Neisti 9. nóvember 1944
Dómur er fallinn í héraði í máli því, sem höfðað var gegn Jóni Gunnarssyni fyrrverandi framkvæmdastjóra Síldarverksmiðja ríkisins, og Sveini Benediktssyni, formanni verksmiðjustjórnar, vegna áfengisveitinga án vínveitingaleyfis á Hótel Hvanneyri síðastliðið haust og árekstra við lögregluna í sambandi við það.
Eru forsendur dómsins all fyrirferðarmiklar og margbrotnar, en dómurinn hljóðar svo:
“Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri greiði 500 kr. sekt í Menningarsjóð, til vara sæti hann 16 daga varðhaldi ef sektin er ekki greidd innan mánaðar frá lögbirtingu dómsins, og 400 kr. sekt í ríkissjóð, til vara sæti 13 daga varðhaldi. ef sektin er ekki greidd innan mánaðar frá lögbirtingu dóms þessa.
Sveinn Benediktsson, Reykjavík, formaður stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, greiði 400 króna sekt í ríkissjóð, til vara sæti 13 daga varðhaldi, ef sektin verður eigi greidd innan mánaðar frá lögbirtingu dóms þessa, og 30 kr. í bæjarsjóð, til vara sæti 2ja daga varðhaldi, ef sektin verður eigi greidd innan mánaðar frá lögbirtingu dómsins.
Kærður Jón Gunnarsson greiði 60 kr. í málsvarnarlaun til talsmanns síns Jóns Jóhannessonar, málflutningsmanns Siglufirði, og kærður Sveinn Benediktsson greiði í málsvarnarlaun 60 kr. til talsmanns síns hæstaréttarmannsins Guttorms Erlendssonar, Reykjavík.
Þá greiði talsmaður kærða, Sveins Benediktssonar hæstaréttarmaður Guttormur Erlendsson 60 kr. sekt í ríkissjóð fyrir ósæmilegan rithátt í vörn sinni, til vara, sæti 3ja daga varðhaldi, ef sektin er eigi greidd innan mánaðar frá lögbirtingu dóms þessa.
Dómi þessum ber að fullnægja að viðlagðri aðför að lögum."
Mikil blaðaskrif vegna aðdragnda ofanritaðs og fleira má lesa: > HÉR - Það er ýmsar frásagnir og kynning á Sveini Benediktssyni