Gestur Fanndal

Gestur Fanndal kaupmaður

þegar ég var 12 ára, þá réði ég mig sem sendil, frá vori til hausts hjá Gesti Fanndal. Þetta gerði ég án þess að spyrja foreldra mína um leyfi og Gesti til ama þess vegna þar sem ég hafði sagt honum að foreldrar mínu væri ráðningunni samþykkir. 

Pabbi varð fokvondur yfir þessu, sennilega vegna þess að hann missti ódýran vinnukraft á verkstæðinu. En mamma náði fram sáttum í málinu. 

Ég hóf störf mín hjá Gesti sem sendill, en í framhaldinu var ég látinn borga hluta launa minna upp í fæði heima. 

Yfir því var ég hálf fúll, þar sem þá lækkuðu laun mín í raun niður í svipaða krónutölu og ég hafði fengið hjá pabba.
Ég var mjög ánægður að vinna hjá Gesti þó það hafi stundum verið erfitt. Sérstaklega þegar sækja þurfti vörur niður á Hafnarbryggju í afgreiðsluna hjá Gísla. Sendilhjólið var oft nánast á felgunni þegar tveir 25 kílógramma hveiti eða sykurpokar voru settir á bögglaberann að framan. 

Ég var bæði harður og þrjóskur og lestaði vel til að fækka ferðunum. Gestur ávítaði mig fyrir að ofhlaða hjólið. Sennilega þó mín vegna þó ég hafi ekki gert mér grein fyrir því þá. 

Stundum var þetta óbeint kapp við Ragga katt, (Ragnar Kristjánsson) sem var sendill hjá Matvöruversluninni Pétur Björnsson. 

Raggi notaði kerru til að flytja vörurnar fyrir Pétur og Raggi var mikið eldri en ég.

Þessum ferðum mínum eftir vörum lauk svo seinnihluta sumarsins er Gestur keypti sendibifreið sem sést hér fyrir neðan ásamt mér við bílinn. Gestur og Óli Geir Þorgeirsson verslunarmaður skiptust á um að keyra bílinn. 

Þeir voru margir og góðir viðskiptavinirnir sem Gestur hafði, sumir þeirra létu reglulega senda sér vörurnar heim, annað hvort komu þeir sjálfir til að velja vörurnar eða hringdu og pöntuðu.

Einn af þessum föstu viðskiptavinum Gests var kona Jóns Stefánssonar forstjóra Síldarútvegsnefndar, Ásta Guðmundsdóttir. Hún er mér minnisstæð vegna góðmennsku hennar. Einnig var eiginmaður hennar einstakur maður. Ásta færði mér ætíð eitthvað góðgæti, súkkulaði, kökur og jafnvel mjólkurglas með þegar ég kom með sendingu til hennar. Alltaf með bros á vör.



(Því miður, þá á ég ekki til mynd af þeim hjónum. - En fann og kroppaði út mynd af Jóni frá hópmynd og er hún hér tilhliðar. Ekki fann ég mynd á netinu af þessum heiðursmanni, né konu hans.)

Gestur Fanndal.  - Ljósmynd: Kristfinnur 

Jón Stefánsson framkvæmdastjóri

Þarna er ég við hlið sendibílsins. Gestur Fanndal tók myndina

Gestur Fanndal var sérstakur karakter, mikill frumkvöðull. td. varðandi flugsamgöngur sem Siglfirðingar áttu honum miklar þakkir fyrir, þó fáir gerðu sér grein fyrir því hverju hann fékk framgegnt í þeim málum. 

Gestur átti þó einnig sína vankanta eða öllu heldur furðuleg máltæki og uppákomur. 

Einu atviki tengt Gesti man vel eftir og var einmitt einnig tengt Ástu sem nefnd er hér framar. Ásta hafði einstakan áhuga á bakstri, hún pantaði mikið af allskyns hráefni til baksturs miðað við það úrval sem þá var fáanlegt í verslunum á þeim tímum og alltaf fékk ég að smakka þessar kökur og brauð sem hún bakaði þegar mig bar að garði einu sinni til tvisvar í viku stundum oftar.

Eitt sinn sem oftar hafði hún pantað heilan helling af vörum, þar á meðal sykur, hveiti og fleira eins og gengur. Gestur gekk sjálfur frá pöntuninni í trékassann sem ég svo setti á bögglaberann og hjólaði af stað. Mikill hluti leiðarinnar var þó það brattur að ég þurfti að leiða hjólið, það er upp að Suðurgötu 46 þar sem Ásta og Jón bjuggu.

Heim að dyrum bar ég svo kassann og knúði dyra. Ásta kom brosandi til dyra eins og venjulega og bað mig að koma inn með kassann. Þar raðaði hún innihaldinu skipulega á eldhúsborðið og ég fylgdist með.

Ég sá að hún tók kipp og sagði "Hvar er sykurinn" ? Og bætti svo við, hér er enginn sykur en helmingi meira hveiti en ég bað um. Hún horfði á mig og spurði "Tók Gestur þetta til?" Án þess að bíða eftir svari tók hún síman og hringdi, í síma nr. 65 sem var sími Verslunar Gests Fanndal.

"Gestur, það kom enginn sykur en tvöfalt af hveiti en ég bað umm" sagði hún. Venjulega þegar Gestur ansaði í síma þá svaraði hann gjarnan með eins atkvæðis orði:  "Gestur"  

Það kom undrunarsvipur á Ástu sem síðar hristi höfuðið og lagði á án þess að segja meira. Hvort þeirra það var sem lagði á, á undan veit ég ekki en Ásta sagði mér brosandi um leið og hún hristi höfuðið að svar Gests hefði verið stutt og laggott. Hvað er þetta kona ertu ekki að baka, notarðu  ekki hveiti í bakstur? - Sykurinn kemur á morgun, og svo skellti Gestur á. 

Sykur hafði ekki verið til og karl setti bara hveiti i staðinn, en sykurinn sendi hann mig með strax daginn eftir til Ástu.

Ég réði mig ekki aftur til Gests Fanndal næsta sumarið, ég ætlaði að reyna fyrir mér á síldar plönunum næst.

Steingrímur