Þorgrímur Gunnar Bílddal, f. 4. ágúst 1902, d. 20. apríl 1980 Þórustöðum Öngulstaðahreppi Eyjafirði. Kaupmaður á Siglufirði, síðar verslunarmaður Reykjavík.
Gunnar Bílddal
Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 24. APRÍL 1980
Gunnar Bílddal
Fæddur 4. ágúst 1902 Dáinn 20. apríl 1980
Á morgun, föstudaginn 25. apríl, verður afi minn, Gunnar Bílddal jarðsunginn frá Fossvogskirkju.
Hann lést á heimili Valgerðar, dóttur sinnar og tengdasonar Melgerði 13, Kópavogi, aðfararnótt sunnudagsins 20. apríl sl.
Þar hafði hann dvalist síðastliðin ár. Afi fæddist að Þórustöðum í Öngulstaðahreppi.
Hann fluttist árið 1908 til Akureyrar með móður sinni, Valgerði Sigurðardóttur frá Þórustöðum og stjúpföður sínum, Guðmundi Bílddal.
Haustið 1909 fluttust þau svo til Siglufjarðar. Hjá þeim bjó hann þar til hann giftist ömmu minni, Eugeníu Guðmundsdóttur frá Laugalandi í Fljótum, mikilli gæðakonu.
Hún fæddist 16.3. 1904 og lést 6.4. 1967.
Árið 1917 réð afi sig hjá Jens Eyjólfssyni, þá kaupmanni á Siglufirði og vann hjá honum í rúmt ár við verslunarstörf.
Eftir það réð hann sig til Hinna sameinuðu íslensku verslana og var þar í 8 ár eða þar til þær hættu hér á landi.
Hann rak verslun við Aðalgötu á Siglufirði 1929 — 1933 og síðan verslun og reiðhjólaverkstæði við Vetrarbraut en missti það síðan í eldsvoða.
Fór þá að vinna við verkstjórn og eftirlit með síldarsöltun hjá Halldóri Guðmundssyni.
Árið 1947 fluttist hann með fjölskyldu sína til Sauðárkróks og voru þau þar í tæp 3 ár. En árið 1949 fluttust þau svo til Reykjavíkur. Þar vann afi við ýmis störf til 1956 að hann réð sig sem afgreiðslumann hjá Pípugerð Reykjavíkur og þar vann hann til ársins 1974 að hann lét af störfum.
Afi og amma eignuðust 6 börn. Þau eru:
Jóna Ríkey Bílddal, fráskilin og á 2 syni, Valgerður, gift Hallgrími Jónssyni og eiga þau 6 börn,
Sigríði Bílddal, gift Braga Freymóðssyni. Þau eignuðust 2 börn, en misstu Baldur son sinn í júní 1979. Verða jarðneskar leifar hans jarðsettar á morgun með afa hans. Guðmundur dó fjögurra mánaða.
Lovísa Bílddal , gift Póbert Ruesch. Eiga þau eina dóttur.
Sigríður Bílddal og Lovísa búa í Bandaríkjunum. Yngst er svo
Katrín Bílddal, sem er gift Jósef Sigurðssyni og eiga þau þrjú börn. Auk þess ólu afi og amma upp dótturdóttur sína, Sigríði B. Sigurjónsdóttur, dóttur Lovísu af fyrra hjónabandi og að nokkru leyti Gunnar Skarphéðinsson, son Jónu Ríkeyjar. Afi hafði mörg undanfarin ár þjáðst af astma og nú í vetur átt við frekari vanheilsu að stríða. Síðustu vikurnar var hann þó hressari og fór í gönguferðir daglega. Á fimmtudaginn var talaði hann um það við Diddu, dóttur sína, að hann ætti nú ef til vill eftir að heimsækja Siglufjörð einu sinni enn.
Á laugardaginn var hann með allra hressasta móti, fór í heimsóknir með barnabörnum sínum og tvisvar fór hann í gönguferð með Elvari, langafabarni sínu og vakti með fólkinu fram eftir kvöldi. Morguninn eftir var hann dáinn. Hann var farinn á vit ástvina sinna, sem á undan voru gengnir. Þar hafa orðið fagnaðarfundir. Afi var mikill samræðumaður, hafði gaman af að hitta fólk og spjalla. Hann var sögumaður góður og sagði okkur krökkunum oft sögur og spjallaði um gamla daga og líðandi stund. Það var gott að fara niður í Hlíðar til afa og ömmu, þegar við vorum börn. Alltaf voru þau jafn natin og umhyggjusöm.
Afi hafði gaman af ferðalögum og ferðaðist mikið bæði innanlands og utan. Systkini mín, makar okkar og sérstaklega langafabörnin senda honum hinstu kveðjur. Blessuð sé minning hans. Far þú í friði friður Guðs þig blessi hafðu þökk fyrir allt ok allt.
Eugenía Lovísa Hallgrímsdóttir
Frá Leó Ólasyni
Gunnlaugur Daníelsson blóðfaðir Gunnars var langafi minn og hann (Gunnar Bílddal) hálfbróðir Sóleyjar ömmu minnar á Brekkunni á Sigló. Gunnar Bílddal átti líka talsverðan frændgarð á Siglufirði úr Svarfaðardalnum, en Eldjárn Magnússon, Björn Magnússon, Páll Magnússon, Emma Magnúsdóttir, Fjóla Magnúsdóttir o.fl. voru systkinabörn hans.
Gunnlaugur Daníelsson fæddist þ. 20. júlí 1868 á bænum Tjarnargarðshorni í Tjarnarsókn. Foreldrar hans voru hjónin Daníel Jónsson bóndi frá Mið-Koti á Ufsaströnd f. þ. 4. feb. 1834 og Guðrún Jónsdóttir f. þ. 9. jan. 1834 og var frá Koti í Svarfaðardal.
Daníel fórst með hákarlaskipinu Hreggviði vorið 1875 en þegar það gerðist bjuggu þau Daníel og Guðrún í Tjarnargarðshorni. Við fráfall Daníels horfði ekki vel fyrir Guðrúnu því börnin voru orðin 6 að tölu og það 7. fæddist nokkrum vikum eftir fráfall Daníels.
Elsta barn þeirra Júlíus var þá lítið yfir fermingu en með miklum dugnaði og aðstoð elstu barnanna tókst Guðrúnu að halda búi á jörðinni og koma þeim yngri á legg án aðstoðar sveitarsjóðs. Um Guðrúnu var það sagt að hún var gædd fádæma miklu þreki bæði andlega og líkamlega.
Hún var hjálpsöm og hjartagóð og var ætíð tilbúin að veita bágstöddum af litlum efnum sínum. Guðrún var virt og mikilsmetin af öllum í Svarfaðardal fyrir heiðarlega viðleitni í sjálfsbjargarátt.
27. dag janúarmánaðar árið 1892 gekk Gunnlaugur að eiga fyrri konu sína Önnu Sigfúsínu Zóphaníasdóttur fædda þ. 5. maí 1871 á Bakka í Svarfaðardal.
Foreldrar hennar voru Zóphanías Jónsson bóndi og skipstjóri og Soffía Björnsdóttir. Zóphanías faðir Önnu var formaður á hákarlaskipinu Hreggviði sem fórst með allri áhöfn og þar á meðal Daníel faðir Gunnlaugs.
Gunnlaugur og Anna bjuggu örfá ár á Bakka og þar fæddist þeim dóttirin Guðrún Danielína.
Tveimur árum síðan eða árið 1895 lést Anna svo úr taugaveiki og var það mikið áfall fyrir hinn unga bónda. Liðu nú allmörg ár og Gunnlaugur dvaldi á ýmsum stöðum og stundaði ýmist sjómennsku eða landbúnaðarstörf. Á þessum árum kynnist hann barnsmóður sinni Valgerði Sigurðardóttur frá Þórustöðum í Kaupangssveit. Eignuðust þau soninn Þorgrím Gunnar.
Valgerður giftist síðan manni frá Siglufirði sem Guðmundur hét en Gunnar ólst upp í þeim bæ hjá móður sinni og fósturföður og tók upp nafn hans sem var Bílddal.
28. dag októbermánaðar 1907 fór fram þrefalt brúðkaup í Urðakirkju. Brúðhjónin voru Gunnlaugur Daníelsson, ekkjumaður á Klaufabrekkum og Steinunn Sigtryggsdóttir af sama bæ. Björn Árnason á Atlastöðum og Stefanía Stefánsdóttir frá Sandá.
Jóhannes Stefánsson á Sandá bróðir Stefaníu svo og Kristín Sigtryggsdóttir systir Steinunnar en þær síðast nefndu voru dætur hjónanna Sigtryggs Jónssonar bónda að Klaufabrekkum og konu hans Steinunnar Þorkelsdóttur. Brúðkaupsveislan var haldin á Atlastöðum, og stóð í þrjá daga að sögn. Þegar brúðkaupið átti sér stað var Gunnlaugur 39 ára en Steinunn 26 ára. Þau eignuðust sex börn og var Sóley amma mín þeirra elst.
Síðustu æviár sín dvaldi hann að mestu hjá Sóley dóttir sinni á Siglufirði. Hann andaðist að Hverfisgötu 11 Siglufirði þann 12. júlí 1952 og er jarðsettur að Tjörn í Svarfaðardal.
Leó Ólason