Leó-Stutt viðtal við sk
Þegar ég var staddur á Siglufirði fyrir fáeinum vikum síðan, datt mér í hug að líta í svolítið síðdegiskaffi hjá mínum ágæta vini Steingrími Kristinssyni. Auk þess að ræða þetta hefðbundna, þ.e. daginn og veginn, veðrið og bæjarmálin, sagði hann mér nokkrar sögur frá unglingsárum sínum. Ég fékk góðfúslegt leyfi hans til að taka spjallið upp og fer svolítið sýnishorn hér á eftir. (desember 2011)
Þegar ég var unglingur var Valbjörn Þorláksson mikill vinur minn og leikfélagi. Á tímabili gekk mikið æði yfir þar sem flestir guttar á okkar aldri vopnuðust boga og gengu vígreifir um með örvamæli á bakinu.
Það hefur líklega verið sumarið 1948 að við ákváðum að fara í heilmikla fjallgöngu og auðvitað höfðum við bogana með ásamt öðrum nauðsynlegum útbúnaði með okkur.
Valbjörn bjó þá í Óskarsbrakkanum sem stóð niðri á bakkanum hjá gamla íshúsinu sem Óskar Halldórsson rak á sínum tíma og ég bjó þar reyndar líka um tíma. Áður en lengra er haldið langar mig til að gera svolitla grein fyrir Valbirni. Hann var sonur hjónanna Þorláks og Ástu sem bjuggu hérna á Siglufirði. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í frjálsum íþróttum, síðar Evrópumeistari og meira að segja heimsmeistari í hástökki (stangarstökki) í öldungaflokki. Hann flutti aðeins 15 ára gamall með foreldrum sínum til Keflavíkur og ég hef því miður heyrt allt of lítið af honum síðan.
Við fengum leyfi hjá foreldrum okkar til ferðarinnar, ráðgerðum að ganga allan fjallahringinn umhverfis Siglufjörð og byrjuðum yst að vestanverðu. Við vorum vel nestaðir, lögðum upp með mikið af smurðu brauði, mjólk, ávaxtasafa, með svefnpoka á bakinu og auðvitað bogana góðu. Við vorum því talsvert klyfjaðir, en áhuginn og eftirvæntingin gerði byrðarnar léttari. Það var lagt upp snemma dags og gengin gamalkunnug leið, þ.e. upp með Hvanneyraránni, upp í Hvanneyrarskál og upp á Strákatopp. Þaðan út á Skrámu og síðan aftur til baka, fyrir Skálina og suður eftir Hafnarfjallinu. Megnið af deginum fór svo í að þræða ýmist fjallatoppa eða eggjar, fyrir Skarðdal, Hólsdal og niður í Hólsskarð. Þá var eitthvað farið að líða á kvöldið, en okkur fannst samt of snemmt að staldra þar við, svo við héldum áfram og gengum líka fyrir Skútudal.
Við ákváðum síðan að taka okkur náttstað á bak við slakkann sem er á milli Hestskarðshnjúks og Staðarhólshnjúks þar sem Hestfjallið tengist Siglfirsku fjöllunum austan fjarðar. Þegar við vorum að koma okkur þarna fyrir, heyrðum við í fugli rétt hjá okkur. Valbjörn grípur þá til bogans og skýtur hann á 10 – 15 metra færi. Hann hitti hann í hálsinn og fuglinn féll steindauður til jarðar með það sama.
Mig minnir að þetta hafi verið veiðibjalla sem alla jafna telst ekki til algengra matfugla, en við vorum samt ákveðnir í að bráðin skyldi verða náttverðurinn okkar. Við fórum því næst að svipast um eftir einhverjum eldsmat og náðum að safna saman svolitlu af þurru lyngi og lággróðri sem brann ágætlega. Eitt af því sem við höfðum meðferðis voru eldspýtur og við gátum því kveikt bál sem við settum fuglinn á með fiðri og öllu saman.
Við héldum eldinum við í einn eða tvo tíma, en töldum þá að “steikin” hlyti að vera orðin fullelduð og settumst að snæðingi.
Hvort sem það var tilfinning veiðimannsins blandin sigurvímu yfir að hafa borið hærri hlut í baráttunni við bráðina, eða þessi fugl er einfaldlega vanmetinn sem matfugl, þá fannst okkur hann alla vega hinn ljúffengasti. Við skriðum síðan mettir ofan í svefnpokana undir geislum miðnætursólarinnar, umluktir hinni yfirþyrmandi kyrrð að fjallabaki og steinsváfum þar til nýr dagur var risinn.
Við vorum svolítið stirðir eftir alla gönguna frá deginum áður, enda var hún meira en það sem gæti talist ríflegur dagskammtur. Þegar við vorum búnir að teygja okkur svolítið og lausir við morgunstirðleikann og strengjatilfinninguna, röltum við áfram í rólegheitunum fyrir Kálfsdalinn og norður Reyðarárdalinn. Hluti af búnaðinum var kaðalspotti sem við brugðum yfir klettanibbur og lásum okkur niður eftir honum ef við vorum ekki alveg vissir um hvað var fyrir neðan okkur, en mig minnir að hann hafi ekki verið mikið notaður.
Við komum niður að Reyðará um hádegisbilið og sáum þar mann sem er eitthvað að bardúsa úti á túni. Það reyndist vera Einar Stefánsson bóndi og við gáfum okkur á tal við hann. Hann spurði okkur auðvitað hvaða ferðalag væri á okkur og við sögðum honum upp og ofan af ævintýrinu. Hann spurði þá hvort við værum búnir að borða eitthvað í dag og við vorum reyndar ekki búnir að því. Okkur var þá boðið til bæjar og ég smakkaði í fyrsta skipti á ævinni heimagert skyr með óblönduðum rjóma beint úr skilvindunni og var hann nærri því eins þykkur og skyrið.
Við fengum svo eitthvað fleira góðmeti og það verður ekki annað sagt en að það hafi verið tekið virkilega vel á móti okkur.
Einar kannaðist við mig því ég hafði komið áður út á Reyðará með pabba þegar hann fór þangað til að setja þar upp vindrafstöð.
Líklega hef ég þá verið 10 ára gamall eða svo.
Við sáum fram á að nú lægi fyrir okkur að ganga aftur í bæinn um Nesskriður eða Reyðarárdal, en Einar sagði okkur þá að hinkra því hann ætti leið inn í bæ seinni partinn.
Við fórum því sjóleiðina síðasta spölinn og lokuðum þannig hringferðinni.
LRÓ.