Árið 1939 - Borgarafundurinn

Borgarafundurinn                          Mjöl og Lýsissaga - Allt efni hér

Mjölnir, 15 desember 1939

Á þriðjudaginn er var, hélt Rauðkustjórnin almennan borgarafund i Bíó. Ástæðan til að þessi fundur var haldinn var sú, að á síðasta bæjarstjórnarfundi flutti Þormóður Eyjólfsson tillögu um að bæjarstjórn byði ríkisverksmiðjunni Rauðku til kaups fyrir 220 þúsund krónur.

Þetta mál afgreiddi bæjarstjórn með eftirfarandi tillögu: 

Þar sem bæjarstjórn hefir ekki áhuga fyrir að selja síldarverksmiðju bæjarins, Rauðku og ekkert kauptilboð liggur fyrir, sér hún ekki ástæðu til að taka það mál til umræðu og tekur fyrir næsta mál á dagskráa. 

Átta bæjarfulltrúar greiddu þessari tillögu atkvæði, en Þ.E. var a móti einn og varð hann svo reiður, þegar hann sá að enginn vildi leggja honum lið, að margir héldu að hann væri orðinn brjálaður.

Eftir bæjarstjórnarfundinn tilkynnti Þ. E. að hann myndi halda almennan fund um Rauðkumálið og flutti svo klukkutíma og tuttugu mínútna ræðu, fulla af margendurteknum staðleysum og ósannindum, en vegna þess að Óli Hertervig var að fara á annan fund, óskaði hann eftir því að Þ. E. yrði engu svarað í þetta sinn, en stjórn Rauðku myndi boða til almenns borgarafundar um málið og sá fundur auðvitað vel auglýstur, svo allir bæjarbúar fengju um hann að vita.

Allir bæjarfulltrúarnir féllust á tilmæli Hertervig, svo enginn svaraði Þ.E. 

Á borgarafundinum var Ó.Hertervig frummælandi og hrakti hann i ræðu sinni lið fyrir lið ósannindaþvælu Þ. E. - En í ræðu Þ.E. var uppistaðan þetta: 

Bæjarstjórn fór á stað með Rauðkumálið undirbúningslaust, enda var ég ekki spurður ráða, eini maðurinn í bæjarstjórn sem hefi vit á síldarverksmiðjurekstri. Bæjarstjórn lét engar teikningar gera eða kostnaðaráætlanir. Bæjarstjórn hafði aldrei tilboð um neitt lán.

Lán það, sem bæjarstjórn gat fengið, var svo dýrt og óhagstætt, að það var ekki gerlegt að byggja fyrir það síldarverksmiðju. (Menn taki eftir samræminu!) Rauðka fær engin skip.

Það myndi verða 800 þúsund krónum dýrara að stækka Rauðku upp í 5.000 mála afköst, en jöfn stækkun hjá Síldarverksmiðju ríkisins.

Það er svo áhættusamt að reka síldarverksmiðjur, að það er ekkert vit fyrir bæinn að leggja út í slíkt. Þessar staðhæfingar sínar kryddaði svo Þ. E. með illkvittslegum persónulegum árásum á ýmsa menn og jók það á fyrirlitningu fundarmanna fyrir þessum illa liðna manni.

En það, sem þó vakti mesta andúð, voru ásakanir sem Þ. E. kom með á Svein heitinn Hjartarson, um að hann hefði sagt Sigurði Kristjánssyni hvað gerðist á lokuðum fjárhagsnefndarfundi, þegar Goos eignakaupin voru rædd, þrátt fyrir gefin drengskaparloforð um að segja ekkert um hvað á fundinum gerðist.

Svo langt er nú liðið síðan umræddur fundur var haldinn, að erfitt er að sanna nokkuð um þetta mál, en allir Siglfirðingar munu lita svo á, að betra hafi verið að treysta drengskaparloforðum Sveins heitins heldur en Þ. E., en hvað sem því annars líður, má það heita götustráksháttur af ógeðslegasta tæi, að geta ekki séð dána menn í friði þótt andstæðingar hafi verið, en breiða út um þá rógsögur.

Þ.E. flutti þrjár ræður á borgarafundinum og tuggði upp aftur og aftur fullyrðingar sínar, þrátt fyrir sannanirnar, sem lagðar voru fram gegn þeim.

Auk þeirra O.Hertervig og Þormóðs töluðu margir aðrir menn, þ. á. Þóroddur Guðmundsson, Gunnlaugur Sigurðsson, Þráinn Sigurðsson, Kristján Sigurðsson, Aage Schiöth, Þ. Clementz og Eyþór Hallsson.

Allir voru ræðumenn sammála um að fordæma hina hneykslanlegu framkomu Þ.E. í Rauðkumálinu fyrr og siðar.

Á fundinum var lesið upp bréf frá Útvegsbankanum með tilboði um lánið og var það einmitt Þ. E. sem las upp bréfið, en gáði bara ekki að því, að bréfið var einmitt sönnunargagnið fyrir, að lánið stóð til boða.

Þórður Runólfsson vélaeftirlitsmaður ríkisins og Snorri Stefánsson hafa gert áætlun um kostnað við endurbyggingu og stækkun Rauðku og komist að þeirri niðurstöðu, að hún yrði öllu ódýrari menn töldu,

Áætlun Snorra um rekstur Rauðku sýnir líka, að það er mjög álitlegt að reka síldarverksmiðjur, enda hafa allar stærri síldarverksmiðjurnar á landinu stórgrætt undanfarin ár.

Það var einróma álit fundarmanna að fullyrðingar Þ.E. gegn áliti sérfræðinga, eins og Snorra og Þórðar, væru heldur lítils virði.

Það kom greinilega fram á fundinum, að menn töldu, að ef til þess kæmi að bærinn seldi Rauðku, mætti það ekki vera fyrir minna verð en 350-400 þúsund krónur, og það væri mikið æskilegra að hún kæmist þá í einstaklingseign, heldur en í eigu ríkisverksmiðjanna, sem eru hér svo að segja útsvarsfrjálsar. Þessi svik Þ. E., um að bjóða ríkisverksmiðjunum Rauðku til kaups fyrir 220 þúsund krónur, verða ekki skoðuð sem annað en tilraun til að sölsa undir ríkisverksmiðjurnar þessa dýrmætu eigu bæjarins fyrir smánarlega lágt verð, og með þetta fyrir augum samþykkti fundurinn einróma svohljóðandi tillögu: 

"Almennur borgarafundur, haldinn á Siglufirði 11. des. 1929, skorar á bæjarstjórn og stjórn síldarverksmiðjunnar Rauðku, að láta engum takast að ná verksmiðjunni úr eigu bæjarins fyrir lágt verð" 

Fundur þessi sýndi það greinilega, að stækkun Rauðku er ennþá mál allra Siglfirðinga og þeir standa saman um það gegn Þormóði Eyjólfssyni og þeim mönnum, sem vilja láta Kveldúlf og ríkisverksmiðjurnar halda áfram að féfletta sjómenn og útgerðarmenn án þess að upp rísi fleiri verksmiðjur í annarra eign, sem þá gæti orðið óþægilegir samanburður á.

Ekki var þessum fundi lokið fyrr en klukkan að ganga fjögur um nóttina, en tímanum, sem fór í þennan fund, er þó ekki illa verið, því að Siglfirðingar munu verða ennþá betur samtaka hér eftir en hingað til um Rauðkumálið, þegar sýnilegt er, að alvarlegar tilraunir er verið að gera til að sölsa undan bænum hina dýrmætu verksmiðju hans.