Minning: Filippus Birgisson
Filippus Hróðmar Birgisson fæddist á Siglufirði 29. ágúst 1950.
Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 5. júlí 2018.
Foreldrar Filippusar voru Birgir Runólfsson, vöruflutninga bifreiðastjóri frá Siglufirði, f. 2.1. 1917, d. 5.5. 1970, og Margrét Hjördís Pálsdóttir húsmóðir, f. 5.3. 1917, d. 9.7. 1998.
Systkini Filippusar eru:
Alma Birgisdóttir sjúkraliði, f. 26.5. 1939, búsett á Siglufirði.
Elíngunnur Birgisdóttir húsmóðir, f. 26.12. 1944, d. 16.05. 2014.
Runólfur Birgisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri á Siglufirði, f. 4.3. 1948, maki Hólmfríður Alexandersdóttir, þau eru búsett á Siglufirði.
Páll Birgisson vöruflutninga bifreiðastjóri, f. 4.3. 1948, d. 12.9. 1969, maki Kristrún Gunnlaugsdóttir, búsett í Reykjavík.
Björn Birgisson, rennismiður og vélstjóri, f. 12.8. 1949, d. 08.02. 2016 maki Álfhildur Þormóðsdóttir, búsett í Mosfellsbæ.
Þorsteinn Birgisson rekstrartæknifræðingur, f. 8.8. 1951, maki Ragnheiður Steinbjörnsdóttir, þau eru búsett í Mosfellsbæ.
Þormóður Birgisson stýrimaður f. 8.8. 1951, d. 22.07.2005 maki Eyrún Pétursdóttir búsett á Siglufirði.
Filippus átti einn bróður sem hét Brynsteinn Guðnason f. 26.07. 1946, d. 27.03. 2013 en hann var ættleiddur, var búsettur í Svíþjóð.
Filippus Birgisson
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson
Börn Filippusar eru:
1) Aðalbjörn Sigurður Filippusson f. 17.02. 1976 sjómaður búsettur á Akureyri, barnsmóðir Guðbjörg Aðalbjörnsdóttir f. 09.08. 1954 búsett á Siglufirði (þau voru gift).
Fyrir átti Guðbjörg dóttur, Bylgju Árnadóttur f. 22.09. 1971 sem Filippus ól upp í um 10 ár.
2) Guðbrandur Máni f. 25.02. 1999, verkamaður búsettur í Reykjavík. Barnsmóðir Linda Guðrún Lilja Guðbrandsdóttir f. 14.09. 1959, d. 18.01. 2013.
Filippus byrjaði ungur til sjós, aðeins 15 ára gamall, og fljótlega fannst honum sjómennskan eiga vel við sig og tók hann því ákvörðun um að gera sjómennsku að framtíðarstarfi sínu. Mest var hann á togurum og skuttogurum frá Siglufirði og stöku sinnum annars staðar.
Eftir 1983 fór Filippus í Fiskvinnsluskólann og útskrifaðist sem fiskmatsmaður og dró sig þá að mestu í land og vann sem verkstjóri og matsmaður víða um land, svo sem á Stöðvarfirði, Siglufirði, Ísafirði og Drangsnesi. Upp úr árinu 1995 flutti hann til Reykjavíkur við málningarvinnu, sjómennsku og síðan við störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hann starfaði til æviloka, seinast í innkaupum í vöruþjónustu OR.
Útför Filippusar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 13. júlí 2018, klukkan 15.
Uppvaxtarárin á Siglufirði voru yndisleg, margt fólk, mikil vinna og leikfélagar á hverjum fermetra. Okkar fjölskylda var stór, yndisleg móðir og kraftmikill og duglegur faðir. Það þurfti svona fólk til að stýra okkur átta börnum með miklum kærleika og aga og undirbúa okkur til að takast á við framtíðina. Við vorum tíu til heimilis, pabbi, mamma og átta börn fædd á rúmum tólf árum, tvær stúlkur, f. 1939 og 1944, og síðan við bræðurnir sex fæddir á þremur árum og fimm mánuðum. Mamma var aðeins 32 ára og fimm mánaða þegar hún var búin að eignast níu börn, þvílík kona, yndisleg. Það var alltaf mikill kraftur og fjör á heimilinu og oft því erfitt að halda utan um hópinn sem var að mestu hjá mömmu þar sem pabbi vann sem vöruflutningabílstjóri stærsta hluta ævi sinnar utan Siglufjarðar. En þau stjórnuðu stóru flutningafyrirtæki sem við bræðurnir hver og einn unnum við eftir leiðsögn pabba, þar lærðum við að vinna undir aga og góðum leiðbeiningum.
Filli, eins og bróðir var kallaður, var nr. sex í röðinni, hann var strax á unglingsárunum farinn að sýna hörku í vinnu sem og annars staðar, ósérhlífinn og duglegur til allra verka. Hann var ungur þegar hann valdi að gera sjómennsku að sínu starfi, það fór honum vel, gaf aldrei eftir, sýndi fljótt að hann var vel til fallinn að verkstýra og leiðbeina þeim sem yngri voru. Hann var meira og minna tengdur sjómennsku í tæp 30 ár. Árin 1983-1984 fór hann og lærði að gerast fiskmatsmaður og vann sem slíkur í um 15 ár sem verkstjóri og matsmaður víða um landið. Þar sýndi hann ábyrgð og góða verkstjórn ásamt að skila sem bestum gæðum.
Filli sýndi einnig styrkleika sem góður iðnaðarmaður, vann um tíma sem málari og þar var hann á heimavelli. Filli var oft harður við sjálfan sig gleymdi að rækta líkamann og fór oft ógætilega með sína heilsu, hann var svo mikill jaxl. Oft var blessaður drengurinn einmana. Sl. 15 ár stillti hann sitt líf vel og vann sér inn virðingu hjá starfsfélögum og vinum. Hann var prinsippmaður, stundvís, yndislegur og kurteis. Tengsl mín sem bróðir og vinur voru sterk. Ég mun sárlega sakna hans, okkar samband hefur verið sérstaklega náið og ljúf síðastliðin ár og sérstaklega eftir að áfallið kom 1. nóvember 2017 þegar honum var tilkynnt um sín alvarlegu veikindi.
Ég stóð við hlið hans þar til yfir lauk, sat við hlið hans þegar kallið kom.
Kvöldið eftir að hann lést sagði ég þessi orð fyrst í hljóði til Filla.
Hann var blíður. Hann var hrjúfur.
Hann var góður. Hann var ljúfur.
Hann var minn. Hann var þinn.
Elsku bróðir minn.
Ég elska þig kallinn minn og ég mun sannarlega sakna þín.
Ég mun minnast hans og virða hann fyrir það sem hann var og það sem hann verður eins og hann var og eins og hann er.
Votta öllum ættingjum og vinum samúð.
Þorsteinn Birgisson.
----------------------------------------------------------------------
Elsku hjartans vinur minn og frændi.
Þá kom að því að þú fórst til forfeðra okkar.
Ég á eftir að sakna þín endalaust svo mikið enda vorum við tveir eins og óaðskiljanlegir tvíburar.
Er búinn að þekkja þig og fylgja frá því ég man eftir mér nánast. Ég sótti mikið til ömmu Möggu sem lítill gutti þegar hún flutti til Reykjavíkur því ég saknaði Siglufjarðar.
Árin liðu og þegar ég var 17 ára þá bað mamma þig um að taka mig með á sjóinn þar sem ég var frekar áttavilltur ungur maður. Að sjálfsögðu gerðir þú það fyrir frænda þinn og þá fóru hjólin að snúast. Þú varst alltaf naglinn af ykkur bræðrum og það kom sér vel fyrir mig. Hef alltaf sagt að það varst þú sem þú gerðir mig að manni með því að leiða mig áfram inn í framtíðina. Þú varst bátsmaður á Stapavíkinni og ég var rífandi stoltur að fylgjast með frænda stjórna allri áhöfninni með vinstri hendinni.
Svo kom að því að ég flutti til Danmerkur eftir að ég slasaðist og missti því sambandið við þig í nokkur ár. En eftir því sem árin liðu í Danaveldi fann ég meiri og meiri söknuð til fjölskyldunnar og vina heima á Íslandi.
Þegar ég heimsótti Ísland þá byrjaði ég alltaf á því að keyra beint heim til þín eða í vinnuna hjá Orkuveitunni og faðma gamla vin og frænda yfir nokkrum kaffibollum og spjalli. Þegar svo ég vann á Íslandi meira og minna frá 2006 til 2008 og fjölskyldan mín var í Danmörku náðum við toppnum saman. Ég bjó hjá þér í Hverafoldinni í rúmlega eitt ár og þá áttum við endalausan tíma saman og hann nýttum við til hins ýtrasta. Við fórum allt saman. Síldin á Sigló var alltaf okkar stefna um verslunarmannahelgina.
Þú sagðir alltaf að ég hefði kennt þér að heilsa öllum með faðmlagi og það hefði veitt þér ómetanlegan styrk þar sem þú varst ekkert allt of hrifinn að gefa svoleiðis frá þér. Þú hafðir meira að segja skrifað það á blað þar sem þú sýndir mér svart á hvítu að í því stóð að Palli frændi hefði komið og gefið þér svo mikið af hlýju og umhyggju. Auðvitað var ég rífandi stoltur enda hvað gerir maður ekki fyrir vini sína og fjölskyldu og þú varst mér svo mikilvægur í lífi mínu. Hafði, jú, misst föður minn 1969 og þegar árin liðu þá leitaði ég mikið til bræðra föður míns og þar komst þú sterkur inn. Margir segja að ég og þú hafi verið líkastir af þeim bræðrum og það fann ég líka. Lífið hefur ekki verið dans á rósum hjá þér og þínum og það hef ég fundið sterkt í gegnum okkar samleið. Það er svo margt sem er svipað hjá okkur og það ræddum við oft þegar við vorum einir saman. Mér þykir óendanlega vænt um börnin þín, Alla, Bylgju og Guðbrand, og mun ég gera allt í mínu valdi til að styrkja samband okkar saman.
Var á Íslandi í tíu daga í nóvember og dagarnir nýttir í að sitja þér við hlið ásamt honum elskulegum, góðum og prúðföstum vini þínum til margra ára, Höskuldi, og nánasta skyldfólki þínu. Kom aftur í lok júní og náði dýrmætum tíma með þér til og sat þér við hlið með Steina bróður þínum og héldumst í hendur þegar kallið kom. Þú verður alltaf hjá mér, elsku vinur minn, því þú ert bestur.
Páll Birgis Pálsson.