Leó R Ólason skrifar
Lífið er fullt af brotnum geislabaugum.
Eins og einhverjir sveitungar mínir kannski vita, þá hef ég haft þann starfa síðasta áratug eða svo að keyra strætisvagn á höfuðborgarsvæðinu. Eitt af því sem fylgir þeirri vinnu er að maður umgengst fjöldann allan af fólki, kynnist og sér flesta þætti mannlífsflórunnar og þá bæði slæmu og góðu hliðar hennar. Svo er eins og sumt fólk líði hjá í dagsins önn án þess að vekja nokkra eftirtekt, meðan það hreinlega gustar af öðrum. Sum atvik verða mjög minnisstæð meðan önnur gleymast áður en dagurinn er liðinn og núna þegar jólin nálgast rifjast upp tvö slík sem tengja má þeirri hátíð. Mér þykir líka rétt að taka það fram að þetta er ekki skáldsaga, heldur gerðist eftirfarandi í raun og veru.
Það var snemma morguns í desembermánuði fyrir fáeinum árum að ég var að keyra um efri byggðir Kópavogs í áttina að Hamraborg. Það var molluleg ofankoma og snjókornin voru eins og risastórar flyksur sem svifu hægt og tignarlega til jarðar, rétt eins og í jólamynd frá Disney. Við eina biðstöðina beið hópur skólabarna á leið í skóla og ég stoppaði því og opnaði dyrnar. Börnin gengu um borð í vagninn eitt af öðru allt þar til aðeins ein stúlka stóð eftir sem horfði dapurlega niður fyrir sig.
„Ætlar þú ekki að koma með okkur“ spurði ég út um dyrnar.
Hún leit upp og ég sá að hún virtist vera sorgmædd yfir einhverju. Hún leit aftur niður og hristi höfuðið hægt og sparkaði varfærnislega með öðrum fætinum ofan í snjóinn.
„Átt þú ekki líka að fara í skólann“ spurði ég aftur.
Hún kinkaði kolli jafn hægt og áður og gjóaði augunum eitt lítið augnablik á mig en leit svo aftur niður.
„Af hverju viltu þá ekki koma með strætó núna“ var næsta spurning.
„Mamma og pabbi eiga ekki pening og það kostar í strætó“.
Þar kom skýringin og mér fannst hún ekki góð svona fáeinum dögum fyrir þessa hátíð ljóssins. Hvernig ætli jólin verði hjá fjölskyldunni ef ekki er til smápeningar fyrir barnið svo það komist í skólann.
„Þá ætla ég að bjóða þér í strætó og alveg frítt“ sagði ég.
Hún leit upp og breitt bros færðist yfir andlitið. Mér létti mikið þegar ég lagði af stað aftur og eiginlega var deginum bjargað hjá mér og vonandi henni líka
Það var svo síðdegis á sjálfan aðfangadag jóla og einnig fyrir nokkrum árum síðan, að ég var að ljúka akstri í Hamraborginni. Ég slökkti á GPS leiðakerfinu og skiltinu framan á vagninum, gekk aftur í til að athuga hvort hann væri ekki alveg örugglega tómur auk þess að tína upp rusl af gólfinu áður en ég færi með hann á þvottastöðina. Og viti menn, þarna var sofandi maður í næst aftasta sæti. Ég kannaðist við hann því hann hafði stundum verið mér samferða á ferðum mínum fram og aftur Kópavoginn. Já bæði fram og aftur, því einhverju sinni hafði hann farið með mér heila þrjá hringi og því setið í bílnum í heilar þrjár og hálfa klukkustund.
Ég ýtti varlega við honum svo hann rumskaði og leit syfjulega og svolítið undrandi á mig. Síðan var eins og hann áttaði sig á hver staðan væri og hann spurði hvort við værum komnir.
„Við erum komnir í Hamraborgina og það er síðasta stopp hjá okkur í dag“ svaraði ég og horfði á manninn sem smátt og smátt komst til meiri og betri meðvitundar eftir lúrinn í vagninum.
Hann á ennþá eftir að fara í sparifötin hugsaði ég með mér, en það varð að segjast að hann var vissulega svolítið förumannslegur til fara.
„Ha, ferðu ekki á Hlemminn“ spurði hann syfjulega.
„Nei, þetta er búið í dag og næsta mál á dagskrá er bara jólasteikin“
„Jólasteikin haha“ og það hnussaði í honum.
„Það verður eitthvað lítið um jólasteik hérna megin“ sagði hann og hló holum hlátri.
„Nú, eru menn ekki á heimleið“ spurði ég.
„Jú, jú, menn eru nú eiginlega alltaf á einhverri heimleið, en sú leið getur nú legið í ýmsar áttir eða eiginlega bara þangað sem nefið snýr hverju sinni“.
„Ha, engin fjölskylda“ spurði ég og settist niður í sætið hinum megin við ganginn, lækkaði róminn hallaði mér fram í áttina að honum.
Hann snéri höfðinu til hálfs í áttina að mér og glotti. Svo hnussaði aftur í honum.
„Einu sinni var, eða þannig byrja öll skemmtileg ævintýri, er það ekki“ svaraði hann, en svo bætti hann því við að endirinn gæti nú verið með ýmsu móti.
Ég skynjaði einhvern veginn að hann hafi lítinn áhuga á að ræða af hverju hann væri staddur á þeim stað í lífinu sem raunin var á, en ég sá nú að hann hafði meðferðis lítinn böggul sem hafði verið pakkað inn í snjáðan jólapappír og bundið utan um með seglgarni. Hann tók eftir því að ég horfði á pakkann og gaf mér í framhaldinu skýringu á honum.
„Ég á einn vin sem ég ætlaði að heimsækja í dag en hann var ekki heima, en ég geymi þetta þangað til ég sé hann næst hvenær sem það nú verður“.
Hann horfði niður á gólfið og saug upp í nefið. Ég hugsaði mig aðeins um og velti fyrir mér hvað ég gæti tekið til bragðs því ég gat ekki hugsað mér að vísa manninum bara út og halda síðan mína leið.
„Heyrðu, bíddu nú hérna í skotinu hjá bókasafninu meðan ég skutlast með vagninn í Vesturvörina. Síðan kem ég til baka og þá skal ég skutla þér á áfangastað“.
Hann leit upp og ég sá votta fyrir svolitlu brosi. Hann stóð upp og gekk út úr vagninum, en ég lagði af stað áleiðis í þvottastöðina. Ég leit í spegilinn og sá hann fjarlægjast með útrétta aðra höndina og þumalinn upp, en með hinni hélt hann á pakkanum.
Á leiðinni til baka hugsaði ég um þetta stutta spjall okkar og hvort að hann yrði enn á staðnum þegar ég kæmi aftur. Jú hann stóð þarna undir bókasafns veggnum þegar ég renndi inn á stæðið fyrir framan það.
„Fínn bíll sem þú átt“ sagði hann þegar hann settist inn.
„Ha, ha, þetta er nú bara gömul drusla, en hann kemur mér þó á milli staða“ svaraði ég. Síðan ókum við í áttina að Hlemminum og við þögðum báðir um stund þar til hann rauf þögnina.
„Það væri nú eiginlega betra ef þú skutlaðir mér niður á Lækjartorg“.
„Nú ætlaði þú ekki að hitta einhvern þarna við Hlemminn“?
„Nei, en kannski hitti ég bara einhvern á Lækjartorginu í staðinn. Maður veit aldrei. Það er líka miklu vinalegri staður með fullt af jólaljósum“.
Það hnussaði aftur í honum og mér sýndist hann glotta eilítið út í annað.
„Hvert ætlarðu svo að fara og hefurðu einhvern stað að vera á“ spurði ég.
„Sko, ég hef lært að hlutirnir bjargast alltaf einhvern vegin þó að útlitið sé stundum svolítið svart, og lífið er allt of stutt til að hafa áhyggjur af smáatriðunum“.
Mér fannst þarna að mínar áhyggjur af hinu daglega brasi yrðu allt í einu ákaflega léttvægar.
„Lífið er fullt af brotnum geislabaugum og ég er víst búinn að brjóta þá nokkra“ bætti hann við.
Hann benti mér að stoppa í tómu rútustæði sem ég gerði. Reyndar var nægilegt pláss alls staðar því það var ekki nokkur maður á ferli þarna í Lækjargötunni.
Hann opnaði hurðina og steig út, beygði sig niður og þakkaði fyrir skutlið, en gaf mér ekki færi á að segja neitt, heldur lokaði hurðinni og gekk nokkur skref frá bílnum, snéri sér við og veifaði og hélt svo áfram göngu sinni í átt að Tjörninni.
Ég sat eftir í bílnum og horfði á eftir honum þar til hann hvarf fyrir næsta horn. Núna þegar ég rifja þetta upp mörgum árum síðar, átta ég mig á að ég sá hann aldrei eftir þetta.
Hvað ætli hafi orðið af honum. Skyldi hann hafa horfið inn í ólukkulandið, eða ætli hann hafi fundið sína fjöl einhvers staðar á mjóa veginum?
Líklega á ég eftir að hugsa oft um hver afdrif þessa farþega míns gætu hafa orðið, og kannski á ég eftir að fá svarið einhvern góðan veðurdag.
Ég ók af stað heim á leið og er ekki frá því að ég hafi fengið eitthvert kusk í augun, en lífið er nú einu sinni ferðalag og við ferðalangarnir erum svo margskonar.
Ljósmynd og saga: Leó R. Ólason.