Hafísinn 1968

Tímabilið mánaðarmóta mars/aprílmánaðar, árið 1968 var nokkuð óvenjulegur fyrir okkur skipverjana. Við höfðum legið í höfn hluta marsmánaðar vegna verkefnaskorts. En stuttu fyrir mánaðarmótin í mars var skipið komið til Reykjavíkur og lestaði þar olíu og bensín sem fara átti með til Ísafjarðar, Akureyrar og svo til Siglufjarðar. Óbeinn kvíði var á meðal áhafnar þar sem frést hafði af hafísbreiðu sem rak hratt norður fyrir land.Í ljós kom svo að mjög þéttur hafís var utan Vestfjaðra og langt norður með landi. Ekki urðu miklar hindranir síðast spölinn til Ísafjarðar, siglt var á milli jaka og síðan um þéttan 20-30 sentímetra þykkan lagís inni á Ísafjörð, en 11 stiga frost var þar um kvöldið er þangað var komið, þar sem losaður var hluti farmsins.  Aftur á móti var ísinn mjög þéttur þegar komið var fyrir Horn. Veðurstofan hafði þá gefið út þá tilkynningu að leiðin norður fyrir land væri með öllu ófær. En skipstjórinn ákvað að halda samt áætlun með leiðina til Akureyrar, þar sem vandræðaástand var að skapast vegna bensín og olíuskorts. Siglfirðingar og Raufarhafnarbúar voru aftur á móti betur settir, vegna birgða SR á stöðunum, sem og hjá Olís á sömu stöðum. Einnig var mjög gott veður, golukaldi og sólskin, og ekki von á veðrabreytingum að sinni. Frostið var samt nýstandi fyrir okkur sem skiptumst á um að vera ýmist upp í hæsta mastrinu á útkíkki, og frammi á bakka. 

Sem dæmi, þá hafði mannskapnum í brúnni verið fært sjóðheitt kaffi á hitabrúsa, skipstjórinn fengið sér kaffi eins og hinir, en lagt frá sér bollan eftir fyrsta sopann. 

Þegar hann greip til könnunnar nokkru síðar, þá var komið lag af klaka ofan á kaffið. 

Skyggni ofan frá mastrinu var gott að vissu marki, það sást ís alveg út undir sjóndeildahring, en þó ekki gott að finna vakir eða grisjótt svæði. 

En áfram var haldið mjög varlega og silast áfram mílu eftir mílu, stundum var ísinn mjög þéttur og stundum grisjóttur. 

Þegar komið var út af Hornbjargsvita, hafði vitavörðurinn á Horni, Jóhann Pétursson samband við skipstjórann í gegn um talstöð, hann bauðst til að fara upp í fjallið og leiðbeina okkur ef skipstjórinn vildi. 

Eftir smá samtal, þáði skipstjórinn boð vitavarðarins, þar sem sá sem uppi í mastri var, sá hvergi auðan sjó  framundan. 

Vitavörðurinn fór upp í fjallið og gat vísað okkur á grisjóttara svæði aðeins á bakborða, og áfram var haldið. 

Ekki er ég viss um að skipstjórinn hefði þegið boð vitavarðarins, hefði hann gert sér grein fyrir hvað vitavörðurinn lagði á sig. 

Hann hafði reyrt á bakið, talstöðina sem var gömul og fyrirferðamikil "heimasmíðuð" Landsímastöð, ca 40x40x30 sentímetrar á kant og tekið svo þungan "bíla"rafgeymi í fangið og þegar upp var komið tengt búnaðinn ásamt því dreifa úr vírspotta sem loftneti. 

Áfram var svo haldið vestur og komið til Akureyrar eftir mikið umstang og óbeina árekstra við misstóra hafísjaka. 

En skipstjórinn var kominn upp a lag með það að "brýna" aðeins á stærstu jakaflekana og nota svo bógskrúfuna til að ýta þeim til hliðar og halda síðan áfram í vökina sem við þetta myndaðist.  

Þegar komið var til Akureyrar þá beið þar olíubíll sem hafði klukkustund áður losað síðustu dropana á Akureyri í einn af tönkunum undir húsahitunarolíu, eins og þá voru við hvert hús á Akureyri og víðar á þeim tíma.

Engin hitaveita var kominn á Akureyri þá og margir orðnir nánast olíulausir. Einnig var að sjálfsögðu losað til birgðatanka, bæði olía og bensín.

Frá Akureyri var svo haldið til Siglufjarðar, þar sem Haförninn var tæmdur af því sem eftir var af olíufarminum.

þegar farið var frá Siglufirði eftir um sólarhrings stopp, áleiðis til Englands eftir meiri olíu, urðu enn fleiri ævintýri á leið okkar. Haldið var austur með landinu til að freista þess að þar væri ísinn grisjóttari en fyrir vestan. 

Svo varð ekki raunin, heldur vorum við nánast fastir í stórri vök norðvestur af Rauðanúp. Þessi vök var um hálf fermíla að flatarmáli um kvöldið. Þar var ákveðið að doka við og bíða birtingar, en illa sást til eftir að rökkva tók. Vökin lokaðist smátt og smátt og um morguninn var skipið umleikið ís, en við vorum þó ekki í neinni hættu.

 Dokað var við fram eftir morgni til að afla frétta, sem von var á frá flugvél.

Til vesturs aftur

Samkvæmt upplýsingum frá flugvélinni, þá var leiðin austur algjörlega lokuð allri skipaumferð, auk þess sem von var á veðrabrigðum úti fyrir austurlandi.

Skipinu var því snúið til vesturs og haldið utar, þar sem flugstjórinn hafði sagt að þar væri ísinn grisjóttari.  

Leiðin var torsótt, og margar krókaleiðir farnar, bæði til norðurs, vestur og suðuvesturs. Meðal annars inn á Skagafjörð, þar sem lagst var við anker undir Þórðarhöfða. 

Þar var togarinn Hafliði SI 1, frá Siglufirði einnig, en hann var á leið frá Siglufirði á Grænlandsmið. Hafliði hélt svo aftur af stað vestur á undan okkur. 

Þegar við nokkrum klukkustundum síðar vorum einnig lagðir af stað, náðum við togaranum sem komst hvergi fyrir ís. Þar tókum við forustuna, en þar réði mestu snilld skipstjórans á Haferninum með bógskrúfuna. Hafliði fylgdi svo í kjölfarið.

 Togarinn dróst aftur úr þar sem mikill straumur var og ísrekið lokaði slóðinni nánast jöfnum höndum. Þegar við vorum staddir útaf Húnaflóa skammt frá Óðinsboða voru margar sjómílur á milli skipanna. 

Hvort það var einhliða ákvörðun Sigurðar skipstjóra, eða að beiðni Sigurjóns Jóhannssonar skipstjóra á Hafliða, þá var vél Hafarnarins stöðvuð og ákveðið að bíða eftir Hafliða.

Á meðan fengu nokkrir skipverjar leyfi skipstjórans til að skreppa út á ísinn sem umlék skipið, þar var brugðið á leik um stund við mikla kátínu þeirra sem fengu leyfi til þeirrar uppákomu og einnig þeirra sem fylgdust með frá borði.

Þegar Hafliði svo loks nálgaðist var haldið áfram ferðinni, þó aðeins hægar en áður. Þegar við losnuðum við mestan ísinn, skaust Hafliði fram úr okkur og stefndi á karfamiðin við Grænland. 

Lesa má umfjallanir Morgunblaðsins frá þessum tíma -