Tankskipið Haförninn

Það var í október mánuði 1966 sem skipstjórinn á Haferninum Sigurður Þorsteinsson kom til mín upp á hábryggju S.R. (þróardekk) Þar sem ég var við vinnu mína sem fólst í því yfir sumarmánuðina á þessum tíma, að smyrja og viðhalda þróardrögurum og öðrum vélbúnaði sem tilheyrði löndun og flutningi á síld frá löndunarbryggjum til þróarsvæða hjá S.R. á Siglufirði.
Meðal annars einnig vegna löndunar úr Haferninum sem þá var verið að landa úr.
Ég hafði einu sinni áður séð skipstjórann nokkrum vikum áður, og átt við hann orðaskipti er ég var sendur um borð í Haförninn að beiðni Morgunblaðsins til að taka mynd af honum, vegna viðtals sem Stefán Friðbjarnarson tók við hann í tilefni af komu skipsins í fyrsta sinn til heima hafnarinnar, Siglufjarðar þann var 18. Ágúst. 

Eitthvað nálægt þessu munu orðaskipti okkar hafa verið:

"Sæll Steingrímur og góðan daginn, ég hefi heyrt ýmislegt um þig.

Okkur vantar timburmann um borð í Haförninn. Hefurðu áhuga á starfinu?" 

Stutt og laggott, en Sigurður var ekki vanur að hafa langan fyrirvara á erindum sínum, því kynntist ég síðar.

Ekki hafði hvarflað að mér að fara á sjó eftir túrinn minn forðum um borð í Elliða, og var alls ekki undir það búinn að verða í annað sinn boðið skipsrúm. Ég taldi ýmislegt aftra áhuga mínum til slíkra verka, meðal annars sjóveiki sem ég jafnan varð fyrir á trillu minni sem ég átti á þessum tíma. 

Sigurður var að eðlisfari vel máli farinn og hvetjandi. Hann sagði mig ekki þurfa að kvíða neinu þó ég yrði slappur af sjóveiki, hann skildi sjá til þess að ég gæti slappað vel af ef slíkt kæmi upp á. 

Margt fleira sagði hann mér til hvatningar, meðal annars að Guðmundur Arason 1. stýrimaður hefði gefið mér mjög góð meðmæli, svo og fleiri sem hann hefði spurt um mig, ég mundi örugglega afla meiri tekna um borð heldur en í landi, ofl. ofl.

Það endaði með því að ég hringdi í konu mína og spurði hvernig henni litist á, hún var treg til í fyrstu, en eftir smá viðræður samþykkti hún ráðgerðina, og ég var munstraður um borð í Haförninn. 

Í framhaldi af þessu,  ->   ætla ég að birta nokkur minnisbrot frá þessu tímabili á þessa síðu mína.

Ekki rættist þó "loforðið" um betri tekjur eins og Sigurður hafði nefnt, en þegar farið var úr höfn á Siglufirði, þá með stefnuna á Rauðatorgið austur af landinu var komin bræla og öll síldarskipin komin í var eða inn á hafnir og þess vegna engin síldveiði, auk þess sem skipin sem höfðu fengið slatta af síld fyrir brælu, lönduðu frekar í landi vegna 22ja aura lægra verðs á kg., ef lestað væri í Haförninn. Lengst af var legið við anker ýmist í minni Reyðarfjarðar eða inni á Seyðisfirði og engin yfirtíð (aukavinna). 

Ég man ekki hvað farmarnir voru margir sem við lestuðum þarna um haustið en þeir voru fáir. Við komum til Siglufjarðar þann 10. nóvember minnir mig, með aðeins 1100 tonnum af lélegu hráefni fyrir SR verksmiðjuna á Siglufirði, frá Austfjarðarmiðum.

Síðasti farmurinn á árinu 1966.

Ég á margar góðar minningar frá veru minni sem timburmaður þarna um borð á rúmlega fjögurra ára tímabili. Ég skrifa hér nokkrar þeirra minninga hér, jafnhliða því þær koma upp í huga minn, og skoða hljóðupptökur mínar og dagbækur.

Ýmsu er þó sleppt sem kynni að skaða félaga mína, svona eins og gengur, en ýmislegt neikvætt kemur fyrir okkur öll sem óþarfi að  skrá í söguna. 

Allan minn sjómannsferil má segja að ég hafi verið sjóveikur, jafnvel á lágdauðum sjó.  

En ánægja mín af veru minni um borð í Haferninum, tímabil þar sem 24 manna skipshöfnin var eins og ein stór samhent og kát fjölskylda, er mér ógleymanleg raunar á meðal bestu ára ævi minnar.

Haförninn var smíðaður í Noregi árið 1957. skipið var 2462 brúttólestir að stærð með 2100 hesta 6 strokka Burmaster & Wine diesel vél.

Skipið hét upphaflega Lønn og var olíuflutningaskip sem einnig flutti önnur fljótandi efni eins og td. sýrur. 

Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu skipið árið 1965 og létu breyta því allmikið í Bremerhaven í þýskalandi, í þeim tilgangi að nota það sem síldarflutningaskip yfir sumartímann, og til lýsis og olíuflutninga yfir vetrarmánuðina.

Skipið var skrásett á Siglufirði.

Síldin var sótt til skipa sem voru á norður og austfjarðamiðum, og síðar á síldarmið allt norður til Jan Mayen og Svalbarða þar sem íslensku skipin stunduðu mikið veiði eftir að síldin fannst ekki á heimamiðum. 

Haförninn kom fyrst til landsins til hafnar á Seyðisfirði 3. Ágúst 1966, og hélt þaðan fljótlega út á miðin, þaðan sem svo fyrsta farminum var skilað til Seyðisfjarðar, en ný löndunarbryggja á Siglufirði var ekki enn tilbúin til að taka við skipinu í heimahöfn, sem áætlað hafði verið að yrði aðal móttökuhöfn á förmum þess til bræðslu. 

það var svo 18. ágúst sem fyrsti farmurinn kom til heimahafnar, þá með 18-19000 mál eins og nefnt er í Morgunblaðinu þan 19. ágúst, magnið í tonnum talið var um 3200 tonn af síld.

Rekstur skipsins og verkefni voru næg á meðan síld veiddist og lýsisbirgðir entust hvert ár. 

Árin 1967 og 1969, yfir vetrarmánuðina var skipið sett í leigu til danska skipafélagsins AP Möller, og síðar hjá öðru skipafélagi og kom fyrir að skipið kæmi ekki heim til Íslands í allt að fimm mánuði í senn. En á meðan á þeim leigutímabilum stóð, var skipið í flutningum víða um heim með allskonar tegundir af olíum og  eldsneyti, jafnvel parafín sem halda þurfti heitu á bræðslustigi á meðan það var um borð.

Árið 1969 var síldin horfin og skipinu komið í  leigu erlendis, en kom heim aftur til Siglufjarðar árið 1970 um sumarið og lá þar lengi við festar, þar til því var siglt til Reykjavíkur og síðan selt til Ítalíu fyrir "slikk" árið 1971. 

Sögur hermdu að söluverðið hefði verið um það bil það sama, og vænta hefði mátt að hefði fengist fyrir 400 hesta Caterpillar ljósavél sem var inni í dekkhúsi framan við brúna.  

Tæpum tíu árum síðar, er ég var timburmaður um borð í Hvalvíkinni á siglingu undan strönd Ítalíu, sá ég gamla "Haförninn" þá snjóhvítan að lit, möstrin höfðu verið tekin af, en skipið auðþekkt af dekkhúsinu og fleiru sem munað var eftir, en nafn skipsins þá sást ekki vegna málningarflögnunar, en skipið bar Ítalska fánann, Guðmundur Arason skipstjóri á Hvalvíkinni, reyndi að ná talstöðvarsambandi við skipið samkvæmt staðarlýsingu, en fékk ekki svar.

Sýruflutningar t/s Løn

Í upphafi er Haförninn, sem áður hét Lønn og var í eigu Norðmanna, var skipið mikið notað til flutninga á allskyns sýrum víða um heim, og báru bæði leiðslur skipsins og tankar þess greinilega merki vegna tæringar sem smátt og smátt uppgötvuðust af okkur sem unnum við lagnirnar og sjálfa tankana. Mikil tæring var víða sjáanleg niðri í tönkunum, auk þess sem sumar lagnir niðri í tönkum, raunar einnig uppi á dekki fóru að smita olíu og jafnvel áberandi leka við þrýsting. 

Mér var falið að finna ráð við einfaldri viðgerð á rörum, án þess að nota rafsuðu sem var auðvitað banvænt vegna þess eldsneytis sem við vorum að flytja, jafnvel tómir tankar voru hættulegri en fullir hvað eld eða neista sætti. Sem dæmi þá var okkur stranglega uppálagt að vera ekki í vinnu úti á dekki eða niðri í tönkum á skóm sem gera mætti ráð fyrir að sólar væru negldir, (negldir leðurskósólar voru algengir á þessum tímum) ekki nota vasahnífa, lyklakippur eða málmhluti, og eða vera með eldspýtur eða kveikjara í vösum, þeir sem reyktu voru sérstaklega áminntir um slíkt.

Ég leitaði í vörulista frá fyrirtæki sem þjónustaði olíuskip. Þar fann ég sérstakt áhald til að strekkja utan um rör sem leki hafði komið á. En á milli stálborða sem verkfærið notaði, var komið fyrir olíuþolinni gúmmíbót sem útilokaði lekann. Þetta verkfæri var lengi notað um borð með góðum árangri og Þær voru orðnar margar slíkar bæturnar um borð, þann tíma sem ég var þar. Þetta verkfæri var eitt af nokkrum sem skilið var eftir hjá S.R. á Siglufirði, þegar skipið var selt árið 1971 eins og fyrr segir.