Árið 1943 - Deilan leyst !

Deilan um bræðslusíldarverðið leyst.                      

Siglfirðingur 1. júlí 1943

Atvinnumálaráðherra neyðist til að láta undan kröfum meirihluta ríkisverksmiðjustjórnar og sjómanna um fast 18 króna verð á mál. 

Til þess að lesendur Siglfirðings geti fylgst með gangi þessa einkennilega togstreitumáls af hálfu atvinnumálaráðherra, skal hér birt það helsta er gerst hefur í málinu: 

Á fundi stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins hinn 10. júní s.l. var eftirfarandi tillaga samþykkt með 4 atkvæðum þeirra Sveins Benediktssonar, Finns Jónssonar, Jóns Þórðarsonar og Þorsteins M. Jónssonar. Þormóður Eyjólfsson greiddi ekki atkvæði og Þ.M.J. hafði fyrirvara um atkvæði sitt: 

“Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins samþykkir að áætla verð bræðslusíldar í sumar. kr. 18,00 pr. mál og er sú áætlun miðuð við að samningsverð Viðskiptanefndar fáist fyrir lýsi og síldarmjöl, bæði það sem selt er á innlendum og erlendum markaði. 

Þá samþykkir stjórnin að leita heimildar atvinnumálaráðherra til þess að kaupa síldina föstu verði kr. 18.00 pr. mál, en þeim, sem þess óska, sé gefinn kostur á að leggja síldina inn til vinnslu gegn 85% útborgun af áætlunarverðinu við móttöku. 

Verksmiðjustjórnin leggur til að allar síldarverksmiðjur ríkisins, að Norðfjarðarverksmiðjunni undanskilinni og Krossanesverksmiðjan að auki, verði starfræktar í sumar á framangreindum grundvelli." 

Atvinnumálaráðherra samþykkti ekki tillögu meirihluta verksmiðjustjórnar um heimild handa verksmiðjunum til þess að kaupa síldina föstu verði fyrir kr. 18,00 málið, en samþykkti með bréfi dags. 18. þ. m. að greiðsla út á þá síld, sem lögð verður inn til vinnslu fyrir reikning eigenda, verði kr. 15,30 fyrir mál (85% af 18,00 kr.). 

Að verksmiðjunum sé heimilað á þessu sumri að kaupa föstu verði síld af þeim, sem þess óska, og greiða fyrir síldina sem hér segir: Nái heildarsíldarmagn, sem verksmiðjunum berst, 700.000 málum eða meira, greiðist 18.00 kr. fyrir málið. 

Verði heildarsíldarmagnið ekki 700,000, en nái 500 þúsund málum, greiðist kr. 17.50 fyrir málið, en nái heildarsíldarmagnið ekki 500 þúsund málum, greiðist 17,00 kr. fyrir málið." 

Bréfi atvinnumálaráðuneytisins dags. 18. júní svaraði meirihluti stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins með bréfi dagsett 19. júní svohljóðandi: 

“Vér höfum meðtekið bréf atvinnumálaráðuneytisins dagsett 18. þ. m. viðvíkjandi rekstri síldarverksmiðja ríkisins í sumar.

Getum vér eigi komist hjá að láta í ljós óánægju vora útaf ákvörðun atvinnumálaráðuneytisins varðandi verðlag á bræðslusíld þeirri, er ráðuneytið hefur heimilað Síldarverksmiðjum ríkisins að kaupa föstu verði í sumar. 

Þetta er í fyrsta sinn, sem eigi hefur verið farið að tillögum verksmiðjustjórnarinnar um ákvörðun síldarverðsins. Hefur verið farið inn á þá braut án þess að atvinnumálaráðherra sæi ástæðu til þess að kalla meirihluta verksmiðjustjórnarinnar á sinn fund, svo að honum gæfist kostur á að færa fram rök fyrir tillögu sinni. 

Teljum vér, að hagsmunum Síldarverk smiðja ríkisins sé stemmt mjög á tvísýnu, með því að ráðuneytið skyldi hafna tillögum meirihluta verkamiðjustjórnar um heimild til þess að kaupa bræðslusíldina föstu verði kr. 18,00 pr. mál. Að voru áliti er þessi ákvörðun líkleg til að drags úr þátttöku í síldveiðunum. 

Þá teljum vér vafasamt að það geti staðist samkvæmt lögum um Síldarverksmiðjur ríkisins, að heimilt sé að kaupa síldina föstu verði fyrir annað verð en áætlunarverðið, en það hefur ráðuneytið samþykkt að væri kr. 18,00 pr. mál. 

Ennfremur viljum vér benda á, að síldarverksmiðjur einstaklinga hafa jafnan keypt síldina föstu verði fyrir áætlunarverð Síldarverksmiðja ríkisins. 

Er líklegt að svo verði enn og myndast þá með tillögum ráðuneytisins tvennskonar verð á bræðslusíld, lægra hjá Síldarverksmiðjum ríkisins en hjá verksmiðjum einstaklinga. Er þetta síst fallið til less að efla viðskipti Síldarverksmiðja ríkisins og mun það verða til þess, að verksmiðjur einstakra félaga geta enn frekar en áður valið til sín bestu og stærstu síldveiðiskipin. 

Vér munum svo, sem venja er til, auglýsa eftir þátttöku i síldveiðum, en höfum talið skyldu vora að taka ofangreind atriði fram, þar eð vér teljum að ákvörðun ráðuneytisins, sem gengur í bága við tillögu meirihluta verksmiðjustjórnar, sé skaðleg rekstri verksmiðjanna og geti komið glundroða á þær áætlanir, sem vér höfum gert um rekstur þeirra í sumar.

Virðingarfyllst.

Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins.

Ég undirritaður leyfi mér hér með að minna á sérstöðu mína í máli því, er bréf þetta ræðir um. Aðaltillaga mín var sú, að verksmiðjurnar tækju síld aðeins til vinnslu og verðið væri áætlað kr. 18,00 málið, en í samræmi við það taldi ég rétt að kaupa síldina fyrir kr. 18,00 pr. málið ef keypt yrði.

Þorsteinn M. Jónsson."

- - - - - - - - - - - - - - - - - 

Eins og sjá má af bréfaskiptum þessum og eigi síður af þeim fjölda mótmæla sjómanna og útgerðarmanna, var með þessu einræðisbrölti atvinnumálaráðherra síldveiðunum stefnt í fullkomið öngþveiti og voða, því eins og mörgum mun kunnugt 

var umsóknarfrestur skipa til að leggja upp í Ríkisverksmiðjunum, útrunninn á laugardag s.l. Þá höfðu sótt 67skip um löndun við Ríkisverksmiðjurnar og ÞAR AF 45 EINUNGIS MEÐ ÞVÍ SKILYRÐI, AÐ GREITT YRÐI FAST VERÐ 18 KR. pr.. MÁL. 

Hinsvegar hafði síldarverksmiðjustjórn fasta von um viðskipti 80-85 skipa, ef atvinnumálaráðherra hefði eigi tekið upp á einræðisbrölti sínu. 

Er eigi fannst bilbugur á ráðherra, sá meirihluti verksmiðjustjórnar að í fullt óefni var komið og sendi því stjórnum allra þingflokkanna bréf og skýrslu um málið, og fór fram á aðstoð þeirra til að bjarga við málinu. 

Loks í gær hafði verið þjappað svo að atvinnumálaráðherra, að hann sá sér þann kost vænstan að fallast á kröfur útgerðarmanna og sjómanna um það að hlítt væri tillögum meirihluta Ríkisverksmiðjustjórnarinnar í málinu. 

Það er þó ekki enn fyrir endann séð á því, hvaða áhrif þessi þrjóska “hins þrugða Þórs” kann að hafa á afkomu og rekstur síldarverksmiðjanna í ár. 

En þessi deila ætti að minna háttvirtan atvinnumálaráðherra á það, að þjóðin kann illa öllu einræðisbrölti þjóna sinna, og eftir því ætti hann að haga sér framvegis.