Upprifjun Leós

Í ágúst 2015

AF TILEFNI NÝLIÐINS SÍLDARÆVINTÝRIS 

Það er farið að líða nokkuð á ágústmánuð og nóttin er að verða til aftur eftir nokkurra vikna hvíld. Kvöldkyrrðin verður einhvern vegin meiri og skuggarnir sem teygja sig út frá húsunum verða bæði lengri og greinilegri. Það er farið að kvikna á ljósastaurunum. Síldarævintýrið tilheyrir nú liðinni tíð þó þeir sem það sóttu eigi eflaust líflegar minningar þaðan sem eru lítt farnar að dofna. 

En þær munu gera það því stóra tímahjólið er óstöðvandi. Eftir því sem minningasjóðurinn stækkar, vex fortíðarþráin að sama skapi og ég er ekki frá því að hún hafi siðbætandi áhrif á okkur mannfólkið. En kannski er það bara þroskinn og reynslan sem gerir okkur betri eftir því sem tímar líða. 

Fyrir fáeinum árum dvaldi ég á Siglufirði allan ágústmánuð og fylgdist með hinni afgerandi breytingu sem varð þá á bæjarbragnum. Hann hófst með árlegum enduróm af ævintýrinu mikla fyrstu helgina og fjöldi manns streymdi til bæjarins. Það var mikið líf og gleði í hverju koti og hverri höll. Göturnar fylltust af glaðsinna burtfluttum sveitungum mínum svo og öðrum sem komu til að blanda geði, eiga góðar stundir og njóta þess sem boðið var upp á. Það var aldeilis frábært. Þegar ég var ekki úti á götu, á bryggjurölti eða spjallaði við gesti sem ráku inn nefið, sat ég gjarnan við stofugluggann á Aðalgötu 28 beint fyrir ofan þar sem allt var að gerast og fylgdist með því sem fyrir augu bar. 

Í vikunni sem á eftir fór virtust ekkert endilega allir vera að flýta sér allt of mikið úr bænum og næstu helgi á eftir komu aðrir gestir í bæinn og síst færri. Reyndar mun fleiri sum árin. Það voru keppendur á Pæjumótinu, foreldrar þeirra og aðrir fylginautar. Aftur iðaði allt af lífi í u.þ.b. þrjá daga, en þó allt öðru vísi. Dagurinn var tekinn snemma og hann endaði líka snemma. Að minnsta kosti endaði hann aldrei að morgni næsta dags eins og helgina á undan. Langt því frá. En sú breyting hafði þó orðin á að í þetta skiptið þekkti maður varla nokkurn mann. Samt var gott að vita til þess að svona margt fólk sá ástæðu til að heimsækja bæinn okkar. 

Á mánudeginum eftir aðra helgi mánaðarins urðu skörp skil á bæjarbragnum. Allt varð svo kyrrt og hljótt á einni svipstundu að mér var eiginlega brugðið. Engin hlátrasköll lengur, eða söngur góðglaðra gesta sem héldu vöku fyrir þeim sem vildu sofa, eða allur ysinn og þysinn, kliðurinn, klappið og stappið. Bara þögn. Það var eins og risastór skæri hefðu klippt í sundur hljóðrás líðandi stundar. Þetta kvöld og þau næstu á eftir rak ég höfuðið margoft út um stofugluggann, en fyrir utan var ekkert að sjá. Ekkert annað en þögul húsin við Ráðhústorgið, kirkjuna sem stóð tignarleg fyrir ofan Lindarbrekku sem þó stendur aðeins eftir í minningunni og jú, gaflinn á bensínstöðinni við hinn enda götunnar. Sviðið við hliðina á fiskbúðinni hans Eysteins þar sem fjölmargir listamenn léku fyrir þúsundir áheyrenda fyrir fáeinum dögum, yrði tekið niður á næstunni og ekki reist aftur fyrr en eftir u.þ.b. 10 mánuði. 10 mánuði af hausti, vetri og síðbúnu vori. 

Sumrinu lauk kl. 24.00 á sunnudagskvöldi og á sama tíma byrjaði haustið. Á slíkum andartökum leita ég oft á náðir fortíðarinnar til að bæta upp nútímann. En nútíminn býður vissulega upp á bjartari tíð því nú er bærinn okkar orðinn miklu bjartari og fallegri, þar ríkir meiri litagleði og blómstrandi mannlíf. Kannski er yfirstandandi breytingar fyrirboði þess að haustinu fari að seinka og vorið kemur fyrr. Það yrði aldeilis af hinu góða. 

__________________________________________


...Það var allur gangur á þessu. En það var enginn ólifnaður á þessum stöðum, bara mannleg náttúra... 

...Stundum fórum við blá edrú og prúðir og uppáklæddir í heimsókn til stelpnanna í bröggunum og hjöluðum við þær.Undir niðri vorum við náttúrulega á veiðum. Þær líka. Hvers vegna ekki?... 

...Og hvernig er siðferðið í dag? Eyrun hefðu dottið af siðferðispostulunum fyrir stríð bara við það eitt að lesa það sem nú er skrifað í bækur og blöð um kynlíf, hvað þá annað og meira. Það var alltaf verið að smjatta á þessu braggalífi eins og þar væru eilífar hópreiðir og lostinn skvettist upp um alla veggi. Svona vísur ýttu undir smjattið 

Hausta tekur, héðan fer 

hópur meyja úr síldinni. 

Litla greyið á mér er 

orðið fegið hvíldinni. 

En margir þessi braggar voru eins og góðar heimavistir, lokað klukkan hálf tólf og enginn hávaði eftir það. Og þó að einum og einum sjóara væri smyglað inn gegnum glugga á kaðli, var það ekki meira en gerist á heimavistum um allt land í dag... 

...En auðvitað gat andrúmsloftið orðið rafmagnað og fiðringur neðan þindar þar sem hundruð og þúsundir stálhraustra manna og kvenna komu saman. Þá gerðu sumir eitthvað sem þeim fannst þeir hefðu ekki átt að gera. 

En lífið og mannleg náttúra fer sínu fram hvað sem hver segir. Og það fer vel á því. 

Þá höfum við það.“

----------------------------------------------------------------------

Litmyndir: sk, svarthvíta; ljósmyndari ókunnur.

Úr bókinni „Svartur sjór af síld“ eftir Birgi Sigurðsson. 

„Það sagði auðvitað sína sögu að síldarlífið var kallað „hjónabandsmarkaðurinn mikli“. En það segir ekkert um ólifnað. Hann var enginn. Það þótti óskaplega gróft ef ein stúlka brá sér drukkin úr brókinni úti við og veifaði henni eins og fána. Ég efast um að þetta þætti tiltökumál núna. 

En auðvitað var oft mikið drukkið og stundum gekk illa að ná mannskapnum saman eftir ball. Það gat stundum verið grátbroslegt...  

...Mig dreymdi hvorki ólifnað né fyllerí þegar ég fór á síld í fyrsta sinn. Ég var sextán ára og trúði því að ég myndi hitta prinsessuna. Það héldu allir strákar sem fóru á síld. Hún átti að vera frá einhverju smáplássi. Hrísey eða Dalvík, saklaus og yndisleg og auðvitað hrein mey. Það var náttúrulega fullt af prinsessum á þessum stöðum og sumar hafa áreiðanlega verið hreinar meyjar. En ég hitti aldrei neina þeirra, að minnsta kosti ekki þá réttu. 

En þegar ég spilltist hugsaði ég mest um að komast á fyllerí og kvennafar og missti áhuga á ástinni, því miður. Því minna sem varð um síldina, því meira hugsuðum við sumir um brennivín og kvenfólk. Auðvitað urðu ýmsir ástfangnir og sumir lentu í langvinnum ástarsorgum. Besti félagi minn kastaði sér fyrir borð (fullur að vísu) út af stelpu á Siglufirði sem elskaði hann of lítið. Við náðum honum inn aftur og þá grét hann einhver ósköp...