Árið 1948 - Lýsishersla - 3

Verður lýsisherslustöðin
byggð í Reykjavík?

24 Mjölnir 24. nóvember 1948  og ..... 

Fjármálaráðherra gefur upplýsingar, sem benda til þess, að ríkisstjórnin ætli að láta byggja hina fyrirhuguðu lýsisherslustöð í Reykjavík, - ef hún þá verður byggð. - Bæjarstjórn Siglufjarðar verður að láta málið til sín taka. 

Eins og sagt var frá hér í blaðinu fyrir nokkru, vék Jóhann Þ. Jósefsson að byggingu hinnar fyrirhuguðu lýsisherslustöðvar á Íslandi i útvarpsumræðunum á dögunum. - 

Skýring á ferli lýsisherslu framleiðslu

Mátti ráða af ummælum hans, að núverandi stjórnarvöld væru horfin frá því ráði að byggja verksmiðjuna á vegum ríkisins, og gat hann þess, að einstaklingar hefðu nú byggingu slíkrar verksmiðju í undirbúningi. 

Í tilefni af þessum ummælum ráðherrans, bar Áki Jakobsson þingmaður Siglfirðinga skömmu síðar fram á Alþingi spurningar þær, er hér fara á eftir: 

Mjölnir hefur því miður ekki átt kost á því að taka svör ráðherrans upp orðrétt, en meginefni þeirra var sem hér segir:

Eins og allir heilvita menn sjá, er þetta svar algerlega útí hött, þar sem ríkisstjórnin hefur engan rétt til að ákveða neinar framkvæmdir fyrir Marshallfé, heldur hefur hún aðeins tillögu. rétt, og er það algerlega á valdi húsbænda hennar, Bandaríkjamanna og hinnar svonefndu Viðreisnarstofnunar, hvaða framkvæmdir verður ráðist í fyrir Marshallféð.

Enda lýsir ríkisstjórnin sjálf yfir, þegar Marshallsamningurinn var ræddur á Alþingi í vetur, að listi hennar yfir fyrirhugaðar framkvæmdir fyrir Marshallféð, væri aðeins “óskalisti”.

5.      Ráðherrann upplýsti, að engar ráðstafanir hefðu verið gerðar   viðvíkjandi vélunum, og að ekki væri búið að afhenda þær.

Vildi hann kenna þann drátt sem orðið hefur á afhendingu véla, sem samkvæmt samningi áttu að afhendast í apríl s.l., því að slælega hafði verið gengið frá samningum. 

Sannleikurinn er hinsvegar sá, að þessi dráttur stafar af því, að ríkisstjórnin, eftir að hafa gert margar tilraunir til að losna við vélarnar, sveikst um að inna af hendi smágreiðslu, nokkur þúsund sterlingspund í nokkra mánuði. 

Þá sagði ráðherrann og, að ekki væri hægt að reisa verksmiðjuna á Siglufirði, því þar væri hvorki nægt vatn né raforka fyrir hendi, og þar að auki væri lóðin, sem ætluð hefði verið undir verksmiðjuna, ónothæf og of lítil.

Þessi rök sín gegn byggingu verksmiðjunnar hér, mun ráðherrann byggja á umsögn Guðmundar Marteinssonar, sem er trúnaðarmaður rafveitunnar hér. 

Fól stjórn S.R. Jóni Gunnarssyni fyrir nokkru að gera athuganir í sambandi við fyrirhugaða byggingu lýsisherslustöðvarinnar, en hann hefur aftur leitað til Guðmundar.

Þessar upplýsingar stangast algerlega á við þær athuganir, sem áður hafa verið gerðar.

Í greinargerð, sem Jakob Gíslason, raforkumálastjóri ríkisins, gerði um þetta mál 1946, segir m.a. svo orðrétt:

“- má ætla, að eftir að búið er að bæta annarri vélasamstæðu við í orkuveri Skeiðsfossstöðvarinnar, geti Siglufjörður látið nauðsynlega raforku í té til fyrrnefndar herslustöðvar til núverandi síldarverksmiðja, til tunnuverksmiðju og frystihúsa, til heimilisnotkunar og ljósa og til almenns iðnaðar.”

Um vatnið er það að segja, að athuganir, sem gerðar hafa verið, sýna, að nóg vatn er fáanlegt til að fullnægja þörfum hersluverksmiðju. Yrði þá sennilega að stækka vatnsveituna eitthvað, taka vatn úr Hólsá. 

Athugun, sem stjórn S.R. hefur látið gera á lóð þeirri, sem herslustöðinni hefur verið fyrirhuguð, hefur leitt í ljós, að lóðin er vel nothæf.

Er ekki annað sýnna en að áðurnefndur trúnaðarmaður Siglufjarðarkaupstaðar hafi látið sér sæma að gefa mjög villandi upplýsingar um þetta mál, svo ekki sé meira sagt. 

Bæjarstjórn Siglufjarðar verður að láta þetta mál til sín taka.

Hvað gerir bæjarstjórn Siglufjarðar? Gerir hún ekkert til að halda vakandi þessu mikla velferðarmáli Siglufjarðar, byggingu lýsisherslustöðvar hér? 

Vonandi verður svarið hið gagnstæða. Vonandi sér hún um, að ríkisstjórn og Alþingi fái réttar upplýsingar um þau skilyrði, sem hér eru fyrir hendi og bæti úr því, sem enn kann að vera áfátt eftir því sem hægt er. 

Því miður hefur hún verið alltof andvaralaus um þetta mál undanfarið. Ef hún lætur þetta mál ekki meira til sín taka á næstunni, getur svo farið, að verksmiðjan verði ekki byggð hér, eins og þó er eðlilegast í alla staði, heldur t.d. í Reykjavík, ef ríkisstjórninni þá ekki tekst að koma í veg fyrir, að hún verði byggð á næstu árum. 

Nógir eru um boðið, t.d. hafa bæði Reykjavíkingar og Akureyringar mikinn hug á að verksmiðjan verði byggð á öðrum hvorum þeim stað.

Það er krafa Siglfirðinga, að bæjarstjórnin bregðist skjótt við og láti þetta myndarlega til sín taka.

--------------------------------------------------------------------

Mjölnir 1. desember 1948

Lýsishersluverksmiðjuna verður að byggja á Siglufirði 

Um það verða allir Siglfirðingar að fylkja sér sem einn - maður, hvar í flokki, sem þeir standa -

Hér í blaðinu hefir hvað eftir annað verið rakið, hve þýðingarmikið það væri fyrir alla bæjarbúa og bæjarfélagið í heild, að lýsishersluverksmiðja yrði byggð á Siglufirði. 

Það hefur verið bent á þá miklu vinnu, sem er við að byggja slíka verksmiðju og síðan við rekstur hennar. 

En lýsishersluverksmiðja yrði sennilega rekin í 9-10 mánuði og einmitt þá mánuði sem hér er minnst atvinna venjulega, vetrarmánuðina. - 

Ennfremur hefur verið bent á þá miklu möguleika til aukins iðnaðar í bænum, sem skapast við rekstur lýsishersluverksmiðju. 

Þá hafa hér í blaðinu verið færðar fram sannanir fyrir því, að ódýrast og heppilegast er að reka þessi verksmiðju hér á Siglufirði. 

Hér er lýsið framleitt, hér eru lýsisgeymarnir, ef reka ætti lýsishersluverksmiðjuna annarsstaðar þyrfti að byggja þar lýsisgeyma, en þeir kosta nú óhemju mikið fé, og er töluverður hluti kostnaðarins erlendur gjaldeyrir. 

Þá myndi hlaðast mikill kostnaður á reksturinn, við að flytja lýsið héðan til þess staðar, sem verksmiðjan væri. Myndi útskipun, flutningskostnaður og uppskipun nema árlega stórfé. 

Nú er þetta lýsisherslumál í höndum Síldarverksmiðja ríkisins, vel mætti hin virðulega stjórn þess fyrirtækis leggja sér á hjarta, ábendingu þessa blaðs um það, að hvað snertir stjórn og skrifstofuhald lýsishersluverkmiðju hlýtur það að verða ódýrara á Siglufirði en annarsstaðar, þar sem SR hafa aðalskrifstofu sina hér.

Hitt er þó kannske meira virði fyrir S.R., að með því að reka lýsishersluverksmiðjuna á Siglufirði geta SR tryggt þeim mönnum sem þær síst geta verið án yfir sumarið, vetrarvinnu. 

En eins og nú er getur stjórn SR átt það á hættu á hverju vori að stór hluti vönu mannanna við hin vandasamari verk séu ráðnir annarsstaðar og SR sé í hættu með rekstur sinn vegna þess. 

Flestir Siglfirðingar hafa litið svo á, að naumast kæmi til þessa lýsishersluverksmiðju nema á Siglufirði, svo sterk rök mála í fullri alvöru að byggja, mæltu með því, en rökin ein nægja ekki ávallt og nú er það komið á daginn, að sterk öfl hafa tekið upp baráttu fyrir að byggja verksmiðjuna í Reykjavík. 

Nú kemur til kasta Siglfirðinga að taka þetta mál föstum tökum. Bæjarstjórn hefur þegar skipað nefnd manna til að hafa forystuna og mun sú nefnd að sjálfsögðu viða að sér öllum gögnum og plöggum, sem þetta mál varða og semja síðan álitsgjörð, en engin efi er á því, að það væri máli þessu mikill styrkur, að fram kæmi skýrt og greinilega hver vilji bæjarbúa er, og síðast en ekki síst, að allir Siglfirðingar stæðu saman sem einn maður, um þetta mikla hagsmunamál Siglufjarðar, sem um leið er hagsmunamál allrar þjóðarinnar.

-----------------------------------------------------------------

Mjölnir 15. desember 1948 (Bæjarpósturinn)

Lýsisherslustöð.

Um fátt er nú meira rætt hér í bæ, en lýsisherslustöðvarmálið. Hníga raddir almennings mjög á einn veg, sem sé þann, að hér sé hinn rétti og sjálfsagði staður þessa atvinnufyrirtækis. 

Fundir í verkalýðsfélögnum hafa gert einróma samþykktir og skorað á viðkomandi yfirvöld að láta byggja hana hér. - 

Blaðaskrif hafa orðið nokkur um þetta mál. Mjölnir hefur bæði fyrr og nú flutt glöggar greinar um þetta mál og haldið fast fram rökum fyrir því, að stöðin yrði byggð hér. Í Reykjavíkurblöðum hafa einnig verið ritaðar greinar um málið. Áki Jakobsson, þingmaður Siglfirðinga, hefur skrifað sterka grein i Þjóðviljann, Óskar B. Bjarnason. efnaverkfræðingur hefur einnig skrifað grein í Þjóðviljann um málið. 

Báðar þær greinar halda fram rökunum fyrir staðsetningu verksmiðjunnar hér. Jón Kjartansson hefur ritað grein í Tímann og er hún ágætt innlegg fyrir Siglufjörð. 

Þetta mál var vakið til umræðu á ný eftir að fjármálaráðherra hafði í fjárlagaræðu sinni gefið í skyn, að verksmiðjan yrði sennilega byggð í Reykjavík og þá e.t.v. af einstaklingi.

 Síðan hefur komið í ljós, að allsterk öfl eru að verki, er hindra vilja í fyrsta lagi, að hún verði byggð á Siglufirði og í öðru lagi, að hún verði byggð af ríkinu.

Talsmaður þessara afla Jón Gunnarsson fyrrum framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins hefur skrifað grein í Morgunblaðið, þar sem hann teflir fram ýmsum falsrökum í viðleitni sinni til að gera málstað Siglufjarðar sem verstan. 

Að baki Jóni standa ýmsir aðrir sterkir menn í fjármála og stjórnmálalífi þjóðarinnar. Það er því vissulega ekki að ófyrirsynju, að mál þetta hefur verið gert að umtalsefni og þá einmitt hér í bæ, þar sem almenningur hefur geysimikilla hagsmuna að gæta við það hverja lausn það hlýtur. 

Ættu Siglfirðingar nú að standa saman sem einn maður og halda málsstað sínum fram. Þetta er mikilsvert nauðsynjamál þjóðarinnar og eitthvert mikilsverðasta hagsmunamál Siglufjarðar.

----------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 16. desember 1948

LÝSISHERSLUVERKSMIÐJAN - BÆJARBÚAR ÞURFA ALLIR AÐ LEGGJAST Á EITT 

Það er óþarfi að rökstyðja, hversveg ætti að reisa lýsisherslustöðina hér og aðeins hér. Siglufjörður er aðal síldarvinnslustöð landsins, flutningskostnaður sparaðist, byggingarkostnaður lýsistanka sparaðist. 

Lóð, vatn og önnur skilyrði eru fyrir hendi og Siglufjörður verður að líkum fyrsti staðurinn er gæti boðið slíkri stöð nægjanlegt rafmagn. Siglfirskur verkalýður, sem vinnur þjóðnýt og nauðsynleg störf 2-3 mánuði á ári, og gengur atvinnulaus, að verulegu leyti, stóran hluta ársins, ætti það öðrum fremur skilið, að ríkisvaldið staðsetti verksmiðju hér. 

En eitt þurfum við Siglfirðingar að varast, Um þetta mál má ekki skapast flokkakrítur. Þetta er hagsmunamál bæjarfélagsins og bæjarbúa allra. Einnig getur hér skapast, líkt og um Rauðkumálið. - þetta er ekki mál eins eða neins flokks. Þetta er mál allra Siglfirðinga, hvar í flokki sem þeir standa. 

Lýsisherslustöð á Siglufirði eykur atvinnulífið, tryggir afkomu bæjarbúa að nokkru leyti. Í kjölfar hennar gæti hér risið ýmiskonar iðnaður. Með henni koma nýir möguleikar. Siglfirðingar ! 

Í þessu máli þarf einingu bæjarbúa og flokkakrítur eru til ills eins.

ORRI