Ljósmynd: Steingrímur
trolli.is 8. janúar 2023 Jón Ólafur Björgvinsson
Handavinnu- og föndur sýningar o.fl.
50 myndir
Í hversdagsleika síðustu aldar voru börn, unglingar og fullorðnir, ekki svo upptekin við að stara ofan í snjallsíma eða að eyða frítíma sínum í tölvuleiki.
Nei, við vorum mikið að dunda í allskonar handavinnu og föndri og þá sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Mér er það minnistætt hversu mikið skólakerfið og einnig æskulýðsstarfsemi lagði í að kenna okkur handavinnu og að föndra.
Í lok skólaársins voru síðan haldnar risastórar sýningar á handavinnu afurðum vetrarins og voru oft allar skólastofur fullar af allskonar sauma- og smíðavinnu, sem og listaverkum sem við börnin vorum mjög stolt af. Þá fengum við ekki bara einkunnir, heldur líka hrós frá vinum og ættingjum.
Barnaskólinn, séð frá Aðalgötu -Skólabalinn
Ljósmynd: Steingrímur
Skólatafla og skólastofa skreytt fyrir jólin 1952.
Ljósmynd: Hinrik Andrésson.
Pistlahöfundur á sér margar góðar minningar úr bæði Barnaskólanum og Gagnfræðiskólanum heima á Sigló og ég minnist þess t.d. hversu mikið við lögðum í að búa til músastiga og annað jólaskraut og láta bestu teiknarana í bekknum mála flotta litkrítamynd með jólaþema á skólastofutöfluna. Úr þessu varð mikil samkeppni um að fá viðurkenningu fyrir best skreyttu skólastofuna.
Handavinnukennslan kenndi okkur ekki bara að nota ýmis tól og tæki, heldur líka þolinmæði og úthald og minnist ég þolinmæðiskrefjandi vinnu við að fíla og pússa litla fiska og fugla sem Helgi Sveins handavinnukennari hafði sagað gróflega út fyrir okkur strákana. Þetta var lygilega krefjandi mikil þolinmæði- og nákvæmnisvinna. En stoltið og launin fyrir erfiðið komu í lokin og margir eiga þessa fiska og fugla enn, heima sem stofustáss.
Stelpurnar virðast hinsvegar alltaf hafa framleitt miklu meira en við strákarnir, eins og sést á vel á eftirfarandi ljósmyndum. En ég minnist þess að hafa fengið að prufa saumaskap hálfan vetur og mér fannst bara nokkuð gaman að bródera og sauma út mynd með krosssaum.
Annars voru dömurnar með óteljandi saumaklúbba út um allan bæ og ég minnist þess að í Zíon húsinu hafi líka verið sauma og föndurklúbbur bara fyrir stelpur.
oooooooOOOooooooo
Sjá meira hér um starfsemi Zíon o.fl.
Smelltu á myndina
SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!
oooooooOOOooooooo
Myrkraherbergi í Æskulýðsheimilinu við Vetrarbraut 1965.
Ljósmyndari og leiðbeinandi: Steingrímur Kristinsson.
Frá v. Stefanía Skarphéðinsdóttir, Garðar Stefnisson, Steinþór Þóroddsson, Leifur Jónsson og Guðni Sveinsson.
Talandi um ljósmyndir, þá er það með ólíkindum hversu mikið er til af ljósmyndum í Ljósmyndasafni Siglufjarðar sem sýna okkur löngu horfin hversdagsleika, sem nú, hálfri öld seinna, er gaman að skoða og minnast á, kannski jafn ómerkilega hluti eins og sýningar á skólahandavinnu og föndri, sem voru hefðir og barn síns tíma.
Einhvernvegin, verður það oft skemmtilegra, að skoða gamlan hversdagsleika, en að fletta bara í uppstilltum hátíðisdaga ljósmyndum.
Allt þetta er mögulegt að sjá og skoða, þökk sé yfir 70 ára sjálfboðavinnu meistara Steingríms Kristinssonar og hans ótrúlega áhuga á að mynda allt og ekkert, sem hann sá og þar fyrir utan halda til haga ljósmyndum og sögum frá sjálfum sér og öðrum með því að skapa hversdagssögu bæjar á vefsíðum og ekki síst með stofnum Ljósmyndasafns Siglufjarðar.
Gömul hefð
Eins og sjá má á myndunum hér neðar, sem Kristfinnur Guðjónsson, bæjar ljósmyndari tók í lok 1940 og byrjun 1950 er löng hefð fyrir að sýna handavinnu og listsköpun nemenda.
Ljósmyndir: Kristfinnur Guðjónsson
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson
Gamlar myndir frá handavinnusýningum í gamla leikfimissalnum við Barnaskólans og uppi á kirkjuloftinu.
Ljósmyndir: Kristfinnur Guðjónsson
Skóla handavinnusýningar Þetta var mjög svo fjölbreytt og metnaðarfull handavinnu framleiðsla.
Handavinnusýning í Barna- eða Gagnfræðaskóla Siglufjarðar, í kringum 1962.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
Pistlahöfundur spjallaði við ónefnda Siglfirska vinkonu í undirbúningsvinnu fyrir þessa handavinnu samantekt og sagði hún eftirfarandi með bros á vör:
“Virkilega gaman að rifja þetta upp og ég man sérstaklega vel eftir dögunum fyrir sýningar, því þá þurfti maður að klára allt og skila af sér.
Man þegar ónefnd skólasystir mín, þurfti bíl undir allt sitt góss, en ég labbaði bara heim með mitt saumadót undir annarri hendinni eftir sýninguna. Ég fékk samt hærri einkunn en hún og mamma mín sagði, að það væri eðlilegt, mamma hennar hefði unnið allt fyrir skólasystir hennar.
Já, það var kannski líka samkeppni á milli mæðra, 🙈 en ég var látin vinna mitt, en foreldrarnir voru mjög metnaðarfullir fyrir hönd barnanna.“
Smá bros frá Steingrími:
Ég man hvað ég var argur þegar ég og krakkarnir í mínum bekk (10 ára minnir mig) voru sendir í tíma hjá Arnfinnu handavinnukennara, og þar látnir prjóna inniskó.
Ég var ekki hress með það og sagði hátt og skýrt við Arnfinnu ég mundi sko ekki prjóna neina helvítis inniskó, og sópaði prjónadótinu á gólfið.
Ef það hefði verið búið að finna upp orðið „OFVIRKUR“ þá hefði ég á þessum tíma fengið það viðurnefni.
Arnfinna kom aðvífandi með gusti, hnefann á lofti og ljótan svip á andliti. Hún nánast öskraði á mig og sagði mér að tína dótið upp á borðið aftur.
Mér brá alvarlega, og var nánast skelfinu lostinn og hlýddi kennaranum.
Eitthvað fleira sagði hún og skipaði mér að hefja prjónum, sem ég auðvitað kunni ekki, eins og flestar, eða allar stelpurnar og eitthvað af strákunum kunnu.
Hún stóð yfir mér höstug á svip á meðan hún hélt föstum tökum á höndum mínum er hún tók að kenna mér handbrögðin, ég var nokkuð fljótur að læra það eins og flest annað verklegt, og stóð hún yfir mér lengi vel og lét ýmis orð falla mér til stuðnings og með aðeins mildari tón í málfari.
Ekki man ég hve mikið ég kláraði af öðrum skónum, en það var lítið er tímanum var lokið.
Okkur var sagt að taka prjónadótið og teikningarnar með heim og skila þeim fullfrágengnum í næsta tíma sem samkvæmt stundartöflu var eftir viku.
Ég sagði mömmu frá því sem skeð hafði, og sagði henni að ég mundi ekki mæta í fleiri tíma hjá henni og eitthvað fleira muldraði ég.
Hún róaði mig og reyndi að gera lítið úr málinu og sagðist mundi hjálpa mér, og ég lofað að mæta með skóna í næsta tíma, það endað með að hún kláraði prjónið, þar sem ég þvertók að snerta prjónana, þetta væri nokkuð sem ég hefði ekkert gagn af að kunna.
Ég mætti með prjónaskapinn í næsta tíma, og veitti því athygli að Arnfinna skoðaði mína skó nokkuð lengur en hinna krakkanna, kom raunar til mín áður en hún hafði skoðað öll prjónaverkin sem voru enn á borði hennar. með skóna.
Hún stefndi á mig með „alvarlegum svip“ og sagði höstulega, þú hefur ekki prjónað þetta sjálfur, mamma þín hefur gert þetta fyrir þig.
Og svo rakti hún alt prjónavesenið upp og skildi eftir á borðinu, og sagði í skipunartóni, byrjaðu aftur strákur.
Ég horfði í augu hennar og reyndi að herma eftir svip hennar og ætlaði aldeilis að láta hana heyra í mér, en guggnaði, stóð upp og forðaði mér út úr kennslustofunni, Hún reyndi að krækja í mig en tókst ekki.
Ég var kallaður á teppið hjá skólastjóranum Friðrik Hjartar eins og svo oft áður, ég komst ekki að til að andmæla honum, það var raunar venja, ég fékk aldrei að láta mína skýringu í ljós, ég var ávalt hinn seki hjá honum, stundum réttileg en stundum alls ekki.
Þetta breyttist rækilega þegar Friðrik hætti sem skólastjóri og við tók Hlöðver Sigurðsson skólastjóri. Hann bað um mína skoðun, hlustaði vandlega, og áttaði sig fljótlega á því, að ég játaði prakkastrik þegar ég var sekur en brást illa við þegar ég var saklaus, sérstaklega þegar eldri strákar klöguðu mig, eftir að hafa fengið blóðnasir.
En ég varð fyrir miklu einelti og hrindingum sumra eldri strákanna.
Ég var blæstur í máli og fleira, sem þótti ástæða til hegningar af viðkomandi.
Varðandi Handavinnu tímana hjá Arnfinnu, þá komst ég upp með það að hætta mæta í tíma hjá henni, sennileg hefur hún hafnað mér, svo ósk mín varð uppfyllt
Handavinnusýning í Gagganum.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
Þegar kom að því að halda basar eða tombólur, sem voru algengar fjáröflunarleiðir fyrir ýmiskonar starfsemi, birtust oft þar á borðum handavinna húsmæðra sem og allskonar varningur sem var gefin úr einhverjum af hinum fjölmörgu verslunum Siglufjarðar.
Annars er líka gaman að sjá hatta- og hárgreiðslutískuna hjá dömunum.
Kvenfélagsbasar.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson
Næst veggnum er Fanney Sigurðardóttir, Anna Snorradóttir, Svanhildur Eggertsdóttir ( Lóa ) Sóley Gunnlaugsdóttir og Þorfinna Dýrfjörð ?
Ljósmyndir: Steingrímur Kristinsson
Margar kynslóðir Siglfirðinga eiga sér góðar minningar frá Æskó. Þetta stóra, þriggja hæða hús er löngu horfið, en minningarnar um gríðarlega framsækna og fjölþætta starfsemi lifa enn.
Þökk sé Steingrími og mörgum öðrum, sem með ötulli sjálfboðavinnu komu að stofnum Æskulýðsheimilis Siglufjarðar. Þar fundu mörg ungmenni hæfileika sem þau vissu ekki að í þeim byggi og þarna við Vetrarbrautina heima á Sigló, skapaðist t.d. ævilangur ljósmyndaáhugi pistlahöfundar.
Júlíus Júlíusson ( Júlli Júll)
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson
Júlli var lengi vel í forstöðu fyrir Æskulýðsheimili Siglufjarðar og þarna stendur hann stoltur við lista yfir allt sem hægt var að dunda sér við í Æskó.
Mynd 1: ÆSKÓ. Æskulýðsheimili Siglufjarðar.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
Á neðstu hæð var borðtennis herbergi, myrkrakompa og framköllun, á miðhæð samkomusalur, skrifstofa og eldhús, á efstu hæð Skátaheimili. Loftnetið á gaflinum eru líklega leifar eftir útvarpsstöð sem var rekin þarna um tíma. Sjá meira hér í gamalli grein á sigló.is: Horfin hús.
Mynd 2: Steingrímur Kristins (Baddý) að skrifa upplýsingar á ritvél um myndir með einum putta og Júlli Júll er að skera ljósmyndir fyrir ljósmyndasýningu í Æskó.
Ljósmynd: Einhver með myndavél Steingríms
Pistlahöfundur,Nonni Björgvins, ungur að árum í framköllunarherberginu í Æskó.
Ljósmyndari er Jökull Gunnarsson, vinur minn.
Við Jökull eyddum mörgum mörgum tímum þarna í myrkrakompunni.
Ljósmyndir: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndir: Steingrímur Kristinsson.
Pistlahöfundur hefur ekki upplýsingar um hvar og hvenær þessar sýningar voru settar upp, en myndirnar sýna að áhugamál bæjarbúa eru margskonar og sköpunargleðin mikilfengleg.
Ljósmyndir: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndir: Steingrímur Kristinsson.
Siglufjörður æskuáranna, með fjárhúsahverfi uppi í fjalli og fullt af bryggjum og síldarbrökkum.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson
Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda: Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér: https://trolli.is/author/nonni/
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir: Vísað er í ýmsar heimildir í greinatexta.