Herbergið mitt um borð
Herbergið mitt um borð í Hvalvík
Fyrst þegar ég kom um borð í Hvalvíkina, þá var mér vísað til herbergis þar sem hásetarnir höfðu aðsetur, neðarlega í skipinu.
Ekki þótti mér, það nálgast það sem ég átti að venjast áður um borð í Haferninum. Ég hafði fljótlega séð herbergi, sem samkvæmt merkingu var ætlað 4. vélstjóra. Enginn fjórði vélstjóri var um borð, en herbergi "honum" merkt, var fullt af allskonar drasli sem tilheyrði vélarúminu.
Ég samdi við skipstjóra og 1. vélstjóra um að fá þetta herbergi til afnota.
Ég mundi laga það og snyrta svo það yrði íbúðarfært, ég mundi gera það í mínum frítíma. -- Ekki man ég nákvæmlega hvar við vorum staddir, þegar vélstjóra liðið tók sig til við að hreinsa draslið út úr herberginu, sem ýmu var hent beint í sjóinn eða flutt niður í vélarrúm. það tók stuttan tíma.
Myndir neðst á síðunni
Ég tók mig svo til við að þrífa óhreinindin af veggjunum. Eftir það kom í ljós að undir óhreinindunum leyndist ljós og flott formica klæðning. Gólfið aftur á móti var vægt til orða tekið, ömurlegt.
Gólfdúkurinn sem þar kom i ljós var skemmdur eftir harða viðkomu þungra hluta og götóttur að auki.
Ég reif dúkinn af og ákvað að mála svo gólfið. Það gerði ég en var ekki ánægður. Ég mældi gólfflötinn og rissaði á blað helstu lengdir og breiddir. Fór svo í land. (man ekki hvar, sennilega í Keflavík) Ég fann þar verslun sem seldi gólfteppi. Ég valdi mér þykkt drapplitað teppi, borgaði og setti á öxl mína, og fór með um borð.
Síðan breiddi ég úr teppinu á aftari lestarlúguna og sneið svo eftir rissinu áðurnefnda. Fór þar á eftir með teppið inn í hina nýja vistarveru, mína og skellti á gólfið. Teppið smell passaði og ilmurinn frá teppinu angaði um herbergið.
Ég hafði áður, en teppið kom flutt mitt hafurtask inn í herbergið og sofið þar nokkrar nætur. En þennan dag um kvöldið voru landfestar leystar og haldið á haf út.
þegar vakt minni var lokið eftir "landfestar," opnaði ég ísskápinn minn góða, og fékk mér í glas af ísköldum bjór og leit hreykinn yfir herbergi mitt. Ég svaf vel þessa nótt.
Áhöfnin hafði fylgst vel með þessum aðförum mínum. Sumir ráku upp stór augu þegar þeir litu inn í herbergi mitt. Þetta var sennilega snyrtilegasta herbergið um borð, að minnsta kosti á meðal undirmanna sem ég taldist til. Þó svo að timburmaður væri í sama flokki og bátsmaður, aðeins "hærra" settir en hásetar og undirmenn í vél.
Ég hafði þó það fram yfir bátsmanninn, að ég bar enga ábyrgð á hásetunum gagnvart mínum yfirmönnum. Ég réði að mestu mínum vinnutíma. Að því undanskyldu að bátsmaður gat beðið stýrimann um að ég hjálpaði til með ýmislegt sem flýta þurfti.
Til dæmis að ljúka málningarvinnu ef von væri á rigningu osfv. Bátsmaður gat snúið sér beint til mín um beiðni vegna ýmissa smátilvika, en ekki gefið mér bein fyrirmæli.
Allt í góðu samkomulagi, svipaðar reglur höfðu einnig verið á Haferninum forðum.
Svo var jú fastur liður timburmanns og háseta, þegar komið var að landi, og lagst að bryggju og eða lagt frá bryggju. Þar ásamt fleirum, að sjá um "endana" undir stjórn 1. stýrimanns fram á bakkanum.
Bátsmaður, hásetar og stýrimaður sáu um endana aftur á skut, við sömu tækifæri. Þessi vinnutilhögun gekk eins og til var ætlast, snurðu laust.
Það var ekki laust við að bátsmaður og hásetarnir öfunduðu mig af herbergi mínu, sérstaklega hinu dúnmjúka og þykka gólfteppi.
Ég var spurður hvort ég væri til í að leggja teppi á gólf herbergja þeirra, en þau voru með venjulegum gólfdúk, eða flísum.
Ég sagði það auðvita vera sjálfsagt. Ég skyldi meir að segja gera það í mínum frítíma, eins og ég hefði gert í mínu herbergi.
Ekki var talað mikið um teppið góða, Þegar í ljós kom í svari skipstjórans við beiðni um að sett yrðu teppi á herbergi.
Að það væri í góðu lagi, þeir yrðu þó sjálfir að borga teppið á herbergi sín, alveg eins og timburmaðurinn hefði gert.
Það kom hásetunum á óvart.
Það hafði tíðkast sú venja um borð í Hvalvík, eins og á Haferninum forðum að yfirmenn og undirmenn gátu fengið að hafa konur sínar um borð eins og fyrr er nefnt. Ég bjó mig undir slíkt tækifæri með því að breikka koju mína, eins og ég hafði gert á Haferninum.
Tvisvar fékk ég slík tækifæri um borð í Hvalvík, annað nokkuð langt, eða frá Íslandi með viðkomu í Portugal, á leið til nokkurra hafna í Bandaríkjunum og til baka til hafnar í Skotlandi. Þaðan sem kona mín flaug heim til Íslands.