Árið 1943 - SR og Þróttur
Deila ríkisverksmiðjanna við Þrótt.
Mjölnir, 21. júlí 1943
Undanfarið hefur staðið yfir deila milli ríkisverksmiðjanna og Þróttar, um hvernig skilja beri ákvæði um eftirvinnu í gildandi samningum.
Af hendi verksmiðjanna var því haldið fram, að eftirvinnu bæri að greiða fyrir 4½ tíma á sólarhring, þegar unnið er í tveimur 6 tíma vöktum, en Þróttur hélt fram, að það væri 5½, tími.
Samkvæmt gildandi kaupsamningum er 8 stunda vinnudagur og þar í innifalið ½ tími til kaffidrykkju án frádráttar á kaupi (frá kl. 9-9½ árdegis) eða raunverulega unninn 7½ tími.
Af tveimur 6 tíma vöktum eða 12 tímum er þá auðvitað eftir 4½ tími sem ber að greiða eftirvinnu fyrir, en þar með er málið ekki að fullu skírt, því í samningunum er ennfremur svo ákveðið, að verkamenn skuli fá frí án frádráttar á kaupi, þegar unnin er eftirvinna, ¼ tíma frá 4-4½, - 1 tíma frá 7-8 síðdegis, ¼ tíma frá 11¾-12 og ½ tíma frá 3½-4 á nóttunni, eða samtals tvo tíma til matar og kaffi.
Í samningunum er skírt fram tekið, að sé unnið í þessum tíma greiðist tilsvarandi lengri vinnutími, með öðrum orðum tímana ber að greiða tvisvar, ef þeir eru unnir.
Þessir 2 tímar á sólarhring eru auðvitað unnir, þegar unnið er á vöktum og kemur þá sinn tíminn á hvora vakt, eða einn tími á 2 sex tíma vaktir.
Það ætti því öllum að vera auðsætt, að eftirvinna fyrir tvær 6 tíma vaktir á sólarhring eru 5½ tími.
En ríkisverksmiðjustjórnin neitaði algerlega að fallast á þennan skilning og stefndi Þrótti fyrir Félagsdóm til að fá úrskurð hans um málið.
Eins og eðlilegt var vakti þessi málshöfðun mikla gremju í Þrótti. Hélt stjórn og trúnaðarmannaráð fund um málið, þar var ákveðið að svara verksmiðjustjórninni í sama tón og var það gert á þann hátt að samþykkja að verkamenn ynnu ekki í matar og kaffitímum. En niðurlag 3. greinar kaupgjaldssamninga Þróttar hljóðar svo:
"Í matar og kaffitímum skal því aðeins unnið, að verkamenn séu fúsir til þess".
Það skal viðurkennt, að sennilega hefur verksmiðjustjórnin litið svo á, þegar samningar voru gerðir að þetta ákvæði næði ekki yfir menn á föstum vöktum, en um það er ekkert í samningunum. Réttur allra verkamanna til að neita að vinna í matar- og kaffitímum er því fortakslaus.
Verkamönnum er ljóst, að það kæmi sér illa fyrir síldarverksmiðjurnar, ef sá vani væri tekinn upp að vinna ekki í matar- og kaffitímum, og það hefði engum dottið í hug að leggja til að það yrði gert, ef verksmiðjustjórnin hefði ekki stofnað til illinda með málshöfðun sinni.
Öllum sem til þekkja er kunnugt, að framkoma verksmiðjustjórnar í þessu máli er óverjandi og bar henni tvímælalaust að leysa deiluna með sanngirni, í stað þess að stofna til málaferla, sem hljóta að vekja úlfúð og gremju og spilla sambúð verksmiðjustjórnar og verkamanna verksmiðjanna.
þegar verkamenn höfðu ákveðið að vinna ekki í matar- og kaffitímum, höfðaði verksmiðjustjórnin nýtt mál útaf því. Það varð þó úr, að samningaumleitanir fóru fram og mættu við þar, af hálfu verksmiðjustjórnarinnar Þormóður Eyjólfsson og Jón Gunnarsson, en af hálfu Þróttar, Gunnar Jóhannsson, Þóroddur Guðmundsson og Pétur Baldvinsson. Eftir að nefndirnar höfðu haldið þrjá fundi og nefnd Þróttar leitað álits trúnaðarmannaráðs og verkamanna, sem vinna í síldarverksmiðjunum, náðist samkomulag og voru samningar undirritaðir í fyrradag.
Aðalatriði samningsins eru þau, að verkamenn, sem vinna á vöktum hafi ekki rétt til að neita að vinna í matar- og kaffitímum, verkamenn fái greiddar strax 5 stundir á sólarhring í eftirvinnu fyrir 2 sex tíma vaktir, en málið haldi áfram fyrir Félagsdómi.
Úrskurði dómurinn meira en 5 tíma greiða verksmiðjurnar það, en þó dómurinn úrskurði minna en 5 tíma greiða verksmiðjurnar samt sem áður 5 tímana.
Ennfremur skuldbinda verksmiðjurnar sig til að greiða árlega kr. 600 í "Hjálparsjóð Þróttar".
Engu skal um það spáð, hvernig úrskurður Félagsdóms fellur, reynslan verður að skera úr því, en hitt verður ekki nægilega átalið að höfða mál og stofna til illinda út af ágreiningsmálum, sem auðvelt er að leysa ef sanngirni er gætt.
Eftir ástæðum verður að telja rétt af verkamönnum að ganga að þessum samningum við verksmiðjustjórnina, því lengra mun ekki hafa verið hægt að komast, en því verður ekki neitað, að það er hart fyrir verkamenn að þurfa að eiga rétt sinn í máli þessu undir Félagsdómi, þó um það skuli ekki sakast úr því, sem komið er.