MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 24. APRIL 1990
Minning: Hulda Sigurðardóttir
Fædd 19. nóvember 1934 Dáin 8. apríl 1990
Andlát góðvinar kemur alltaf á óvart, jafnvel þótt þeir hafi átt við vanheilsu að stríða um langa hríð og sjúkdómurinn banvænn. Við stöndum hljóð andspænis því óumbreytanlega sem ekkert fær hnikað, og söknum þess sem áður var.
Hún Hulda vinkona mín var fædd á Ólafsfirði en flutti með foreldrum sínum Þórönnu Guðmundsdóttur og Sigurði Sigurpálssyni til Siglufjarðar ung að árum.
Við Hulda vorum systkinadætur, en leiðir okkar lágu fyrst saman í Keflavík, en þangað fórum við í atvinnuleit á yngri árum. Með okkur tókst góð vinátta sem ekki hefur rofnað í öll þessi ár. í Keflavík kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum Guðbrandi Sörenssyni og eignaðist með honum þrjú börn, en þau eru:
Sigurður Guðbrandsson,
Jón Guðbrandsson og
Vigdís Guðbrandsson.
Við stofnuðum heimili á svipuðum tíma, og deildum með okkur íbúð um nokkurt skeið, þá var oft glatt á hjalla og aldrei bar nokkurn skugga þar á, og margar ánægjustundir áttum við með þeim hjónum í gegn um árin. En leiðir skildu er ég flutti í annað byggðarlag og samfundir urðu færri, en eitt var þó ákveðið og það var að halda hvor annarri veislu einu sinni á ári, hvað sem á gengi og við það var staðið allt fram til hins síðasta. Hulda var einstaklega myndarleg húsmóðir og höfðingi heim að sækja, hún bjó sér og sínum fallegt heimili enda var oft gestkvæmt á heimili þeirra hjóna.
Hulda Sigurðardóttir
Ókunnur ljósmyndari
Handavinnukona var hún mikil og eftir hana liggja mörg falleg verk, því alltaf var hún með eitthvað á prjónunum, eins og sagt er.
Börnum sínum og barnabörnum hafði hún mikið yndi af og fannst gott að vita af þeim í nálægð og veitti fjölskyldan henni mikinn styrk í erfiðum_ veikindum.
Ég mun sakna góðrar vinkonu og vottum við hjónin Guðbrandi eiginmanni hennar og fjölskyldu þeirra okkar innilegustu samúð. Far þú í friði friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.
V. Briem Hrönn Albertsdóttir