Eggertína Á. Guðmundsdóttir
JARÐLÍF okkar hefst með því, að inn í þennan heim fæðist lítið barn, en lýkur með dauða líkamans eftir mörg ár eða fá ár. Þetta lögmál er öllum ljóst, en þó snertir dauðinn alltaf hjörtu ástvinanna, þegar kveðju stundin kemur.
Þann 13. september 1965 lést í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri Eggertína Ásgerður Guðmundsdóttir frá Siglufirði, eftir þunga sjúkdómslegu, 80 ára að aldri. Útför hennar fór fram frá Siglufjarðarkirkju þann 19. þ.m.
Eggertína var fædd að Minni Ökrum í Blönduhlíð 18. janúar 1885.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Sigurðsson og Rannveig Guðmundsdóttir, bæði af Skagfirskum ættum. Áður höfðu þessi hjón búið að Torfagarði í Glaumbæjarsókn og misst þar tvö ung börnin sín og fósturdóttur úr barnaveiki 1884.
Bar Eggertína nöfn systkina sinna.
Eggertína Guðmundsdóttir
Ókunnur ljósmyndari
En raunum Rannveigar var ekki þar með lokið. Guðmundur maður hennar lést sjö vikum eftir fæðingu Eggertína, aðeins 45 ára að aldri. Rannveig bjó á Minni-Ökrum en fluttist þaðan með dóttur sína út á Höfðaströnd. Var Rannveig þar á ýmsum stöðum og vann fyrir sér og barninu í sjálfsmennsku. En þegar Eggertína var á 11. ári byggði Rannveig sér lítinn torfbæ í Grafarósi, rétt innan við Hofsós, en þar var áður verslunarstaður. Þarna bjuggu þær mæðgur í 11 ár. Vann Rannveig fyrir þeim með kaupavinnu á sumrin og fiskþvotti. Þá gætti Eggertína barna á sumrin, þegar hún stálpaðist. Einnig höfðu þær nokkrar kindur. Haustið 1906 fluttust þær mæðgur til Siglufjarðar, og giftist Eggertína þar Einari Eyjólfssyni, trésmið, en hann var ættaður úr Hafnarfirði. Einar er enn á lífi næstum 88 ára að aldri og höfðu þau verið saman í hjónabandi næstum 59 ár, þegar Eggertína lést.
Er því skiljanlegt, aðskilnaðurinn sé sár fyrir hinn aldurhnigna eiginmann hennar. Öll sín búskaparár hafa þau átt heima á Siglufirði. Þeim varð ekki barna auðið. Árið 1908 tóku þau hjón í fóstur tveggja ára stúlkubarn, Jónínu Steinþórsdóttur, sem þau ólu upp sem dóttur sína. Hún er nú búsett á Akureyri og hefur Einar dvalið hjá henni að mestu leyti í sumar.
Eggertína var mesta myndarkona bæði í sjón og raun. Hún var trygglynd og vinföst, en hélt fast við sínar skoðanir. Hún var veruleg og hjálpsöm vinum sínum. Lengi mun ég minnast hve innilegar og góðar móttökur við fengum, þegar við hjónin heimsóttum þau Einar og Eggertínu á Siglufirði. Eggertína hafði einlæga trú á framhaldslífi og las mikið um þau efni. Hún fylgdist af áhuga með sálarrannsóknum og átti mikið af bókum um dulræn mál. Langur ævidagur er liðinn og hin svipmikla kona er horfin af sjónarsviði lífsins. Siglfirðingar kvöddu hana með því að fjölmenna við útför hennar. Blessuð sé minning þessarar mætu konu.
E. S.
******************************************************************
ÓLABLAÐ NEISTA 1965
MINNINGAROR UM HJÓNIN Eggertínu Guðmundsdóttur FÆDD 19. JANÚAR 1885. — DÁIN 13. SEPT. 1965. OG Einar Eyjólfsson FÆDDUR 18. OKT. 1877. — DÁINN 11. DES. 1965.
Eggertína Guðmundsdóttir var fædd að Minni-Ökrum í Blönduhlíð, 19. janúar 1885.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Sigurðsson og Rannveig Guðmundsdóttir, bæði fædd og uppalin í Skagafirði. Faðir hennar lést nokkrum vikum eftir að hún fæddist, aðeins 45 ára að aldri. Eftir það ólst hún upp með móður sinni og fluttist tveggja ára að aldri með henni út á Höfðaströnd. Árið 1895 byggði Rannveig sér lítinn torfbæ í Grafarósi, og bjó þar í ellefu ár, en þá fluttust þær mæðgur hingað til Siglufjarðar.
Einar Eyjólfsson var fæddur á Hvaleyri við Hafnarfjörð, 18. okt. 1877, og var því fullra 88 ára að aldri, er hann lést. Foreldrar hans voru Helga Einarsdóttir og Eyjólfur Eyjólfsson. Alsystkini hans voru: Jens, byggingameistari í Reykjavík, og Sigríður, en auk þess átti hann mörg hálfsystkini frá síðara hjónabandi föður hans. Af hálfsystkinum hans eru á lífi: Ólafía og Valgeir, á Hausastöðum á Álftanesi, og Þórey á elliheimilinu Grund. Einar missti móður sína er hann var á fimmta ári, og var honum þá komið i fóstur. Var hann í fyrstu hjá móðurömmu sinni, Sigríði, að Bakka í Garðahverfi, en síðar ólst hann upp hjá móðurbróður sínum, Guðmundi Einarssyni í Hafnarfirði.
Hjónin Einar Eyjólfsson Eggertína Guðmundsdóttir
Ókunnur Ljósmyndari
Einar varð mikið að vinna í uppvexti sínum, eins og þá var títt; fór að róa á handfæri 12 ára, og um 13 ára aldur varð hann kokkur á skútum. Í barnaskólanum í Flensborg var hann tvo vetrarparta. Það var öll hans skólaganga. Þegar hann var á sautjánda ári fór hann nauðugur með Guðmundi norður, og hélt þá Einar því, að fara ekki með frænda sínum suður aftur. Þetta sumar var hann hjá Jónasi Illugasyni að Tindum í Ásum. Réði hann sig með því skilyrði, að Jónas flytti sig til Sauðárkróks um haustið, áður en Guðmundur færi suður. Þetta efndi Jónas. Frá þeim tíma átti Einar heima á Norðurlandi.
Fyrstu tvö árin var hann hjá Þorvaldi Einarssyni á Sauðárkróki, móðurbróður sínum. Stundaði hann þar bæði landvinnu og sjósókn. Langaði hann til að læra tré smiðaiðn, en gat það eigi, sökum fátæktar. Um tvítugs aldur gerðist Einar vinnumaður hjá Guðmundi Einars syni, frá Hraunum, verslunarstjóra í Hofsós. Þar var hann um nokkurra ára skeið. Þar kynntist hann Eggertínu Guðmundsdóttur, og gengu þau í hjónaband, 5. október 1906. En fyrr á því sama ári hafði Einar farið út til Siglufjarðar í erindum húsbónda síns, en héðan frá Siglufirði sneri hann ekki aftur, og stofnuðu þau Eggertína heimili sitt hér.
í Siglufirði voru þau hjónin því búsett um nærfellt sex áratuga skeið. Einar var hinn mesti dugnaðarmaður. og féll naumast verk úr hendi. Fyrsta árið hér í Siglufirði byggði hann sér hús við Vetrarbraut. Leigði hann það Sölva Jónssyni, skósmið, en af honum lærði Einar skósmíði, sem hann stundaði nokkurra ára skeið. Hann þoldi starfið illa og starflaði hér nokkur ár að iðn sinni og þótti frábær verkmaður, skemmtilegur og háttvís. fékk um það leyti slæma brjóstveiki og varð að fara á Vífilstaðahæli einn vetur. Upp frá því var hann alltaf heilsuveill. Eftir þetta stundaði hann hér ýmsa vinnu. Var oft við síldarmat á sumrum og bátasmíði á vetrum. Síðar fékk hann trésmíðaréttindi og vann við smíðar hjá Siglufjarðarbæ í mörg ár, meðan heilsa og starfskraftar entust.
Eftir að aldur færðist yfir hann og hann þoldi ekki lengur almenna vinnu, hafði hann lítið tré & smíðaverkstæði heima hjá sér, og smíðaði þar netanálar fyrir togara, og annað smávegis. Einar Eyjólfsson var hæglátur og prúður maður. Það var ætíð bjart yfir ásjónu hans, og handbak hans þétt og hlýtt. Hann var ráðdeildarmaður hinn mesti og mátti ekki vamm sitt vita i neinu. Hjálpsamur var hann og góðgjarn. Slíkur maður hlaut að vinna hugi allra, sem kynntust honum. Hann var um áraraðir einn af bestu liðsmönnum Siglfirskra jafnaðarmanna og hugsjónum jafnaðarmanna um frelsi, jafnrétti og bræðralag var hann trúr til hinstu stundar. Fáir menn hafa verið þeim hugsjónum trúrri með sínu daglega starfi en Einar Eyjólfsson. Siglfirskir jafnaðarmenn munu ætíð minnast hans með hlýhug og söknuði, og þakka samstarfið, sem aldrei féll skuggi á.
Þeim Einari og Eggertínu varð ekki barna auðið, en ólu upp eina fósturdóttur, Jónínu Steinþórsdóttur, og naut hún ástríkis sem þeirra eigin dóttir, og reyndist hún fósturforeldrum sínum góð og hjálpsöm dóttir, er reyndist þeim vel í ellinni, svo og maður hennar, Eiríkur Sigurðsson, skólastjóri á Akureyri. Störf Eggertínu voru að sjálfsögðu fyrst og fremst unnin innan veggja heimilisins. Hann annaðist heimili sitt af nærgætni og trúmennsku, og var í senn góð eiginkona og móðir. Hún var kona stórbrotin, trygglynd og hjálpsöm. Um hana hefur verið sagt, að aldrei væri of mikið gott um hana sagt. Eins og fyrr segir var
Einar haldinn um margra ára skeið af slæmri brjóstveiki, og var það því hlutskipti Eggertínu að hlúa sem best að honum og annaðist hann. Þegar hún fann til sjúkleika þess, sem varð henni að bana, olli það henni áhyggjum, ekki sín vegna, heldur hans vegna, því að þá fann hún, að þeir tímar kæmu, að hún stæði eigi lengur við hlið hans, til þess að annast hann og hlúa að honum. Þetta lýsir best hinu ástríka hjónabandi þeirra um hartnær sex áratugi. Þessi sterku og máttugu kærleiksbönd megnaði dauðinn einn að slíta. Nú eru þau bæði komin til ljóssins lands, þar sem kærleikur, jöfnuður og bræðralag ríkir. Enn á ný hafa þau bundist kærleiksböndum, er munu vara um alla eilífð.
Blessuð sé minning sæmdarhjónanna Eggertínu Guðmundsdóttur og Einars Eyjólfssonar.
Engin undirskrift