Götur 4. hluti

trolli.is - 11 ágúst, 2018 Jón Ólafur Björgvinsson


Furðulegar götur 4. hluti

Þessi fjórði og síðasti hluti fjallar ekki um neina sérstaka götu, við kíkjum á eyrina, sjáum ljósmyndir sem taka fram þá litadýrð sem einkennir Siglufjörð, kíkjum á hús sem halla, falleg og ljót hús og hús sem hafa fengið nýtt hlutverk og í lokin skoðum við styttur bæjarins….. sem engin nennir að horfa á……. 

EÐA ?

Margir lesendur hér á trölli.is hafa haft gaman af þessari greinarseríu og nokkrir hafa bent á að það séu nú til einfaldar lausnir á þessu með sundurslitna götuparta út um allan bæ. Eins og t.d. að þessir partar fái einfaldlega ný eigin götunöfn.

En NEI….þetta var ekki skrifað til að finna lausnir á einhverju sem í rauninni er ekki vandamál, þetta er bara einn einkennilegur hluti af sögu bæjarfélags sem óx of hratt, fékk vaxtarverki og síðan dró síldarhvarfið skyndilega í handbremsuna.

Síðan gleymdist þetta bara……hvarf bara inn í hversdagsleikann og er sjálfsagður hlutur í daglegu lífi hjá öllum sem búa þarna núna.

Gömul ljósmynd frá Siglufirði;
Frá Steingrími Kristinssyni hann man ekki hvernig hún kom til hans og ljósmyndarinn er ókunnur. 


Á þessari “um 100 ára gömlu ljósmynd” ( það hafa komið fram ábendingar um að myndin sé frá um 1930 og að það sem virðist vera Evanger verksmiðjan sé í rauninni söltunarstöð sem var reist þarna eftir snjóflóðið 1919 ) hér fyrir ofan sjáum við gömlu “Evanger verksmiðjuna ” fyrir handan fjörð, en hún fór í sjóinn í mannskæðu snjóflóði í apríl 1919.

Við sjáum líka að Siglfirðingar eru eins og Hollendingar og hafa fyllt upp í grunnan sandfylltan fjörðinn og skapað ný landsvæði.
Stækkað eyrina, skapað Leirutanga sem í dag er þarna sem bryggjan sem var kölluð ANLEGGIÐ er á myndinni en hún sést þarna suður á pollinum ein og yfirgefin.
En það sem sést best er þetta frábæra ferhyrnda götuskipulags kerfi sem séra Bjarni Þorsteinsson er upphafsmaður af.

Við skulum kíkja á Kortasjá mynd frá Fjallabyggð og sjá hvernig eyrin lítur úr í dag

Eyrin

Eyrin er teiknuð með reglustiku…..og undir malbikinu eru steinsteyptar götur með tvöfaldri járnabindingu.

Í ferningnum á milli Lækjargötu og Grundargötu eru falin hús á bak við Nýja Bíó sem tilheyra Lækjargötu 4 B och 4 C og svo var líka til hér áður fyrr 6 C en það hús stóð sunnan við Hótel Siglunes.

Og í næsta hólfi fyrir neðan stendur líka hin guðdómlega fallega fyrrverandi aðalbækistöð Hjálpræðishersins sem ætíð hefur verið kallað Herhúsið ( Norðurgata númer 7  C ) einkennilega skáhallt og langt frá Norðurgötunni.

Lækjargata 4 C séð frá Grundargötunni.
Það er einfaldast og styðst að komast að þessu nýlega uppgerða fallega litla bárujárnshúsi frá Grundargötunni.
Og útidyra hurðin snýr að Grundargötunni. 

Séð niður Eyrargötuna……..finndu eina villu. 


Það er af sem áður var að maður taki meira eftir eina húsinu í götunni sem var nýmálað og fínt og það er sorglegt að augað dregst úr annars fallegri götu mynd yfir í þetta græna hús sem er er í algjörri niðurníðslu. Öll hin húsin eru falleg og gatan snyrtileg og fín.

Sumir segja: já, en er samt ekki smá sjarmi yfir þessu……. nei ekki lengur, passar ekki lengur inn í heildar ímynd fjarðarins og það er eitthvað sem við öll berum ábyrgð á.

Á eyrinni er enn í gildi gamalt einstefnugötu skipulag sem er sjaldgæft fyrirbæri í minni bæjarfélögum á Íslandi. Það má þó keyra upp og niður Gránugötuna og það eru algjör helgispjöll fyrir Siglfirðinga að fólk keyri upp Aðalgötuna. Það er harðbannað og bara túristar sem fremja svoleiðis glæpi.

En maður getur spurt sig hvort að það sé virkilega þörf fyrir allar þessar einstefnugötur í dag ?

Hallandi hús

Undir allri eyrinni er sandur og hús sem eru byggð á sandi hafa tilhneigingu til að síga og halla undir flatt eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Það er svolítið fyndið að húsið sem hallar einna mest er Áfengisverslun Ríkisins,  það hallar mikið í vestur átt og húsið við hliðina hallar í austur og það lítur út fyrir að þau munu kyssast í framtíðinni.

Til gamans smá geta að er að vegna flóða hættu eru mörg salerni á neðri hæðum húsa á eyrinni upphækkuð. Maður situr í hásæti eins og kóngur og drottning og gerir þarfir sínar.

Einstaklega skemmtilegt Siglfirskt vandamál.

ÁTVR (Ríkið) á horni Túngötu og Eyrargötu hallar undir flatt.

Takið einnig eftir að á hvíta steinhúsinu ofan við ÁTVR er farið sparlega með glugga og hurðir á norðurgaflinum og þannig er það með mörg eldri hús á Sigló.

Annars held ég að Ljóðasetur Íslands sem er þarna rétt hjá í Túngötunni halli meira en það er kannski ekki svo skrítið, það býr Tröll á efrihæðinni.
FM Trölli er þar til húsa.

Litadýrð og lita skerpa

Í sumar þegar greinarhöfundur var á göngu með sænska gesti við Síldarminjasafnið kom upp spurning um þessa lita-sögu sem er sögð á gaflinum á Gránu húsinu. (Sjá mynd hér neðar) því að þrátt fyrir að þau kæmu beint úr Róaldsbrakka og höfðu séð fullt af myndum þá var það augljóst að þessi litasaga kemur ekki fram í svarthvítum ljósmyndum. 

Og auðvitað er þetta tengt síldinni, söltunarplönin kepptust við að mála bækistöðvar sínar í flottum skörpum litum með stórum fyrirtækja auglýsingum framan á húsunum sem öll snéru út að sjónum svo að drekkhlaðnir síldarbátar í biðröð gætu tekið mið á rétta bryggju og landað hjá réttum aðila.

Þar fyrir utan er það staðreynd að á norðurhveli jarðar er ljósið blárra en í öðrum heimshlutum, þetta skapar litaskerpu sem er einstök og sú ljósmynda birta sem oft myndast þarna á Siglufirði er hreinasti galdur, jafnt sumar sem vetur.

Það eru bara 45 km að norðurheimskautsbauginum sem “sést” vel í góðu veðri frá útsýnissvæðinu við Sauðanes.

(Við gætum sett upp glerplötu þar og teiknað norðurheimskautsbauginn á glerið og tekið mynd af okkur við hann……)

Litasaga Siglufjarðar er sögð hér á framhlið Gránu við Síldarminjasafnið.

 Siglfirðingar eru svo heppnir að hér býr snillingur sem reyndar ólst upp á Ísafirði en hann hefur ætíð átt sterkar rætur hér líka.

Þessi maður hefur valdið útlits og lita byltingu sem sést út um allan bæ.
Sjá grein hér um Jón Steinar Ragnarsson:

Snillingar bæjarins! Jón Steinar setur lit á bæinn

Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera með réttu litavali og málningu.
Hér hefur meistari Jón Steinar breytt gömlum slitum gluggalausum brakka í glæsilegt hús. 

Fallegt lítið bárujárnshús sem stendur við Suðurgötuna í sterkum lit, séð frá Hafnargötunni. 

Landmarkshúsið við Hafnargötuna er byggt 1913 og þar er öllu haldið “orginal”

Hér getið þið lesið og séð myndir í stuttri grein um þetta hús:  Heim í Landmarkshúsið

Allir þessir litir, logn og fallegt birta skapa alveg einstæða stemmingu í sálinn,
maður hægir á sér og andar inn þessari fegurð inn í kropp og sál.

Falleg hús

Siglufjörður hefur yfir sér “Skandinavískan” blæ, enda er þetta Norskur bær, hann var hertekinn og bjargað úr klónum á Danskri einokunarverslun af klárum norskum síldarhermönnum í byrjun síðustu aldar, þeir fluttu hingað efni í bryggjur og hús og sum hús voru byggð í Noregi eða í Svíþjóð og síða tekin sundur aftur og send í einingum hingað í fjörðinn fagra.

Þetta sést oft best á hvernig kvistir og tök eru formuð og á fallegum gluggalistum og skraut smíðum á göflum og fl.
Bárujárnið var náttúrulega það efni sem varði hús best gegn árásum norðan garrans og það er ánægjulegt að margir hafa tekið burtu bárujárn og sett viðarklæðningar á húsin sín í staðin.

Dásamlega fallegt hús í klassískum Skandinavískum stíl sem stendur við Hafnargötuna. 

Henriksenshúsið stendur á gatnamótum Aðalgötu og Tjarnargötu og var áður gulmálað bárujárnsklætt hús.
það er mun fallegra með þessu útliti. 

Þetta gamla Norska fallega hús stendur í einum Hvanneyrarbrautar botnlanganum og hefur alltaf í mínum augum verið eitt af fallegri húsum bæjarins.

Ný hús

Síðustu árin hafa mér vitanlega bara verið byggð tvö ný íbúðarhús á Siglufirði, annað er “HÚSIÐ Á ÁSNUM” sem við höfum fjalla um áður hér á tölli.is. Og hitt er lítið glæsilegt hús sem nú stendur við Hafnargötu 4.

Fyllir þar upp í gamalt sár með sóma, tóma lóð á stað sem er mér kær. Hér var ég oft í barnæsku í heimsókn hjá langömmu Jónu Möller.

Þetta hús er mátulega stórt og passar vel í í götumyndina, næstum eins og að það hafi alltaf staðið þarna með sitt Skandinavíska þak, þar sem bárujárnsklædd efrihæðin er bæði hæð og þak í einu.

Óskandi að við sjáum meira af húsum í svipuðum stíl á öðrum gömlum lóðum sem eru til vítt og breitt um bæinn.

Ljót hús

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að ræða ljót hús, þau eru ekki mörg, örfá reyndar eftir þann mikla fegrunar faraldur sem hefur riðið yfir þennan fallega bæ síðustu árinn.
En þau sjást því mun betur og því miður held þá held ég að bæjaryfirvöld verði að ekki bara áminna eigendur sem taka sér of langan tíma í að gera upp eldri hús heldur líka bjóða ókeypis ráðgjöf og stuðning í gegnum þetta oftar en ekki erfiða ferli. 

Snjóþunginn braut þessar svalir í vetur sem er svo sem skiljanlegt.
En það sem ekki er skiljanlegt er hvers vegna verður þetta að líta svona í ágúst ?
Það er einnig mikilvægt að skapa ekki hættulegar slysagildrur fyrir leikandi börn.
(14/8 Athugasemd frá lesenda: Það er verið að laga þetta núna.) 

STEINHÚS

Á götugöngu minni um bæinn tók ég eftir því að það er búið að gera upp mörg flott steinhús með pússningaráferð sem er lík því sem var notað hér áður fyrr, en því miður hafa mörg steinhús líka horfið inn í ál og bárujárns umbúðir. Líklega vegna þess að það er ódýrara og það gefur betri einangrun samtímis.

þetta er svolítið sorglegt en skiljanlegt og það er augljóst að hvorki bæjaryfirvöldum eða bæjarbúum er sama hvernig svona húsaviðgerðir og breytingar fara fram.

Sjá t.d. grein hér frá því fyrr í sumar:  SPENNA Á SUÐURGÖTUNNI

“Niðurstaða 226. fundar skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar
Eitt af því sem einkennir mörg steinsteypt hús á Siglufirði frá þriðja og fjórða áratug 20. aldar, eru kantaðir steypuhnallar á gaflbrúnum húsanna.
Nefndin telur mikilvægt að varðveita þetta einkenni frá húsum þessa tíma og gerir þá kröfu að teikningum verði breytt þannig að útlit og form steypuhnalla (brandmúr) á göflum hússins haldi sér. Að öðru leyti samþykkir nefndin umsókn um byggingarleyfi.”

Múrverkið á hinu sögufræga Seljalands húsi er illa farin og það yrði t.d. sárt að sjá þetta hús hverfa innan í álklæðningu. 

HÚS MEÐ NÝTT HLUTVERK

Steingrímur Kristinsson ljósmyndasögu guðfaðir Siglufjarðar stendur í dyrunum á gamla Andersen húsinu
sem nú hýsir Saga Fotografica ljósmynda sögu safnið. 

Mörg hús í bænum hafa fengið nýtt hlutverk og innihald gegnum ötula vinnu þeirra sem búa í bænum en líka frá brottfluttum sem flytja til baka og ekki síst frá “Aðkomufólki” sem í rauninni á engin bein tengsl við fjörðinn annan en að þeim líður vel þarna og það er ekki hægt að segja annað en að þetta aðkomufólk hafi haft góða aðkomu að uppbyggingu hina ýmsu málefna í bænum. 

Hér get ég náttúrulega ekki reiknað upp alla frá komu Róberts Guðfinnssonar til komu Fríðu í Súkkulaðihúsinu.

En við skulum kíkja á nokkur dæmi.

Gamla Andersens húsið var í minnst sagt, slæmu ástandi þegar að “aðkomufólkið” Inga og Baldvin tóku það í fóstur og þau hafa lagt gríðarlegar mikinn tíma og fjármuni í að byggja upp þarna fyrsta og eina Ljósmyndasögusafnið á Íslandi.

þetta er greinilega ekki gert í einhverju gróðaskyni því það er ókeypis inn þarna alla daga sumarsins milli kl. 13 – 16.

Af hverju er þetta safn hér spyrja gestir oft?  En svarið er einfaldlega. Af hverju ekki……..þetta er fallegur staður sem á sér langa ljósmyndasögu.

Sjá grein hér: SAGA-FOTOGRAFICA GEYMIR MERKA SÖGU

Gamla vara Rafstöðin er líklega stærsti sumarbústaður Siglufjarðar.

Ef þér leikur forvitni að vita meira um þennan sumarbústað, þá er hér grein frá 2014.
Hver býr í Rafstöðinni Amma?

Gamla mjölhúsið, síðar frystihúsið við vetrarbraut hýsir nú bjórverksmiðjuna Segul 67
Og þar vaxa og dafna allskyns menningarmál, líka með nýlegum tónlistasal og listasýningum uppi í gamla flökunarsalnum.

Gamla “Kommúnistahöllin” við Suðurgötu 10 hýsir i dag einkennilega Skegg og Hársnyrtistofu sem heitir Hrímnir
eins og síldarplanið sem Jón Ólafur Sigurðsson afi minn rak í kompaníi með Þórð á Nesi og svo var opnað þarna
skemmtilega innrétt krá síðsumars í fyrra sem heitir Kveldúlfur bús og bar.
Í bakgrunninum til vinstri sést í bílskúr sem stendur við aðra furðulega höll sem er kölluð Pokahöllin.

Persónulega finnst mér þetta frekar drungalegur og of dökkur litur og það gerir þetta hús að meiri steinsteypukassa en það þarf að vera.
Jón Steinar myndi örugglega geta gert eitthvað skemmtilegt við þetta hús.

En það er allavegana með RAUÐA kommúnista álklæðningar húfu.

Það verður að segjast með sorg í hjarta að það er enginn starfsemi í okkar sögufræga kvikmyndahúsi Nýja Bíó lengur og enginn veit hvort að þetta hús fái eitthvað framtíðar hlutverk í Fjallabyggð.
Á spjalli við vin missti ég út úr mér hvort að bæjarfélagið gæti ekki bara tekið þetta hús í fóstur og notað það sem menningarhús…….ÚPS!


“Í guðanna bænum farðu nú ekki að vekja upp gamlan draug og rifrildi um “tvennt af öllu” það vita allir nema þú að Menningarhús Fjallabyggðar heitir Tjarnarborg og það er í Austurbænum. Punktur basta.” Sorry…bara smá hugmynd…….

Á þessari mynd sjáum við tvö horfin hús, gamla Sjómannaheimilið á kafi í snjó og þar fyrir ofan stórt steinhús við Lindargötuna og síðan eitt furðulegasta hús Siglufjarðar lengst til hægri. POKAHÖLLINA !     Ljósmynd: Hinrik Andrésson 

Mynd úr grein með mörgum ljósmyndum af Siglfirskum húsum o.fl.
Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir
Ljósmynd: Steingrímur

þessi mynd er fengin að láni af skilti við Síldarminjasafnið og sýnir okkur hvað er hægt að gera við olíutanka með málningu.

 Mér datt í hug þegar ég sá þessa mynd hvort að það væri nú ekki gaman að gera þetta aftur……mála einn af olíutönkunum úti við Öldubrjót sem hús með gardínum og öllu og svo annan sem síldartunnu og kannski þann þriðja sem niðursuðudós með flota lógóinu frá Siglósíld.

Styttur bæjarins….. sem engin nennir að horfa á……. EÐA ?


Jú það eru svo sannarlega margir sem njóta þess að sjá falleg listaverk utandyra. það eru auðvitað til styttur og minnisvarðar hingað og þangað um bæinn en lítið af utandyra listaverkum.

En bráðlega munum við fá að sjá styttu af Gústa Guðsmanni á Torginu líka.

En á síðasta ári birtust hér nokkur verk eftir okkar heimsfrægu listakonu Aðalheiði S Eysteinsdóttur og þau setja svo sannarlega svip á bæinn.
Aðalheiður eða Alla Sigga eins og hún er kölluð í bænum er ótrúlega ötul við listsköpun og hún hefur svo sannarlega gefið Alþýðuhúsinu sem hún keypti nýtt hlutverk.

Fyrir utan að vera allaf að og framleiða listaverk þá er þessi manneska eins og einhverskonar “menningarmála segulstál” dregur að sér skapandi fólk frá öllum heimsins hornum og hún ýtir stanslaust af stað allskyns verkefnum sem mest snúast um að koma listsköpun annara á framfæri.

Hún er svo sannarlega ein af þeim brottfluttu sem hafa snúið aftur og með því fegrað bæinn og gert hann menningarlega ríkari en hann var.

Takk Alla Sigga og takk allir sem hafa fegrað húsin sín, garðana sína og allt okkar umhverfi.

Hér er greinilega gott að búa og ég er með mikla heimþrá.

Timburkarlarnir við Hannes Boy eru örugglega á “topp 10” listanum yfir mest ljósmynduðu listaverk Íslands.

Í garðinum sunnan við Alþýðuhúsið er komin hóll sem er álagablettur og vestan við hann sitja þrjú tröll á stórum steinum og spjalla saman.






Sjá grein um þetta stórkostlega Tröll hér:

Það er TRÖLL í garðinum hjá The Herring House!




FURÐULEGAR GÖTUR 1. HLUTI

FURÐULEGAR GÖTUR 2. HLUTI

FURÐULEGAR GÖTUR 3. HLUTI


Lifið heil
Kær kveðja, Nonni Björgvins

Ljósmyndir og texti:
Jón Ólafur Björgvinsson

(Aðrar myndir eru merktar og birtar með leyfi eigenda)

Í fallegum trjálundi ofan við kirkjustíginn situr stórt og mikið alvöru tröll.

EFTIR ER AÐ YFIRFARA NOKKRA TENGLA Á HEIMILDARSÍÐUNA   - fékk mér pásu til morguns amk.