Snorri Pálsson

Snorri Pálsson kaupmaður, með fleiru

Faðir Siglufjarðar: Snorri Pálsson.

Ísafold 9. janúar 1884  ÆFIMINNINGAR. SNORRI PÁLSSON.

Samkvæmt tilmælum yðar, herra ritstjóri, læt jeg yður hjer með í tje með sem fæstum orðum helztu æfiatriði verzlunarstjóra Snorra sál. Pálssonar.

Snorri Pálsson, Jónssonar prests í Viðvík og Kristínar Þorsteinsdóttur, fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. febr. 1840.Hann ólst upp hjá foreldrum sínum, en fór þó nokkuð fyrir innan tvítugsaldur að verzlun á Skagaströnd  og dvaldist þar 2 sumur.

Síðan varð hann skrifari hjá amtmanni Christianson, sem þá var sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, einn vetrartíma, en fór þaðan að verzlun í Hofsós og dvaldist þar þangað til hann 24 ára gamall var skipaður vezlunarstjóri á Siglufirði árið 1864.

Brátt kom þar í ljós hans mikli framkvæmdar- og framfarahugur. Hann gjörðist forvígismaður að ýmsum endurbótum á þilskipabyggingum og fleiru þar að lútandi, því hann vildi fyrir hvern mun að innlendir hefðu atvinnu við þilskipabygginguna, en að skipin yrðu jafngóð og traust þeim, er frá útlöndum komu.

Snorri Pálsson - ókunnur ljósmyndari

Hann hvatti menn óaflátanlega til- iðjusemi og framkvæmda og veitti jafnvel verðlaun fyrir þess konar þegar því var að skipta, en tók aptur hart á slóðaskap og drykkjuslarki, enda varð sveitarfjelag hans innan skamms sannkölluð fyrirmynd þeirra er við kauptún liggja, og hagur þess blómlegur.

Árið 1872 stofnaði Snorri, ásamt nokkrum mönnum, er hann fjekk í fylgi með sjer, sparisjóð á Siglufirði og stýrði honum meðan hann lifði með þeirri hagsýni og skörungsskap, sem honum varlagið, alveg þóknunarlaust, jafnvel þó það væri farið að hafa töluverð umsvif og fyrirhöfn í för með sjer. Voru innlög samlagsmanna orðin síðustu áramótin sem hann lifði nær 16 þús. kr. og gróði sjóðsins, eður varasjóður, orðinn 922 kr., auk eldfastrar járnhirzlu, er sjóðurinn á til að geyma í skjöl sín og peninga.

Árið 1880 gekkst Snorri einnig fyrir stofnun sjóðs handa ekkjum drukknaðra manna, er upphaflega var í 3 deildum, en nú er að eins í tveimur: fyrir Fljót og Siglufjörð. Árstekjur þessa sjóðs eru þær, að menn hafa sjálfviljuglega undirgengizt að borga 2 hluti árlega af hverju fari til þorskveiða af óskiptum afla, annan á vorvertíð og hinn á haustvertíð; ½ pott af lýsi af lýsistunnu hverri er aflast á hákarlaskipin, og ½% af öðrum höppum af sjó (síldarafla, hvalreka o. s. fr.).

Hefir sjóðurinn þannig myndazt sumpart af tekjum þessum, og sumpart af samskotum, að báðar deildir áttu í árslok 1882 um 1060 kr. Þessi litla stofnun er ljós vottur um það, hverju samtök og fjelagsskapur geta komið til leiðar; menn hafa öldungis ekkert vitað af að greiða árstillagið; en verði það svipað nú í ár og að undanförnu, þá verða tekjur sjóðsins nú þetta ár að meðtöldum vöxtum nálægt 300 krónur.

Síðan hið eyfirzka skipaábyrgðarfjelag myndaðist hafði Snorri sál. á hendi forstöðu fyrir Siglufjarðardeild þess, án nokkurs endurgjalds fyrir umsjón og skrifstörf við það, jafnvel þó hann hefði getað átt kost á því frá stjórn fjelagsins.  

Hann mun og hafa verið fyrsti frumkvöðull að því að menn almennt fóru að verka saltfisk til verzlunar hjer á norðurlandi nú fyrir fáum árum og að Gránufjelagið tók það mál að sjer til að beina því braut.  

það var eitt af áhugamálum hans að koma á þorskveiði á þilskipum hjer norðanlands, og gerði hann tvisvar tilraun til þess á eignum skipum, en það vildi ekki heppnast, jafnvel þó flestöll önnur fyrirtæki hans blessuðust vel og bæru hundraðfaldan ávöxt. 

Samt sem áður tók hann norsk skip með norskum skipverjum í þjónustu sína sumarið 1881, er að tilhlutun amtmannsins í Norður- og Austuramtinu bakaði honum málsókn. Hann var að sönnu dæmdur alveg sýkn af lögreglunnar ákærum í hjeraði, en samt sem áður vísaði amtmaður máli þessu „frá rjettvísinnar hálfu“ (sem sakamáli?!) til landsyfirrjettar, en hefir máske apturkallað það þaðan (?) þegar hann tapaði þar sams konar máli við annan mann.

Snorri hafði nokkur óbeinlínis áhrif á það, að Íslendingar eignuðust hlutdeild í síldarveiði með »nót« á Eyjafirði sumarið 1880, er verið mun hafa hin fyrsta hluttekt Íslendinga í þess konar, og árið eptir stofnuðu þeir, hann og alþingism. Tryggvi Gunnarsson, báðir saman til sams konar síldarveiða á Siglufirði, er bar þeim eigendum góðan ávöxt samsumars. þá um haustið kom Snorri sál og á fót öðru fjelagi til síldarveiða á Siglufirði, sem er alinnlent og óháð útlendra áhrifum, og sem nú bíður með tæki sín eptir feng og fje til að vega á móti kostnaði sínum.

Árið 1879 stofnaði Snorri í fjelagi við annan mann, járnþynnusmiðju á Siglufirði og henni samhliða niðursuðu á matvælum. Á því fyrirtæki hafði hann miklar mætur; en það hefir átt nokkuð örðugt uppdráttar. þó hefir nú seinni árin dálítið lifnað yfir því, og niðursoðið kindakjöt fengið allgott orð á sig ; sömuleiðis ílátin, sem þar hafa verið smíðuð, af því að eins hin þykkasta járn þynna hefir verið höfð í þau og smíðið verið vandað sem föng voru á.

Snorri var að nokkru leyti hvatamaður að því, að fjelagsskapur komst á í Fljótum og Siglufirði til búnaðarlegra framfara árið 1881, og veitti fjelagi þessu höfðinglega gjöf þegar það var stofnað. Snorri sál. var skarpur gáfumaður og menntavinur hinn mesti; varði hann töluverðu fje árlega til bókakaupa, og má óhætt fullyrða, að hann var mjög fjölhæfur fróðleiksmaður í leikmanna röð. 

Sjer í lagi unni hann mjög fögrum og andríkum skáldskap, enda sendi hann, ásamt Dr. Grími Thomsen á Bessastöðum, áskorun í blöðin árið 1879 um samskot til minnisvarða yfir síra Hallgrím sál. Pjetursson.

Hann var þingmaður Eyfirðinga 1875-1879, en var ófáanlegur td að bjóða sig fram við síðustu kosningu, hvorki þar nje í öðru kjördæmi, er leitaði eptir því.

Árið 1865 giptist Snorri Margrjetu Ólafsdóttur frá Fjöllum í Kelduhverfi og lifði með henni í hinu ástríkasta hjónabandi til dauðadags. þau áttu 7 börn, en að eins 4 af þeim eru á lífi: Eggert og Kristín úr æsku, en Páll og Einar ungir. Snorri andaðist eptir rúma mánaðarlegu 13. febr. næstl. úr taugaveiki, rúmlega 43 ára að aldri.

Fráfall hans varð mörgum svipleg og sár sorgarfregn, því hann var sannur bjargvættur, ekki einungis Siglufjarðar, heldur og hinna annara nærliggjandi byggðarlaga, og hafði framúrskarandi áhuga á því, að vinna að heill meðbræðra sinna.

Heimili hans var gleðinnar og gestrisninnar heimkynni og höfðinglyndi hans fágætt við alla, er einhvers þurftu með og leituðu hans, sem og líka að lina neyð manna, hvar sem var, og styrkja góð og nytsöm fyrirtæki, enda var efnahagur hans hinn ákjósanlegasti. það er óefað að Snorri sál. var einn af landsins mestu og uppbyggilegustu framfaramönnum, og mundi það enn betur hafa sjezt, ef hann hefði lifað á óafskekktari stað enn Siglufjörður er. 

E. B. G. 

--------------------------------------------------------

Löng, en fróðleg grein eftir Snorra Pálsson í blaðinu Ísafold 25. Maí 1882 –

Grein sem hefst með fyrirsögninni „Nokkur orð um mislinga.“ Á blaðsíðu 42,43 og 44.

Þar fjallar hann um mörg merkileg mál í framhaldi „mislinganna“.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=273309&pageId=3940326&lang=is&q=Snorri%20P%E1lsson 

--------------------------------------------------------

 „Fréttir frá Íslandi“ 1883

Snorri Pálsson, verzlunarstjóri á Siglufirði, andaðist 13. dag febrúarmánaðar. Hann var fæddur 4. febrúar 1840, fór þegar á unga aldri að stunda verzlun, og varð verzlunarstjóri á Siglufirði 1864 og til dauðadags. Hann var einn hinn mezti framkvæmdamaður sem var norðanlands, sannur íslendingur og framfaramaður; 1872 stofnaði hann sparisjóð á Siglufirði, og 1880 sjóð til styrktar ekkjum drukknaðra manna, og kom á að mestu niðursuðu á kjöti, sem er þar mikil. Hann var og öflugur hvatamaður og félagsmaður í öllum fyrirtækjum er til framfara horfðu, var fjölhæfur menntamaður, og studdi fræðslu og menntun hvar sem hann gat. Hann var þingmaður Eyfirðinga um 1 kjörtíma löggjafarþinga, enn vildi eigi lengur.

--------------------------------------------------------- 

Norðanfari 20 febrúar 1883

13. p. m. lést einn af hinum merkustu mönnum á Norðurlandi, verslunarstjóri og alþingismaður Snorri Pálsson á Siglufirði, etir mánaðarlegu í taugaveiki.

--------------------------------------------------------- 

Fróði 21 febrúar 1883

" 13. dag febrúar mánaðar andaðist verzlunarstjóri Snorri Pálsson á Siglufirði, 43 ára gamall (fæddur 4. febr. 1840). Hann var merkur maður og mjög vel látinn af þeim er þekktu hann, ráðdeildarmaður og reglumaður hinn mesti og sannur framfaramaður í hví vetna. 

Á hinum fyrstu þremur löggjafarþingum 1875—1879 var hann þingmaður Eyfirðinga, og stóð hann sómasamlega í þeirri stöðu sem hverri annari, er hann átti að gegna meðan honum vannst aldur til.

--------------------------------------------------------- 

Ísafold 21 febrúar 1883

Með norðanpóstinum staðfestist sú fregn, að verzlunarstjóri Snorri Pálsson á Siglufirði hafi dáið 13. f. m. 43 ára gamall; með honum hefur eigi aðeins hið afskekkta sveitarfjelag hans misst sína beztu stoð, heldur á og landið þar að sjá á bak mjög ötulum og ráðdeildarsömum framfaramanni.

-------------------------------------------------------- 

Ísafold 20 febrúar 1984

Minningarljóð, kveðja frá Matthíasi Jochumssyni 

(set upp eins og kom fyrir í blaðinu, ásamt stafsetningu) sk

Snorri Pálsson.

Á útkjálka bjóstu við storm og stríð,
og stutt, ó svo stutt varð þín æfitíð.
En betur þú fylltir þín fjörutíu ár,
en fjöldinn með sín áttræðu, silfurhvítu hár.

Þinn hugur eins og vor yfir hjarni sveif,
og hamarinn þrítugan vilji þinn kleyf.
Öll æfi þín var kraptur og kærleikans rögg,
sem kveykti líf og fjör, eins og sól og dögg. 

Þig stöðvaði ei heimska nje heipt eða tál,
þú hafðir eins og lykil að flestra sál.
Þú komst og þú vannst með svo kristilegri lund,
hinn kaldasti maður þjer lauk upp hjarta og mund.

Þú varst einmitt sá maður, sem aldarfarið þarf,
eð anda þinn og hjarta við framfaranna starf.
Þú vissir hvað er æfinnar líf og ljós og mið:
að lifa fyrir aðra, við stríð eins og frið. 

Vjer segjum: stutt varð æfin í útkjálkans sveit;
en annað segja blómstrin, sem prýða nú þinn reit.
Þau spá oss um eilífð og ódáins krans,
sem andinn veit að kórónar líf hins góða manns.

Matth. Jochumsson.

-------------------------------------------------------------- 

Blaðið Akranes 1 apríl 1957

Grein eftir ÓI. B. Björnsson: Í sælu Siglufjarðar

Í hinum fyrri greinum ræddi ég nokkuð um þennan mikla síldarbæ, hvernig hann varð til, hvernig allt snérist um Siglufjörð um tíma, er talað var um síldveiðiskap, svo og hvert áfall það var fyrir fólkið sem þar bjó og stóriðjuna á þessu sviði, er síldin lagðist frá um áratuga bil. Þetta hefur þjóðin orðið að horfast í augu við á liðnum öldum. 

Nú er um fleiri úrræði að velja, og fólkið hyggst færa sig þangað sem atvinnan er árvissari. Nú verður því um stund horfið frá síldinni sjálfri, en þess í stað verður minnst á ýmislegt fleira sem merkilegt er við þennan einstæða síldarbæ Norðurlandsins og fólkið sem þar býr.

Það mun hafa verið árið 1818 sem Siglufjörður er löggiltur sem verzlunarstaður. Þá er þar aðeins ein verzlun, og mun svo vera lengst af fram undir síðustu aldamót.

Við Siglufjarðarverzlun hafa sjálfsagt verið ýmsir dugandi verzlunarstjórar, en á 19. öld mun þó einn þeirra skara fram úr, Snorri Pálsson, frá 1864—1883. Hann var sonur Páls Jónssonar prests og skálds í Viðvik, og fyrri konu hans, Kristínar Þorsteinsdóttur stúdents í Laxárnesi Guðmundssonar.

Kona Snorra Pálssonar var Margrét Ólafsdóttir að Fjöllum i Keldukverfi Gottskálkssonar. Meðal barna þeirra voru: Eggert verzunarmaður á Akureyri, Kristín, kona Björns ljósmyndara Pálssonar á ísafirði, Páll verzlunarmaður, siðast í Reykjavík, og Einar verzlunarmaður á Ísafirði.

Snorri var vel gefinn, bókhneigður, betur að sér en þá gerðist almennt, hugsjóna- og framfaramaður langt á undan sínum tíma. Er talið, að til hans eigi rætur að rekja allar framfarir i Siglufirði á því 20 ára tímabili er áhrif hans náðu til.

Hann var 2. þingmaður Eyfirðinga frá 1875—79, og mun það hafa haft mikilvæga þýðingu fyrir samtíð og framtíð Siglufjarðar. Þau hjón voru orðlögð fyrir gestrisni og greiðasemi. Snorri mun og nokkuð hafa fengist við lækningar og heppnast það vel, en þessa var mikil þörf í læknisleysinu á þeim árum.

Í tíð Snorra var Gránufélagið stofnað, og varð Siglufjarðarverzlun ein af verzlunum þessa félags. Hann átti og þátt í stofnun Þilskipaábyrgðarfélags fyrir Eyjafjörð og Siglufjörð- Þá setti hann á fót niðursuðu matvæla á Siglufirði 1878, í félagi við Einar B. Guðmundsson alþm. á Hraunum í Fljótum, — en Kristín systir Snorra var fyrsta kona Einars. —

Aðalmaðurinn við niðursuðuna mun Hafliði Guðmundsson hafa verið, en hann var lengi hreppstjóri Siglfirðinga og kunnur framfaramaður. Niðursuða þessi mun ekki hafa varað í mörg ár. Hefur þessi atvinnurekstur ekki verið lífvænlegur hér við betri skilyrði en þá var um að ræða, svo engan þarf að undra þótt slík starfsemi legðist fljótt niður.

Snorri var hvatamaður að stofnun Síldveiðifélags um 1880. Hann mun og hafa átt frumkvæði að því að Gránufélagið tók upp þá nýung að gufubræða hákarlalifur, en eftir það fékkst auðvitað miklu betra lýsi. —

Enn var Snorri hvatamaður að tveim merkum stofnunum, Sparisjóði Siglufjarðar 1872, og einnig Ekknasjóði Siglufjarðar. Slíkir menn sem Snorri Pálsson, eru hverri byggð og samfélagi manna mikils virði. Þeir ganga fyrir, ráða stefnunni, byggja upp og bræða saman hugi manna til þess að sameinast um hinar nauðsynlegustu framkvæmdir, eða leggja á ráðin um, hvernig snúast eigi við válegum hlutum. 

Snorri Pálsson var fæddur 1840, en andaðist 13. febrúar 1883.

-------------------------------------------------------------- 

Nýjar kvöldvökur.  Tímarit um ættvísi og þjóðleg fræði. 

Hefti 1. febrúar 1961 54.árgangur. + grein út blaðinu Ísafold, neðst á síðunni.

KRISTINN HALLDÓRSSON, SIGLUFIRÐI: 

SNORRI PÁLSSON VAR UPPHAFSMAÐUR FRAMFARA í SIGLUFIRÐI 

Það, sem hér fer á eftir, eru nokkrar hugleiðingar um Snorra Pálsson, er var verzlunarstjóri í Siglufirði frá 1864—1883. Þetta verða aðeins dreifðir þankar og örstutt æviágrip, því svo er nú komið sögu þessa byggðarlags, að heimildir eru fáar og strjálar, og það fólk, er hér um slóðir kunni skil á mönnum og málefnum á öldinni, sem leið, er löngu horfið héðan, og við gjöldum þess, hve sögu þessa byggðarlags hefur lítill sómi verið sýndur, hve hún hefur verið ofurseld tómlæti og vanrækslu á síðustu áratugum, og er þó saga Siglufjarðar engu ómerkari né ófýsilegri til fróðleiks og skemmtunar en saga ýmsra annarra byggðarlaga hérlendis. 

Snorra Pálsson verður að telja upphafsmann flestra umbóta og framfara hér í Siglufirði á síðari hluta nítjándu aldar, og séra Bjarni Þorsteinsson tónskáld tekur svo djúpt í árinni, að hann segir, að um framfarir sé fátt eitt að segja hér í firðinum, fyrr en eftir að Snorri Pálsson er orðinn hér verzlunarstjóri.

Snorri fæddist þann 4. febrúar árið 1840 á Möðruvöllum í Hörgárdal, og voru foreldrar hans þau hjónin, séra Páll Jónsson, er þar var þá við kennslustörf, en síðast var hann prestur í Viðvík í Skagafirði (d. 8. 12. 1889), og fyrri kona hans Kristín Þorsteinsdóttir, stúdents í Laxárnesi Guðmundssonar. Þeir Snorri og Hafliði Guðmundsson, er síðar varð hreppstjóri Siglfirðinga, voru systrasynir, þar eð móðir Hafliða var Ragnheiður Þorsteinsdóttir í Laxárnesi, þess er hér að framan getur. 

Systir Snorra, Kristín (d. 9. 8. 1879) kvæntist Einari Baldvin Guðmundssyni bónda og dannebrogsmanni á Hraunum í Fljótum, og voru þeir Einar og Snorri því mágar. Einar var fæddur 1841 og lézt árið 1910. Hann þótti góður smiður, einkum brúa og skipa, og hlaut hann verðlaun úr hendi konungs (Chr. IX.) fyrir ritgerð um bátasmíði.

Ekki skal ætt Snorra rakin hér nánar, en þess skal þó getið, að ættartengsl hans við Einar á Hraunum og þó einkum Hafliða Guðmundsson, síðar hreppstjóra, átti eftir að hafa örlagaríkar og að mörgu leyti giftudrjúgar afleiðingar fyrir hina siglfirzku byggð. 

Snorri ólst upp á heimili foreldra sinna og hlaut þar þá beztu menntun, er slík heimili höfðu upp á að bjóða, en prestar voru á þeim dögum fjölmennasta stétt menntamanna og prestsheimilin mörg hver hinn eini alþýðuskóli, hin eina undirstöðumenntun, er völ var á, og hjá prestum námu flestir þeir, er einhverja menntun hlutu, en þeir voru fáir á þeim tímum, er hér um ræðir. 

Þegar Snorri var 18 ára gamall, réðist hann til verzlunarstarfa á Hofsósi, en þar réð Chr. D. Thaae, danskur kaupmaður, lögum og lofum í verzluninni, sá hinn sami er keypt hafði Siglufjarðarverzlunina árið 1845 af Örum & Wulff.

Hinir dönsku yfirboðarar Snorra á Hofsósi munu fljótt hafa séð, hvaða hæfileikum til mannaforráða og athafna hann var gæddur, og þannig liðu árin, og Snorri náði fullum þroska, því að sex árum liðnum, er Snorri gerður að verzlunarstjóra eða „faktor", eins og það var nefnt á danska vísu, fyrir verzluninni hér, og með komu hans hingað í Siglufjörð rofar fyrst til fyrir nýjum tíma, því hér höfðu miðaldirnar ríkt og fátt um framfarir, en áður en lengra er haldið, er rétt að athuga lítillega, hvernig hér var umhorfs með verzlun og samgöngur á fyrri hluta nítjándu aldarinnar, og er þá bezt að byrja, þar sem danska konungsverzlunin hættir, en fljótt er hér farið yfir sögu og fjölmörgu sleppt, er viðkemur þessu tímabili. 

Við endalok einokunarverzlunar Dana á Islandi 1787 keyptu þrír danskir kaupmenn eignir konungsverzlunarinnar við Eyjafjörð, en Siglufjörður féll undir verzlunarsvæði Eyjafjarðar, og verzlunin hér í firðinum hafði verið útibú konungsverzlunarinnar á Akureyri. Þessir þrír dönsku kaupmenn skipta svo með sér verkum, og hét sá Redslev, er tók að sér verzlunina hér í firðinum. 

Redslevs naut ekki lengi við, hann andast síðla árs 1789. Bú hans var skuldugt, og árin eftir dauða hans virðist verzlunin hér vera í molum, og eignir hans eru af sýslumanni afhentar rentukammerinu, en svo nefndist fjármálaráðuneytið í Kaupmannahöfn, til skuldajöfnunar. 

Árið 1796 eru eignir ekkju Redslevs svo afhentar verzlun Fr. Lynges á Akureyri, og árið eftir virðast tveir kaupmenn verzla hér, nefnilega Lynge og Kyhn, einnig danskur kaupmaður. Hét sá Hemmert, er stóð fyrir verzlun Kyhns, en fyrir verzlun Lynges var gerður að útibússtjóra hér Jóhann Casper Kröyer, einnig danskur maður, er verið hafði verzlunarþjónn hjá Lynge á Akureyri. Kröyer ílentist hér og var lengi nefndur „assistent".

Hann stýrði verzluninni til 1805, að hann hóf búskap á einu af höfuðbýlum hreppsins, Höfn í Siglufirði, og síðar varð hann hér hreppstjóri í mörg ár. Kröyer kvæntist Rakel Halldórsdóttur frá Skörðum í Reykjahverfi, og búnaðist þeim vel, og Kröyer var talinn maður vel efnaður, og hann bar lengi nafnbótina „assistent".

Með þessum hætti festi Kröyerættin rætur hér í Siglufirði, þetta er merk ætt, er hefur fóstrað marga dugnaðar- og hagleiksmenn. Og þarna er að finna uppruna Rakelarnafnsins, sem svo víða hljómar í ættarsögu Hafnarfólksins. Báðum framannefndum verzlunum hnignaði hér, og munu þær hafa hætt starfsemi um 1811, og árin þar á eftir eru líklgega engar fastar verzlanir hér í firðinum.  

Og samkvæmt tilskipun um verzlun á íslandi 11. okt. 1816 var Siglufjörður ekki talinn löggiltur verzlunarstaður. Stefán amtmaður Þórarinsson kvartaði yfir þessu til rentukammersins í Kaupmannahöfn og mælti með því, að fjörðurinn hlyti löggildingu. Rentukammerið féllst á rök hans, og 20. maí 1818 var Siglufjörður á ný löggiltur sem verzlunarstaður, svo sem verið hafði á dögum konungsverzlunar, og þannig eignaðist fjörðurinn afmælisdag sinn, og það þótti hlýða að velja þennan dag, þegar Siglufjörður öðlaðist kaupstaðarréttindi einni öld síðar. 

Um þetta leyti, eða árið 1815, bar það til tíðinda, að Örum & Wulff fara að skipa hér vörum á land, en þeir höfðu aðsetur á Húsavík, er tilheyrði öðru verzlunarsvæði, og höfðu því ekki leyfi til verzlunar hér. Amtmaður hafði synjað þeim um leyfi til verzlunar hér, en hann stóð höllum fæti með synjun sína, því verzlanir þeirra Kyhns og Lynges voru komnar í þrot, er hér var komið sögu, og gátu ekki sinnt hlutverki sínu að sjá Siglfirðingum fyrir lífsnauðsynjum.

Þannig náðu Örum & Wulff tangarhaldi á verzluninni hér í Siglufirði, og þeir virðast ráða verzlun hér til ársins 1845, að þeir selja verzlunina Chr. D. Thaae kaupm. í Hofsósi, og var verzlunin rekin á nafni hans, þar til Gránufélagið kaupir hana 1875, en þá er Snorri orðinn hér verzlunarstjóri, og hann stuðlaði mjög að viðgangi Gránufélagsins með hlutdeild þeirri, er hann átti að eignaskiptum þessum.

Gránufélagið er stofnað 1870, og var það, er hér var komið sögu, í miklum uppgangi, og tilkoma félagsins hingað átti eftir að lyfta mjög undir þær framkvæmdir og umbætur, er Snorri beitti sér fyrir. Sama ár og Snorri flyzt hingað gekk hann að eiga Margrétu Ólafsdóttur bónda á Fjöllum í Kelduhverfi Gottskálkssonar. 

Maddama Margrét, eins og hún var oftast nefnd, var kona fríð sýnum og björt yfirlitum, hún var og mikilhæf húsmóðir, og heimili þeirra hjóna var rómað fyrir fádæma rausn og gestrisni og hjálpsemi, svo sem nánar verður að vikið. Börn þeirra Margrétar og Snorra, sem upp komust, voru: Eggert verzlm. á Akureyri, Páll verzlm. síðast í Reykjavík, Einar verzlm. á ísafirði og Kristín gift Birni Pálssyni ljósmyndara á ísafirði. Þau eru nú öll látin. 

Ég hef hér að framan rakið mjög stuttlega, hvernig verzlun var háttað hér í firð- inum fram eftir nítjándu öldinni, eða fram til þess tíma, að Snorri flyzt hingað, og er ljóst, að verzlun og samgöngur við fjörðinn eru erfiðar og stopular og meira og minna háðar tilviljunum og duttlungum þeirra erlendu aðila, er hafði ýmist löglega eða á eigin spýtur þóknazt að skipa hér varningi á land, og það verður að segja, að einangrun fjarðarins og tómlæti stjórnarvalda um hagi og tilveru Siglfirðinga var mikil, enda æðsta stjórn landsins úti í Kaupmannahöfn, og fjarlægðir og samgöngutæki mæld á aðrar stikur en nú á dögum.

Þannig var hér umhorfs, er Snorri flyzt hingað, að engin strandferðaskip höfðu hér viðkomu, hinar fáu skipaferðir voru látnar sigla hér fram hjá, höfðu ekki viðkomu hér. Engar póstferðir voru hingað. Hinar sárafáu póstferðir á landi höfðu endastöð í Hofsósi. Enginn læknir var hér. Hreppurinn læknislaus og stytzt að ná í lækni til Akureyrar og farkosturinn í þá daga opnir bátar og árar og segl. 

Þannig var einangrunin og allsleysið og öryggisleysið í stuttu máli afskaplegt. Og þannig liðu meira en tveir þriðju hlutar nítjándu aldarinnar, — Siglufjörður var gleymdur og fór á mis við þær fáu framfarir, er land vort hafði upp á að bjóða. En Snorri hóf baráttu sína og umbótastarf strax og hann kom hingað. Hann var mjög bókhneigður maður, átti gott safn bóka og var betur og meira sjálfmenntaður en aðrir samtíðarmenn hans.

Verzlunin hér varð meiri að vöxtum og hagkvæmari, eftir að hann kom. Snorri var mjög hjálpsamur. Hann var glöggur og einkar handlaginn. Hann gaf sig allmikið að lækningum hér í firðinum og útvegaði sér lyf og tæki til þeirra hluta, jafnframt og á meðan vann hann að því, að hér yrði búsettur læknir. Og honum var ljóst, að hann yrði að berjast fyrir þessari og öðrum umbótum af miklum dugnaði, og því vann hann að því að afla sér fylgis til að komast á þing.

Þetta tókst, og 1875 er Snorri kosinn til þingsetu, og sat hann á Alþingi til 1879. Þetta varð gæfa Siglufjarðar á þeim tíma, því nú fyrst rofaði hér ögn til í þessum litla og einangraða útkjálkahreppi, enda varð þingmennskuferill Snorra hinn glæsilegasti, þegar ástand og efnahagur lands og þjóðar er hafður í huga, svo sem hann var á þessum tímum.

Af hagsmuna- og framfaramálum Siglfirðinga, þeim er Snorri sem 2. þm. Eyfirðinga fékk framkomið og lögfest, skal það nefnt, að hann fékk ruddan hestveg yfir Siglufjarðarskarð að öllu á kostnað landssjóðs. Þá kom hann því til leiðar, að Siglufjörður var tekinn á áætlun strandferðaskipa sem viðkomustaður.

Enn fremur fékk hann því framgengt, að landpósturinn, er til þessa hafði haft endastöð á Hofsósi, var látinn fara alla leið hingað í Siglufjörð. Og ekki hvað sízt ber að geta þess og meta það, að Snorri fékk því áorkað með dugnaði sínum, að Siglufjörður og næsta nágrenni varð sérstakt læknishérað, og hafði læknirinn búsetu hér í firðinum, en áður var hér læknislaust með öllu, svo sem að framan segir. Þannig fengu Siglfirðingar sinn fyrsta héraðslækni 1879, og var það Helgi Guðmundsson frá Reykjavík. Hann bjó í Neðri Höfn frá 1882 ásamt konu sinni, Kristínu Jóhannsdóttur hreppstjóra í Höfn Jónssonar og konu hans Rakelar dóttur Páls Kröyers eldra. 

Það orkar ekki tvímælis, að þingferill Snorra er merkur, þótt stuttur yrði, það hefur kostað hann elju og harðfylgi að færa Siglfirðingum þær umbætur, sem raun varð á, eins og högum lands og þjóðar var háttað á öldinni, er leið. Þá skal hér getið helztu fyrirtækja, er Snorri stofnaði hér heima fyrir eða átti hlut að ásamt öðrum góðum mönnum. Hann átti drjúgan þátt í stofnun og uppgangi Gránufélagsins, eins og áður segir, og í stofnun Þilskipaábyrgðarfélags fyrir Eyjafjörð og Siglufjörð. Hann stofnaði 1878 fyrirtæki til niðursuðu matvæla, einkum kindakjöts, ásamt Einari á Hraunum. 

Snorri hafði fengið frænda sinn Hafliða Guðmundsson til að koma hingað árið áður til að koma niðursuðuiðju þessari á fót. Hafliði hafði lært blikksmíði í Reykjavík og þótti laginn í iðn sinni, og hafði hann verk þetta með höndum, en framleiðslan var flutt á erlendan markað og líkaði þar vel. Niðursuðan starfaði hér allmörg ár, en eftir dauða Snorra flutti Einar á Hraunum hana til Haganesvíkur, þar sem hann var að hefja verzlun og aðra starfrækslu á sínum vegum. 

Snorri stofnaði 1880 síldveiðifélag, er aflaði vel eitt sumar með landnót, en svo kom hvert ísaárið á fætur öðru upp úr 1880, og síldin sást ekki hér á firðinum, og sú björg hvarf mönnum. Snorri er upphafsmaður þess, að Gránufélagið fór að gufubræða hákarlslifur, en við það fékkst betra lýsi, því fyrrum var lifrin brædd með hinni gömlu pottbræðsluaðferð, sem er miklum mun lakari. 

Snorri er einn af aðalstofnendum Sparisjóðs Siglufjarðar 1873, ásamt þeim Einari á Hraunum, Jóhanni Jónssyni hreppstjóra í Höfn og séra Tómasi Bjarnasyni. 

Aðrir (stofnendur voru þessir: Páll Þorvaldsson óðalsbóndi á Dalabæ, signor Jón Jónsson óðalsbóndi á Siglunesi, Sveinn Sveinsson óðalsbóndi í Haganesi, og séra Jón A. Blöndal verzlm. í Grafarósi. Jóhann í Höfn er fyrsti formaður, en séra Tómas varaformaður og Snorri gjaldkeri, er sér um daglegar færslur. Þess er getið í fundagerðarbók Sparisjóðsins, að sjóðurinn skuldi gjaldkera 270.20 í árslok 1876, og 1879 er skuld við gjaldkera 530.61. 

(Ath. sk 2017: Snorri vann kauplaus í upphafi)

Um þetta leyti eru að fara fram eignaskipti á Siglufjarðarverzlun, og er Chr. Thaae eitthvað farinn að hlaupa út undan sér, er hér er komið sögu, því þess er getið í fundargerð Sparisjóðsins þann 9. des. 1874 „að fullkomin brigðmælgi hafi orðið á því, að reiðari Siglufjarðar Grosserer Chr. Thaae & Sön keypti kgl. skuldabréf fyrir 7—800 rd. sjóðsins vegna og sendi þau hingað upp, sem hann þá á aðalfundi sjóðsins næstl. sumar staðfastlega lofaði.

Þessi konunglegu skuldabréf gáfu góða vexti og vildu stjórnarmenn Sparisjóðsins tryggja nokkuð af eignum sjóðsins með kaupum á þeim, en Thaae brást, og var haldinn aukafundur um málið. Sparisjóðurinn er hið eina fyrirtæki, er enn er við lýði frá því á dögum Snorra, og líklega elzta stofnun Siglufjarðar. Sparisjóðurinn hefur eftir getu stutt að framförum í firðinum, þetta er virðulegt fyrirtæki, sem við Siglfirðingar getum verið hreyknir af, að skuli hafa lifað af öll þau veðrabrigði, er um byggðarlag okkar hafa mætt hina löngu tíð frá stofnun hans. 

Í verzlunarstjóratíð sinni lét Snorri reisa svokallað „Faktorshús". Þetta var gott og rammgert timburhús, og stóð það, þar sem Gránugatan endaði fyrr meir, skammt sunnan við svonefnt Hafliðahús. í þessu húsi bjuggu síðar meir „faktorar" Gránu hver af öðrum. Þá átti Snorri þátt í stofnun Ekknasjóðsins 1879, er hafði það hlutverk að liðsinna ekkjum látinna sjómanna hér í hreppnum, en sjóslys voru hér allmörg á gömlu hákarlaskipunum, svo sem kunnugt er.

Það hefði vissulega verið ánægja að fletta fundargerðabókum Hvanneyrarhrepps frá þeim árum, er Snorri dvaldi hér í firðinum, til að fá gleggra yfirlit um hlutdeild hans í málefnum hreppsins, en þær bækur munu nú taldar glataðar með öllu. Það, sem hér hefur verið upptalið af umbótamálum, er Snorri fékk framgengt, gefur vissulega til kynna, að hér er á ferð maður, sem hátt er hafinn yfir alla meðalmennsku, og því er ekki óeðlilegt, þótt sú spurning vakni í hugum okkar: hvernig var maðurinn Snorri Pálsson. Hvaða mann hafði hann að geyma? 

Sigurður frá Balaskarði, samtíðarmaður Snorra, er hér dvaldi 1869 á vegum hans, segir, að Snorri hafi ekki verið hár vexti, en nokkuð þrekinn og fjörlegur og mjög greindarlegur. Sigurður telur hann hafa verið mikinn vitmann. Andlit hans var bjart yfirlitum, og í því bjó rósöm festa. Hann var dökkhærður, hárprúður, skeggið vel snyrt. Hann var nokkuð tileygður, og það þótti Sigurði vera honum til lýta, en sá er þessar línur ritar, er á öðru máli.

Til er stækkuð mjög skýr ljósmynd af Snorra, og myndin sýnir, að þótt hann sé lítillega tileygður, þá virðist það einungis gefa andliti hans fágætan sjarma, undirstrika að hann var sérstæður persónuleiki, mjög lifandi, og gleði og kímni býr í svip hans. Hann kunni vel að meta glas af góðu koníaki, en hann fór vel og skynsamlega með slíka hluti, og hann var ætíð höfðingi heim að sækja og glaður á góðri stundu.

Jafnframt því að vera kvikur og fullur af fjöri, þá var Snorri öðrum þræði mikill alvörumaður, er bar í brjósti ríka ábyrgðartilfinningu gagnvart meðbræðrum sínum, og rausn hans og Margrétar konu hans við hreppsbúa er rómuð, og um þá hjálpsemi heyrði ég í ungdæmi mínu marga gamla Siglfirðinga tala með djúpri virðingu.

Ef til vill er Snorra bezt lýst sem manni með smáatviki, er hér kom fyrir harðindaárið 1869, en þá var ísaár og þröngt í búi, og segir Sigurður frá Balaskarði svo frá um komu sína hingað til Siglufjarðar: „Nú fór ég að ganga til og frá um eyrina. Það voru í stöku stað húskofar, sem fátæklingar bjuggu í. Ég kom í smiðju, sem þar var, og var þar verið að smíða. 

Ég kem þar inn og sé, að járnsmiður er að smíða þar stórsmíði. Ég heilsa honum kurteislega, eins og ég ætíð gerði, því ég bar ætíð virðingu fyrir þeim, sem ég sá, að myndu skara fram úr öðrum eða fjöldanum með hvað sem var". Maður þessi var Ásgrímur Jónsson járnsmiður, er átti heima í Hvanneyrarkoti.

Kona hans hét Broteva, því til minningar að Eva braut boðin forðum. Ásgrímur þessi annaðist járnsmíði fyrir Siglfirzka hákarlaflotann á þessum tíma. Sigurður heldur áfram frásögn sinni, og hann segir: „Nú fór fyrir alvöru að bera á bágindum manna í milli, og koma margir til Snorra til að reyna að fá eitthvað til að lifa á, en það var ekkert orðið til, hvorki kaffi né kornmatur, nema helzt tólg. Hjálpaði Snorri um það, sem til var, og hverjum manni, sem kom, var gefið að borða, og aumingjum var lofað að vera dögum saman, í einu orði að segja, ég hef aldrei séð meira góðgerðarheimili en þar var, fyrir utan það sem gefið var út af heimilinu. 

Snorri átti vörpu eða fyrirdráttarnót, sem reynt var að draga fyrir með við sandinn, en vanalega fékkst ekkert. Eitt kvöld var dregið fyrir sem oftar, og voru menn af skipunum sem hjálpuðust að því, en þetta kvöld fengust fjórtán tunnur í drætti, var það smáufsi, líkur að stærð og stór ufsi. Þetta var góður fengur og átti Snorri helminginn, en mér til undrunar mælir hann þetta í sundur í skeppumáli og sendir á alla bæi í hreppnum og á öll skipin, en sjálfur átti hann eftir hálftunnu, sem ég slægði og saltaði niður, og var þó ekki mikill matarforði til."

Ég hygg, að þessi frásögn um hjálpsemi Snorra við meðbræður sína sé einkar góð mannlýsing og lýsi svo sem bezt verður á kosið manninum Snorra Pálssyni, og hún hefur þann kost að vera rituð af samtíðarmanni hans, er dvaldi hér á því tímabili, er harðindi og bjargarleysi sóttu Siglfirðinga heim. En svo fór, að Siglfirðingar nutu hæfileika og mannkosta Snorra of skamman tíma.

Snorri féll frá á bezta aldri. Hann lézt hinn 13. febrúar 1883 hér í Siglufirði, aðeins 43 ára að aldri. Mun taugaveiki hafa verið banamein hans. Árið eftir að Snorri féll frá, lét ekkja hans reisa sér allmyndarlegt timburhús hér á eyrinni, og var hús þetta lengi kallað „Maddömuhús".1) Hún dvaldi hér í áratug eftir lát Snorra, en fluttist svo til Ísafjarðar til dóttur sinnar. Hún fluttist hingað aftur og dvaldi hér síðustu æviár sín og naut þá ágætrar umönnunar frú Sigurlaugar Bjarnadóttur, ekkju Guðm. Guðmundssonar borgara, er verið hafði verzlunarþjónn hjá Snorra á unglings- árum sínum. 

Ég man vel eftir maddömu Margrétu, hún lézt hér í bænum vorið 1926, háöldruð. Maddömuhús er enn til. Hafliði hreppstjóri keypti hús þetta nokkru fyrir aldamótin, og er húsið enn í eigu ættmenna hans og var lengi kallað „Hafliðahúsið".

Árin næstu eftir lát Snorra reyndi mjög á þolrifin í Siglfirðingum. Það var ekki nóg með, að hreppsbúar urðu á bak að sjá mesta hugsjóna- og framfaramanni byggðarlagsins til þess tíma, heldur gekk og í garð eitt mesta harðindatímabil síðari mannsaldra.

Fádæma ísaár og vetrarhörkur og köld, gróðurlaus sumur buðu hungri og harðrétti heim. Allar bjargir virtust bannaðar. En séra Bjarni Þorsteinsson bendir réttilega á það, að Siglfirðingar hafi aldrei „misst móðinn". Þetta er vissulega rétt. Og þótt margur „austan kaldinn" hafi á þá blásið, þá hafa þeir jafnan átt einhverja forvígismenn, er hafa vakað og varðað leiðina.

Nítjánda öldin færði Siglufirði nokkra slíka varðmenn. Snorri Pálsson var einn þeirra. Hann glæddi von og trú hreppsbúa um betri tíma, — sýndi í verki, hvað hægt var að gera, brá á loft því blysi, er veitti von um betra líf. Einar Guðmundsson dlm. á Hraunum lét svo ummælt í stuttri blaðagrein, er hann ritaði um Snorra, að hann hafi óaflátanlega hvatt samtíðarmenn sína til framkvæmda og iðjusemi, og hann kom því til leiðar, að Sparisjóður Siglufjarðar veitti mönnum verðlaun, þeim er þóttu skara fram úr fjöldanum, t. d. með jarðabætur.

Og Einar bætir við, að Snorri hafi tekið hart á slóðaskap og drykkjuslarki. Sjálfur sýndi Snorri í verki óeigingirni og umhyggju gagnvart samsveitungum sínum, t. d. með því að veita Sparisjóðnum forstöðu þóknunarlaust, sjóðurinn var eins konar óskabarn hans, og hann skynjaði möguleikann til framfara fyrir hreppinn með því að efla Sparisjóðinn. Enn fremur annaðist Snorri án endurgjalds Siglufjarðardeild þilskipaábyrgðarfélagsins, að ekki sé talað um Ekknasjóðinn, er hann skipulagði einkar hugvitssamlega með því að afla sjóðnum tekna af þorskveiðum og hákarlaveiðum hreppsbúa.

Eins og að framan segir, var Snorri einkar bókhneigður og hann varði árlega nokkurri upphæð til bókakaupa. Mest unni hann fögrum skáldskap, en fræðibækur ýmsar keypti hann mikið, þar kynntist hann hinum verklegu nýjungum, er hann þráði að gera að veruleika, hér í þessum afskekkta hreppi.

Þetta sýnir okkur, hve óralangt hann var á undan samsveitungum sínum í andlegum og verklegum skilningi, því um það leyti sem Snorri kom hingað í Siglufjörð, hefur trauðla verið meira en hálf tylft manna hér í hreppnum, er var læs og skrifandi. Siglfirðingar voru þjakaðir af margra alda einangrun, kyrrstöðu og eymd. Þegar Snorri hafði dvalið hér og starfað í allmörg ár, þá fannst þeim þetta ganga galdri næst.

Hann hlýtur að vera göldróttur, sögðu þeir. Hann gengur eflaust í finnabuxum! Það fóru að myndast furðusögur um hann. 

Slík var hjátrúin á þeim dögum, slík var hin rótgróna eymd hreppsbúa. Þannig hafði aldalöng einangrun, fáfræði og fátækt mótað hugarheim Siglfirðinga, þegar þeir fyrir tæpri öld síðan stóðu undrandi andspænis þeim manni, er fyrstur ruddi brautir hins nýja tíma. 

En átti hann finnabuxur? Var hann göldróttur? Því fór fjarri! Snorri átti engar finnabuxur! Og það var ekkert yfirnáttúrlegt við framtak hans. Þess í stað átti hann innsæi hugsjónamannsins og hina stálslegnu einbeitni athafnamannsins. Það, sem gerzt hafði við komu hans hingað í Hvanneyrarhrepp, var einfaldlega þetta: Siglufjörður hafði loks eignazt mann, er var að minnsta kosti aldarfjórðungi á undan öllum hreppsbúum í hugsun og atorku, mann, er var gæddur skapandi gáfum, samfara farsælum vilja til athafna á nýjum, óruddum leiðum.

Enda munu margir minnast þess, hve gamlir Siglfirðingar, er þekktu Snorra, töluðu um hann af einlægri virðingu og aðdáun, það var líkt og þeir vildu sagt hafa: Hann var meiri en við, hann var okkur fremri, þess vegna var gott að njóta forustu hans. 

Og minningin um Snorra, störf hans og hjálpsemi, lifði lengi með Siglfirðingum. Það brá oft fyrir ljóma í augum gamalla Siglfirðinga, er þeir minntust hans, eða þannig var þetta á æskuárum mínum hér í firðinum. Það virðist hafa fennt seint í spor hans, hér í hinu snjóþunga, norðlenzka byggðarlagi. 

Kristinn Halldórsson. 

Viðbót SK: 1) Þar er nú til húsa, Þjóðlagasetur sr. Bjarna.

HELZTU HEIMILDIR: KH

----------------------------------------------------------

Neisti 19 mars 1964.

Snorri Pálsson

Nú um þessar mundir eru eitthundrað ár liðin síðan hingað fluttist rúmlega tívítugur maður og tók við faktorsembættinu við Siglufjarðarverzlunina. Þessi maður var Snorri Pálsson. Hann starfar hér í rúm 19 ár. Það getur ekki talizt langur tími í ævi eins byggðarlags, en þó eru sporin, sem hann skilur eftir hér, dýpri og greinilegri en flestra, ef ekki allra, annarra. Sigurður á Balaskarði, sem var vinnumaður hans um tíma, gefur okkur, í bók sinni, allgóða innsýn í daglegt líf hér í Siglufirði fyrir 90 árum.

Eitt vorið, vofði hungurdauði yfir sem oftar, hafþök af ís fyrir öllu Norðurlandi. Þá er það Snorri sem telur kjark í menn. Hann hafði veitti því athygli, að smáufsi gengur inn á fjörðinn á hverju vori, og treysti því að svo muni enn verða. Hann lætur vinnumenn sína draga fyrir, dag eftir dag, við sand inn innan á eyrinni.

Og- eitt kvöldið er heppnin með; þá fæst talsvert af smáufsa í nótina. Hann lætur skipta veiðinni jafnt milli allra heimila í Siglufirði. Þessi framkoma lýsir Snorra vel, í fyrsta lagi þorir hann að treysta á reynslu sína og dómgreind,, og jafnframt lítur hann svo á, að í raun og veru séu allir Siglfirðingar ein fjölskylda, sem á að standa saman í blíðu og stríðu.

Enda framkvæmir hann öll sín mörg baráttu og áhugamál, með því að virkja mátt samvinnu og samtaka. Hann lýsir því fyrir Sigurði, að hyggilegra sé fyrir útivegsmenn að eiga hluti í fleiri en einu Skipi, heldur en að vera hver með sitt skip, því þá sé áhættan minni, þótt tjón verði. Ekki verður ævisaga þessa manns sögð hér, heldur verður aðeins talið nokkuð af því, sem hann fær hrundið í framkvæmd á árunum 1864—1883. Stofnun Gránufélagsins og Þilskipa ábyrgðarfélagsins með Eyfirðingum, stofnun Sparisjóðs Siglufjarðar ásamt bændum í Fljótum og austur Skagafirði.

Stofnun Ekknasjóðs með Ólafsfirðingum og Fljótamönnum, en til hans fengust fjárframlög með skatti á útfluttar sjávarafurðir (vísir að almannatryggingum).

Bættar samgöngur: Ruddur vegur yfir Siglufjarðarskarð, strandferðaskip hafi viðkomu í Siglufirði, og landpósturinn úr Reykjavík var látinn fara alla leið hingað.

Stofnun læknisembættis hér 1880 (áður hafði Snorri sjálfur lagt stund á læknisfræði og lækningar).

Þá átti hann einnig drjúgan þátt í stofnun tveggja skóla, Möðruvallaskólans, og Búðarhólsskólans hér í Siglufirði, en hann tekur einmitt til starfa árið sem Snorri deyr.

Þá stofnar hann síldveiðifélag 1880 og annað stærra árið eftir. Óhræddur var hann við að leggja út í fyrirtæki 1878, sem annaðist niðursuðu matvæla, kjöts og fisks, en sú framleiðsla líkaði mjög vel, og var hann ekki í vandræðum að selja hana erlendis. Þá fékk hann því framgengt að farið var að gufubræða hákarlalifur, en það gaf mun betri vöru en áður þekktist, og svona mætti lengi telja, en hér verður staðar numið.

En menn hljóta að undrast hyggindi, glöggskyni, kjark þann og kraft, sem þessi maður hefir búið yfir. Hann deyr, langt fyrir aldur fram, í febrúarmánuði 1883, aðeins 43 ára gamall. — Í dag er okkur einkar hollt að rifja upp lífsferil slíks manns. ýmis óhöpp hafa dunið á okkar fábreytta atvinnulífi sl. ár, og í kjölfar þeirra kemur kjarkleysi og úrræðaleysi.

Nú setja menn traust sitt á alls konar samþykktir, áskoranir og bænaskrár til stjórnarvaldanna, bæði heima og heiman, um leiðbeiningar, aðstoð og ölmusu. Sennilega hefði Snorri Pálsson ekki farið þannig að. Hann hefði skoðað vandamálin frá sem flestum hliðum, reynt að finna kjarna þeirra, og síðan hefði hann sjálfur komið með lausn; jafnvel farið óvenjulegar eða nýjar leiðir til að ná því marki. Hann hefir áreiðanlega vitað, jafn vel og við, sannleiksgildi orðanna: „Guð hjálpar þeim fyrst og fremst sem hjálpar sér sjálfur." 

-------------------------------------------------------------- 

Morgunblaðið 30 nóvember 1968

Grein eftir Guðmund G Hagalín: BÓKMENNTIR, þar sem hann skrifar um bókina „Siglufjörður“ þar sem Snorri Pálsson kemur við sögu, sem vænta mátti:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=113961&pageId=1398774&lang=is&q=Snorri%20P%E1lsson 

-------------------------------------------------------

SK: Auk þess hafa verið skrifað ótaldar tilvitnanir um dug og gæsku þessa FÖÐUR SIGLUFJARÐAR, Snorra Pálssonar.

-----------------------------------------------------

Ættartala Snorra Pálssonar alþingismanns

2.

3. 

4.

5.

6. 

7.

8.

9.

10.

11.

12.

13.

14. 

15. 

16.