Vinnan um borð + Vistaverur um borð+ Áhugamálin um borð + Fyrsta siglingin + Síldarmiðin og + Saltað um borð + Hafísinn 1968 + Haförninn;upplýsingar + Í Austur þýskalandi + Formalin slys + Splæsing og anker + Ofsaveður + Hrævareldar í Belgíu + Óvænt kokkur + Skoðunarmenn + Kerosene-farmur + Skrítinn heimur + Vélarbilun á á leið til London + Vitavörðurinn heimsóttur + Ýmis minnisbrot + Var síldin ofveidd ? + Glefsur úr dagbók + Sigurður Þorsteinsson skipstjóri + Guðmundur Arason, stýrimaður, skipstjóri + Pálmi Pálsson, 2. stýrimaður + Jón Garðarsson 3. Stýrimaður + Bergsteinn Gíslason, loftskeytamaður + Ægir Björnsson, bátsmaður + Sigurður Jónsson háseti / bátsmaður + Sigurjón Kjartansson, háseti, dælumaður + Valdimar Kristjánsson + Sverrir Torfason, bryti + Snorri Jónsson, rafvirki
Fyrsta siglingin mín. (1966)
"Að fara í siglingu," var það oft nefnt þegar togararnir forðum, Elliði og Hafliði áttu að fara með aflann á markað til Englands eða Þýskalands.
Hvort þetta máltæki var þekkt fyrir tíð nýsköpunartogarana þekki ég ekki, en hér ætla ég að segja frá minni fyrstu utanlandsferð "siglingu."
Öllum undirmönnum á Haferninum hafði verið sagt upp frá og með 10 desember 1966
Skipið hafði legið aðgerðalaust í nokkrar vikur, eða frá byrjun nóvember er síðasti síldarfarmurinn kom með skipinu til Siglufjarðar.
Ekki hafði þótt hvetjandi að sigla með lýsi út vegna mjög lágs verðs á markaði, var okkur sagt.
Í þessum uppsagnarhópi voru allir hásetarnir, bátsmaður og timburmaður, dælumaður, 2. matsveinn, rafvirki, smyrjari
(sem jafnhliða var kyndari), messi og 4. vélstjóri.
Ég var einn af þeim heppnu sem gat farið beint í vinnu hjá S.R. í landi.
(fast ráðinn starfsmaður SR)
Flestir urðu atvinnulausir, þetta var slæmt ástand, ekki síst vegna þess að lítið sem ekkert var um vinnu á Siglufirði á þessum tíma, svo og var stutt til jóla.
Það var svo um miðjan desember, 16 +/- minnir mig, að skipverjarnir fyrrverandi voru kallaðir fyrir, og boðið pláss sitt aftur, sem og allir þáðu.
Náðst höfðu hagkvæmir samningar um einn lýsis farm til lýsis herslu- verksmiðju í Karlshamn í Svíþjóð, auk þess sem samið hafði verið um að skipið tæki 3-4 farma af olíu í Hollandi fyrir olíufélögin heima og flytja þá til Íslands.
Farið var í að gera skipið klárt til móttöku á lýsi um borð og byrjað var að lesta, fyrst á Siglufirði, og svo voru allir tankar fylltir á Raufarhöfn.
Það var töluverð spenna á meðal flestra, ekki síst þeirra sem ekki höfðu áður farið til útlanda, þar á meðal var ég timburmaðurinn.
Það mátti litlu muna að við kæmust út frá Raufarhöfn, þar sem skipið var fulllestað og höfnin bæði þröng og grunn.
Skipverjar á Haferninum Siglufirði, einhversstaðar úti á Atlantshafi árið 1968: Flottir og góðir vinir, sem og allir skipverjarnir, frá A til Ö
Talið frá efst til vinstri, til neðsta:>
Sigurður Jónsson háseti, bátsmaður
Steingrímur Kristinsson timburmaður
Gunnar Tómasson háseti
Sigurjón Kjartansson háseti, dælumaður
Birgir Þórbjarnarson háseti, stýrimaður
Ægir Björnsson, bátsmaður, stýrimaður og
Guðmundur Björnsson háseti, dælumaður.
Ljósmynd; Pálmi Pálsson á myndavél mína: (SK)
Bíða þurfti eftir flóði. Svo bætti ekki úr skák að kominn var þéttur vindur af norðri og farið að auka í sjó.
En mennirnir í brúnni vissu hvað þeir voru að gera og allt gekk slysalaust.
Það var ekki laust við að ég kviði siglingunni, því veðurstofan hefði spáð 8-10 vindstigum austur af landinu og vænta mátti meiri ölduhæðar með tilheyrandi vanlíðan hjá mér, sjóveikum.
Það þarf vart að taka það fram að Haförninn var rétt kominn út úr höfninni er sjóveikin fór að grassera hjá mér og það all rausnarlega.
En sem betur fer var stutt í að vaktinni lyki. Matarlistin var ekki upp á marga fiska og því litla sem mér tókst að innbyrða við kvöldverðarborðið, og var fiskunum í sjónum gefin stuttu síðar.
Ég hafði sofnað fljótt og ég vaknaði ekki fyrr en um morguninn við ræs til morgunverðar og á dagvaktina.
Ekki segir mikið af ferðinni yfir hafið fyrr en að morgni aðfangadags jóla. Þá vorum við staddir á Norðursjó.
Þegar ég var á leið til morgunverðar áttaði ég mig á því að eitthvað óvenjulegt var við hreyfingu skipsins, en skeytti því þó litlu og fékk mér morgunverð ásamt félögum mínum. Sjóveikin var í lágmarki þá stundina.
Ég fór upp í brú til að spyrja stýrimann um hvort eitthvað sérstakt verkefni væri fyrir timburmanninn.
Ég varð agndofa af undrun er ég leit út um brúargluggann. Geysiháar öldur og ekki sást í dekkið nema öðru hvoru, og stundum hurfu sniglarnir sem voru hátt yfir dekkinu á kaf í sjólöðrið, en skipið sem var í 10-12 vindstiga stormi hreyfðist varla, og það var enginn veltingur.
Ég gleymdi sjóveikinni og varð á orði. "Eru svona öldur algengar á úthafinu?" Sigurður skipstjóri svaraði eitthvað á þessa leið:
"Nei Steingrímur, sem betur fer. Ég er búinn að vera lengi til sjós og aldrei séð álíka öldur, né verið á kafbáti fyrr."
Hann glotti lítillega, en ekki var alvarleikinn í andliti hans fjarri sýndist mér. Sama var að segja um Guðmund Arason 1. stýrimann og Pálma Pálsson 2. stýrimann, sem einnig voru þarna í brúnni.
Þeir félagar voru undrandi á því hve skipið virtist rista djúpt. Þeir höfðu beðið vélstjórana að kanna hvort botntankarnir sem venjulega voru og áttu að vera tómir þegar skipið var lestað, væru það ekki örugglega.
Vélstjórarnir sögðust vera búnir að totta alla tankana og þeir væru allir tómir.
Svona leið dagurinn, sama ölduhæð og svipaður vindstyrkur og skipið á fullkomnu lensi, nánast enginn veltingur og heilsan bara þokkaleg.
Það var jólalegt og góður matarilmur sem fyllti vistaverur skipsins þegar leið að kvöldverði, og ekki urðu skipverjar fyrir vonbrigðum með matinn sem þeir félagar Sverrir Torfason bryti og Jón Rögnvaldsson 2. matsveinn, ásamt Jónasi Bjarnasyni messa, báru á borð.
Ekki man ég hvað var í matinn, en ég man eftir því að matarlistin var nokkuð góð, þrátt fyrir örlitla velgju.
Mér er minnisstætt að þegar við sátum við matarborðið að skipið hreyfðist varla miðað við hinar risastóru öldur sem siglt var í, að á miðju borðinu voru tveir háir kertastjakar með logandi kertum á í tilefni jólanna, og að botn kertatastkjanns var á stærð við botn á venjulegri vínflösku, og stóðu þarna eins og steyptir við borðið.
Til marks um ölduhæðina þá kom það nokkrum sinnum fyrir að alda, ekki brot, náði að gefa duglegar slettur upp á bátadekk og skall sjórinn þá fram undir brúna með slíkum skell að kítti (svokallað Shell kítti) sem var meðfram rafmagnsköplum sem lágu í rörum upp í brúna, spýttust upp í brúarloftið ásamt duglegum sjóstrolla.
Um 80 sm. bil, hæðarmunur var á milli bátadekks og brúargólfs, opið pláss sem ma. var notað sem geymsla fyrir ýmislegt.
Síðar, þegar Haförninn var kominn inn á Skagerrak hafði vind lægt verulega og nokkuð stilltur sjór.
Stefnan var tekin inn á Kattegat, og siglt inn á ytrihöfn Kaupmannahafnar. Þangað var skilað farþega sem hafði verið með.
Það var Kristján Stefánsson skrifstofumaður SR, sem var að heimsækja fjölskyldu sína, en kona hans var dönsk.
Þegar komið var inn á lygnan sjó á ytri höfninni, tók að sjálfsögðu á móti okkur hafsögu maður, sem gerði sér lítið fyrir og kærði skipstjórann vegna ofhleðslu skipsins, en sjór flaut yfir dekkið miðskips og það voru um 60-70 sentimetrar niður á löglegt hleðslumerki sem auðvitað sást ekki, en var á hlið skipsins samkvæmt alþjóðalögum.
En þegar komið var inn á lygnan sjó ályktaði skipstjórinn og fleiri að eitthvað vantaði á þekkingu vélstjóranna á dælu búnaðinum niðri í vélarrúmi, og skipstjórinn heimtað að þeir dældu úr botn tönkunum strax, en það verk hófst of seint og kostaði nokkur þúsund danskra króna í sekt.
Það kom síðar í ljós, að þegar vélstjórarnir höfðu talið sig vera að dæla úr tönkunum, þá fylltu þeir alla botn tankana og var skipið því ofhlaðið um 400 tonn að því að sagt var.
Ekki fékk skipið að yfirgefa höfnina fyrr en botn tankarnir voru tómir og skipið á réttu hleðslu merki.
Næsti áfangi var svo Karlshamn í Svíþjóð, þar var lýsisfarmurinn losaður. Það sem vakti athygli okkar þar var, að eftir að tankadælur náðu ekki að dæla meiru af lýsi úr tönkunum, þá kom hópur manna á bryggjuna. Þeir komi einn og tveir í hverjum fólksbíl að gerðinni Bens, þeir komu um borð og fóru niður í tankana og unnu þar verk sem kallað er að svípa.
Það er að veggir tankanna voru þaktir lýsis klístri, þykku lagi, sérstaklega á útsíðum tankana vegna -10 °C frost sem úti var.
Þeir unnu við að skafa lýsið og fleyta því að dæluopunum.
Þetta var mjög vel launað starf og báru kaggar þeirra merki um það. Þegar þeir voru spurðir hvernig í ósköpunum þeim dytti í hug að koma á svona flottum bílum í svona lyktarsterka vinnu eins og þeir stunduðu.
Þá var svarið einfalt. þetta eru vinnubílarnir okkar, nýjasta árgerðin af Bens er heima á hlaði.
Frá Svíþjóð var svo farið til Rotterdam í Hollandi og þangað sótt olía, sem siglt var með heim til Íslands.