19. janúar 2005
Á netinu má sjá síðu Steingríms Kristinssonar þar sem hann hefur í gegnum langa tíð safnað mikilvægum heimildum í formi ljósmynda.
Þar gefur einnig að líta safn það sem Kristfinnur ljósmyndari Siglufjarðar átti. Þetta eru gersemar sem sýna mikilvægar heimildir um Siglfirðinga fyrr og nú. Þessar gersemar mega ekki glatast og eru í raun einstakar. Það eru sennilega ekki mörg bæjarfélög sem geta státað af slíku heildarsafni.
Það er hverjum manni nauðsynlegt að vita úr hvaða jarðvegi hann er sprottinn. Ljósmyndasafn sem hefur að geyma myndræna fortíð og nútíð þess merka fólks sem hefur byggt bæinn gefur ungum sem gömlum gullið tækifæri til að skoða uppruna sinn og rætur. Okkur leikur forvitni á að vita hvað bæjarfélagið hyggst gera með þetta merkilega safn.
Við viljum hvetja ykkur, ágætu ráðamenn til að sjá til þess að þetta safn verði varðveitt á sómasamlegan og öruggan hátt í framtíðinni og það verði aðgengilegt til skoðunar bæði í tölvutæku formi og reglulegu sýningarhaldi í hjarta bæjarinns.
Jafnframt þykir okkur við hæfi að sá sem hefur sýnt einstakan áhuga og eljusemi að halda þessu safni saman ásamt því að vera höfundur af allmörgum myndum verði áfram umsjónamaður slíks safns.
Ef til vill eru þessi mál þegar í höfn og þið búin að setja þetta verkefni í forgang inn á ykkar fjárhagsáætlun og fögnum við því ef svo er.
Við förum þess á leit við ykkur að þið sendið okkur svör og útskýringar um stöðu mála eins skjótt og unnt er.
Um minninganna liðnu tíð
er unaðslegt að dreyma,
sem allra best um ár og síð
þó ljósmyndirnar geyma
Steingrímur nefnist maður sá
er margir munu minnast,
en Kristfinni þó ætla má
færri muni kynnast.
En báðir eiga býsna vel
heima í þessu bréfi,
því allt þetta er að ég tel
til af þeirra streði
Sameinast nú þeirra verk
svo ei er um að villast,
Internetið er svo sterkt
og heimasíður fyllast
Til Siglufjarðar liggur leið
líf og starf þar dafni,
því nú gerist leiðin greið
að ljósmynda mynjasafni.
höf: Birgitta Guðlaugsdóttir
Með vinsemd og virðingu.
Sólveig Helga Jónasdóttir, kennari, Kópavogsbraut 91, 200 Kópavogur solhelga@ismennt.is
Birgitta Guðlaugsdóttir, þroskaþjálfi, Heiðvangi 6 220 Hafnarfjörður orrimagg@isl.is
Afrit sent til stjórnar Siglfirðingafélagsins í Reykjavík.