Árið 1945 - Atvinnuleysi - SR

ATVINNULEYSIÐ OG
SÍLDARVERKSMIÐJUR RÍKISINS

Neisti 12. apríl 1945

Það virðist sem hinn leiði vágestur Siglfirðinga, atvinnuleysið, sé að verða staðbundinn gestur hér alla vetrarmánuðina. Oft hefur það verið erfitt undanfarna vetur, en ég held þó, að veturinn sem nú er brátt á enda slái alla aðra út hvað lélega afkomu manna snertir. 

Margir bjuggust við að með valdatöku núverandi ríkisstjórnar, myndi eitthvað rofa í lofti með það, að menn hér sem annarstaðar þyrftu ekki að gangs auðum höndum. Að ekki mundi verða fetað jafn, dyggilega í fótspor fyrrverandi ríkisstjórnar og raun ber vitni um hér. 

Nú skal því ekki neitað, að núverandi ríkisstjórn hefur mörg og merk mál á döfinni, sem án efa bæta í framtíðina úr mestu atvinnuþörfinni, en meðan slíkt er ekki komið í framkvæmd, þarf að nota þær leiðir sem möguleikar eru á. 

Atvinnumálanefnd Þróttar lagði fram ýtarlegar tillögur snemma í vetur varðandi lausn á þessum málum, bæði hvað snertir bráðabirgðalausn þessara mála, og eins hvað snertir framtíðina. Undirtektir þeirra manna, sem um þessi mál áttu að fjalla voru sæmilegar í fyrstu, en svo liðu dagar, vikur og mánuðir og ekkert var gert. 

Kröfur verkamannafélagsins voru aðallega til tveggja aðilja, bæjarins og ríkisverksmiðjanna. Það eina, sem bærinn hefur látið framkvæma er endurbygging Rauðku, sem þó hefur gengið hægar en efni stóðu til, og flutningar á grjóti í höfnina. 

Vitanlega hefur þessi vinna ekki verið nema handa fáum mönnum. Nú er þó byrjað á vatnsveitunni og mun hún skapa allmikla vinnu á komandi vori. Hinn aðilinn, sem félagið taldi, að hefði möguleika til að veita allmikla vetrarvinnu, voru Síldarverksmiðjur ríkisins. 

En það er nú svo, að sjaldan hefur verið minni vinna en í vetur. Nú er þetta ekki fyrir það, að verkefni séu ekki fyrir hendi. Það er öllum vitanlegt, að hér á að reisa stóra síldarverksmiðju til viðbótar. Sömuleiðis að gera allmiklar breytingar á eldri verksmiðjunum, og ennfremur að byggja skrifstofu- og lagerhús. 

Hvernig stendur þá á því að ekki er hafist handa um eitthvað af þessu, flutning á efni, gröft eða annað því um líkt. Hver ræður því, að þessi dráttur er á öllum framkvæmdum í sambandi við þetta fyrirtæki. Það eru ekki nema þrír aðiljar, sem geta svarað þessum spurningum: Atvinnumálaráðherra, stjórn verksmiðjanna og framkvæmdarstjóri. 

Eru þeir allir sammála um, að þetta sé nauðsynlegt til tryggingar góðri afkomu verksmiðjanna, eða á þetta aðeins að vera til að storka verkalýðssamtökunum og gera verkamönnunum erfiðara fyrir að vera fjárhagslega sjálfstæðir? 

Því skal tæpast trúað um atvinnumálaráðherra, sem er þingmaður Siglfirðinga, að hann sé hvatamaður þessa ófremdar ástands. Það er að minnsta kosti ekki líklegt, að hann auki mikið fylgi sitt með slíkum ráðstöfunum. Eða ef það er verksmiðjustjórn og framkvæmdarstjóri, sem liggja eins og mara á öllu, hefur hann ekki þá möguleika til þess að nota það vald, sem honum er veitt sem ráðherra til að fyrirskipa framkvæmdir, sem hann telur nauðsynlegar. Þessar spurningar liggja á vörum allra þeirra atvinnuleysinga,sem byggja afkomu sina á atvinnu hjá þessu fyrirtæki, og viðkomandi aðiljar verða að svara þeim. 

Almenningur krefst þess að fá að vita þetta svo hann viti hver af þessum aðilum er honum andstæður, og fái þar með möguleika til að losna við þann ófögnuð, það fyrsta að hægt er.