framlengja undir gangnaþakið sem var yfirleitt ekki meira en 1.60 m. á hæðina. Ofan á staurunum voru svo settir bjálkar og timburdekk ofan á þá.
Menn urðu gríðarlega þyrstir af þessari vinnu, en höfðu með sér nesti á vaktina sem var yfirleitt 3-4 brauðsneiðar og te í álbrúsa.
Í teinu var ekki sykur heldur salt, en það var til þess að minnka vökvatapið úr líkamanum, en þarna niðri var yfirleitt um 30 stiga hiti.
Að drekka þetta saltvatn vandist illa og það verður að segjast að framan af var það bara alveg helvíti vont. Þess utan var loftið þarna niðri alveg gríðarlega mettað af ryki og það var ekki hægt að verjast því á nokkurn hátt, engar grímur eða neitt slíkt og þrátt fyrir að lofti væri dælt niður í námuna var þarna mjög loftlaust.
Menn voru alltaf með mikinn munnþurrk en til að bæta að einhverju leyti úr því voru gefnar sérstakar tóbakstöflur til að tyggja og þær orsökuðu meira munnvatnsrennsli. Þetta var ekki beint tóbak, en það var þó tóbaksbragð af þessu og þetta var svolítið eins og að tyggja skro. Eftir vaktina kom næsta vakt og hún byrjaði á að færa færibandið að kolastabbanum og taka járnstaurana og timbrið sem hafði verið komið fyrir undan gangnaloftinu. Þetta var hættulegt verk og alla ekki fyrir alla að vinna það.
Eitt sinn varð Steinar verulega smeykur því það fór að drynja í öllu þarna niðri. Þakið sem búið var að slá undan brotnaði niður, allt fyltist af stein og kolaryki, menn sáu ekki handa sinna skil í langan tíma og eina ljóstýran var höfuðljósið sem dugði skammt.
Í aðalgöngunum voru reyndar rafmagnsljós, en með löngu millibili, því það þurfti að spara og halda allri rafmagnsnotkun í lágmarki. Steiger sagði okkur að ef og þegar svona gerðist skyldum við halda okkur við kolastabblann því þakið brotnaði yfirleitt ekki við hann.
Svitafýla og kolaryk
Fyrir vélvæðingu voru notaðir hestar til að draga vagnana. Þeir voru þarna niðri oft svo vikum skipti án þess að sjá dagsljósið og gengu þarna um með leppa fyrir augum. Það voru ekki notaðir hvaða hestar sem var, heldur kom það yfirleitt í hlut íslenska hestsins að vera það fórnarlamb sem námugreftrinum nýttist best, því þeir voru bæði minni og mjög sterkir, en þetta hefur auðvitað verið ömurlegt hlutskipti. Eftir vaktina komum við upp í stóran sal þar sem við höfðum hver okkar skáp og skiptum um föt því þau sem við höfðum verið að vinna í voru yfirleitt rennandi blaut af svita.
Við hengdum vinnufötin á króka sem voru svo hífðir hátt upp í loft, en þar var blásari sem þurrkaði þau fyrir næstu vakt. Þau voru síðan orðin verulega illa lyktandi eftir vikuna. Svo fóru allir í sturtu og lagt var af stað heim, en komið við á krá og drukkinn einn bjór á mann til að skola rykinu niður, en ekkert meira en það. Einu sinni komu þarna fimm spánverjar til að vinna, en þegar niður var komið brjáluðust þrír þeirra og komu aldrei aftur. Það var svo sannarlega ekki fyrir alla að vinna þarna. Mannskapurinn sem fór þarna upp og niður í námuna fór með lyftum sem gekk mun hægar en þær sem fluttu kolin, því það var auðvitað talsverður munur á þrýsting uppi og niðri og því möguleiki á að fá snert af kafaraveiki.
Námuslys og kostaboðið sem var afþakkað
Þeir sem bjuggu í íbúðunum sem fyrirtækið átti, fengu sérstaka uppbót í formi kola og timburs á tveggja mánaða fresti yfir veturinn og þriggja mánaða fresti á sumrin til að nota við kyndingu, því þarna var allt hitað upp með kolum eða niður söguðum spýtuafgöngum.
Ef þetta var ekki allt notað var hægt að selja afganginn og fékkst þá ágætur peningur fyrir. Vinnutíminn var 8 tímar á dag. 6 tímar niðri í námunni, en klukkutími fór í að koma sér niður og annar í að koma sér upp. Stundum voru menn eitthvað lengur ef þurfti að aðstoða aðra hópa sem voru eitthvað á eftir áætlun með afköst sín.
Á meðan Steinar starfaði við námugröftinn fórust þarna fimm verkamenn, en lík þeirra náðust því miður ekki. Þetta voru mest tyrkir og spánverjar sem unnu þarna, en auðvitað eitthvað af þjóðverjum líka. Það var greinilega mikið treyst á innflutt vinnuafl við að endurreisa landið.
Menn entust líka mislengi við þessa vinnu og þeir sem voru búnir að vera þarna lengst höfðu verið í námunum í 12-15 ár. Eitt sinn var Steinar boðaður upp á skrifstofu og hélt þá að það ætti að reka sig, en mundi þó ekki til þess að hafa gert neitt af sér. Þegar hann kom þangað sátu þar fjórir menn og þar á meðal verkstjórinn Steiger. Einn þeirra horfði á hann um stund og sagði að þá langaði að bjóða honum verkstjórastöðu. Hann varð yfir sig hissa, en sagði þeim að hann ætlaði ekki að leggja þennan starfa fyrir sig til langframa. Þeir lögðu þá að honum og sögðu að hann þyrfti aðeins að taka nokkra tíma í jarðfræði og svo fór að Steinar samþykkti að prófa. Eftir tvær vikur ákvað hann að hafna þessu ágæta boði. Hann ætlaði ekki að feta í fótspor Steigers.
Steinar vann næstu þrjú árin í kolanámunni í Baesweiler Grube, en einnig um stuttan tíma í Palenberger Grube og í Liege sem er í Belgíu í 3 mánuði eins og áður sagði, en það voru aðstæður mun síðri en í Þýskalandi og einnig allt annar og síðri mórall. Hann leigði þar herbergi hjá gömlum manni sem hafði misst annan fótinn í stríðinu og var auk þess með alzheimer.
Eitt sinn kom Steinar heim eftir vinnu, hann fann þá torkennilega lykt og grunaði þá strax hvað væri í gangi. Sá gamli hafði þá kveikt á eldavélinni og gleymt sér og gasið var um alla íbúð. Steinar reif upp alla glugga og loftaði út svo að það varð ekkert stórslys úr þessu, en sá gamli fékk í kjölfarið ekki að vera lengur heima hjá sér og var eftir þessa uppákomu komið fyrir á stofnun.
Steinar kom þó ekki heim þrátt fyrir að hafa hætt að vinna í kolanámunum því hann dvaldi alls sjö ár í Þýskalandi og þar lærði hann meðal annars til kokks í Baesweiler á stað þar sem rekið var sem hótel og veitingastaður og það átti eftir að nýtast honum vel síðar á lífsleiðinni, en hótelið er enn í rekstri þar ytra. Hann á forláta göngustaf og er vísukorn sem er minning frá þýskalandsdvölinni letruð á hann.
Es grunne die tannen,
es wachse das erz.
Gott schenke us allen,
Een fröllches hertz.
Einnig íslensk þýðing á þessum orðum.
Furan hún grænkar,
frækönglarnir vaxa.
Guð gefi oss öllum,
gleðiríkt hjarta.
Hótel Höfn
Áður en þau hjón fluttu til Siglufjarðar með fjölskylduna vann Steinar hjá Loftleiðum á Keflavíkurflugvelli. En þær eru margar tilviljarnar í lífinu og þeim hjónum hafði verið bent á að hótelið á Siglufirði væri til sölu. Upphaflega stóð til að kaupa það með öðrum aðilum, en þegar þeir gengu úr skaftinu varð ekki aftur snúið.
Húsið í Garðabænum var selt og í framhaldinu fest kaup á hótelinu, en seljandinn var dánarbú Gísla Stefánssonar sem fórst þar í miklum eldsvoða árið 1958.
Þau Steinar og Vilborg koma til Siglufjarðar í apríl 1968 og taka við rekstri hótelsins. Þau höfðu staðið í byggingu einbýlishúss í Garðabænum sem þau hugðust eiga áfram, en seljandinn gerði þá kröfu um að það gengi sem greiðsla á móti hótelinu. Þau búa fyrsta árið að Suðurgötu 91 á neðstu hæðinni í húsinu þar sem þeir Benedikt kennari og Hlöðver skólastjóri bjuggu. Síðan lá leiðin niður á Hótel Hvanneyri þar sem öll fjölskyldan bjó í einu herbergi, en þau ráku það einnig í stuttan tíma og þaðan á miðhæðina á Hótel Höfn þar sem þau dvöldu nokkurn tíma. Endastöðin var svo einbýlishús á Laugarveginum þar sem þau bjuggu allt til þess tíma að þau fluttu úr bænum eftir að hafa staldrað þar við í 13 ár.
Páll Jónsson eða „Palli á Höfninni“ eins og hann var oftast kallaður hafði rekið hótelið í áratug, en nú var komið að tímamótum. Aðkoman að hótelinu var nokkuð sérstök að sumu leyti, því uppi á þriðju hæð voru ummerki að þar hafi verið haldnar hænur. Það þurfti því aðeins að taka til hendinni áður en fyrstu gestirnir dvöldu þar. Á fyrstu árunum var oft gríðarlega mikið að gera, enda miklu fleira fólk búandi í bænum en síðar varð. Til marks um það tók Hótelið að sér að sjá um 13 fermingarveislur eitt árið, en það var liklega metið.
Eitt sinn kom hópur í mat með mjög litlum fyrirvara svo að ekki vannst nægur tími til að undirbúa komu þeirra. Þetta var eitthvað á annan tug gesta sem voru að koma frá Sauðárkróki þar sem þeir höfðu ekki fengið sér neitt að borða og voru sumir orðnir ansi svangir. Steinar hafði átt dag í Fljótunum og kom í bæinn um svipað leyti og hópurinn með talsvert af silungi. Hann brá sér þá í kokkagallann og fyrjaði að flaka, en Stína Þorgeirs sem þá vann á hótelinu hélt athygli gestanna með lýsingum á hvernig silungurinn var þreyttur, honum landað og allt þar til hann kom í hús. Svo sagði hún þá vera komna í pottinn og hélt áfram lýsingum sínum á veiðiskapnum allt þar til hann var borinn á borð. Þetta bjargaði málunum og engum fannst biðin eftir matnum löng því að Stína sá til þess að allir fylgdust spenntir með lýsingunni allt frá veiðinni til þess að fiskurinn var kominn á diska ferðalanganna.
Bragi Magg var kostgangari á Höfninni og einhverju sinni kvartaði hann eitthvað yfir matnum. Hann dró þó í land með þá kvörtun með eftirfarandi vísu:
Fyrst ég fór að nefna nöfn,
af næringu má þess geta
Hjá Steinari mínum á Hótel Höfn,
er helvíti gott að éta.
Bragi Magg teiknaði líka mjög flott logo fyrir hótelið enda mikill teiknari og listamaður.
Saumastofan Salína
Eitt sinn kom gestur í gistingu á Hótel Höfn og eftir svolítið spjall kemur í ljós að hann er forstjóri Álafoss. Hann spurði hvort eitthvað væri um að vera í bænum svona atvinnulega séð og sagðist ekki hafa orðið mikið var við einhverja drift í þeim efnum. Steinar svaraði því til að allt væri nú svona heldur í rólegra lagi. Maðurinn spyr þá hvort hann væri ekki til í að stofna þar fyrirtæki og hann skyldi sjá því fyrir verkefnum. Steinar var þá ekki viss um hvort um grín eða alvöru væri að ræða. Svo fór þó að Steinar keypti Saumastofuna Salínu af Óla Blöndal og fleirum og starfrækti hana fyrst í Blöndalshúsinu við Lækjargötu, svo í Borgarkaffi en síðast á annarri hæð í Kaupfélagshúsinu og þá var byggður rampur eða eins konar brú frá annarri hæð hússins að Lindargötu til að auðvelda vöruafgreiðslu bæði inn og út.
Annars er saga Salínu mun lengri en margir gera sér grein fyrir. Fyrirtækið var upphaflega stofnað í Reykjavík árið 1942 og hét þá Pokaverksmiðjan hf., en þá voru aðallega framleiddir pokar undir kartöflur og síldarmjöl. Árið 1963 eru vélar og tæki fyrirtækisins keypt til Siglufjarðar og voru kaupendurnir Óli Blöndal, Kjartan Friðbjarnarson og fleiri aðilar. Hugmyndin var að sauma poka undir síldarmjöl, en síldveiðarnar á þessum tíma fóru því miður ört minnkandi auk þess sem farið var að nota bréfpoka í auknum mæli. Þá var farið í það að breyta framleiðslulínunni þannig að það væri hægt að sauma fatnað.
Upp úr þessu kaupa svo þrír Siglfirðingar fyrirtækið fyrir áeggjan forstjóra Álafoss, hjónin Steinar Jónasson og Vilborg Jónsdóttir ásamt Steinari Baldurssyni og um tíma var saumaður ullarfatnaður hjá þeim, en fljótlega eftir að þau eignast fyrirtækið var nafni þess breytt í Saumastofan Salína.
Verkaskipting þeirra Steinaranna var með þeim hætti að Baldursson sá um bókhaldið, en Jónasson um peningamálin og alla aðdrætti. Fljótlega var svo byrjað á að sauma vinnufatnað fyrir Hagkaup, en annars var mest unnið fyrir Álafoss og Iðnaðardeild Sambandsins. Vilborg átti heiðurinn af því hvernig uppsetning framleiðslu línunnar var.
Þegar Pétur Eiríksson var orðinn forstjóri Álafoss sendi hann mann sem kom frá Þýskalandi, norður til að fara yfir þá hluti.
Hann var mjög ánægður yfir að það skyldi vera talað við hann á þýsku, en sagði jafnframt að hér hefði hann ekkert að gera því á staðnum væri allt eins og best væri á kosið. Árið 1976 keypti Steinar Jónasson nafna sinn út úr fyrirtækinu og réði Hannes Baldvinsson sem framkvæmdastjóra. Önnur breyting varð svo á að Vilborg sem hafði verið verkefnastjóri þurfti um tíma að draga sig út úr rekstrinum og var þá Anna Júlíusdóttir ráðin verkstjóri.
Árið 1980 verða svo aftur eigendaskipti á fyrirtækinu og að þessu sinni kaupir starfsfólkið Salínu með aðstoð Verkalýðsfélagsins Vöku. Lengst af störfuðu 15-20 konur á saumastofunni svo og einnig framkvæmdastjórinn Hannes Baldvinsson, en flestar urðu þær 25 um tíma. Fyrirtækið keypti húsið Mýrarkot við Lækjargötu ásamt tilheyrandi lóðarréttindum með það að markmiði að rífa húsið og byggja þar yfir starfsemina. Af því varð þó ekki og fylgdi þessi eign með í kaupunum þegar fyrirtækið var selt 1980.
Flugvallarstjórinn
Áður en Steinar tók við stjórn flugvallarins þurfti hann að fara til Reykjavíkur á 10 daga námskeið. Hann var þar uppi í flugturninum við að taka veðrið, taka skýið og vindinn eins og hann orðaði það, og hann þurfti að geta lesið í skýin og eftir þessa daga var hann útskrifaður. Það þótti honum skrýtið og spurði hvort þetta væri ekki þriggja ára nám, en leiðbeinandinn hló bara og sagði að hann hlyti bara að vera svona góður. Þetta heitir víst flugumsjón, en flugumferðarstjórinn var á Akureyrarflugvelli.
Einu sinni á þorláksmessu var von á flugvél frá Reykjavík sem seinkaði óeðlilega mikið. Það var mikið reynt að kalla á hana en flugmaðurinn svaraði ekki.
Steinar hafði þá samband við flugumferðarstjórnina á Akureyri sem gaf málinu korter til viðbótar áður en leit yrði hafin.
Sá tími var að renna út þegar hún birtist í lágflugi yfir Siglunesi og lenti síðan heilu og höldnu.
Flugmaðurinn vildi sem minnst um þessa töf tala, en þegar Steinar gekk á hann sagði hann að hann hefði villst inn í Héðinsfjörð. Hann hafi ekki viljað svara því þá hefði komist upp um mistökin og ómögulegt hefði verið um það að segja hvort það hefði haft einhverjar mjög svo slæmar afleiðingar fyrir hann.
Einu sinni pantaði Sæmundur Árelísusson flugvél norður á Siglufjörð, því hann þurfti að komast suður. Vélin kom frá Ísafirði og flugmaðurinn var Hörður Guðmundsson sem stofnaði flugfélagið Ernir og var þá strax orðinn hálfgerð goðsögn í fluginu. Steinar hafði samband við Hörð þegar hann var kominn yfir Skagafjörðinn og sagði honum að það væri ófært til Siglufjarðar ef lent væri frá norðri.
„Ég kem þá bara Skarðið“ svaraði Hörður, en Steinar spurði hann hvort hann væri orðinn alveg vitlaus. En Hörður lenti og Sæmundur komst suður. Daginn eftir kom hann svo aftur norður með Herði sem stoppaði ekkert á Siglufjarðarflugvelli því hann vissi að hann fengi þá orð í eyra frá flugumsjónarmanninum. Sæmundur kom inn og Steinar spurði hann hvort þetta hefði ekki verið fín flugferð.
Sæmundur sem virtist svolítið dasaður sagði ekki mikið, en þó að hann hafi verið alveg viss um að í þessari ferð myndi hann alveg örugglega drepast.
Einu sinni kom flugvél norður og þurfti þá að taka olíu sem oft gerðist. Þegar hún var svo lögð af stað stöðvaðist annar hreyfillinn þegar hún var komin inn yfir Skagafjörð. Flugmaðurinn vildi frekar snúa til baka en að reyna að lenda á Sauðárkróki. Hún var komin í góða hæð og hnitaði lengi hringi yfir Siglufirði á öðrum hreyflinum og bæjarbúar fylgdust spenntir með, en lendingin tókst giftursamlega og farþegarnir stigu út mismikið skefldir vegna þessarar lífsreynslu.
Laddi hafði komið norður daginn áður og hafði verið að skemmta á dansleik með Miðaldamönnum á Hótel Höfn þá um kvöldið. Hann var því í vélinni og fleyg urðu orð hans í háloftunum þegar hann spurði hina farþegana; „af hverju hringjum við ekki bara í Hreyfil“, en engum fannst þetta sérlega fyndið þar til all nokkru síðar. Eftir lendingu vildi flugmaðurinn meina að það hefði verið vatn í olíunni, en í ljós kom að hann hafði gleymt að opna fyrir annan tankann. Björn Jónasson var einnig í flugvélinni og var sagt að hann hafi fengið talsverðan skrekk og í beinu framhaldi ákveðið að fara landleiðina suður ásamt fleiri farþegum. Það var þó heppilegt í þessum óheppilegu aðstæðum að þegar vélin kom inn til lendingar var það hreyfillinn sem vissi að fjallinu sem virkaði, því annars er óvíst að lendingin hefði gengið jafn vel fyrir sig.
Gestur Fanndal var á þessum tíma umboðsmaður Vængja og síðar Arnarflugs, en Steinar sagði að hann hafi stundum verið svolítið erfiður viðureignar og vildi oft fara sínar eigin leiðir sem áttu það til að skarast við hið opinbera regluverk, en annars var samstarf þeirra með ágætum. Svo verður auðvitað að geta þess að Steinar rak einnig sendibílastöð á Siglufirði þó svo að bílakosturinn væri aðeins einn bíll og kannski ekki alveg splunkunýr.
Ferðamálafélag Siglufjarðar.
Steinar, Gestur Fanndal og Bragi Magnússon stofnuðu félag sem nefndist Ferðamálafélag Siglufjarðar snemma árs 1970, en fljótlega bættist Örlygur Kristfinnsson við og enn fleiri nokkru síðar. Gestur var kosinn fyrsti formaður þess og það var gefinn út bæklingur um Siglufjörð þar sem getið var þess helsta sem þar væri að sjá. Ólafur Ragnarsson sá að mestu leyti um efnisval auk þess að taka flestar myndirnar. Var bæklingurinn gefinn út í tæplega 10.000 eintökum og var allt lesmál bæði á íslensku og ensku.
Gerð hans var fjármögnuð með skemmtunum og fjárframlögum frá Siglufjarðarkaupstað svo og fyrirtækjum í bænum, en megintilgangur félagsins var að stuðla að auknum straumi ferðamanna til bæjarins.
Þeir félagar gerðu ýmislegt fleira og þar á meðal var safnað merkjum, dixlum og ýmsum smærri áhöldum sem tengdust síldinni og vinnslu hennar. Steinar sagðist telja þetta hafa verið einn fyrsta vísirinn að stofnun Síldarminjasafnsins, en það sé eins og þetta framtak sé týnt og tröllum gefið því það heyrist aldrei minnst á þetta.
Í apríl 1972 var haldinn aðalfundur félagsins þar sem Gestur Fanndal var endurkjörinn formaður en aðrir í stjórn þess voru þá kosnir Steinar Jónasson, Steinar Baldursson, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson og Bragi Magnússon. Á fundinum kom fram að stafsemin hafi verið nokkur á síðasta ári og bæri þar hæst útgáfa á litprentuðum bæklingi um Siglufjörð. Á sumri komanda var svo ráðgert að beita sér fyrir því að verðlauna góða og snyrtilega umgengni við hús í bænum og hvetja þannig til aukinnar fegrunar og snyrtimennsku. Þá var gefinn út annar kynningarbæklingur sem dreift var hérlendis og erlendis líkt og þeim fyrri.
Ferðamálafélagið hafði staðið fyrir því að opnað var farfuglaheimili í Sunnubrakkanum sem stendur við Suðurgötuna, en í bæjarblöðunum birtist tilkynning í júlí 1973 að því hefði verið lokað af óviðráðanlegum ástæðum. Brakkinn hafði verið í eigu bæjarins sem lagði félaginu til húsnæðið, en það var svo selt til þriðja aðila sama dag og farfuglaheimilið var vígt. Því má svo bæta við að Steinar var einn aðal hvatamaðurinn að stofnun Kiwanisklúbbsins Skjaldar, en hann var stofnaður 31. mars 1971.
Garðyrkjufélagið
Garðyrkjufélag Siglufjarðar var stofnað þ. 3.júní 1976 og voru aðal hvatamenn þess þær Vilborg Jónsdóttir og Ásdís Gunnlaugsdóttur. Tilgangur félagsins er aðallega sá að örva áhuga siglfirðinga til að halda görðum sínum í betri rækt og húsum sínum betur útlítandi, panta plöntur til gróðursetningar og fá í bæinn garðyrkjufólk sem gæti leiðbeint bæjarbúum hvernig best yrði staðið að því að fegra bæinn. Á tíu ára afmæli félagsins hvatti Garðyrkjufélagið síðan til átaks í gróðursetningu, fjölskyldur til að gróðursetja tré á hvern fjölskyldumeðlim, svo og fyrirtæki, hverfa og félagasamtök til að láta til sín taka í þessum efnum. Trjálisti lá frammi í Versló þar sem fólk gat skrifað sig fyrir græðlingum sem síðan voru pantaðir og afgreiddir til viðkomandi.
Auglýsing sem birtist í Neista 1978
Garðyrkjufélagið stóð svo fyrir því að blómabíll kom reglulega í bæinn og fljótlega sást munur á hvað bæjarbúar voru farnir að mála hús sín meira en áður hafði verið.
Svo var flutt suður.
Það var svo árið 1980 að fjölskyldan flutti suður og þau hjón seldu Hótelið, Saumastofuna og húsið á Laugarveginum allt í sömu vikunni. Eftir að suður var komið hóf Steinar störf hjá Álafoss og sá þá um þann hluta söludeildarinnar sem laut að Rússlandi. Hann var því tíður gestur í Moskvu og seldi þar eitt sinn eina milljón trefla á einu bretti. Sú sem hann átti meðal annars í sambandi við þar ytra kallaði sig „price director“ og var náskyld Sergei Lavrov sem núna er utanríkisráðherra Putins, en þetta var lengst af á tímum Gorbachev.
Reyndar var Steinar úti að selja íslenskar ullarvörur ásamt Guðjóni Hjartarsyni sem þá var verksmiðjustjóri hjá Álafoss þegar Leonid Brezhnev dó. Þá var ekið með líkið í opinni kistu í gegn um Moskvu í hellirigningu og í því sem þeim félögum verður litið út um hótelgluggann segir Steinar: Ætli karlgreyinu sé ekki kalt, hann er alveg blár í framan.
Rússinn vildi helst stunda vöruskiptaverslun en það gekk ekki upp í viðskiptunum milli þeirra og Álafoss enda ekki alltaf góð reynsla af slíku. Sem dæmi má nefna að sambandið tók eitt sinn fullan gám af dekkjum í slíkum viðskiptum, en þegar hann kom til Íslands pössuðu dekkin ekki undir neitt farartæki því þau voru sérhönnuð fyrir einhvers konar skriðdreka á hjólum.
Vilborg átti eftir að þau fluttu suður, gjafavöruverslun í húsnæði Hótel Sögu sem hún rak í 19 ár samfleytt. Steinar leysti hana eitt sinn af sem oftar og sinnti þar afgreiðslustörfum. Eitt sinn kemur þar inn maður með stálpað barn og það heyrist strax að hann er þýskur, og hann heyrir líka úr hvaða landshluta hreimurinn er. Steinar ávarpar manninn á þýsku og spyr hvort hann geti aðstoðað ferðamanninn sem svarar játandi og fer svo að hann kaupir peysu á sig og dóttur sína.
Eftir að hafa gengið frá kaupunum gefur Steinar sig á tal við manninn og segist sennilega vita hvaðan úr Þýskalandi hann sé, en sá aðkomni trúir því tæplega. „Jú, jú þú ert frá Baesweiler“ bætir Steinar við. Þjóðverjinn varð verulega undrandi og skilur ekki hvernig íslendingurinn geti áttað sig á þessu. Steinar sagðist þá heyra að mállýskan hljómi þannig og hann kannist við hana, bætir síðan í og segist vita að maðurinn heiti Fritz. Þá verður viðskiptavinurinn enn meira hissa og skilur ekkert í því hvaða galdrar séu hér á ferðinni en jánkar því. Steinar spyr hann þá hvort hann muni ekkert eftir sér því hann hafi verið verkstjórinn sinn í kolanámunni í Þýskalandi.
Þegar Steinar var 69 ára fór hann nokkra túra á Sigli SI sem kokkur og kom ekki í land fyrr en hann var orðinn 71 árs og þá í erlendri höfn. Eitt sinn spurði þáverandi skipstjóri hann hvað hann ætlaði að hafa í matinn. Það verður eitthvað gott var svarið sem hann fékk, en í framhaldinu var boðið upp á veðmál. Það fólst í því að ef skipstjórinn vissi hvað hann væri að leggja sér til munns fengi hann eina viskýflösku.
Sama gilti á hinn veginn, þ.e. ef hann vissi það ekki skyldi hann láta það sama af hendi við kokkinn. Þegar skipstjórinn kemur í matsalinn er búið að skreyta disk með fiskmeti og hann sest nður og borðar með góðri lyst. „Jæja hvað skyldi þetta svo hafa verið“ spyr kokkurinn og svarið var stutt og snaggarlegt. „Þetta var auðvelt, þetta var ekkert annað en lúða“. „Ja hérna“ svaraði þá kokkurinn, „hvenær ætli hlýri hafi orðið að lúðu“? Þetta fannst skippernum ekki gott mál, þ.e. að hafa verið plataður til að láta ofan í sig eitthvað tros sem yfirleitt var hent, en tímarnir hafa nú breyst síðan þá til allrar hamingju.
Skemmtilegasta Innheimtubréf sem við höfum fengið
Einhvern tíma þegar Lýður Ægisson gaf út disk með lögum sínum og ljóðum, kom hann við heima hjá þeim hjónum en svo óheppilega vildi til að enginn var heima en börnin tóku við diskinum ásamt gíróseðli. En nokkur tími leið og Vilborg sagðist ekki hafa verið búin að hlusta á diskinn eða borga gíróseðilinn þegar henn barst innheimtubréf frá Lýð sem hún sagði að hafi verið skemmtilegasta rukkun sem hún hafi fengið um ævina, en það var í bundnu máli.
Og Vilborg svaraði um hæl.
Elsku besti Lýður minn,
ég fundið hef nú seðilinn,
sem braginn um þú sendir mér,
og skammast mín ég mikið hef
af drætti þeim sem orðinn er.
.
Ég mun nú gera yfirbót,
og bregða mér strax í útiskó,
og trimma í bankann beina leið,
svo aurinn berist greiða leið,
til þín og bæti um þinn hag,
ég geri þetta strax í dag.
Samantekt: Leó R. Ólason.