Hafsteinn Hólm

Hafsteinn Hólm Þorleifsson

Hafsteinn Hólm var fæddur í Leifahúsi á Siglufirði 3. febrúar 1935.

Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu, Eyrargötu 29, að morgni þriðjudagsins 28. september 2010.

Foreldrar Hafsteins voru hjónin 

Jóhanna Sesselja Jónsdóttir húsmóðir fædd 26. mars 1905, dáin 7. júní 1989 og 

Þorleifur Hólm múrari fæddur 26. maí 1910, dáinn 18. apríl 1988. 

Þau hjón eignuðust sex börn. Elstur var

1) Hafsteinn Hólm,  

2) Elva Hólm fædd 10. apríl 1936, dáin 6. mars 2007; 

3) Sverrir Hólm fæddur 23. febrúar 1942, dáinn 19. apríl 1942; 

4) Kristinn Jón Hólm fæddur 2. júlí 1943, búsettur á Akureyri ásamt fjölskyldu sinni, 

5) Þyri Sigríður Hólm fædd 21. apríl 1946, dáin 21. október 1977  

6) óskírð Hólm fædd og dáin 8. september 1947.

Árið 1965 hóf Hafsteinn sambúð með 

Sigurbjörg Helga Jónsdóttir f. 10. desember 1933.

Þau eignuðust fjögur börn. 

1) Kristín Hólm, fædd 7. janúar 1966, búsett í Reykjavík, 

2) Jón Hólm, fæddur 14. febrúar 1967, búsettur á Siglufirði, 

3) Hanna Björg Hólm, fædd 18. júlí 1968 og 

4) Þyri Sigríður Hólm, fædd 7. janúar 1978, dáin 12. júní 1978.

Hafsteinn og Helga bjuggu allan sinn búskap að Eyrargötu 29.

Þegar Hafsteinn var á fyrsta ári fluttist hann ásamt foreldrum sínum að Hvanneyrarbraut 17 á Siglufirði og bjó þar þangað til hann flutti í sitt eigið húsnæði á Eyrargötunni. Hann stundaði hefðbundið barna- og gagnfræðaskólanám á Siglufirði.

Sem ungur maður var hann til sjós á ýmsum togurum yfir vetrarmánuðina en kom í land á vorin til að sinna sauðburði og öðrum þeim verkum sem gera þurfti. Síðar vann hann almenna verkamannavinnu, m.a. hjá Bæjarútgerð Siglufjarðar, S.R. og hjá Þormóði ramma þar sem hann lauk starfsævi sinni 67 ára.

Þegar starfsævinni lauk sneri Hafsteinn sér alfarið að búskapnum sínum, en hann átti alltaf nokkrar kindur sem hann hugsaði um af mikilli alúð og natni. Á síðari árum hafa þrjár kisur átt heimili sitt á Eyrargötunni og átti hann alltaf tíma og þolinmæði fyrir þær, hvort sem var á nóttu eða degi.

Hafsteinn var mikill Siglfirðingur og vildi hvergi annars staðar vera. Hann vildi helst aldrei fara það langt frá firðinum sínum fagra að hann kæmist ekki heim í kaffi og til að sofa. 

Hafsteinn Hólm