Sigurjón Sæmundsson prentari

Sigurjón Sæmundsson prentari

Sigurjón Sæmundsson fæddist í Lambanesi í Fljótum í Skagafirði 12. maí 1912. Hann lést í Sjúkrahúsi Siglufjarðar 17. mars síðastliðinn. 

Foreldrar hans voru Sæmundur Jón Kristjánsson, f. 16.10. 1883, útvegsbóndi í Lambanesi og víðar, d. 30.8. 1915, og Herdís Ingibjörg Jónasdóttir, f. 30.7. 1889, húsfreyja og verkakona, d. 14.2. 1938.

Systkini Sigurjóns voru

Kristján Sæmundsson, setjari í Ísafold og Leiftri f. 4.12. 1910, , d. 12.9. 1994;

Andrés Sæmundsson, farmaður, f. 10.9. 1913, d. 1.10. 1929;

Sigurlaug Sæmundsdóttir, f. 25.3. 1915, d. 1916. 

Hálfbróðir Sigurjóns:

Eiríkur J.B. Eiríksson, prentari og ritstjóri f. 27.8. 1924, , d. 8.10. 2002. Maki Rósa Pálsdóttir, kennari. Þau eiga einn son.

Hinn 8. júní 1935 kvæntist Sigurjón 

Ragnheiður Jónsdóttir, f. 2.1. 1914, d. 24.8. 1999.

Foreldrar hennar voru

Jón St. Melstað, bóndi, og 

Albína Pétursdóttir, húsfreyja, en þau bjuggu á Hallgilsstöðum í Hörgárdal. Sigurjón og Ragnheiður eignuðust tvö börn. 

Þau eru:

1) Stella Margrét Sæmundsdóttir  - (Stella Sigurjónsdóttir), f. 3.12. 1935, tannfræðingur,

maki Ingvar Jónasson, víóluleikari

Þau eiga þrjú börn,

2) Jón Sæmundur Sigurjónsson, skrifstofustjóri almannatrygginga í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og fv. alþingismaður, f. 25.11. 1941 -

Maki . Birgit Henriksen, kennari. Þau eiga eina dóttur,

Sigurjón Sæmundsson ólst fyrstu árin upp í Fljótum. Straumhvörf urðu í ævi hans er faðir hans drukknaði í fiskiróðri er Sigurjón var á fjórða aldursári. Við það tvístraðist fjölskyldan og fór Sigurjón fyrst í umsjá Einarssínu, móðursystur sinnar, sem var kaupakona, en síðan var hann léttadrengur á ýmsum bæjum í sveitinni, milli þess sem hann var hjá móður sinni, sem reyndi að halda heimili í Haganesvík. Er hann flutti til Siglufjarðar á 12. aldursári hafði hann átt heima á átta stöðum í Fljótum.

Á Siglufirði dvaldi Sigurjón til 16 ára aldurs við síldarstörf, sjósókn og verkamannavinnu. Þá flutti hann til Akureyrar ásamt móður sinni og bræðrum og hóf prentnám hjá Oddi Björnssyni bókaútgefanda. Sigurjón starfaði í sjö ár í Prentverki Odds Björnssonar eða þar til hann keypti Siglufjarðarprentsmiðju 1. júní 1935, sem hann starfrækti allar götur síðan, ásamt viðamikilli bóka- og tímaritaútgáfu.

Sigurjón tók virkan þátt í félagsmálum Siglufjarðar. Hann var bæjarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn í 20 ár og var bæjarstjóri á Siglufirði í níu ár. Sigurjón var formaður Iðnaðarmannafélags Siglufjarðar í 15 ár, en það félag rak Iðnskóla Siglufjarðar allan þennan tíma með miklum blóma.

Sigurjón hefur alla tíð verið mikilvirkur í söng- og tónlistarstarfi. Hann hóf sinn söngferil 1929 með Karlakór Akureyrar, en síðan söng hann með Karlakórnum Geysi þar sem hann söng fyrst einsöng, og svo með Kantötukór Akureyrar. 

Sigurjón söng með Karlakórnum Vísi á Siglufirði í yfir 50 ár. Hann var formaður Vísis í 30 ár og frumkvöðull að stofnun Tónlistarskóla Vísis, sem var undanfari Tónlistarskóla Siglufjarðar.

Alla tíð var hann einn af einsöngvurum með Vísi, en einnig hefur hann haldið marga einsöngskonserta auk þess að syngja í útvarp allt frá því að það hóf göngu sína 1935. 

Söngur Sigurjóns er til á upptökum í einkaeign og svo á plötum með Karlakórnum Vísi, en margar hljóðritanir frá fyrri árum munu vera til hjá Ríkisútvarpinu.

Sigurjón var félagi í Frímúrarahreyfingunni um langt skeið og Rotary í meira en 40 ár og tók mikinn þátt í félagsstörfum þessara hreyfinga. Hann var um árabil ræðismaður Svía á Siglufirði og var í starfslok sæmdur orðu af sænska konunginum fyrir störf síná þeim vettvangi.

Árið 1992 samþykkti bæjarstjórn Siglufjarðar einróma að gera Sigurjón Sæmundsson að heiðursborgara Siglufjarðar. Sigurjón var fjórði einstaklingurinn til að hljóta þessa nafnbót, sem hann var stoltur af, einkum vegna þess að þar með fetaði hann í fótspor sr. Bjarna Þorsteinssonar, sem hann dáði mjög.

Sigurjón Sæmundsson

Ljósmynd: Kristfinnur