GUÐLAUGUR SIGURÐSSON, skósmiður sjötugur. Mjölnir 26. júlí 1944
20. þ. m. átti sjötugsafmæli einn af merkustu borgurum þessa bæjar, Guðlaugur Sigurðsson, skósmiður.
Allir Siglfirðingar, sem komnir eru til vits og ára þekkja Guðlaug, og flestir munu hafa komið til hans á verkstæðið og heyrt hin glaðværu tilsvör hans og hnyttni.
Guðlaugur byrjaði að nema iðn sína ungur að aldri, aðeins 15 ára gamall. Hefur hann því stundað hana nú í samfleytt í 55 ár. Fyrst átti hann heima á Akureyri. Þegar hann hafði lokið námi sigldi hann til Kaupmannahafnar til að kynna sér iðn sína betur. Dvaldi hann þar um nokkurt skeið. Það mun hafa verið fátítt í þá daga, að iðnaðarmenn færu til útlanda til menntunar og hefur þurft mikinn dugnað og áræði til.
Flestir létu sér nægja að ljúka prófi hér heima og byrjuðu síðan á sjálfstæðum rekstri. En Guðlaugi var það ekki nóg, að fá prófstimpilinn, honum nægði ekki minna en það, að hann hefði til brunns að bera þá bestu þekkingu í iðn sinni, sem hægt var að veita sér. Eigum við Íslendingar mikið að þakka Guðlaugi og mönnum með hans hugsunarhátt. Það eru þeir, er fleytt hafa verklegri menningu okkar fram á leið, gerst boðberar nýrra vinnuaðferða og framfara. Þann hugsun nærhátt ber okkur að heiðra ekki síður nú í dag heldur en áður.
Árið 1917 fluttist Guðlaugur og kona hans Petrína Sigurðardóttir hingað til Siglufjarðar. Hafa þau búið ávallt hér síðan. Hefur heimili þeirra verið orðlagt fyrir myndarskap og gestrisni, enda eiga þau marga vini bæði hér í bæ og annarsstaðar. Guðlaugur er maður greindur vel og víðsýnn. Hefur hugur hans jafnan hneigst til fylgis við baráttu alþýðunnar og baráttu framfara aflanna í þjóðfélaginu gegn kúgun og afturhaldi.
Guðlaugur Sigurðsson skósmiður
Ljósmynd fylgdi minningargrein Mjölnis (löguð AI-sk)
Honum er öðruvísi farið heldur en mörgum jafnöldrum hans, sem gerst hafa bölsýnir og afturhaldssamir með aldrinum. Það er eins og jafnvel, að hann hafi orðið frjálslyndari, skynjað betur hræringar hins nýja tíma eftir því, sem árin hafa færst yfir hann.
Það er hressandi að hitta fyrir sjötuga menn, sem ennþá eiga eld æskunnar, sem fylgjast af áhuga með baráttunni, er fram fer í kringum þá og eiga ennþá óslökkvandi þrá eftir sigri hins unga og framfarasinnaða. Það eru menn, sem ekki eldast, þótt árin færist yfir þá. Slíkur maður er Guðlaugur.
Mjölnir flytur Guðlaugi einlægustu árnaðaróskir í tilefni af .afmælinu og óskar honum langra lífdaga, svo að hann fái að sjá sem mest af ávöxtum þeirrar baráttu, er hann hefur jafnan fylgt af lífi og sál.
**********************************************************************************
Guðlaugur Sigurðsson skósmiður MINNINGARORÐ Mjölnir - 20. júlí 1949
Guðlaugur Sigurðsson, skósmíðameistari er fæddur á Ölduhrygg í Svarfaðardal 20. júlí 1874, og hefði því orðið 75 ára í dag, ef honum hefði enst aldur. Foreldrar hans voru Guðrún Friðriksdóttir og Sigurður Jónsson bóndi að Öldulhrygg. Var Guðlaugur yngstur af 8 börnum þeirra hjóna. Þrjú systkinanna létust ung, en fimm komust til fullorðinsára. Er nú aðeins eitt þeirra á lífi. Sigurður faðir Guðlaugs fórst með hákarlaskipi er Hreggviður hét, þegar Guðlaugur var á fyrsta ári, en Guðrún bjó áfram á Ölduhrygg með börnum sínum. Veitti elsti sonur hennar búinu forstöðu. Lést hann er Guðlaugur var 5 ára. Tók þá móðurbróðir Guðlaugs, Snorri Jónsson skipasmiður á Akureyri og kona hans, Sigríður Lovísa Loftsdóttir, drenginn í fóstur, og dvaldi hann síðan hjá þeim til fullorðinsára.
Fósturforeldrar Guðlaugs voru all vel efnum búin, og mun hann hafa alist upp við gott atlæti. Hann stundaði nám einn vetur hjá sr. Jónasi Jónassyni á Hrafnagili, en 15 ára byrjaði hann að nema skósmíðaiðn hjá Valdemar Gunnlaugssyni skósmíðameistara á Akureyri. Er hann hafði lokið námstímanum, sigldi hann til Kaupmannahafnar til að nema iðn sína betur en kostur var á hér heima, og stundaði jafnframt verslunarnám. Þegar heim kom lauk hann sveinsprófi ,og gekk síðan í félag við Valdimar, og hélst sá félagsskapur þar til Valdemar dó.
Guðlaugur kvæntist árið 1900 Petrínu Sigurðardóttur frá Staðarhóli í Siglufirði.
Bjuggu þau á Akureyri þar til 1917, er þau fluttu hingað til Siglufjarðar. —
Þau eignuðust 5 börn, dóu tvö ung, en hin 3 eru á lífi,
Sigrún g Guðlaugsdóttir gift Óla Henriksen,
Óskar Guðlaugsson, skósmíðameistari hér í bæ og
Sigríður Lovísa Guðlaugsdóttir, gift í Reykjavík.
Ennfremur tóku þau eitt fóstur barn,
Sigríður Lárusdóttir, systurdóttur Petrínu, og ólu hana upp sem sitt barn. Petrína er látin fyrir tæpum fimm árum.
Er Guðlaugur var hálffimmtugur að aldri ,kenndi hann fyrst þess sjúkleika er dró hann til dauða, en það var astmi. —
Ágerðist sá sjúkdómur með aldrinum og átti hann erfitt með að komast nokkuð út síðustu árin. Þó vann hann á verkstæði sínu og Óskars sonar síns, eins lengi og kraftar frekast leyfðu, En í desember í vetur varð hann þó að hætta.
Hafði hann þá unnið við iðn sína í rúm 59 ár. Þótt skósmíði væri aðalstarf Guðlaugs, fékkst hann við ýmislegt annað, t. d. rak hann skóverslun á Akureyri og hér í allmörg ár; vann i æsku að smíðum o. fl. með fóstra sínum; sá um síldarsöltun fyrir hann hér á Siglufirði á sumrum og fékkst við útgerð upp á eigin spýtur í mörg ár, og aflaði sér á þann hátt gjaldeyris fyrir efni, verslunarvörum, áhöldum o.þ.h.. —
Hann var fyrsti fulltrúi skósmiða hér á Siglufirði í iðnráði bæjarins, og naut ætíð trausts og vinsælda stéttar bræðra sinna sem og annara sem kynntust honum. Guðlaugur heitinn var greindur maður, vel lesinn og fróður, og víðsýnn í skoðunum.
Með þjóðfélagsmálum fylgdist hann sérstaklega vel, og gerðist snemma ákveðinn og einlægur talsmaður sósíalismans. Fylgdi hann jafnan þeim að málum er róttækastir voru, fyrst Alþýðuflokknum, síðan Kommúnistaflokknum. og síðan Sósíalistaflokknum.
Standa siglfirskir sósíalistar í mikilli þakkarskuld við hann, og eiga góðum fylgismanni á bak að sjá, þar sem hann er.
Guðlaugur heitinn var grandvar maður til orðs og æðis, gæddur frábæru jafnaðargeði og glaðlyndur svo að af bar. Munu þeir kunningjar hans vera fáir, sem hann hefur ekki komið oftar en einu sinni til að brosa með kímni sinni. Sjúkleika sinn bar hann þannig, að aldrei heyrðist til hans æruorð, og mun álykt fátítt um menn sem eiga við aðra eins vanheilsu að stríða sem hann, og hélt glaðværð sinni til hins síðasta. Vill Mjölnir hér með fyrir hönd hinna mörgu vina og kunningja Guðlaugs heitins, votta börnum hans og öðrum nákomnum vandamönnum dýpstu samúð yfir fráfalli hans. Þegar ég fluttist hingað til Siglufjarðar, var Guðlaugur heitinn Sigurðsson skósmiður einn þeirra Siglfirðinga, sem ég kynntist þá fljótlega. Þau kynni héldust fram til þess síðasta. — Það var oft, sem litið var inn á skóverkstæðið í Suðurgötu 8, og þar talað um daginn og veginn.
Mér fannst sem ég sækti þangað alltaf eitthvað nýtt: fræðslu, uppörvun og aukna bjartsýni á menn og málefni. Guðlaugur Sigurðsson var vel lesinn maður og kunni að tileinka sér það besta af því sem hann hafði lesið, enda var maðurinn prýðilega vel gefinn.
Þrátt fyrir það, að hann stundaði ekki almenna verkamannavinnu, gerðist hann meðlimur í verkamanna samtökunum, var t. d. meðlimur Verkamannafélags Siglufjarðar og gekk svo yfir í Þrótt þegar félögin voru sameinuð. Hann var eldheitur verkalýðssinni, trúði á sigur alþýðunnar og fylgdist vel með öllu sem gerðist á þeim vettvangi, bæði utanlands og innan, og aldrei sá maður Guðlaug eins glaðan og ánægðan eins og þegar sigur hafði unnist, t.d. í kaupdeilu.
Þessum áhuga og samúð með samtökum fólksins, fyrir bættum hag og réttlátara þjóðskipulagi, hélt hann til dauðadags, þrátt fyrir háan aldur og langvarandi veikindi. Við fráfall Guðlaugs Sigurðssonar skósmiðs eiga Siglfirðingar á bak að sjá mjög góðum og nýtum þegni, sem búinn var að starfa hér í bænum yfir 30 ár, og sem með hinni sérstaklegu prúðmannlegu framkomu og góðu viðmóti hafði áunnið sér hvers manns hylli og virðingu. Minning um menn eins og Guðlaug Sigurðsson lifir í hug þeirra, sem þeim kynnast. —
Blessuð sé minning þín, Guðlaugur Sigurðsson.
G. Jóhannsson
****************************************************************
Mig setti hljóðan, þegar ég frétti að minn gamli og góði vinur, Guðlaugur Sigurðsson, væri látinn. Þetta var þó nærri 75 ára gamall maður og hafði átt við vanheilsu að stríða um nokkurt skeið. Má því segja, að fráfall hans væri aðeins það, er vænta hefði mátt á hverri stundu. En þó var það svo, að í hvert skipti sem ég átti tal við Guðlaug fór ég af hans fundi með allt annað en hugsanir um dauðann.
Áhugi Guðlaugs fyrir öllum framförum og nýjungum var svo mikill, að nærri einsdæmi er um gamlan mann. Gjörsneyddur öllum fordómum, víðsýnn og framfarasinnaður var hann jafnan og í viðræðum við hann varð maður þess aldrei var, að hann væri orðinn gamall maður, heldur þvert á móti. —
Guðlaugur hafði mikinn áhuga fyrir félagsmálum og fylgdist af lífi og sál með öllum framförum á því sviði og átti verkalýðshreyfingin óskipta samúð hans. Vinir hans voru oft undrandi yfir hve glöggur og skarpskyggn hann var, þegar um deilumál var að ræða innan verkalýðshreyfingarinnar. En þar kom til greina fordómalaus og heiðarleg rannsókn, sem honum var svo tamt að beita.
Góðvild Guðlaugs í garð allra manna hefur ætíð verið viðbrugðið, enda vildi hann gera öllum mönnum gott.
Við fráfall þessa merka og góða drengs er söknuður i huga flestra Siglfirðinga, en mestur er söknuðurinn þeirra sem þekktu hann best.
Þ.
********************************************************
Neisti
Guðlaugur Sigurðsson Sl. laugardag var til moldar borinn einn ágætasti borgari þessa bæjar, Guðlaugur Sigurðsson, skósmíðameistari. Guðlaugur heitinn var fæddur á Ölduhrygg í Svarfaðardal 20. júlí 1874. Hingað til Siglufjarðar fluttist Guðlaugur 1917, ásamt konu sinni, Petrínu Sigurðardóttur. Þau hjónin eignuðust 5 börn, dóu tvö ung, en hin 3 eru á lifi, Sigrún, gift Óla Henriksen. Óskar skósmíðameistari hér í bæ og Sigríður, gift í Reykjavík. Guðlaugur heitinn var fróður maður og skynsamur vel og fær í sinni iðn. Hann var maður glaðlyndur, fyndinn og skemmtilegur félagi.
Guðlaugur heitinn hafði átt við mikla vanheilsu að stríða, sem hann bar með sérstakri þolinmæði. 1. desember í vetur hætti hann með öllu að vinna á skósmíðaverkstæði þeirra feðga, og hafði þá unnið við iðn sína í rúm 59 ár. Með Guðlaugi Sigurðssyni er hniginn í valinn og til moldar borinn einn af þeim athafnamönnum, sem Siglufjörður stendur í ómetanlegri skuld við.
Blessuð sé minning Guðlaugs Sigurðssonar.