Eiríksína Ásgrímsdóttir f. 11. april 1897 - d. 18. september 1960. - Minning
Hinn 18. september 1960 andaðist frú Eiríksína Ásgrímsdóttir í sjúkrahúsinu á Akureyri eftir fárra daga legu.
Eiríksína var fædd 11. apríl 1897 að Hólakoti í Austur-Fljótum. Hún var dóttir hjónanna, er þar bjuggu, Ásgríms Björnssonar og Maríu Eiríksdóttur frá Utanverðunesi. —
Föður sinn missti Eiríksína er hún var sjö ára. — Fórst hann með Fljótavíkinni, er hún var í bátalalegu.
Eftir föðurmissinn fluttist Eiríksína með móður sinni að Utanverðunesi og ólst þar upp.
Árið 1916 fluttist hún svo til Siglufjarðar og giftist eftirlifandi manni sínum, Birni Sigurðssyni, skipstjóra, frá Vatnsenda í Héðinsfirði.
Ekki munu efnin hafa verið mikil hjá hinum ungu hjónum, en með ráðdeild og hagsýni byggðu þau sér þó íbúðarhús, — enda er Björn Zophanías Sigurðsson alkunnur dugnaðar og aflamaður, er margan vænan feng hefur sótt í fang Ægis.
Þau Eiríksína og Björn eignuðust 10 mannvænleg börn, er öll komust til fullorðins ára. Það var því ekkert lítið heimili, er Eiríksína þurfti að annast, enda var hún oft bæði bóndinn og húsfreyjan, er maður hennar var langdvölum á sjónum.
Eiríksína Ásgrímsdóttir
Ókunnur ljósmyndari
En starfssvið hennar náiði lengra, því hún tók snemma mikinn þátt í félagsstörfum. Eiríksína var frjálslynd og umbótasinnuð kona, er sá meinsemdir þjóðfélagsins víða og vildi leggja krafta sína fram til úrbóta.
Eiríksína var ein af stofnendum Kvenfélagsins „Vonar" og fyrsti formaður verkakvennafélaginu „Brynju", og starfaði hún mikið í báðum þessum félögum. En mest mun Eiríksína þó hafa starfað fyrir slysavarnadeildina „Vörn" á Siglufirði, enda var hún formaður hennar um tuttugu ára skeið. —
Slysavarnamálin voru hennar hjartansmál, enda skildi hún vel, sem sjómannskona, hve þau eru þýðingarmikil. Sat hún oft sem fulltrúi á þingum Slysavarnafélags Íslands og var í stjórn björgunarskúturáðs Norðurlands. Að öllum þessum störfum vann hún af lifandi áhuga og sannfæringarkrafti, minnug þess, að með samhug og samtakamætti er hægt að lyfta Grettistaki samferðafólkinu og eftirkomendum til heilla.
Eiríksína var gáfuð kona og bókelsk og átti létt með að setja hugsanir sínar fram í ræðu og riti. Þurfti hún oft á því að halda vegna félagsstarfa sinna. Kom hún ávalt fram á þingum og öðrum mannfundum sem glæsilegur fulltrúi kvenþjóðarinnar.
Með Eiríksínu er horfinn ein mætasta húsmóðir í Siglufirði og ein af þeim konum, sem settu svip sinn á bæinn — og nú þegar Eiríksína er farin yfir móðuna miklu, er þungur harmur kveðinn að manni hennar, börnum, fóstursyni og barnabörnum.
Öll hafa þau mikið misst. En þá er ljúft að minnast ástríkrar og umhyggjusamrar eiginkonu og móður og hennar fórnfúsu starfa fyrir góðum málstað.
Ragnar Jóhannesson
Börn þeirra hjóna voru:
1. Sigurður Björnsson, f. 27.5. 1917, d. 12.2. 1944,
2. Ásbjörg Una Björnsdóttir, f. 19.5. 1919, d. 4.9 1972,
3. Halldóra Guðrún Björnsdóttir, f. 5.7. 1921,
4. Sveinn Pétur Björnsson, (Sveinn Björnsson) f. 27.6. 1924, d. 18.12. 1998,
5. Ásgrímur Björnsson, 22. febrúar 1927
6. Þorsteinn Helgi Björnsson, f. 30.5. 1929,
7. Björn Björnsson, f. 9.8. 1930, d. 14.2.1999
8. María Stefanía Björnsdóttir, f. 13.9. 1931,
9. Svava Kristín Björnsdóttir, f. 10.11. 1932, og
10. Sigríður Bjarney Björnsdóttir, f. 17.8. 1934.
Slysavarnarfélagið Vörn.
Aftari röð: Guðrún Rögnvaldsdóttir, Anna Magnúsdóttir, Ólöf Jónsdóttir, Herdís Guðmundsdóttir og Guðrún Þorgilsdóttir.
Fremri röð: ?, ?, ?, Eiríksína Ásgrímsdóttir, ? og Ágústa Guðmundsdóttir ?
Ókunnur Ljósmyndari-ártal ekki vitað