Siglfirðingur - 12. febrúar 1965
Sigurður Björgólfsson
fyrrverandi ritstjóri og kennari
Þann 10. desember sl. lést Sigurður Björgólfsson, að Hrafnistu í Reykjavík. Hann var fæddur að Kömbum í Stöðvarfirði, 11. des. 1887, og kominn af góðu bændafólki þar eystra.
Ólst hann upp við lítil efni, en með því að hann var óvenju góðum gáfum gæddur, tókst honum af eigin rammleik að brjótast gegnum verslunarskólann á unga aldri, og lauk þar brottfararprófi 1909. En hugur hans beindist snemma að kennarastörfum.
Hann stundaði nám í Kennaraskólanum og síðar kennslu á Austfjörðum, þar til hann fluttist hingað til Siglufjarðar árið 1919, og stundaði kennslustörf við barnaskólann samfleytt í 28 ár.
Sigurður var skáld gott en um af hlédrægur, og töldu kunningjar hans og vinir, að of lítið lægi eftir hann á þessu sviði. Hins vegar lagði hann mikla stund á íslensku og erlend tungumál, og stóðu honum þar fáir á sporði þótt þeir hefðu lengra skólanám að baki. Hann þýddi fjöldann allan af erlendum bókum, aðallega úr enskri tungu, og bera þýðingar þessar vott um fágæta stílleikni og þroskaðan fegurðarsmekk þegar um það var að ræða, að rita fagurt og lýtalaust íslenskt mál. Á þessu sviði var Sigurður hamhleypa hin mesta.
Hinn 1. sept. 1912 kvæntist Sigurður Svövu Hansdóttur, frá Akureyri.
Sigurður Björgólfsson
Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson
Svava var glæsileg og listelsk kona, og samhent manni sínum í því mikla starfi, að koma upp stórum barnahóp við þröng kjör. Var hún uppeldisdóttir Snorra heitins Jónssonar, sem um tíma var einn mesti athafnamaður við Eyjafjörð (f. 1848 d. 1918). Þá áratugi sem þau hjón dvöldu hér í Siglufirði, höfðu þau forgöngu um leiklistarstarfsemi. Var þá oft við erfiða aðstöðu að etja, en það létu þau íhjón ekki á sig fá. Sigurður þýddi og samdi leikrit og bráðskemmtilegar „revíur" með nútímasniði, málaði leiktjöld og leiðbeindi leikendum. Lengst mun þó lifa barnaleikrit Sigurðar, „Álfkonan í Selhamri", sem er fallegt og frumlegt, enda verið leikið víða um land og hlotið mikið lof.
Í fjölmörg ár var Sigurður ritstjóri máigagns sjálfstæðismanna hér í bæ. Hann var frjálslyndur umbótamaður, andvígur hvers konar höftum og kúgun, málsvari smælingjanna og skeleggur rithöfundur í sókn og vörn. Hann átti óvenju þroskaða kímnigáfu, eins og kosningavísur hans bera vott um, gamanblaðið „Glettingur", sem hann gaf út mörg ár, og margt annað af því tagi, — en allt var þetta græskulaust gaman sem engan gat sært. Sem kennari var Sigurður virtur og elskaður af hinum mörgu nemendum sínum og með kennurum.
Ég er einn af þeim mörgu, sem stend í ógoldinni þakkarskuld við hann fyrir að hafa kennt börnum mínum og gefið þeim vináttu sína með mikilli hjartagæsku. Sigurður missti heilsuna kominn hátt á sjötugsaldur, og dvaldi síðustu ár æfi sinnar að Hrafnistu í Reykjavik. Í ástríku hjónabandi eignuðust þau Svava sex börn, og eru þrjú þeirra á lífi Rögnvaldur, kvæntur Unni Sigurðardóttur. Björgólfur, ókvæntur. Brynhildur, gift Jóhannes Jósefssyni, fyrrverandi hótelstjóra að Hótel Borg.
(Árið 1941 urðu þau hjón fyrir þeirri miklu sorg, að sonur þeirra, Snorri, fórst með öðrum bátsfélögum, með mótorbátnum Pálma, sem lagði úr höfn í mesta blíðskaparveðri en kom aldrei fram. Bendir margt til þess, að áihöfnin hafi orðið stríðsæðinu að bráð).
Ég heimsótti Sigurð öðru hvoru að myndarheimilinu Hrafnistu, en síðast er >ég kvaddi hann var hann aftur orðinn barn. Nú kveð ég ykkur hjónin hinstu kveðju, og læt fylgja stöku úr „Álfheimum:
· . .móðurást, sem ert æðri öllu
í aumu hreysi og glæstri höllu,
þú býður yl, þó að blási kalt
þú brýtur fjötra og sigrar allt.
Siglufirði, 25. jan. 1965. A. Schiöth
*****************************************************************************
Siglfirðingur 18. des. 1947
SIGURÐUR BJÖRGÓIFSSON —SEXTUGUR
Einn af kunnustu borgurum þessa bæjar, Sigurður Björgólfsson, á í dag sextugs afmæli. Hann er fæddur 11. desember 1887, austur í Suður-Múlasýslu, en hingað í Siglufjörð fluttist hann fyrir 28 árum og hefir óslitið átt hér heima síðan. það var líkt um Sigurð og um Vilmund viðutan í ævintýrinu alkunna, hann fór ungur úr föðurgarði til að leita að geit föður síns, gæfunni. Þó mun það ekki hafa verið gull og önnur þau auðæfi, sem mölurinn og riðið granda, sem hugur hans þráði, enda hefði óhætt mátt fullyrða, ef svo hefði verið, að leit hans hefði mistekist. En það var annað, sem hugur Sigurðar þráði: Hann var óvenju góðum gáfum gæddur og hafði sterka þrá til að afla sér menntunar, og efni til þess voru lítil.
Með óvenju miklum dugnaði tókst honum þó af eigin rammleik* að brjótast i gegnum kennaraskólann. Ofan á þá menntun sem hann þar hlaut, hefir Sigurður sífellt verið að byggja og er að því enn. Má óhætt fullyrða, að Sigurður stendur jafnframmi öllum þorra þeirra manna, sem notið hafa menntunar i hinum æðri skólum og framar á sumum sviðum en flestir þeirra, t.d. í leikni og meðferð íslenskrar tungu.
Gáfur Sigurðar eru mjög fjöl þættar. Hann er listrænn og mjög listelskur, m.a. er hann ágætlega drátthagur. Hann er ljóðelskur og skáldmæltur ágætlega, en því miður hefir hin ástúðga Ijóðadís oftast verið hjákona hans og hann auðsýnt henni oflítið ástríki. Sigurður hefir ávallt unnað leiklistinni og um langt skeið bar hann mest allra manna hér í Siglufirði, uppi leikstarfsemi við mjög óhægar aðstæður, setti leiki á svið, málaði leiktjöldin og leiðbeindi leikendum og fórst allt slíkt ágætlega úr hendi. Auk þess hefir hann samið nokkur leikrit, sem hér hafa verið leikin og er eitt þeirra ,Álfkonan í Selhamri“, sem gefið var út og leikið víða um land og hlaut mikið lof.
Sigurður gegndi kennarastarfi hér við Barnaskólann yfir 20 ár, en lét af því sökum vanheilsu fyrir tveimur árum. Þá er enn ótalinn sá þátturinn í ævistarfi Sigurðar, sem oss sjálfstæðismönnum hér i Siglufirði verður lengst minnisstæður; Sigurður hefur i mörg ár, og lengur en nokkur annar, verið ritstjóri þessa blaðs, og verið það með sæmd. Mun það einróma álit þeirra, sem til þekkja, að fá af blöðum Sjálfstæðismanna hafi verið jafn vel rituð og Siglfirðingur undir stjórn Sigurðar, eða haldið skeleggar á málstað flokksins. Fór saman hjá Sigurði einurð og rökfimi í hverju máli og fágæt stílleikni í greinum hans. Fyrir þetta starf hans sérstaklega, flyt ég honum þakkir í nafni Sjálfstæðisflokksins. Sigurður hefir alla æfi verið mikill starfsmaður og sífellt vinnandi. Fjölbreyttir hæfileikar hans hafa gert honum létt fyrir að laga störfin eftir aðstæðunum. Hann hefir því ekki verið við eina fjölina felldur í verkum sínum, heldur lagt á margt gjörva hönd, og öll verk hafa honum farist vel.
En frístundastarf Sigurðar um fjöldamörg ár hefir verið og er enn að þýða ýmsar góðar bækur úr erlendum málum á íslenska tungu, og eru þýðingar hans löngu orðnar landskunnar og þykja með ágætum. Sigurður ber aldurinn vel. Hann hefir líka lengst af verið heilsugóður þar til fyrir um það bil tveimur árum. Fór hann þá til Reykjavíkur og dvaldi þar áralangt og fékk þar sæmilega heilsubót. Sigurður er gleðimaður, enda skemmtilegur og glaðvær í vinahópi. Er því eigi að undra þótt maðurinn hafi orðið vinsæll, enda er vinahópurinn stór, eigi aðeins hér á Siglufirði, heldur og víðsvegar um land. öllum þykir gott með honum að vera og vinátta hans góð og kynnin við hann betri en flestra annarra manna, því hann er heill í hvívetna og drengur góður. Þótt Sigurður Björgólfsson sé sextugur i dag, og að sjálfsögðu hvíthærður eins og vera ber um sextugan mann, er hann enn svo vel á sig kominn, að hann, ef af líkum má ráða, á enn mörg ár ólifuð og mörg og merkileg störf enn óunnin. Eitt al' þeim störfum er að skrásetja endurminningar sínar. Þær mundi ég hlakka til að sjá, ef ég hefði nokkra von um að lifa svo lengi. Ég árna þér allra heilla og blessunar á sextugsafmælinu, kæri vinur, og þakka þér fyrir allar ánægjustundirnar á liðinni æfi. Lifðu heill lengi.
Siglufirði 11. desember 1947, Jón Jóhannesson
I
AFMÆLISKVEÐJA. Ég er að fara með „Brúarfossi“ í júní 1936 á Landsfund Sjálfstæðismanna, kosinn fulltrúi frá Ísafirði. Þar á skipsfjöl eru fleiri fulltrúar vestfirskir og aðrir norðlenskir. Út af Arnarnesi, á leið út Djúp, taka tal saman nokkrir fulltrúar á Landsfund. Samtalið fer fram á efri þiljum, og horft er inn Djúpið en Vigur blasir við, og var Bjarni i Vigur einn í hópnum, höfðinginn i utan Æðeyjar. Þar sá ég mann, Hann lét ekki mikið yfir sér. Hann var blátt áfram eins og sagt er nú á tímum. En það, sem mína athygli vakti og skóp mér þrá i brjósti, að nánari kynni tækjust, var það, hversu hann fór með íslenskt mál. Mér var starsýnt á hann, þegar hann hallaði sér yfir borðstokkinn og horfði til Ránardætra, sem gömnuðu sér við kinnung ,,Brúarfoss“ á Djúpinu og út með Deildinni. Ég ungur og óreyndur þorði ekki að varpa á hann orði. Stóð ég hljóður og hlustaði meðan þeir Bjarni í Vigur, Páll í Þúfum, Arngrímur Fr. Bjarnason og samborgari hans, Jón Jóhannesson, ræddu saman og fræddist um nýja heima, enda var íslensk tunga þar i hávegum. Hvert orð fól í sér lotningu fyrir íslensku máli. Þó var þessi ókunni þeirra fremstur. ,—
Seinna heyrði ég til hans eftir að Stefán Vagnsson hélt sína frægu og merku ræðu um peðin og hrókana á Landsfundinum. Þar kvað þessi sami maður upp úr með það, ásamt Jóni Jóhannessyni, að Siglufjörður nyti ekki hylli hjá íslenskum stjórnmálamönnum, þrátt fyrir i það, að allir kjörnir þingmenn vildu vera þingmenn héraðsins. Þar var af beggja hálfu vel haldið á málum og báðir kunnu að kveða að vorri tungu. Þá datt mér ekki í hug, að ég ætti eftir að setjast að á Siglufirði, en einhver óljós hvöt olli því, að mér er þessi sókn enn í fersku minni. Ég hefi skilið hana nú hin seinni árin, eftir að ég varð þess víss, hver var félagi Jóns Jóhannessonar, en hann hafði verið mér kynntur inn á reyksal skipsins, en þinn hlédrægi maður var Sigurður Björgólfsson ritstjóri frá Siglufirði, sem var félagi Jóns, og mér kynntur, að minni ósk, seinna á Þingvöllum.
II
Á Kambanesi, þar sem að Kömbum heitir, undir Súlum í Stöðvarfirði, utan Breiðdals, er Sigurður Björgólfsson fæddur 11. des. 1887. Norðan Lambaness er Stöðvarfjörður og teygir sig til hafs. Þar er og Rastarhæll spölkorn norður af og kætir sig við strauma og öldufalda, en er jafnframt augnagaman ungri barnssál, svo að ekki úr minni líður. Ósfjallið blasir við í suðurátt, svipmikið og tignarlegt með Sáturnar efstar. Súlurnar gnæfa fyrir ofan en Snæhvammstindur teygir sig enn efra í fjarska, allfjarri. Og sólin hnígur við Streitishornið. Úti við Iðusker brotna boðaföllin, en við Illabús kveður báran sér værð og tila. Af Heyklifinni er yndi næmgeðja og bráðgeðja æskumanni að horfa á og virða fyrir sér iðuköstin við Rastarhæl og Iðusker og sjá enn fjarri hvern veg Fjarðarboðinn keppir um faðmlög Ránardætra. -— Allt þetta meitlar spor í minni. Norðan Kambaness er Stöðvarfjörður, en sunnan Breiðdalsvík. Þar ofar, uppi í Breiðdal, eru Heydalir. Þar bjó séra Einar sálmaskáld og biskupsfaðir. Þar bjó einnig Brynjólfur langafabróðir Sigurðar Björgólfssonar. En Stöð er í Stöðvarfirði. Þar bjó Guttormur Þar var Sigurður Björgólfsson í læri Þar kynntist hann, utan móðurknés, íslenskri menning og mennt. Guttormur var kennari. Þar var hlustað á kvöldvökunum, þessum arni menningar okkar, og hlustað þunnu eyra við koluna, hlustað á upplesturinn, rímurnar, kvæðin, sögurnar, postilluna og þjóðsögurnar. Þá heyrðist ekki skrjáfið í kömbunum, spunabljóðið í rokknum, slátturinn í prjónunum, hreyfingar skyttunnar né þyturinn í fjöðrinni, er henni var rennt eftir bókfellinu. Ekki truflaði að heldur setningur bylsins á skjánum, þó skyti hann að búöndum geigvænlegum ugg, að nú væri kannske einhver á heiðum uppi, millun byggða, og brytist áfram á áfangastað í ófærð og ofviðri öræfanna. Ljórinn endurvarpaði söng bylsins, en fullþroskaðir hlupu yfir setning hans, til þess að trufla ekki næma barnssálina, fróðleiksfúsa og leitandi, en kvöldvakan kvað alla í ró, en veitti takmarkaða fræðslu spurulli og vakandi barnssálinni, sem lét sig dreyma um lausn þeirra kynjamynda og hugbrota, sem oftar urðu sjálfráðar gátur spurulli og vakandi barnssál. Jafnvel sprettan á túninu, er grösin gréru, og það, að ekki skyldi heyjað ú útenginu, heldur heim undir túnjaðrinum, varð lind heilabrota og umhugsunar, löngunar til þess að ráða gátur lífsins, að ég ekki tali um, hversvegna holtasóleyin gat sprottið og borið blóm á melnum, en fífill og sóley þyrftu nauðsynlega að vaxa á túninu til þess að bera blóm og heilla alla með sínum bikar og krónublöðum, sem öll börn vildu tína og því þurfti lambagrasið að vera rétt hjá berjamónum í hlíðarslökkum en fjalldrapinn hátt í hlíðum.
III
Vestur undir Dritvík, undir jökli, voru vermenn fyrr á tíð. Þeirra íþrótt var, í landlegum, að lyfta þrem steinum, Amlóða, Hálfsterk og Fullsterk. Sú var frægasta fremdin, af samtíðarmönnum talin, og varð orðspor af, að valda Fullsterk, enda skyldi hann hafinn í brjóstliæð. Í þann tíð var sá frægastur, er mesta hafði líkamskrafta og afl í vöðvum, og mældist manngildi og menning í þessum þrem stigum, að þeirra tíðar hætti. Fjöðrinni og pennanum er létt á að halda. Þar þarf ekki að beita afli vöðva eða líkamsþroska, því tækin eru létt. Enda sú aflraun ekki matin á Dritvíkurvísu. En þeir, sem á halda, fjöðrinni og pennanum eru þrátt fyrir annan aldarhátt, ýmist Amlóðar, Hálfsterkir eður Fullsterkir. Við höfum lesið um ýmsa, og dáðst að, á 19. öldinni; menn eins og Jónas, Tómas, Konráð, Jón Sigurðsson, Jón Guðmundsson, Benedikt Sveinsson eldri, Gest, Einar í Nesi, og fram á 20. öldina Björn Jónsson, Einar Kvaran í „Marias“, Guðmund Friðjónsson i „Gamla heyið“ eða „Fífukveikur“, Sigurð Norðdal í „Síðasta fullið“ eða „Íslensk menning", og fleiri, sem nutu þess hlutskiptis að iðka íþrótt andans og stæla átökin við pennann og fjöðrina.
Okkur Siglfirðingum skortir það, að hafa gefið Sigurði Björgólfssyni þessi tækifæri, þrátt fyrir það, að við vissum, að hæfileikarnir voru fyrir hendi, að hann er dáandi þessarar greinar íslenskrar tungu og er Fullsterkur þar. Ég veit ekki hversu margir Siglfirðingar, sem telja sig vera, kannist við þessa menn, en hitt þykist ég vita, að þrjár eða fjórar kynslóðir siglfirskrar, kannast við Sigurð Björgólfsson, því hann hefir kennt hér í tuttugu og sex ár. Og hitt veit ég, aðrir þekkja það kannske betur, að hann tilbiður íslenska tungu, og' engu minna, en þeir menn, er ég taldi upp áðan. Hann er dáandi Jónasar Hallgrímssonar, enda virðist mér hann andlega skyldur honum á margan hátt.
Hann skilur og' mun kveða „Hulduljóðin“ eins og Jónas mundi gert hafa, því ástin á máli og tungu er jafn hjartfólgin. Hann getur andað eins og sumarið „sæla vindum þýðum“ í ljóði og list, en hann getur líka fundið til með farandkennaranum, hinum týnda stéttarbróður, sem horfir á Kaldalón, hlustandi á jökulhljóðin við Votubjörg og tárast yfir örlögunum, kveðanda fyrir munni sér kveðju Hljóðabungu til mannkynsins „kalin tár af brúnum hennar falla“, storkunina til skilningssljórrar samtíðar, bautastein andlegra verðmætra. Hitt veit ég líka, að hann finnur til með Illuga Ásmundarsyni, og skilur Jökul Ingimundarson eins og hann einnig vildi vera Áskell goði Hann skilur ennfremur hugaraunir Sturlu Þórðarsonar, er hann skóp Sturlungu, sem er aðalsmerki drengskapar í frásögn, fyrirmynd í stílssnilld og frásagnaranda og hlutleysi.
Þar er andi Ara fróða lifandi fyrir hugskotssjónum vorum á rituðu máli og heilindi í frásögnum atburða og atvika. Þessvegna dýrkar Sigurður Björgólfsson ekki þá ranghverfu menningarinnar, sem nú birtist okkur á strætunum og sem því miður margur fer eftir og hegðar sér eftir og tjáir sinn hug allan þar.
Þessvegna vildi ég ekki draga ársal fyrir mína kynning af merkum og mætum manni á sextugs afmæli. Ég þakka honum vaxandi kynning, þakka honum og hinni merku og mikilhæfu konu hans allar samverustundir og óska jafnframt, að landi voru megi auðnast að ala jafnan fjalldrapa í hlíðum, sem þó allir geti notið.
Svali þér að eilífu íslensk tunga.
Í önnum, 10/12 1917 , Baldur Eiríksson