Trúarskoðanir og
Trúarskoðanir og fleira
Ekki man ég nákvæmlega hvenær mér var sagt að á himnum væri Guð sem skapað hefði himin og jörð ásamt fleiri góðverkum sem tilgreind væru í hinni helgu bók, Biblíunni.
Mamma var mjög trúuð kona, hún tók snemma til við að kenna mér bænir sem ég átti að fara með áður en ég fór að sofa. Sem sennilega hefur verið algengt á þeim tíma á meðal fjölskyldna er ég var að vaxa úr grasi.
Faðirvorið kunni maður auðvitað utan að en það var ekki fyrr en ég búinn að læra að lesa, sem ég fór að spá frekar í þessar bænir.
Ég man að ég skildi sumt annað var mér ekki eins ljóst. Raunar skildi ég ekki heldur allar skýringar móður minnar á einstökum setningum en lét hjá líða að spyrja ýtarlega að sinni.
Af einhverjum ástæðum dróst að skíra mig formlega. Það var ekki fyrr en við 7 ára aldur sem (held að árið sé rétt munað) ég var skírður formlega.
Það var á Sauðárkrók, en fjölskyldan var í heimsókn hjá ömmu minni Guðnýju Jóhannsdóttur, móðir mömmu sem þótti þetta hneisa og tók völdin. Ég var skýrður í Sauðárkrókskirkju klæddur í galla-smekkbuxur og skyrtu eftir því sem mamma sagði mér síðar.
Ég mun hafa verið um tíu ára þegar ég fór að pæla frekar í bænum og bænahaldi þar á meðal faðirvorinu og tók að fletta Biblíunni raunar af hvatningu mömmu sem greinilega gerði sér ekki grein fyrir niðurstöðunni af þeirri hvatningu sem gerð var samkvæmt hennar kristnu samfæringu.
Ég fór að spyrja spurninga sem hún gat ekki gefið svör við, svör hennar sem ég var ekki sáttur við eða taldi fullnægjandi. Það
fékk mig til að kafa enn dýpra í þessi helgirit. „Vegir guðs eru órannsakanlegir“ sagði mamma einu sinni, eftir að hafa gefist upp á spurningum mínum.
Í barnaskóla, einkventíma snemma á fyrsta árinu í kristinfræðitíma hjá séra Óskari J Þorlákssyni þeim gæðamanni, fór ég að spyrja spurninga og fékk álíka svör og mamma hafði gefið mér. Að vegir guðs væru órannsakanlegir?
Ýmsar hugsanir klingdu í kolli mínum og ég fór að efast. Ég fékk góðar einkunnir í kristnifræði, ekki vegna trúarinnar heldur vegna sérvisku minnar og forvitni.
Ég hætti að fara með mömmu í kirkju, meir að segja á jólunum sem ég hafði ávalt gert. Þar við sat, ég var þrjóskur.
Ég neitaði síðar að láta ferma mig. En vegna sameiginlegs þrýstings frá mömmu minni og Ástu mömmu besta vinar míns á þeim tíma, Valbirni Þorlákssyni, var fallist á óskir mæðra okkar. Valbjörn hafði einnig sagt mömmu sinni að hann vildi ekki láta ferma sig.
Síðar er kom að hjúskap 6. júní 1954 þá varð málamiðlun á milli mín og konu minnar um það að við vorum formlega gefin saman á prestsetinu af Kristjáni Róbertssyni á Hvanneyri Siglufirði. Kona mín og foreldra hennar vildi í upphafi kirkjubrúðkaup en ég vildi staðfestingu hjá fógeta.
Ég þurfti að fá sérstakt forsetaleyfi til að gifta mig vegna „ungs aldurs,“ þá 20 ára.
Eftir að hafa haldið smá kaffisamsæti ásamt þeim nánustu, með góðgæti heima hjá tengdaforeldrum mínum þeim Margréti og Friðriki, var haldið úr bænum í einskonar brúðkaupsverð. Hún var ekki merkileg miðað við það sem efnafólk er sagt hafa skipulagt og farið í, heldur höfðum við félagarnir Steindór Kristjánsson ákveðið að fara í smá ferð inn í Skagafjörð á bíl föður hans Studibaker 1939.
Með í för var einnig vinkona Steina sem ég man ekki nafnið á. Síðan var gist að Hólum í Hjaltadal um nóttina.
Við höfðum áður með nokkrum fyrirvara pantað þar tvö herbergi. Við borðuðum þar einnig einfaldan kvöldverð sem voru steiktar lærissneiðar og súpa elduð að hætti bóndakonunnar sagði vertinn. Við fórum þar á eftir saman í smá göngutúr í nágrenninu og spjölluðum síðan um stund saman í setustofu áður en gengið var til "náða."
Í herbergi okkar hinna nýgiftu hjóna voru tvö stálgrindarrúm með gormabotni og hálmdýnu. Ekki glæsileg rúm miðað við tíman í dag en þótti fullgott á þeim tímum og höfðu dugað nemendum Hólaskóla fram að því.
Rúmfötin aftur móti voru hrein og hlýjar dúnsængur. Ekki þarf að orðlengja að gengið var til "náða" með nokkrum spenningi og samkomulag hafði orðið um að aðeins annað rúmið yrði notað, auðvitað á sjálfri brúðkaupsnóttinni.
Konan fór fyrst uppí og síðan laumaðist ég uppí við hlið hennar og hugði gott til glóðarinnar.
En áður en mér gafst tími til að láta vel að konu minni buldi við brestur. Rúmið brotnaði annars vegar við höfðagaflinn og við rúlluðum fram á gólf með tilheyrandi hávaða.
Hávaða sem var það mikill að heyrðist til næsta herbergis á móti hinum megin við ganginn þar sem Steini og vinkona hans voru.
Þau voru ekki háttuð og ruku yfir og bönkuðu. Kona mín sem lent hafði ofan á mér við byltuna stóð upp og opnaði skellihlæjandi hurðina fyrir þeim.
(hún var enn í náttkjólnum)
Ég tók svo þátt í hlátrinum ásamt Steina og vinkonu hans. Og síðan bættist sjálfur vertinn í hópinn og spurði hvað eiginlega gengi á en varð hálf vandræðalegur þegar hann sá ástandið á rúminu.
Ekki varð okkur hjónum meint af fallinu og Steini hafði á orði að fall væri fararheill sem má til sannsögu færa, þar sem, þegar þetta er endurskrifað árið 2015; hefur hjúskapurinn staðið í 62 ár. (kona mín lést af völdum alsæmis, 26. september 2015 )
Við vorum svo flutt í annað herbergi með "sterkari" rúmum, þau þoldu að minnsta kosti "átök" næturinnar !
Enn varðandi trúmál. *
Ég vann rúm 8 ár á SR-Trésmíðaverkstæði á Siglufirði undir stjórn Páls G Jónssonar byggingameistara. Þar vann á meðal annarra, öðlingurinn Snorri Mikaelsen. Snorri var strangtrúaður aðventisti og var illa við blót og formælingar vinnufélaga sinna og lét til sín heyra við slík tækifæri en þó með ljúfum áminningum.
Hann átti einnig það til að vitna í trúarrit og biblíuna og kom hann reglulega með allskonar kristileg rit til okkar á verkstæðinu.
Þetta allt saman tengdi okkur óbeint saman í trúmálum, hann sem verjandi en ég gagnrýnandi, allt þó í góðu á milli vina.
Honum kom á óvart hvað ég mundi (þá) eftir ýmsu sem stóð í biblíunni, en ég kom oft með á móti, tilvitnanir sem mér fannst stangast á við þær sem hann flutti. Vinnufélagarnir höfðu oft gaman af þessum ágreiningi okkar án þess þó að leggja neitt til málanna.
En skoðun mín á guði hvort heldur er sá sem kristnir menn trúa á eða aðra guði í trúarlegum skilningi eru einfaldar.
Ég trúi ekki kenningum biblíunnar um að einhver guð hafi skapað heiminn og sé almáttugur sem og mörgu öðru ótöldu. Ég trúi því sem vísindamönnum hefur tekist að sanna um tilurðina þó þar sé allt of mörgum spurningum ósvarað.
Ég hefi mikla trú á að kenningar Erich von Daniken séu nær sannleikanum um upphaf guðstrúar. Þá kenningu sem hann setur fram í bókum sínum, ma. í bókinni „Voru guðirnir geimfarar?“ (ég á þá bók á íslensku) Og það sem internetið og sjónvarp hafa upplýst með RÖKUM, um tilvist alheimsins.
En allir eiga að mínu mati rétt á að hafa sína trú hverju nafni sem hún nefnist svo fremi að sú trú sé ekki öfgafull, það er að telja „sína trú“ þá einu réttu, það eigi því að tortíma öðrum skoðunum, jafnvel með ofbeldi.
Ég ber mikla virðingu fyrir trúarskoðunum annarra uppfylli þeir eðlilegt réttlæti gagnvart öðrum. Hinsvegar má til sannsvegar færa að allt hið illa í heiminum sé af völdum trúarskoðana og hræsni henni gagnvart, hræsni öfgamanna, þar með biskupa fyrri tíma. Sagan segir okkur það.
Ég veit að ég fæ litlu um það ráðið þegar ég gef upp öndina. En ég vildi gjarnan, að þegar þar að kemur, þá verði það á þann hátt að boruð verði hola einhversstaðar annarstaðar en í kirkjugarði, ég vafinn striga og skrokk mínum stungið þar ofan í og mokað yfir án allra tilburða söngs eða bænahalds.
Ormarnir koma hvort sem er til með að nærast á skrokknum að lokum, fljótar en ella ef í kistu yrði lagt. Ekkert amen.