Otto David Tynes

Otto David Tynes

Otto David Tynes fæddist á Siglufirði 13. apríl 1937. 

Hann andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 2. júlí 2018. 

Foreldrar hans voru Sverre A. Tynes, byggingatæknifræðingur frá Noregi, f. 10.4. 1906, d. 8.2. 1962 og 

Hrefna Samúelsdóttir Tynes, fv. skátahöfðingi, f. 30.3. 1912, d. 10.5. 1994. 

Systkini Ottos eru 

Ásta Tynes Busengdal, f. 1932, búsett í Noregi og 

Jón Arvid Tynes, f. 1945, búsettur í Garði. 

Eftirlifandi eiginkona Ottos er 

Bryndís Guðmundsdóttir, fv. flugfreyja, fædd í Reykjavík 25.12. 1944. Foreldrar hennar voru Guðmundur Kristinn Kristmundsson, f. 8.3. 1914, d. 8.2. 1981 og Guðrún Sigurðardóttir, f. 6.2. 1916, d. 26.8. 2010. Fyrri eiginkona Ottos er Gunnhildur Birna Björnsdóttir, fv. forstöðumaður hjá Landsbankanum, f. 12.7. 1940. Þau skildu.

Börn Ottos og Bryndísar eru; 

1) Ottó Davíð Tynes heimspekingur, f. 4.3. 1970.

 Dóttir hans er Tinna Tynes, f. 28.5. 2005. 

2) Gunnar Örn Tynes, tónlistarmaður, f. 5.3. 1979. 

Börn Ottos úr fyrra hjónabandi eru: 

1) Sverrir Tynes tölvunarfræðingur, f. 7.6. 1960, 

kvæntur Ásu Kolka verkefnastjóra, f. 2.2. 1951. Sonur Sverris er Axel Ingi Tynes, f. 19.3. 1996. 

2) Salome Tynes flugfreyja, f. 31.5. 1961, gift Pálma Kristinssyni, verkfræðingi, f. 12.5. 1957. 

Börn þeirra eru Bjarni Þór, f. 21.10. 1991, d. 11.3. 2018, Ágúst Ottó, f. 23.2. 1995 og Birna Lind, f. 18.12. 2000. Otto ólst upp í Noregi til 7 ára aldurs. 

Á yngri árum stundaði Otto íþróttir og var m.a. liðtækur sundmaður í Sunddeild KR. Otto hóf störf sem flugmaður hjá Loftleiðum árið 1965 og starfaði síðan hjá Flugfélagi Íslands, Sterling Airways í Danmörku og German Cargo í Þýskalandi. Lengst af var hann flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands og Flugleiðum. Otto lét af störfum flugstjóra vegna aldurs árið 2002 og átti þá að baki rúm 45 ár í háloftunum og yfir 20.000 flugstundir. Otto tók virkan þátt í félagsstarfi flugmanna og var einn af stofnendum og fyrsti formaður flugklúbbsins Þyts. Einnig starfaði hann við flugkennslu árum saman og kom að þjálfun fjölmargra íslenskra flugmanna á sínum ferli.

Útför Ottos fer fram frá Bústaðakirkju í Reykjavík í dag, 17. júlí 2018, og hefst athöfnin klukkan 15.

Það er komið að lokaútkalli í síðasta flugið hans pabba. Ekki er vitað hvert ferðinni er heitið í þetta sinn, en eitt er þó víst að þar verður gaman. Þar verður tónlist, djass, hlátur, grín og gleði. Eins og alltaf á sínum langa og farsæla ferli var pabbi vel búinn undir þessa ferð. Hann var tilbúinn í þetta flugtak, hann kvaddi sáttur.

Ég hef alla tíð verið afar stolt af pabba mínum, enda var hann með skemmtilegri mönnum, þekkti nánast alla og var svo margt til lista lagt. Hann var kennari af guðs náð og vinsæll meðal hinna fjölmörgu flugnema sem hann kenndi og þjálfaði í gegnum árin. Það var gott að geta leitað til pabba með verkefni í veðurfræði og stærðfræði á menntaskólaárum mínum. Pabbi var góður sundmaður á sínum yngri árum. Hann stundaði Vesturbæjarlaugina og fleiri laugar á meðan heilsan leyfði.

Ein af fyrstu æskuminningum mínum var þegar pabbi fékk Ómar Ragnarsson til sín í heimsókn á Melabrautina til að fara yfir einhverjar flugbækur. Ég hef sennilega verið 5-6 ára og horfði dolfallin á Ómar áður en ég hvíslaði að pabba hvort þetta væri í alvöru Ómar Ragnarsson. Ómar var átrúnaðargoð allra barna á þessum tíma, þá nýbúinn að gefa út vinsæla barnaplötu. Lengi á eftir hreykti ég mér af því við krakkana í hverfinu, að pabbi minn hefði kennt Ómari Ragnarssyni að fljúga – hvað sem kann nú að reynast rétt í því.

Ég á margar góðar minningar eins og þegar hann bauð mér á alvörudjassklúbb í New York árið 1979. Þar inni sátu fjórir feitir, þeldökkir tónlistarmenn og spiluðu stórkostlegan djass! Þarna smitaðist ég af djass-bakteríunni hans pabba. Og við áttum eftir að fara saman á marga góða tónleika, hvort sem það var djass eða swing með Stórsveit Reykjavíkur. Þetta voru gæðastundir okkar pabba. Á þessum stundum ljómaði pabbi eins og sólin.

Ég minnist líka allra ættarmótanna á Ísafirði og í Hattardal, þar sem pabbi var hrókur alls fagnaðar, söng, hló og sprellaði. Þar var fastur liður að syngja „Alouette“ á frönsku. Pabbi söng hátt og snjallt, oftast bara eftir minni, hann víxlaði textanum viljandi og skellihló með Gunnari félaga sínum, en Alouettan var alltaf sungin í dúett.

Fyrir um átta árum greindist pabbi með parkinson, sem fór hægt og bítandi versnandi með hverju árinu. Þótt líkamlegri heilsu pabba hafi hrakað hratt síðustu árin, þá ríghélt hann í húmorinn og grínið og kom manni alltaf til að hlæja.

„Ó, pabbi minn“ söng Björk Guðmundsdóttir með tríói Guðmundar Ingólfssonar:

Liðin er tíð, er leiddir þú mig lítið barn. Brosandi blítt, þú breyttir sorg í gleði.

Ó, pabbi minn, ég dáði þína léttu lund.

Leikandi kátt, þú lékst þér á þinn hátt.

Ó, pabbi minn, hve undursamleg ástþín var.

Æskunnar ómar ylja mér í dag.

Elsku hjartans pabbi minn. Takk fyrir gleðina, húmorinn og léttleikann sem einkenndi þig alla tíð. Minning þín er ljós sem lifir.

Þín dóttir,

Salome.

Það kannast eflaust einhverjir við bíómynd sem sýnd var fyrir allmörgum árum og heitir „My father – the hero“. Ég sá hana reyndar aldrei enda þarf ég ekki að horfa á pabba einhvers sem ég þekki ekkert þegar ég get látið hugann reika og rifjað upp sögur af pabba mínum sem svo sannarlega var hetja, þótt ekki hafi verið gerð um hann bíómynd.

Fyrstu minningar mínar um pabba eru þegar ég var mjög ungur, á Melabraut 34 og pabbi var að koma úr flugi. Það leyndist alltaf eitthvað í ferðatöskunni handa litlum strák. Ég man nú reyndar ekki eftir neinum sérstökum hlut en minningin lifir um spennuna þegar ferðataskan var opnuð. Ég var í sveit í Skagafirði á sumrin á aldrinum 7-10 ára og aldrei gleymi ég bílferðinni þegar pabbi sótti okkur Sally systur á gömlum Rambler. Ferð sem tekur í dag 4 tíma tók þá 10 – 12 tíma. Ég var frekar lítið gefinn fyrir langar bílferðir og var því stöðugt að tuða um hvort við værum ekki að fara að koma. Alltaf sagði pabbi, jú rétt strax! Eflaust hefur hann sagt þetta 95% af ferðinni. Ég minnist þess líka að í bílferðum sem þessum var spurning borin upp eins og „Það eru 50 km til Keflavíkur og bíll er á 75 km hraða, hvað tekur langan tíma að keyra til Keflavíkur?“ Ég þarf nú ekki að hugsa mig lengi um í dag, en fyrir ungan dreng var þetta mikil hugarleikfimi og um leið aðferð til að þjálfa hugann. Það var kennarinn í pabba sem ég naut á þessum árum og margir nutu hæfileika hans sem flugkennara. Flugið var svo sannarlega stór þáttur í lífi pabba. Þegar ég var lítill kynntist ég því þegar hann fór með mig og vini mína í flugtúra á litlum flugvélum og leyfði okkur að stýra, þvílíkt kikk. Þó svo að flugdellan næði mér ekki þá náði hún mörgum vinum mínum eftir þessa upplifun.

Hetjan mín hann pabbi hefur átt mörg góð svör og margar góðar lausnir í gegnum tíðina. Ég minnist sögu sem hann sagði mér frá því hann var táningur og kom heim alltof seint, eða rétt fyrir kl. 7 á laugardagsmorgni. Ég kynntist Sverri afa því miður aldrei, en hann var víst mjög strangur í þessum málum. Pabbi vissi hver staða hans væri ef afi kæmist að því hvað hann kom seint heim þennan morgun, rétt áður en afi fór í vinnuna. Það var nýfallinn snjór og engin fótspor á Grenimelnum. Pabbi bakkaði heim frá horninu og fékk þá setningu frá afa í lok dags. Þú fórst snemma í vinnu í morgun Ottó minn. Ef John Lennon hefði vitað af þessu þá gæti þetta verið sagan á bak við setningu hans „There are no problems – only solutions.“ Á tímamótum sem þessum reikar hugur minn aftur og ég upplifi allar þessar góðu minningar. Ég sé einn samnefnara í þeim öllum sem hægt er að lýsa með eftirfarandi orðum: glaðlyndi, jákvæðni, skynsemi og hjálpsemi.

Elsku pabbi minn, hetja mín og fyrirmynd. Ég er stoltur af því að vera sonur þinn, takk fyrir allt og hvíl í friði.

Sverrir.

Elskulegur tengdafaðir minn Otto Tynes, fv. flugstjóri, er látinn eftir erfiða sjúkdómslegu síðustu vikurnar á Landspítalanum í Fossvogi.

Okkar kynni hófust fyrir um 30 árum þegar ég kom inn í fjölskylduna. Það var mikil upplifun fyrir mig ungan manninn að fá að kynnast þessum lífsglaða og góða manni. Otto var einstaklega hlýr og barngóður maður. Þegar afabörnin áttu afmæli mætti hann ávallt hress og kátur og naut þess í hvívetna að skemmta þeim með alls konar sjónarspilum og göldrum. Hrífandi rödd hans greip athygli allra sem nálægt voru. Otto eignaðist sitt fyrsta afabarn fyrir tæpum 27 árum þegar sonur okkar, Bjarni Þór, fæddist. Hann var mikill aðdáandi afa síns og hafði gaman af að bralla ýmislegt með honum. Bjarni Þór lést, langt fyrir aldur fram, hinn 11. mars síðastliðinn. Andlát Bjarna var okkur öllum mikil harmur og lífsraun. Ég hef stundum haft á orði að Otto hafi verið einn af frumkvöðlum rafbílavæðingar hér landi þegar hann og Bryndís amma gáfu Bjarna Þór, sem þá var ársgamall, forláta Willys „plug in mini“-rafjeppa í jólagjöf. Þetta var mikill gleðigjafi í lífi Bjarna sem ók um Fossvoginn eins og hershöfðingi og leyfði vinum sínum að prófa. Jeppi þessi er enn í notkun og nú hjá barnabörnum mínum þar sem hann skilur eftir ljúfar minningar um Bjarna Þór og Otto Tynes, minningar sem þeir afafeðgarnir eiga vonandi eftir að rifja upp þar sem þeir eru nú saman komnir. Á ferli sínum sem flugmaður var Otto víðförull og heimsótti 70-80 lönd. Hann var reynslumikill og afar farsæll í starfi og flaug mörgum tegundum flugvéla. Hvort sem það voru stórar þotur af gerðinni DC 8 eða Boeing 727, 737, 757 eða 747 jumbo þá fannst honum þó alltaf mest spennandi að fljúga minnstu flugvélunum eins og Piper Cub og Cessna og Fokker 50 í innanlandsfluginu. Þar var hann á sínum heimavelli. Það var því vel við hæfi þegar félagar hans ákváðu að gula Piper Cub vélin TF-KAK skyldi bera nafn hans, honum til heiðurs.

Otto var svo lánsamur að geta sameinað störf sín og áhugamál í fluginu. Hann var einn af stofnendum flugklúbbsins Þyts árið 1987 og fyrsti formaður félagsins. Hann var mjög stoltur af þessum klúbbi sínum. Ég naut þess að fá að koma með honum í flugskýli Þyts á Reykjavíkurflugvelli og í flugskýlið á Tungubökkum í Mosfellsbæ. Ég átti einnig því láni að fagna að fara með honum í marga ógleymanlega flugtúra um landið á þessum litlu vélum. Oft var lent á sveitatúnum og heilsað upp á bændur og búalið.

Otto var einstaklega glaðlyndur og gefandi maður og kunni vel við sig í góðum félagsskap. Hann var vel liðinn af samstarfsmönnum sínum og eignaðist fjölmarga góða félaga og vini um ævina. Otto var mikill djassunnandi og naut þess fram undir það síðasta að fara á góða tónleika. Hann hafði oft á orði að útförin hans yrði með góðu djassívafi til að viðstaddir gætu skemmt sér með honum.

Elsku Otto, minningin um þig mun lifa í hjörtum okkar. Takk fyrir að fá að eiga þig sem tengdapabba og fyrir börnin okkar að fá að eiga þig sem afa. Hvíl þú í friði. Þinn tengdasonur,

Pálmi Kristinsson.

Kær vinur minn og svili, Otto Tynes, flugstjóri er lagður af stað í sitt hinnsta flug. Flug sem ekki er æft í flughermum, þar sem brottför, flug og lending er í öruggri umsjón þess er öllu ræður og að þessu sinni þegar okkar maður flugstjórinn var tilbúinn leggja í hann. Otto, sem var mjög víðförull og hafði heimsótt ótal staði um alla jarðarkringluna sagði mér oft að af öllum stöðum sem hann vissi um, hlakkaðihann mest til að koma til þess staðar sem ferðinni er heitið nú, þegar hans tími kæmi.

Margs er að minnast frá samverustundum fjölskyldna okkar sem voru miklar og nánar í gegnum tíðina, alltaf saman á aðfangadagskvöld, jóladag og gamlárskvöld að ógleymdum öllum barnaafmælum þar sem Otto brá sér í gervi töframannsins og galdraði fyrir krakkana og frá öðrum gleðiveislum, samverum heima og erlendis og að ógleymdum stundum í sumarhúsum okkar. Minn maður sagði alltaf þegar komið var að kveðjustund eftir gleðskap,: „Eigum við ekki að skella okkur á Kringlukránna?“ það voru rýrar undirtektir á þeim tímapunkti enda allir búnir að fá nóg, en hefðum við vinirnir skellt okkur saman á Kringlukránna, þar sem hann hefði farið uppá svið og tekið hið fræga: Alouette, gentille Alouette, með sínum einstaka franska framburði og látbragði eins honum var einum lagið og sem hann tók svo oft á góðum stundum. Ég myndi síðan koma til hans á sviðið og taka með honum uppáhaldið hans „Fly me to the moon“ að sjálfsögðu við mikinn fögnuð viðstaddra. Kannski eigum við þetta eftir á öðrum vettfangi, hver veit.

Otto vinur minn var með afbrigðum félagslyndur og bóngóður maður, enda fremstur í flokki við að koma hlutum í verk. Það var alveg sama hvað hann var beðin um, alltaf var svarið „Ekkert mál“ enda vinir hans fjölmargir og góðir sem héldu tryggð við hann í vináttu í tugi ára. Honum fannst hann vera sérlega heppinn, að geta státað af því sem ekki er sjálfsagt að hafa atvinnu af áhugamáli sínu og ástríðu sem hann helgaði mesta hluta ævi sinnar, hvort sem var í vinnu, kennslu eða í frístundum.

Flugkennsla var hans ær og kýr og leiðsögn hans varð til þess að fjöldi aðila um land allt öðluðust vængi ef hægt er að komast þannig að orði enda hæfni hans til að miðla af þekkingu sinni í þessum fræðum, einstök. Það er næsta víst að farið verður þess á leit við okkar mann, að hann taki að sér flugkennslu fyrir verðandi engla á nýja staðnum. „Ekkert mál“.

Minn maður hafði þann einstaka sið að lesa meistaraverk Laxness, Sjálfstætt fólk einu sinni á hverju ári, það var eitthvað við basl og sjálfstæðisbaráttu Bjart í Sumarhúsum sem heillaði hann, einnig hafði hann miklar mættur á ljóðum Davíðs Stefánssonar fá Fagraskógi. Jazztónlist var honum að skapi og áttum við það sameiginlegt, við ræddum oft saman um alla heima og geyma nema um flug því aðeins annar okkar hafði brennadi áhuga á því málefni.

Á mínu heimili gekk Otto undir öðru nafni sem dóttir mín Lísa Dögg kallaði hann alltaf frá unga aldri, það var „Gunni pabbi“, mjög skiljanleg nafngift hjá henni, hann var pabbi Gunna og til að aðgreina hann frá hinum syninumá heimilinu, Ottó Davíð. Gunni pabbi, nú þegar þú hefur horfið á braut kæri vinur svo stuttu eftir að fallegi afadrengurinn þinn, Bjarni Þór kvaddi þennan heim, svo ótímabært og sviplega í blóma lífsisns, hef ég þá trú að þið munuð hittast og hlúa að hvorum öðrum og vera saman á leiðinni og í tilverunni á nýja staðnum.

Elsku Bryndís, nú þegar stórt skarð hefur myndast í þínu lífi og lífi þeirra sem þekktu og elskuðu þinn góðan dreng. Þá fer nú í hönd tími sorgar og söknuðar, sagt er að tímin lækni öll sár, ekki þekki ég það, enn það er örugglega mikil sárabót og huggun í að þú yljir þér við minnigar liðnar stundir með þínum manni, þær verða aldrei frá þér teknar.

Bryndís mín, Sverrir, Ása, Axel Ingi, Salome, Pálmi, Ágúst Ottó, Birna Lind. Ottó Davíð, Tinna og Gunnar Örn. Við Hrefna og Lísa Dögg vottum ykkur innilega samúð okkkar, megi sá sem öllu ræður, hughreysta ykkur og styrkja.

Gunni pabbi nú ertu farinn, ég er heppinn að hafa átt vináttu þína og verið samferða þér í allan þennan tíma.

Fljúgðu í friði vinur.

Helgi Agnars.

Við Otto Tynes kynntumst ungir sem ferðafélagar í 10 manna hópi sem kallar sig „Haustferðir“. Eins og nafnið bendir til ferðuðumst við saman á haustin og þá var stefnan alltaf tekin inn á öræfi landsins og ýmsar leiðir kannaðar við misjafnar aðstæður. Leið okkar lá svo líka saman þegar við snemma vors 1967 vorum á námskeiði hjá Flugfélagi Íslands til að öðlast réttindi til að fljúga Fokker-vélum félagsins. Unnum við báðir hjá því ágæta félagi og Flugleiðum í áratugi. Otto var mjög hugmyndaríkur og framtakssamur og í maí 1987 hringdi hann til mín, kom sér beint að efninu og sagði: „Hæ Palli, ertu ekki til í að kaupa hlut í Piper-Cub-flugvél?“ Eftir að hafa spjallað við Otto nokkra stund og hlustað á hugmyndir eldhugans gat ég ekki annað en hrifist af þeim og ákvað að vera með í ævintýrinu. Otto safnaði saman 15 manna hópi flugmanna og Flugklúbburinn Þytur var svo stofnaður á heimili Ottos og Bryndísar konu hans 3. júní 1987 á 50 ára afmæli atvinnuflugs á Íslandi. Það má segja að frumkvöðullinn og hugmyndasmiðurinn Otto hafi einn gegnt starfi formanns, gjaldkera og ritara fyrstu þrjú árin. Eftir að Piper-Cubbinn varð flugfær síðla ágústmánaðar 1987 var sótt um byggingarleyfi fyrir flugskýli í Reykjavík en engin svör bárust frá byggingaryfirvöldum svo á miðju sumri 1989 gengu allir félagar Þyts í Flugklúbb Mosfellsbæjar og sóttu um leyfi til að byggja flugskýli í Mosfellsbæ. Við fengum jákvætt svar og skýlið var svo vígt með viðhöfn 3. nóvember sama ár. Snemma árs 1990 kom svo jákvætt svar frá Reykjavíkurborg og þrátt fyrir að skýlið í Mosfellsbæ væri risið var ákveðið að byggja einnig í Reykjavík. Um mitt sumar 1992 var svo komið að flugvélar Þyts voru orðnar fjórar og flugskýlin tvö. Aðeins hraðari uppbygging en ætlað var í upphafi. Eldhuginn Otto og félagar hans leystu með aðstoð góðra manna öll vandamál sem upp komu og félagsstarfið í Þyt blómstraði. Ævistarf Ottos var flugmannsstarfið, en hann hóf þann feril sem siglingarfræðingur hjá Loftleiðum og varð síðan flugmaður og flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands, Sterling, Flugleiðum og Bláfugli auk þess sem hann kenndi áratugum saman bókleg fræði flugsins. Hann var mjög farsæll í starfi og flaug þar til hann hætti atvinnuflugi er hann náði 65 ára aldursmarki árið 2002. Eftir það flaug hann í mörg ár sem einkaflugmaður. Við hjónin höfum átt mjög ánægjulegar samverustundir með Otto og Bryndísi bæði í leik og starfi í meira en hálfa öld og aldrei borið nokkurn skugga þar á. Í byrjun vors 2016 komu þau í heimsókn til okkar og dvöldu hjá okkur í Arizona í tvær vikur. Við áttum þar yndislegan tíma með þeim þrátt fyrir að heilsu Ottos hafi þá verið farið að hraka. Ég er innilega þakklátur fyrir að hafa átt Otto sem vin og okkur gekk frábærlega að vinna saman og ég minnist þess ekki að Otto hafi nokkurn tíma skipt skapi á þeim langa ferli. Ég votta Bryndísi og afkomendum Ottos innilegar samúðarkveðjur frá okkur hjónum og minnist hans með mikilli virðingu.

Páll Stefánsson.

Í dag kveðjum við hinstu kveðju Otto David Tynes, með honum er genginn mikill og sterkur persónuleiki sem setti mark á samtíð sína með léttleika og einstaklega ljúfri framkomu. Ég kynntist Otto þegar hann hóf störf hjá Flugfélagi Íslands, síðar Flugleiðum, þann 1. apríl 1967. Hann varð strax hvers manns hugljúfi, hann flaug flestum gerðum félagsins en einnig fór hann um tíma til starfa hjá danska flugfélaginu Sterling. Otto sneri aftur heim og flaug hér þar til hann lét af störfum sakir aldurs. Otto átti sinn þátt í að mennta íslenska flugmenn, þar var hans hlutur stór og var hann afar farsæll kennari og leiðbeinandi. Margir flugmenn nutu leiðsagnar hans, bæði verklega og bóklega, þar var Otto eins og vænta mátti á heimavelli og minnast margir flugmenn hans með mikilli virðingu. Ég þakka Otto einstaklega góða viðkynningu í gegnum áratugina og votta Bryndísi og ástvinum hans mína dýpstu samúð.

Veri hann að eilífu Guði falinn,

Aðalsteinn Dalmann Októsson.

Mig langar að minnst glæsimannsins Otto Tynes með örfáum orðum. Honum kynntist ég fyrir langalöngu þegar ég og sonur hans, Sverrir, urðum vinir í Verslunarskólanum. Mér fannst mikið til hans koma, hann var sjarmerandi og flottur maður, flugmaður þar að auki, með húmorinn í lagi og alltaf var gaman að vera í kringum hann. Öllum vinahópnum var vel tekið í hans húsum og alltaf var gaman að koma í heimsókn, aldrei var maður bara leiðindatáningur sem sonur hans dró með heim heldur fannst mér að ég væri alltaf velkomin. Og þetta entist í tugi ára og Otto tók vel á móti mínum dætrum líka, löngu síðar. Það segir margt um þennan eðalmann. Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast honum og hans yndislegu konu Bryndísi, ég þakka fyrir allar fallegu minningarnar sem ég á yfir 40 ára tímabil, Otto er maður sem skilur eftir sig djúp spor í lífinu og þeir sem þekktu hann eru lánsamir. Farinn er góður maður en hans minning lifir. Kæra Bryndís, börn og barnabörn, ég votta mína innilegu samúð, megi allt gott í þessum heimi styrkja ykkur á þessum sorgartímum.

Með virðingu og söknuði,

Ragnheiður Hanson.

Ottó Tynes var maður lífsglaður sem var alltaf jákvæður. Svo var hann með þetta skemmtilega bros sem sagði manni hvers lags mann hann hafði að geyma. Kynni mín af Ottó hófust í innanlandsflugi Flugleiða þar sem ég starfaði sem hlaðmaður og hann sem flugstjóri á F50-vélum félagsins. Það má segja að hann hafi tekið mig upp á arma sína og fyllt mig bjartsýni og sjálfstrausti varðandi flugnámið. Hann bauð mér stundum með í flug og þá sat maður í flugstjórnarklefanum og reyndi að meðtaka allt sem þessir snillingar voru að framkvæma. Ég veit að fleiri fengu notið þessarar velvildar Ottós.

Seinna meir var ég ráðinn sem flugmaður hjá innanlandsflugi Flugleiða og mitt fyrsta þjálfunarflug var með Ottó sem var þá orðinn þjálfunarflugmaður hjá félaginu. Þessum degi gleymi ég aldrei þar sem með þessu var fjarlægur draumur nú orðinn að veruleika og ég ekki lengur áhorfandi heldur orðinn þátttakandi og flugmaður við hlið Ottós. Það var alltaf tilhlökkun að sjá á vinnuskránni að fram undan væri flug með Ottó. Það sem einkenndi vinnudagana með Ottó var fyrst og fremst fagmennska en ekki síst þessi ótrúlega starfsgleði sem hann reyndar hélt allt til starfsloka.

Ottó var alla tíð mjög áhugasamur um allt sem tengdist flugi, hvort sem það laut að flugklúbbnum í Mosó, kennslu eða miðlun á reynslu sinni til yngri og eldri manna. Hann sinnti grasrótinni einstaklega vel. Mikill öðlingur er fallinn frá, sem þrátt fyrir annríki gaf sér tíma til að miðla reynslu sinni og þekkingu til annarra, til að gefa af sér til yngri flugmanna, byggja þá upp og styrkja sjálfstraust þeirra.

Elsku Bryndís og fjölskylda. Mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar allra. Hvíl í friði vinur.

Jóhann Lapas.

HINSTA KVEÐJA Elsku Otto minn. Ég vil þakka þér árin okkar, vinurinn minn, með ljóði mömmu þinnar:

Þó útþráin lokki mig landinu frá.

Æ lengra og lengra út í geim

og margt þurfi að kanna og mikið að sjá,

mig langar að síðustu heim.


Já landið mitt fagra með dali og fjöll og fjölskrúðugt litaval

með heiðbláan himin og fannhvíta mjöll

og fossinn í hamranna sal.

með heiðbláan himin og fannhvíta mjöll

og fossinn í hamrasal.


Hér á ég mín óðul og hér er ég frjáls og enginn mín heftir spor.

Hér varnar mér enginn að taka til máls hér eflist mín hreysti og þor.

(Hrefna Tynes)

Takk fyrir allt. Þín

Bryndís.