Óskar Berg Elefsen, eldri

Óskar Trander Berg Elefsen 

F. 25. apríl 1896 - d. 6. október 1961Hinn 18. þ.m. fór fram hér í Siglufirði útför Óskars Berg Elefsen, vélsmiðs, Gránugötu 20. 

Óskar varð bráðkvaddur 6. október 1961. 

Hann hafði verið vanheill um skeið í sumar og haust.

Óskar Trander Berg Elefsen, eins og bann hét fullu nafni, var fæddur á eynni Senju við Norður Noreg, 25. apríl 1896.

Foreldrar hans voru

Eberg Elefsen, útvegsbóndi og

Anna Elefsen kona hans, sem enn er á lífi í Senju, komin um nírætt.

Þegar Óskar var 10 ára, drukknaði faðir hans. Var hann að koma heim með nýjan bát, þegar hann fórst. Óskar var með í ferðinni og bjargaðist nauðuglega. Eftir lát föður síns fór hann í fóstur til föðurbróður síns og var hjá honum til 14 ára aldurs, en fór þá á sjóinn að vinna fyrir sér. Kost mun hann hafa átt á að leggja út í langskólanám með embætti að markmiði, en til þess hafði hann ekki löngun.

Áhugi hans beindist að vélum og tækni, en þekking í slíkum efnum var minna metin þá en nú og mun ekki hafa þótt líkleg til auðs né meiriháttar frama í fátæku, afskekktu sjávarplássi. Mun Óskar ekki hafa átt kost á að hefja nám með tæknimenntun fyrir augum, en hitt þótti eðlilegra, að hann færi á sjóinn og kynntist þar af eigin raun þeirri tækni og verkmenntun, sem hagnýtust var í daglegu lífi í átthögum hans.

Hingað til Siglufjarðar kom Óskar fyrst árið 1916 sem vélgæzlumaður á skipi, sem Stefán Jónasson, útigerðarmaður og skipstjóri á Akureyri keypti. Hét skip þetta Báran, og munu margir eldri menn hér kannast við það.

Var Óskar á Akureyri nokkrar vikur, en fór aftur um haustið. Næsta ár, 1917, fór hann til Svíþjóðar til véfræðináms í Bolinder verksmiðjunum, en af því loknu hélt hann áfram starfi sem vélamaður á skipum til ársins 1921. Það ár kom hann hingað til Siglufjarðar á norsku skipi og fór ekki frá íslandi eftir það. Hóf hann skömmu eftir komu sína hingað, vélsmíðanám hjá Guðmundur Björnsson, vélsmíðameistari og lauk því 1925.

Sama ár giftist hann

Sigríður Guðmundsdóttir, dóttur Guðmundar Björnssonar.

Fluttust þau til Akureyrar og var Óskar vélamaður hjá Stefán Jónasson á Sjöstjarnan í tvö ár, en í árslök 1926 komu þau hjónin hingað aftur og bjuggu. hér upp frá því að undanskildu einu ári, 1951—'52, er þau bjuggu á Dalvík.

Hér starfaði Óskar einkum að vélgæzlu í landi, lengst hjá Ásgeir Pétursson, en eftir að hann fluttist aftur hingað frá Dalvík 1952, vann hann við vélsmíði á verkstæði S.R.

Óskar og Sigríður eignuðust 4 börn.

Tvö þeirra komust upp:

Þannig var æviferill Óskars Berg sagður í fáum orðum. En með þessu er fátt sagt af því, sem vinum hans og kunningjum er minnisstæðast um þennan látna ágætismann, svo sem gestrisni hans, þægilegt viðmót, jafnlyndi hans og gamansemi, trúmennska í störfum, og skoðanir hans og áhugamál, sem hann sleppti aldrei tækifæri til að halda fram og rökræða. 

Óskar Berg var kommúnisti að lífsskoðun, einn af stofnendum Kommúnistaflokks íslands og síðar Sósíalistaflokksins, og hvikaði aldrei hársbreidd frá þeirri skoðun. En þótt hann væri félagshyggjumaður mikill, vildi hann sem einstaklingur vera ölum óháður, og engan láta eiga hjá sér. 

Þetta kom fram á þann hátt m.a., að hann vann öll sin verk af einstakri alúð þannig, að hann væri alltaf skuldlaus við vinnukaupanda sinn að loknu dagsverki og líklega oftast meira. Það kom líka fram í vanþóknun hans á náðarkenningu kirkjunnar; hann trúði því, að ef til væri persónulegur guð, væri hann réttlátur guð. Fyrir þeirri guðshugmynd bar hann virðingu og leitaðist við að haga lífi sínu þannig, að skuldadálkur sinn hjá Slíkum guði yrði sem styztur þegar upp yrði gert að ævideginum loknum. 

Og það var réttlætiskennd hans, hert í ströngum skóla sjómennskunnar á unglingsárunum, sem gerði hann að kommúnista. Kanski hefur hún líka verið undirrót þeirrar bjargföstu sannfæringar hans, að menn héldu áfram að lifa persónulegu lífi eftir þetta líf og ættu þess kost að fylgjast með afleiðingum verka sinna og breytni hér á jörðinni, og væru því ekki með öllu lausir undan ábyrgð þeirra þó jarðvistinni lyki. 

Ég hygg, að öllum, sem kynntust Óskari heitnum, verði hann minnisstæður. Hann var afburðagóður verkmaður veit ég engan hafa haft spurnir af illa gerðum hlut eða illa unnu verki eftir Óskar Berg, og mun vandvirkni hans og samviskusemi á starfi jafnan verða þeim minnisstæð, sem hann starfaði með eða vann fyrir. Kunningjar hans, vinir og flokksfélagar sakna hins glaðlynda, trausta og réttsýna félaga, sem aldrei lét æðruorð falla og tók öllu, sem að höndum bar, með rósemd og jafnaðargeði. 

En sárastur er söknuður eiginkonu hans og barna, sem þekktu hann bezt og mátu hann mest. Tíminn, sem öll sár græðir, mun að lokum eyða söknuði eftir Óskar Berg, eins og aðra. En þá mun þó lifa eftir í bugskoti okkar björt minning um góðan dreng, sem lét réttlætiskennd og ábyrgðartiifinningu stjórna gerðum sínum, minning, sem gerir okkur að betri mönnum.

B.S.

 —oOo— 

Er mér var sagt lát Óskars Berg, þurfti ég að láta segja mér það tvisvar, áður en ég trúði, svo mjög kom mér það á óvart. Ég hafði komið á heimili hans tveim dögum áður. Þá var hann glaður og ræðinn að vanda, og mér virtist hann vera að ná sér eftir lasleika þann, er hann hafði kennt að undanförnu. En örlögin höfðu ætlað annað, og sannaðist í þetta sinn sem oftar, að fár ræður sínum næturstað. Það er ekki ætlun mín með þessum örfáu kveðjuorðum að rekja æviferil Óskars Berg, ég vildi fyrst og fremst þakka góðum dreng fölskvalausa vináttu og tryggð. 

Fyrir sextán árum, þá að nýloknu menntaskólanámi, kom ég og skólafélagi minn hingað til Siglufjarðar í atvinnuleit. Þá bjuggum við á heimili Óskars sumarlangt og nutum þess bezta, sem menn njóta í foreldrahúsum, án nokkurs endurgjalds. Óskar Berg safnaði ekki þeim auðæfum, sem mölur og ryð fá grandað, til þess var hjarta hans of stórt. Hann mun alltaf hafa séð nógu marga, sem hægt var að reynast hinn miskunnsami Samverji. En hann átti þau auðæfi og þá hamingju, sem þeir einir eiga, er hugsa fyrst um aðra, en síðan um sjálfa sig. En stærsta hamingja hans mun þó hafa verið sú að eiga konu, sem var honum jafnsamhent í þessum efnum og öðrum. 

Af kynnum mínum við þau hjón hef ég sannfærzt um, að sannleikann er fyrst og fremst að finna hjá fólki með gott hjartalag. Óskar lét sig miklu skipta gang mála í heiminum og gladdist yfir framgangi sósíalismans og hugsjónar jafnaðarstefnunnar, og ég vil fullyrða, að hún hefur átt fáa sannari fulltrúa. Hann sagði fullkomlega meiningu sína um allt ranglæti, svik og fals, enda mátti hann trútt um tala. En Óskar átti fleiri áhugamál en stjórnmál. Hann braut heilann mikið um hinztu rök tilverunnar, um gátuna miklu, hvað við tæki eftir dauðann. 

Hann var þess fullviss, að eitthvað annað tæki við en eilífur dauði. Og hann átti góða heimvon. Ég vil að lokum þakka Óskari fyrir samveruna. Að kynnast slíkum manni styrkir okkur í trúnni á sigur hins góða í heiminum. Ástvinum hans votta ég dýpstu samúð, en minningin um góðan dreng er gulli betri.

Vertu sæli, vinur, og hafðu þökk fyrir allt.

P.S.