Leó ÓlasonSiglfirðingar, fyrr og nú - Sögur og myndir.
“Við bara verðum að taka Half as nice með Amen corner, veit annars nokkur um textann?” Ég sagði þetta stundarhátt á einni æfingunni og held að ég hafi jafnvel endurtekið það nokkrum sinnum. Jafnvel hef ég hljómað svolítið svipað og þegar Danny Crane nefnir nafnið sitt í sífellu í þáttunum Boston Legal. Viddi vissi alveg hvaða lag þetta var en yngri strákarnir komu alveg af fjöllum. Þetta lá síðan eins og mara á mér og ég hugsaði vart um annað en hvernig væri hægt að finna fjárans textann. Kvöldið fyrir næstu æfingu fékk ég að mér fannst frábæra hugmynd sem ég taldi að bjargaði málunum.
Ingi Lár renndi lauslega yfir blaðið og leit svo á mig.
“Hvaða andskotans bull er þetta, ég skil ekki eitt einasta orð. Gvandó sjerra vaðe lúla eitthvað.”
“Er þetta spænskt lag?” Kristbjörn heyrði ekkert óeðlilegt við textann nema hann virtist vera á spænsku. Ég útskýrði fyrir strákunum að af því að þetta væri svo flott lag þá yrðum við að taka það, en vegna þess að við fyndum ekki textann þá hefði ég brugðið á það ráð að setja nokkur orð á blað sem hljómuðu eins og spænska. Þeim fannst þetta ágæt lausn nema að Ingi hafði einhverjar efasemdir.
“Ef það kemur nú Spánverji á ball hjá okkur, myndi hann ekki kjafta frá og allir gerðu síðan grín að okkur?”
“Spánverja myndi aldrei gruna að þetta ætti að vera spænska og svo er þetta algjört grín hvort sem er.” Ég taldi þetta góð og gild rök og það komu ekki fram fleiri athugasemdir. Lagið var svo æft og spilað á næsta balli.
Ekki bara einu sinni, heldur aftur og aftur því það var alltaf verið að biðja um spænska lagið.