Leó R Ólason skrifar
ÞAÐ VAR GOTT
AÐ HAFA TRAUSTAN MANN Á SAUÐANESI
Íbúðarhúsið á Sauðanesi við Siglufjörð
Ljósmynd. Leó R Ólason
Það mun hafa verið seint á árinu 1977 þegar ég var nýlega byrjaður að spila með Miðaldamönnum, að við vorum að koma úr einhverju spilaferðalagi nokkuð langt að. Tíðin hafði verið rysjótt í meira lagi dagana þar á undan og það hafði sett niður einhvern snjó.
Það þótti því skynsamlegt að gista þar sem við spiluðum og halda þá frekar heim á sunnudeginum sem við gerðum, en á þessum tíma voru meðlimirnir fjórir; Magnús Guðbrandsson, Birgir Ingimarsson, Sturlaugur Kristjánsson og ég.
Það bætti í snjóinn á sunnudeginum og var færðin farin að þyngjast talsvert á Almenningunum. Þegar við komum að skýlinu sem þá var sunnan við Mánárskriðurnar var ekki lengra komist, enda farið að blása talsvert og draga í skafla.
Við reyndum þó aðeins við Skriðurnar, en festum bílinn strax og vorum dágóða stund að losa hann. Skyggnið varð fljótlega aðeins örfáir metrar og veðurhæðin fór vaxandi. Við höfðum orðið hundblautir í gegn við að losa bílinn, enda engan veginn klæddir fyrir svona slark.
Á þessum árum vorum við allir milli tvítugs og þrítugs og ekki búnir að temja okkur þá fyrirhyggju sem við öðluðumst síðar.
Við komum bílnum fyrir í vegkantinum og gengum að skýlinu þar sem við fundum nokkra súpupakka og kveiktum á prímus sem þar var. Snjó sóttum við út fyrir dyrnar og bræddum hann í súpuna sem tók strax úr okkur mesta hrollinn.
Úr skýlinu náðist líka samband við Siglufjarðarradíó og við gátum látið vita af okkur.
Eftir nokkurra klukkustunda dvöl hafði aðeins dregið úr vindinum og við töldum okkur vera tilbúna í næsta áfanga sem var að ganga heim eða í það minnsta á Sauðanes.
Okkur fannst svona í huganum ekkert mjög langt þangað, en við áttum svo sannarlega eftir að skipta um skoðun í þeim efnum. Það var því haldið af stað í halarófu og gengið upp veginn eins og hann lá á þeim tíma, þ.e. hátt upp í Mánárskriðurnar. Brekkan var löng og brött og eftir því sem ofar dró versnaði veðrið til mikilla muna og að lokum sáum við vart handa okkar skil fyrir kófi.
Þá tókum við til þess ráðs að leiðast, þó án þess að nokkur einasta rómantík væri með í spilinu. En þrátt fyrir það urðum við viðskila við Magnús sem tókst að villast niður fyrir vegbrúnina. Við fundum hann þó fljótlega og náðum að draga hann aftur upp á veginn. Ég man að mér var orðið svo kalt á eyrunum að ég hélt hreinlega að þau væru dottin af, en þeir Magnús og Birgir höfðu fundið einhverja klúta annað hvort í bílnum eða skýlinu og bundu þá um höfuð sér. Þeir litu því út eins og gamlar kerlingar með skýluklúta og ég man að við Sturlaugur hentum gaman af. Það var þó ekki nema framan af, því við gerðum okkur fljótlega grein fyrir gagnsemi búnaðarins.
Áfram var haldið og við seigluðumst einhvern vegin áfram niður skriðurnar að norðanverðu og um Mánárdalinn.
Nokkrum sinnum þurftum við að stoppa til að hvíla lúin bein og þjöppuðum okkur þá saman í hnapp og drógum úlpurnar upp fyrir haus til að freista þess að fá svolítinn hita í toppstykkið, en svo var haldið áfram. Gangan virtist endalaus, þreytan fór vaxandi svo að segja með hverju skrefi, og hið sama mátti segja um skaflamyndunina á veginum. Okkur var satt best að segja ekkert farið að lítast á blikuna.
Það glaðnaði því mikið yfir hópnum þegar allt í einu grillti í ljósglætu fram undan. Hún hvarf þó nánast strax aftur í sortanum, en birtist fljótlega aftur og þá vorum við nokkur vissir um að ekki hefði verið um einhverjar ofskynjanir að ræða í fyrra skiptið.
Annað hvort var þarna á ferðinni bíll sem kom á móti okkur eða ljósin á Sauðanesi, og við tókum auðvitað stefnuna á flöktandi ljósið. Leiðin lá þá fram af vegkantinum, yfir girðingu, en endaði við útidyrnar hjá vitaverðinum. Það voru svo þreyttir menn sem bönkuðu upp á að þeir máttu vart mæla þegar lokið var upp og heimilisfólkið horfði forviða á þessa óvæntu gesti sem báru sig heldur aumlega.
Eftir að Trausti og fjölskylda hans hafði áttað sig á að hér var mætt heil hljómsveit sem hafði greinilega lent í einhverjum hrakningum, stóð ekki á viðbrögðunum. Menn voru drifnir inn og hellt ofan í þá heitu kaffi með fáeinum viðbættum brennivínstárum.
Ég var með takmarkaðri meðvitund meðan ég skynjaði að strákarnir sögðu ferðasöguna til skiptis í samhengis litlum bútum.
Það var svo einhverjum klukkutímum síðar að (mig minnir) Ingi Bald (Ingimar Baldvinsson) sótti okkur á Bronco jeppanum sínum, og við gengum upp á veg til móts við hann, en þá var farið að draga talsvert úr veðurhæðinni.
Nú er höfðinginn á Sauðanesi orðinn 100 ára og ég vil fyrir hönd félaga minna frá þessum tíma óska honum innilega til hamingju með stórafmælið og bera honum þakkir okkar fyrir viðtökurnar forðum daga.
Trausti Breiðfjörð Magnússon og eiginkona hans var Hulda Jónsdóttir
Ljósmynd: Leó R Ólason
Upplýsingar frá ChatGPT
Vitavörðurinn á Sauðanesvita við Siglufjörð hét Trausti Breiðfjörð Magnússon og eiginkona hans var Hulda Jónsdóttir.
Trausti fæddist 13. ágúst 1918 í Kúvíkum í Reykjarfirði. Árið 1959 hóf hann störf sem vitavörður á Sauðanesvita, og bjuggu þau hjónin þar til ársins 1998, þegar þau fluttu til Reykjavíkur.
Þau eignuðust fimm börn: Sólveigu (sem einnig var kölluð Hulda) Margréti, Magnús Hannibal, Vilborgu og Jón Trausta. Hulda átti einnig soninn Braga úr fyrra sambandi.trolli.is
Trausti lést 13. mars 2019, 100 ára að aldri.